29.04.1964
Neðri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

200. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. þm. hefur eitthvað misheyrt eða misskilið mig áðan. Ég sagði, að ef undanþáguheimild til endurgreiðslu á benzíni til jeppa hafi verið í gömlu l., væri hún enn fyrir hendi í nýju l., vegna þess að 7. gr. l. frá 1949 er næstum samhljóða 94. gr. nýju l., og nú hefur það verið sagt, að benzín hafi verið endurgreitt til jeppabifreiða áður. Ég veit ekkert um það, hvort það er rétt eða ekki, en mér hefur verið sagt, að það hafi átt sér stað, og ég hygg, að hv. þm., sem talaði hér áðan, hafi a.m.k. haldið það allt fram að þessu, að svo hafi verið, og ég segi það enn, að ef þessi heimild hefur verið í gömlu l., þá er hún enn fyrir hendi í þeim nýju. Þegar við vorum að afgreiða vegalögin í vetur, virtust allir vera ánægðir með það, ef þær undanþágur, sem voru í vegal., yrðu látnar haldast, og það hefur verið gert og það er vitanlega lögfræðinganna að úrskurða um það, hvort heimild er samkv. l. til endurgreiðslu á benzíninu. En það hefur verið mælt manna á milli, að það hafi verið gert áður að endurgreiða benzín gegn vottorðum frá hreppstjórum um það, að jepparnir væru notaðir til landbúnaðarþarfa.