04.02.1964
Efri deild: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er til umræðu og flutt er af okkur tveim þm. Reykv., sem jafnframt erum borgarfulltrúar í Reykjavík, er lagt til, að borgarstjórn Reykjavíkur verði veitt heimild til þess að setja með samþykki ráðh, reglugerð um búfjárhald í Reykjavík.

Sauðfjárhald í borgarlandinu hefur oft borið á góma í borgarstjórn Reykjavíkur. Hafa ýmsir talið, að rétt væri að banna með öllu sauðfjárhald í borgarlandinu, og hefur þá sérstaklega í því sambandi verið á það bent, að sauðfjárhald torveldi ræktunarstörf í borgarlandinu, og það er líka rétt, að sauðfé hefur iðulega valdið spjöllum í görðum og garðlöndum bæjarbúa. Að vísu má segja, að slíkt algert bann er ekki einhlítt að þessu leyti, því að oft finnast hér í borgarlandinu kindur úr öðrum sveitarfélögum, og það er að sjálfsögðu viðbúið, að svo verði, meðan sauðfjárhald tíðkast í nærliggjandi sveitum, nema þá að reistar verði fjárheldar girðingar á löngum köflum, sem má búast við að verði allkostnaðarsamt.

Ég býst við, að það geti allir orðið sammála um það, að fjárbúskapur eigi ekki heima í borgum. Af honum stafa ýmiss konar óþægindi, og hann er á margan hátt hvimleiður og á þar ekki rétt á sér. En þó er rétt að hafa það í huga, að borgarlandið er svo viðlent, að innan marka þess eru ýmsar bújarðir. Má nefna t.d. Korpúlfsstaði, Reynisvatn, Gufunes o.fl., og á einstaka þessara bújarða mun vera eitthvert sauðfjárhald. Það munu sem sé vera til nokkrir Reykvíkingar, en það er óhætt að fullyrða, að þeir munu vera sárafáir, sem hafi fjárbúskap að aðalatvinnu, en aðrir fjáreigendur, og þeir eru allmargir hér í borg, stunda aftur fjárbúskap aðallega sér til skemmtunar, þó að þeir jafnframt kunni að hafa af honum einhvern smávegis ábata.

Árið 1952, um það leyti sem fóru fram fjárskipti hér um slóðir, var það mjög á dagskrá að banna fjárhald í Reykjavík og í sveitarfélögunum hér í nágrenninu, og það mál var komið 8 allgóðan rekspöl, m.a. samþ. borgarstjórn þá að mæla með frv., sem landbrn, hafði látið semja. Sú samþykkt var gerð í bæjarstjórninni þá með 10 atkv. gegn 3. En það varð ekki úr því, að málið færi lengra í það sinn. Í það skipti var það þó sýnu auðveldara en bæði fyrr og síðar að stöðva fjárhald, því að þá var fjárlaust hér með öllu vegna fjárskiptanna. Þegar svo ekki varð úr því, að fjárhald yrði bannað, tóku menn að afla sér sauðfjár að nýju, og fjáreignin hefur farið stöðugt vaxandi. Um áramótin 1961 og 1962 er sauðfé Reykvíkinga um það bil 4000, og ég tel vafalaust, að því hafi fjölgað síðan:

Það hefur verið leitazt við af borgaryfirvöldunum að koma sauðfé sem mest út úr þéttbýlum hverfum, og til þess að greiða fyrir því, var Fjáreigendafélagi Reykjavíkur gefinn kostur á nokkru landi í Breiðholti til þess að hafa þar sauðfé, og var gerður leigusamningur um það land, sem gildir til júníloka á þessu ári. Þetta var að vísu ekki sú æskilegasta lausn, en þó sú eina, sem hægt var að gera til að koma sauðfénu út úr íbúðarhverfunum. Það tókst þó ekki með illu og enn munu vera nokkur brögð að því, að kindur séu hafðar á fóðrum í íbúðarhverfum í borginni, í skúrum, bílskúrum og öðrum vistarverum. Af þessu stafa óþrif og leiðindi fyrir nágranna þeirra, sem að slíku fjárhaldi standa, en þó er hitt kannske enn þá verra, að búfjárhald í borginni, sem ekki er hægt að hafa nokkurn veginn hemil á, leiðir til þess, að kindur ganga lausar og gera usla í görðum fólks, eyðileggja ræktunarstörf og draga jafnvel úr áhuga fólks á þeim, þegar það verður endurtekið fyrir ágangi af sauðfénu.

Ég hef að vísu eingöngu rætt um það, sem á góma hefur borið varðandi sauðfjárhald, og það er ekki óeðlilegt, því að það er það, sem mestum usla hefur valdið. Eins og fram kemur í grg. með frv., er þó talið rétt að takmarka ákvæði frv. ekki við sauðfjárhald, heldur nái það einnig til annarra tegunda búfjár en sauðfjár.

Í grg. með frv. er rakinn nokkur aðdragandi þess, að það er nú hér flutt. Það var að tilhlutan borgarráðsins, sem frv. var samið, og það hlaut einróma stuðning borgarstjórnarinnar. Það var ákveðið að leita álits Sambands íslenzkra sveitarfélaga um málið. Frv. var til umr. á landsþingi sveitarstjórnarsambandsins s.l. sumar, og var þar einróma með því mælt.

Um efni frv. er það að segja í stuttu máli, að það er í heimildarformi, þ.e. fjallar um það að veita borgarstjórn heimild til þess að banna eða takmarka búfjárhald, takmarka fjölda og takmarka það ef til vill við ákveðnar tegundir búfjár, sömuleiðis við ákveðin svæði innan borgarlandsins. Enn fremur er gert ráð fyrir, að sækja þurfi um leyfi til búfjárhalds, og þá einnig, að nætur skuli greiddar úr borgarsjóði, ef takmarkanir eða bann leiða til þess, að menn verða fyrir atvinnutjóni, þannig að bótum varði.

Ég get að sjálfsögðu ekkert um það fullyrt, að hve miklu leyti borgarstjórn Reykjavíkur muni siðar notfæra sér heimildir þessa frv., að hve miklu leyti eða á hvern hátt, ef það verður að lögum. En hitt staðhæfi ég, að með samþykkt þess mundi skapast önnur og langtum betri aðstaða til þess að skipa töluverðu vandamáli á þann veg, sem mætti ætla að menn gætu við unað og samrýmzt getur kröfu þéttbýlisins í þessum efnum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv. eða efni þess að svo stöddu, en leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og hv. heilbr: og félmn.