13.04.1964
Efri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Auður Auðuns):

Hv. forseti. Þegar þessari umr. var frestað fyrir helgina, hafði hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK? gert grein fyrir brtt. á þskj. 438, sem hann ásamt tveim öðrum hv. þm. í heilbr.- og félmn. flytur við 2. gr. frv., en breyt. er í því fólgin, að algert bann við tilteknu búfjárhaldi verði ekki heimilað fyrr en eftir 1. okt. 1968, eða eftir hálft fimmta ár. Ég er andvíg þessari brtt., og ég mun greiða atkv. gegn henni. Ég skal stuttlega gera grein fyrir þeirri afstöðu minni.

Með því að nema burt eða fresta heimild til algers banns við búfjárhaldi eða tilteknu búfjárhaldi tel ég, að búið væri að rýra svo gildi frv., að það kæmi ekki að tilætluðum notum þann tíma, þ.e.a.s. í þessu tilfelli 41/2 ár, sem bann gæti ekki komið til framkvæmda. Þar með er ég síður en svo að fullyrða neitt um það, að bæjarstjórnir mundu á þessu tímabili notfæra sér heimildir til algers banns, ef fyrir hendi væru. Þvert á móti tel ég líklegt, að reynt yrði að koma búfjárhaldi í skaplegt horf með því að notfæra sér aðrar heimildir frv., svo sem takmörkun á fjölda búfjár eða að binda búfjárhald við tiltekin svæði í bæjarlandinu. En ég tel langtum minni líkur til þess, að slíkt takist á skaplegan hátt, ef ekki er fyrir hendi það aðhald, sem heimild til algers banns veitir.

Í þessu sambandi er fyllsta ástæða til þess að undirstrika það alveg sérstaklega, að skv. frv. yrði hér aðeins um heimildarlög að ræða. Og mundi nú vera ástæða til að ætla, að hlutaðeigandi bæjarstjórnir eru að beita heimildum frv., þ. á m. algerri. bannheimild, af ósanngirni eða óbilgirni? Ég verð að segja, að það kemur mér á óvart, ef hv. 1. þm. Norðurl.e., sem sjálfur er þaulreyndur sveitarstjórnarmaður, telur, að það þurfi að óttast slíka framkomu af hálfu hlutaðeigandi borgar- og bæjarstjórna.

Ég vil minna á það, sem ætti þó að vera nokkurt aðhald fyrir bæjarstjórnir um að fara hóflega í sakirnar, að í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að bæta skuli búfjáreigendum atvinnutjón, sem þeir verði fyrir af banni eða af takmörkunum á búfjárhaldi skv. frv. Heldur væri það nú ótrúlegt, að bæjarstjórnir færu að nauðsynjalausu að baka bæjarfélagi bótaskyldu með því að skella á fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið algeru banni eða víðtækum takmörkunum, sem gætu leitt til atvinnutjóns, og þó er hitt kannske enn þyngra á metunum, að það er ekki heldur trúlegt, að bæjarstjórnir færu að baka sér alveg að óþörfu óvinsældir þeirra, sem við búfjárhald fást á hlutaðeigandi stöðum.

Þegar því nú sleppir, að algert bann eða takmarkanir, sem valda atvinnutjóni, á að bæta, þá er á hitt að líta, sem mönnum verður tíðrætt um í þessu sambandi, sem sé það, að fjáreigendum sé það viðkvæmt mál, ég vil segja tilfinningamál, ef þeir verði sviptir möguleika til þessarar tómstundaiðju sinnar. Í því sambandi verð ég að segja það, að brtt. og sú langa, þ.e.a.s. hálfs fimmta árs, frestun á bannheimild, sem hún felur í sér, sýnist mér lítið til þess fallin að milda þessa hlið málsins. Ég sé ekki annað en að það hljóti að verða fjáreigendum alveg jafnviðkvæmt að hætta sauðfjárhaldi eftir fjögur og hálft ár eins og t.d. eftir eitt ár, sem ég hefði talið eðlilegan fyrirvara, og ég var í n. reiðubúin til þess að standa að brtt: í þá átt, að árs fyrirvari skyldi vera ávallt á því, að bann kæmi til framkvæmda. Og þegar þessi tími, 41/2 ár, er liðinn, er allsendis óvíst, að á nokkrum þeirra staða, sem frv. eða l. taka til, verði talið tímabært að setja á algert bann, og þá sé ég ekki annað en að fjáreigendur á þeim stöðum stæðu alveg í sömu sporum og í dag.

