06.12.1963
Neðri deild: 26. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

95. mál, vegalög

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég er mjög fylgjandi því frv., sem hér liggur fyrir og í grundvallaratriðum gerir ráð fyrir auknu fé til vegakerfis landsins og þ. á m. nokkuð til vegakerfis í kaupstöðum og kauptúnum. Ég er því fylgjandi, að fé til þessa verði aflað eins og þar er gert ráð fyrir, með auknum benzínskatti, og tel það mjög eðlilegt og sanngjarnt, ef það fé er látið renna eingöngu til aukningar vegakerfisins, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég geri ráð fyrir, að flestum hv. þm. sé kunnugt um, að það hefur verið eitt af aðaláhugamálum Sambands ísl. sveitarfélaga og þeirra aðila, sem þar eru, að fá aukið fé til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum, og hefur þetta verið áhugamál þeirra um nokkurt árabil eða jafnvel áratugabil. Með þessu frv. er að verulegu leyti komið á móti þeim óskum, og tel ég það mjög vel farið og vil fagna því. Afstaða Sambands ísl. sveitarfélaga kemur síðast fram í samþykkt, sem gerð var á landsþinginu í sumar, dagana 22.–24. ágúst, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa þar úr kafla. Þar segir svo:

„Landsþingið telur mjög aðkallandi, að sveitarfélögum landsins skapist frambúðarmöguleikar til framkvæmda í varanlegri gatnagerð og vegagerð. Þingið álítur rétt, að stofnaður verði sérstakur sjóður til að sinna þessu hlutverki. Í þennan sjóð renni árlega ákveðinn hluti af innflutningsgjaldi af benzíni, eigi minni en 0.50 kr. á lítra miðað við núv. verðlag, og samsvarandi hluti af þungaskatti bifreiða. Ef ríkisstj. og Alþingi telja ekki unnt að greiða framlög af núv. tekjum ríkissjóðs af þessum skattstofni, leggur þingið til, að gjöld þessi verði hækkuð sem þessu svarar.“

Það var því afstaða landsþingsins í sumar, að ef ekki fengist fé með öðru móti til þessara hluta, til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum, þá yrði það tekið með hækkuðu benzínverði. Ég þarf ekki að vera langorður um ástæðuna fyrir þessari afstöðu sveitarfélaganna. Ég held að hverjum einasta sveitarstjórnarmanni sé það ljóst, að bætt vegakerfi í kaupstöðum og kauptúnum er það, sem fólkið einna helzt vill leggja fé til og er þess mesta áhugamál. Það er ekki aðeins, að þar sé um bættar samgöngur að ræða, heldur er þetta geysilegt spursmál hvað snertir allt hreinlæti í bænum og eðlilega þróun menningarlega séð.

Í 32. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að sem næst 11% af heildartekjum vegamála verði varið til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum, og tel ég, að það sé ekki í fullu samræmi við óskir sveitarfélaganna, og tel eðlilegt, að reynt verði að nálgast óskir sambandsþingsins frá því í sumar meir en þarna er gert, og tel ástæðu til að ætla, að um það geti orðið samkomulag. Vil ég þar vísa til orða hæstv. samgmrh. hér áðan, þar sem hann taldi, að hann væri til viðræðna um breytingar, ef þær væru innan þess ramma, sem eðlilegt væri. Ég mun ekki á þessu stigi flytja neina brtt. um þetta, en mun freista þess að fá þessu þokað nokkru nær óskum Sambands ísl. sveitarfélaga heldur en ég tel, að þarna komi fram.

Ég vildi við þessa umr. láta þetta koma hér fram, að þarna er mætt að verulegu leyti því áhugamáli sveitarfélaganna, sem lengi hefur þar verið til umr., að fá aukið fé til gatnagerðar úr varanlegu efni, í kaupstöðum og kauptúnum landsins, en teldi og tel, að ef þess er nokkur kostur, þá verði frekar mætt óskum þess heldur en frv. gerir ráð fyrir.