06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

200. mál, vegalög

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir þær röksemdir, sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. um það, að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í sambandi við eftirgjöfina á gjöldum af jeppabifreiðum til bænda, er, eins og þau mál horfa nú við eftir þá miklu hækkun, sem gerð var á þungaskatti og benzínskatti í sambandi við vegalögin nýju, orðið algerlega óviðunandi. Og það er þess vegna ekkert að undra, þó að út af fyrir sig komi fram brtt. með það í huga að jafna þessi met, því að það liggur í augum uppi, að svo sem þetta mál blasir við nú, er gert ráð fyrir, að það verði stórum meiri hlunnindi veitt þeim mönnum, sem eiga bifreiðar, sem eru ódýrari í rekstri, heldur en þeim, sem búa við aðrar bifreiðar, sem miklu dýrara eldsneyti nota. Og það liggur því í augum uppi, að hér er um mái að ræða, sem verður að fá einhverja viðhlítandi lausn á. Og ég hef sannast sagna orðið þess var meðal bænda, að þeir eru forviða yfir því og skilja ekki annað en hljóti að vera einhver misskilningur í þessu fyrirkomulagi, að þessar endurgreiðslureglur skuli vera eins og nú er gert ráð fyrir. Með hliðsjón af þessari málsástæðu er ég alveg sammála þeirri meginröksemd, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., að það er nauðsynlegt að kippa þessu í lag.

Ég vil láta þessa skoðun mína koma fram hér með hliðsjón af afstöðu til þeirrar till., sem hv. þm. flytur, vegna þess að ég er engu að síður ekki á þessu stigi reiðubúinn til þess að greiða þessari till. atkv., vegna þess að mér er ekki ljóst, hvort hægt er að fara þessa leið eða þarf að fara einhverja aðra til þess að jafna metin. Ég skal ekkert segja um það, hvaða tekjumissi það leiðir af sér, sú leið, sem hér er gert ráð fyrir að fara, og ekki heldur, hversu auðveld hún er í framkvæmd. Það kann vel að vera, að hún verði síðar ofan á, það veit ég ekkert um. En ég er ekki reiðubúinn til að gera upp skoðun mína í sambandi við, hvort þessi lausn á vandamálinu er rétt eða einhver önnur. En ég vil láta það koma hér fram og jafnframt lýsa ánægju yfir því, sem hv. 8, landsk. þm, sagði hér áðan, en hann átti sæti í vegalagan., að menn hefðu gert sér grein fyrir þessu. Að vísu hefði verið æskilegt, að það hefði verið þá þegar í upphafi reynt að finna eitthvert úrræði til þess að koma í veg fyrir þetta misræmi. En það er þó allra góðra gjalda vert, ef nú verður því máli fylgt fram á þann veg, að það verði tekið til nákvæmrar athugunar, hvernig það megi leysa, og málið verði leyst, því að ég tel, að eins og þetta er nú í dag, sé það nánast mjög fáránleg framkvæmd og geri knýjandi nauðsyn, að þessu verði breytt. Ég treysti því mjög og vil leggja á það ríka áherzlu, að nú á þessu ári verði fundin viðhlítandi leið til þess að leiðrétta þetta. Það kann að vera, að það sé hægt að gera það í reglugerð, ég hef ekki kynnt mér það svo, en sé það ekki hægt með reglugerð, þá verði hlutazt til um, að nauðsynleg breyting verði gerð á lögunum.