Ég hef nefnt hér fjáreigendur og aðallega rætt um sauðfé, vegna þess að þótt miðað sé við búfjárhald almennt í frv., er það nú svo, eins og við vitum og eins og til hagar a.m.k. hér í Reykjavík nú í dag, að vandamálið snýst svo að segja eingöngu um sauðfjárhald. Um hestahald, ég vil nefna það, vegna þess að það hefur verið minnzt á hestahaldið fyrr við þessa umr., — er það að segja hér í bænum, að það veldur að vísu einhverjum óþægindum, en það er ekkert vandamál a.m.k. ekki enn eða eins og nú stendur neitt vandamál á borð við það, sem sauðfjárhaldið er hér í bæjarlandinu.

Ég held nú, að þeir, sem eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. treysta ekki hlutaðeigandi borgar- og bæjarstjórnum til að beita heimildum frv. af sanngirni og varúð, séu í rauninni ekki að gera búfjáreigendum neinn greiða með flutningi þessarar brtt., en að hún sé hins vegar til þess fallin að draga úr gagnsemi frv., ef að lögum verður, gagnsemi til þess að koma búfjárhaldi á viðkomandi stöðum í viðunandi horf, og einmitt það tel ég að sé einnig hagsmunamál fjáreigenda.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. að öðru leyti. Hv. þm. hóf mál sitt með því að segja, að raunverulega hafi n. verið klofin um málið. Svo var vissulega ekki. N. í heild mælir með samþykkt frv. að öðru leyti en því, að þrír nm. lýstu því yfir, að þeir mundu flytja brtt. við 2. gr. frv., að því er varðar algert bann við tilteknu búfjárhaldi, og brtt. þess efnis er nú fram komin á þskj. 438.

Í framsöguræðu fyrir brtt. sagði hins vegar hv. 1. þm. Norðurl. e., að hann hefði helzt kosið, að frv. hefði dagað uppi, en að mér skildist af tillitssemi og kurteisi við mig hefði hann þó fallizt á að mæla með frv. með fyrirvara varðandi 2. gr. Það sæti auðvitað sízt á mér að vanþakka tillitssemi hv. þm., en ég held nú líka, að hann eigi eftir að sjá, að hún hafi leitt hann til skynsamlegrar niðurstöðu að þessu leyti.

Hv. þm. útlistaði það í alllöngu máli, hvað hann hefði að ýmsum ákvæðum frv. að finna, og það var ekki laust við, að hann brygði því fyrir sig að höfða eilítið til tilfinninga manna. Það er gamalkunn aðferð, sem oft gefst vel, þegar leiða skal athyglina frá bláköldum og stundum ekki alls kostar þægilegum staðreyndum. Hann las upp úr bréfi Fjáreigendafélagsins um fólk, sem virtist ekki þola sambýli við dýrin. Hann talaði um göfgi hestamennskunnar, það, hve þroskandi sambýli við dýrin væri fyrir hina uppvaxandi kynslóð. Ég held nú, að Reykvíkingar og kaupstaðarbúar yfirleitt séu dýravinir alveg til jafns við aðra landsmenn og þeir kjósi gjarnan, að börn þeirra umgangist dýrin, en það verður að stofna til þeirra kynna í réttu umhverfi, ekki á götum borga og bæja og ekki í skrúðgörðum eða matjurtagörðum íbúanna í þéttbýlinu. Hv. þm. las upp, að ég held, úr öllum eða a.m.k. flestum þeim erindum, sem borizt hafa til að mótmæla frv. eða einstökum ákvæðum þess. Hann las upp langt mál úr umsögn Fjáreigendafélags Reykjavíkur, sem finnur frv. flest til foráttu. Um afstöðu Fjáreigendafélagsins vil ég aðeins segja, að það er ósköp mannlegt, að menn bregðist til varnar, ef þeir telja, að eitthvað eigi að þrengja að þeim, þar sem þeir hafa áður leikið að meira eða minna leyti lausum hala. Ég vil alveg sérstaklega taka það fram, að í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur eru margir félagsmenn, sem gera sér far um að haga svo sínu sauðfjárhaldi, að ekki hljótist af því tjón eða óþægindi fyrir samborgara þeirra, en það verður bara hreint ekki um alla fjáreigendur sagt.

