06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

200. mál, vegalög

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar brtt., sem hér er til umr., get ég tekið fram, að ég tel, að það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. tillögumönnum, að þarna sé mismunað eftir því, hvort um bifreið er að ræða, sem brennir benzíni eða hefur dísilvél, og þarna þyrfti sannarlega að komast á meira samræmi. En mín skoðun er sú, að samræmis ætti ekki að leita á þann hátt að fara að endurgreiða innflutningsgjald af benzíni á þessar landbúnaðarbifreiðar, heldur ætti frekar að fella niður þessa eftirgjöf á þungaskattinum. Ég tek fram, að ég tei þessar eftirgjafir ekkert hagsmunamál fyrir bændastéttina og vera heldur til leiðinda fyrir hana að hafa þetta. Í sjálfu sér mundu þeir fá sína leiðréttingu, álít ég, og ættu að geta fengið sína leiðréttingu gegnum búvörugrundvöllinn, þegar kostnaðurinn er reiknaður út við búreksturinn, og það væri miklu heppilegra. Þó að þarna sé misræmi um að ræða, tel ég, að ætti að afnema þetta fyrirkomulag alveg, en ekki láta það ná til benzínbílanna líka.