Í umsögn Fjáreigendafélagsins er því haldið fram, að þetta frv. sé eiginlega óþarft. Það er að því vikið, að félagið hafi ávallt átt vinsamleg samskipti við yfirvöld borgarinnar. Ég verð að segja, að ég sé nú ekki, hvernig félaginu væri sæmandi að neita samvinnu við borgaryfirvöldin. Gallinn er bara sá, að félagið sem slíkt ræður ekki við framferði allra fjáreigenda í Reykjavík, og þó að skynsamari og gætnari menn í þeim félagsskap séu allir af vilja gerðir til þess að kippa í lag því, sem úrskeiðis fer, hafa þeir það hreint ekki á valdi sínu. Hins vegar mundi samþykkt frv. einmitt greiða fyrir því, að Fjáreigendafélagið gæti beitt sér fyrir því, að verulega væri bætt úr þeim ágöllum, sem nú eru á í þessum málum, og ég efast ekkert um það, að í fáreigendafélagið sé til þess reiðubúið, og vænti þess, að yfirvöld Reykjavíkurborgar geti átt við það hina beztu samvinnu í þessum efnum, samvinnu, sem verður miklu auðveldari, að ég tel, eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum.

Þegar minnzt er á samskipti borgaryfirvaldanna og Fjáreigendafélagsins, er kannske rétt að víkja aðeins að því, sem einnig kemur fram, að ég ætla, í þeirra umsögn, að yfirvöld borgarinnar hafa látið Fjáreigendafélaginu í té landssvæði hér aðeins utan við byggðina, sem hefur verið girt. Það var gert á kostnað Reykjavíkurborgar, og það hefur tekizt að fá allmarga fjáreigendur til þess að flytja þangað féð, byggja þar kofa og geyma þar fé sitt. En það er ekki nema hluti af þeim, því að fjöldi er enn með kindur hingað og þangað í bænum og það inni í íbúðarhverfum til leiðinda og ama fyrir umhverfi sitt.

Það gefur auga leið, að það leiðir í mörgum tilfellum til óþæginda, þegar menn eiga — og þess munu vera dæmi — kannske fram undir 100 kindur og hafa í rauninni ekki ráð yfir lófastórum bletti til þess að láta þetta fé sitt vera á vor og haust. Þetta landssvæði, sem fjárkofarnir eru á og þar sem margir geyma fé sitt, er hins vegar lítil girðing og gefur því ekki neina möguleika til þess að beita á það fé. Nú er það svo, að þegar að þessu ráði var horfið fyrir nokkrum árum, vildu eðlilega sauðfjáreigendur ekki fara mjög langt út úr bænum með fjárhús sín, vegna þess að það gat torveldað þeim að sinna skepnum sínum, það er ofur skiljanlegt. En byggðin þenst það óðfluga út í Reykjavík, að nú er svo komið, að þetta land — leigusamningurinn rennur út núna í júnímánuði — þarf að taka til skipulagningar, og þá verður að leita nýrra úrræða um það, hvað verði um sauðféð, sem þarna hefur verið geymt, hvernig geymslu þess verði hagað eða á hvaða stað eftir það.

Það má kannske aðeins minnast á það, að það er allmikill kostnaður, sem Reykjavíkurborg hefur beinlínis af búfjárhaldi. Það er maður að störfum allt árið, fleiri að sumrinu, til þess að annast vörzlu bæjarlandsins, garðlönd, matjurtagarða o.s.frv. Þá má minna á það, að hér hefur verið reist stór girðing, sem settur er í búfénaður, sem flækist í bæjarlandinu. Þessi girðing er allstór að vísu, en þó takmarkað, hvað hægt er að hafa að kroppa þar fyrir skepnurnar, sem í girðinguna eru settar. Það þarf þess vegna stöðugt að vera að flytja þetta búfé, flytja það aftur úr girðingunni og upp á afrétt, og girðingin fyllist svo að segja jafnharðan. Svo er allur girðingarkostnaðurinn, sem er bein afleiðing af búfjárhaldinu, sem skiptir auðvitað milljónum, viðhald þeirra girðinga o.s.frv. En á þetta minnist ég ekki til þess að telja það eftir, ef með þessu væri hægt að halda hlutunum í skaplegu horfi, en ég tel, að með þessu sé það sýnt, að yfirvöld borgarinnar hafi viljað leggja sig fram um að koma til móts bæði við fjáreigendur og eins við ræktendur í bæjarlandinu.

Ég ætla ekki að fara að eltast við allt það, sem hv. þm. las upp úr þessum erindum. En ég vil þó í tilefni af bréfi yfirdýralæknisins varðandi tilraunaðýrin á Keldum segja það, að það kemur manni undarlega fyrir, að nokkur maður láti sér yfirleitt detta í hug, að borgaryfirvöldin kynnu að leggja stein í götu þeirrar vísindastarfsemi, sem þarna fer fram, með því að banna þar nauðsynlegt skepnuhald.

Um afstöðu lögreglustjórans í Reykjavík sagði hv. þm., að það væri ofur eðlilegt, að hann væri frv. meðmæltur, það létti störfum af lögreglunni, en til þess væri lögreglan m.a. að sinna kvörtunum, sem kynnu að berast í sambandi við búfjárhald. Þetta er auðvitað rétt, svo langt sem það nær. En þegar kærur og kvartanir hrúgast svo upp, að það er hætt að bókfæra þær og ekki unnt að sinna þeim öllum er þessi þáttur í starfi lögreglunnar kominn út fyrir og það langt út fyrir öll þau takmörk, sem telja má eðlileg.

Í ræðu sinni kom hv, þm. sem sé víða við. En honum varð ekki sérlega tíðrætt um þann fjölmenna hóp borgarbúa, sem á hagsmuna að gæta í sambandi við þetta frv., hagsmuna, sem eru að verulegu leyti andstæðir hagsmunum búfjáreigenda. Ég á þar við allan þann fjölda Reykvíkinga, sem fást við ræktunarstörf í matjurtagörðum, á sumarbústaðalöndum og síðast, en ekki sízt í skrúðgörðum við íbúðarhúsin hér í borginni. Þúsundir eða réttar sagt tugþúsundir Reykvíkinga og að sjálfsögðu kaupstaðarbúa annars staðar á landinu einnig verja að meira eða minna leyti frístundum sínum við garðyrkjustörf og veita sjálfum sér, umhverfi sínu og vegfarendum öllum ánægju og yndi af fögrum gróðri og snyrtilegri umgengni. Allir þeir, sem slíkt kunna að meta og láta sér annt um þrifnað og hollustuhætti í borginni, og ég ætla, að þar muni vera allur þorri Reykvíkinga, eiga kröfu til þess, að búfjárhaldi sé unnt að halda í skaplegu horfi, eins og ráð er líka fyrir gert í þessu frv. Hv. þm. sagði, að borgarbúum væri það engin ofætlun að girða svo hjá sér garða sína og gróðurlönd. að verjast mætti ágangi búfjár. Það er sem sé ráðið, að búfjárhaldið á að haldast, en íbúarnir í þéttbýlinu eiga bara beinlínis að víggirðast gegn búpeningnum.

Þegar talað er um girðingar, má víkja að því, að það stefnir annars staðar og einnig orðið hér á landi í þá átt í þéttbýli að forðast sem mest girðingar, enda verður svípur bæjanna allur annar og skemmtilegri, þar sem ekki eru girðingar um hvern blett og hvert hús, ef hægt er að koma því við. Og 3 því sambandi mætti t.d. nefna þá milljónatugi, sem ár hvert fara í girðingar í bæjum, í kaupstöðum og kauptúnum og allir væru ásáttir með að sleppa, ef unnt væri. Nú er það skiljanlegt, að verulegan þátt í því, að ekki er hægt að hafa ógirtar lóðir, verulegan þátt í því á búfjárhald í nágrenninu, í umhverfinu. Og jafnvel þar sem girðingar eru, hafa menn opnar akbrautir, svokallaðar innkeyrslur inn á lóðirnar fyrir bíla, og það sést varla orðið, að fyrir slíkum akbrautum séu hlið, sem séu kirfilega látin aftur, ef bíll hefur farið um hliðið.

Inni í miðjum bæ er ekki hætt við, að garðræktendur verði fyrir ágangi búfjár. Það er í úthverfunum, sem sú hætta vofir yfirleitt yfir. Ég vil benda á t.d. hér í Reykjavík, að nú á að fara að úthluta stórum flæmum undir íbúðarhús innan við Elliðaár, og þar er ágangurinn af búfé þó enn þá meiri en hérna megin við árnar. Ég er hrædd um, að ef búfé ætti að leika lausum hala — og sauðfé vil ég þó segja aðallega, — þá yrði dálítið erfitt um ræktunarframkvæmdir hjá þessu fólki, sem þarna kemur til með að reisa nýtt borgarhverfi, ef það á þá ekki að þurfa að girða rammlega hverja einustu lóð og gróðurblett.

Með umsögn garðyrkjustjórans í Reykjavík um frv. fylgdi skýrsla, sem hann og Skúli Sveinsson lögregluvarðstjóri sömdu í nóvember 1962 um búfjárhald í Reykjavík, og eins og í umsögninni segir, veitir hún upplýsingar um ástand það, sem nú ríkir vegna sauðfjárbúskapar í Reykjavík. í þessari skýrslu kemur margt fram. Það er byrjað að rekja það, að þegar fjárskiptin fóru hér fram fyrir 10 árum, við niðurskurðinn 1951, mátti heita, að væri orðið fjárlaust í Reykjavík og nærliggjandi sveitum, og þá var reynt að vinna að því, að hér á Reykjanesskaganum yrði tekið fyrir, að fjárbúskapur hæfist aftur. Og því var spáð af flestum ráðamönnum eða mörgum þá, að það ýrði óþarft að banna sauðfjárhald í Reykjavík og nágrenni, því að það mundu fáir verða til þess að taka það upp aftur. En reyndin hefur nú orðið önnur, því að eins og fram kemur í skýrslunni, þá var það, þegar skýrslan var samin, að síðustu tölur, sem menn þá vissu um, voru þær, að þá hafði 4000 fjár verið fært til sauðfjárböðunar héðan úr Reykjavík. Það er þess vegna enginn smáhópur af kindum, sem ýmsir fjáreigendur hér í bæjarlandinu eiga, en eins og segir í skýrslunni, er ekki vitað um einn einasta mann, sem hafi fjárbúskap sem aðalatvinnu, utan tvo fullorðna bændur, í lögsagnarumdæminu.

Þá segir í skýrslunni orðrétt, með leyfi forseta:

„Fæstir þessara fjáreigenda hafa hentuga aðstöðu til að halda slíkan búskap. Fáir hafa tún eða heppilegt land til geymslu fjárins haust og vor. Öflun heyja til fóðurs er að langmestu leyti bundin við heykaup af bændum í nærliggjandi sveitum eða með snöpum af húsalóðum og ræktuðum svæðum inni í borginni. Hýsing fjárins yfir vetrarmánuðina er þeim langflestum mikið vandamál, og mikil brögð hafa verið að því, að skúrar hafi verið reistir fyrir kindur inni á milli íbúðarhúsa ellegar bílskúrar hafi verið teknir í notkun sem fjárhús og heygeymslur. Með því að af þessum sökum hafði skapazt alvarlegt ástand í borginni, var horfið að því ráði fyrir þremur árum að fá fjáreigendur til þess að flytjast með gripahús sín á einn stað í útjaðri borgarinnar, og náðist um það samkomulag, að þeir fengju afgirtan reit við Breiðholtsveg vestan Blesugrófarbyggðar. Þar eru nú setztir að 30 af hinum 129 fjáreigendum, og er það strax nokkur bót á ástandinu, sem skapazt hafði inni í sjálfri borginni, en hinir 99 eru eftir sem áður ærið vandamál. Á vorin, þegar grös eru komin, ráða menn illa við fé sitt, og æðir það þá um allt, svo að vart verður við nokkuð ráðið, og hefur þráfaldlega komið fyrir, að það hefur stórskemmt fyrir fólki, sem er að undirbúa matjurtagarða og skrúðgarða sína. Í maílok eða snemma í júní er féð svo flutt á fjall, eftir að sauðburði er að fullu lokið. Langflest fé ér flutt upp fyrir Sandskeið eða Svínahraun. Þar eru rýrir hagar, og leitar féð fljótt til baka og tollir hvergi úr því sumarlangt nema í borgarlandinu.“

Ég má hér skjóta því inn í, að í öðrum stað í skýrslunni er talað um afréttarland Reykjavíkur og nágrannasveita. Það er sagt um afréttarland þeirra, að það sé það lélegasta, sem fyrirfinnst á landinu öllu, og vænleiki fjár í fullkomnu samræmi við það. Þetta segir hér fyrr í skýrslunni. Ég held þá áíram lestrinum, þar sem ég hvarf frá áðan.

„Dag hvern allt sumarið er smalað saman stórum fjárhópum, sem komizt hafa niður fyrir Elliðaár, inn á tún og lóðir í Sogamýri og Vogabyggðinni eða hafa staðnæmzt í Ártúnsbrekkunni og í matjurtagörðum og sumarbústaðalöndum í Selásbyggðinni. Fjárhóparnir eru reknir í víðáttumikla girðingu, sem er ofan við Blesugróf og kennd er við Breiðholt. Þar er einnig komið í vörzlu hrossum, sem eru á flækingi í borgarlandinu. Beitin innan girðingar gengur því fljótt til þurrðar. Er þá kostað til flutninga á fénu til fjalla til að létta á beitinni innan girðingarinnar. Þess er þó jafnan stutt að bíða, að þar sé komið jafnmargt fé og flutt var á brott. Kærur vegna ágangs sauðfjár á lönd og garða eru það tíðar, að löngu er hætt að bókfæra þær, heldur reynt, eftir því sem unnt er, að handsama hverja þá kind, sem sleppur gegnum girðingarnar inn á ræktunarlönd borgarbúa.“

Þá segir síðar í skýrslunni, eins og ég reyndar áður vék að:

„Fæstir fjáreigendur hafa nokkurt land til að geyma fé sitt á haust og vor, eins og áður er sagt, og geta þar af leiðandi ekki haft það í vörzlu á öruggum stað. Næstum óhugsandi er fyrir fólk, sem hefur matjurtagarða ofan Elliðaáa, að rækta nokkurn gróður annan en kartöflur, með því að sauðfé sér fyrir öllum öðrum gróðri. Auðvelt er að tilfæra margvíslegan skaða, sem fólk hefur orðið fyrir vegna sauðfjár, en í fæstum tilfellum er þó um bókfærðar kærur að ræða með því að tilgangslaust hefur reynzt hjá fólki að ná lögum yfir sauðfé og eigendur þess. Fólki er aðeins ráðlagt að vera vel á verði gagnvart þessum ófagnaði og girða vandlega ræktunarreiti sína. Af hálfu Reykjavíkurborgar er miklu til kostað til að verjast hinum sívaxandi ágangi sauðfjár inn í sjálfa borgina. Mestallt sumarið eru menn að starfi við endurbætur ú girðingum og í smölun og flutningum fjárhópa til fjalla. Að vetrinum fer fram endurnýjun á girðingum, sem hafa gengið úr sér, eða settar upp nýjar vörzlugirðingar, og reynt er að hamla gegn því, að fjárhópar valdi umferðartruflunum eða slysum á þjóðvegum.“

Ég sé nú ekki ástæðu til að lesa fleira upp úr þessari skýrslu, en ég ætla, að hún bregði nokkru ljósi yfir það, hvernig þessum málum er komið hér í Reykjavík, og ég ætla, að hún sýni, að það er tímabært, að þetta frv. sé flutt, þó að hins vegar 1. þm. Norðurl. e. telji sig ekki hafa heyrt eiginlega nein dæmi, sem réttlæti það að flytja þetta frv., eða ég tel, að ég hafi tekið rétt eftir, að hann hafi sagt það í sinni framsöguræðu. Og ég dreg það ekki í vafa, að mat forráðamanna þeirra þriggja kaupstaða, sem hafa óskað eftir, að frv. væri látið ná til þeirra, á aðstæðum á viðkomandi stöðum hljóti að vera slíkt, að á því sé byggjandi í því efni, að fyllsta þörf sé á lagasetningu einnig fyrir þá kaupstaði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri og vænti þess, að það, sem hér hefur komið fram, hafi orðið til þess að færa hv. þm. heim sanninn um það, að flutningur þessa frv. er fyllilega tímabær og á fyllsta rétt á sér.