06.12.1963
Neðri deild: 26. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

95. mál, vegalög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð í sambandi við þá ræðu, sem hv. síðasti ræðumaður flutti. Hann gerði í máli sínu ráð fyrir, að þær götur í kauptúnum og kaupstöðum, sem samkv. þessum lögum yrðu gerðar að þjóðvegum, skiptust síðan í flokka eftir 12. gr., í hraðbrautir A og B og þjóðbrautir.

Þetta er ekki hugmyndin. Samkv. 29. gr., sem er fyrsta gr. í kaflanum um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum, er tekið fram, að bæjarstjórn eða hreppsnefnd ákveði um gerð gatna og vega. Við höfum nú þegar skipulagslög og kerfi til að ákveða skipulag í kaupstöðum og kauptúnum. Í því skipulagi er væntanlega gert ráð fyrir þeim götum, bæði hvað breidd og gerð snertir, sem talin er þörf fyrir á hverjum stað. Vegalaganefnd hefur ekki talið rétt, að vegamálastjórnin hefði afskipti af þeim málum, enda engin ástæða til að ætla, að skipulag sé ekki í það góðu lagi, og gert sé ráð fyrir eins góðum og breiðum götum og þörf er á, þar sem þess er nokkur kostur. (Gripið fram i.) Við verðum að gera ráð fyrir, að stærð bæjar og skipulag, svo og lausn sveitaryfirvalda og skipulagsyfirvalda, sé þar nægjanlegt. Að því leyti er rétt hjá hv. þm., að umferðarþörfin kemur til með að ráða, en þarna væri hugsanlegur árekstur á milli vegamálastjórnar og sveitarstjórnar, sem á að ráða endanlega skipulagi á sínu svæði. Vegalaganefnd vildi ekki blanda sér inn í þessi málefni á þann hátt að láta flokkun þjóðvega ráða því, hvernig götur skuli vera á hverjum stað, enda gæti það orðið mikið vandamál, eins og hv. þm. benti á. Ef umferðartalning á einni götu, þar sem þegar hafa verið byggð hús báðum megin, leiddi allt í einu í ljós, að umferðin er orðin svo mikil, að gatan ætti samkv. lögum að vera hraðbraut A, félli kvöð á bæinn að gera götuna allt í einu að fjórfaldri braut eins og Miklubraut í Reykjavík. Þetta er óhugsandi. Þess vegna kemur slík skylda um breidd eða gerð gatna ekki til greina í sambandi við þessi lög. Það á að lúta þeim lögmálum, sem fyrir eru eða gerð kunna að vera eftir skipulagslögum. Einmitt þess vegna held ég, að Alþingi verði að treysta því, að skipulagslög og stærð viðkomandi kaupstaðar eða kauptúns sjái fyrir því, eins og hægt er, að höfuðgötur, sem í sumum atvikum verða þjóðvegir og fá styrk þarna í þessum lögum, séu af þeirri gerð, sem þörf er á viðkomandi stað.

Ég er sammála því, sem hv. þm. sagði um vandamálið í Kópavogi, sem er eitt hið allra hættulegasta og erfiðasta í gatna- og vegamálum þjóðarinnar. Hins vegar hef ég það fyrir satt, að þegar Kópavogur varð að sjálfstæðum kaupstað, hafi samkv. íslenzkum lögum skyldan til þess að sjá um veginn gegnum kaupstaðinn fallið á Kópavog. Hitt er annað mál, að það hefur ekki reynzt unnt að framkvæma þann lagabókstaf, og vegagerðin hefur séð fyrir þessum kafla. Það er rétt, að þar bíður erfitt vandamál. En í því sambandi er rétt að minnast þess, að einmitt þessi lög eru fyrsta veruleg viðleitni til þess af Alþingis hálfu að koma til móts við slík vandamál sem þetta.

Hann talaði einnig um það, að samkv. þessum lögum mundi Kópavogur verða „arfleiddur“ að þessum vegarspotta. Það er ekki rétt, Kópavogur hefur haft þessa ábyrgð, en ég vil benda á 9. gr., þar sem talað er um veghald. Samkv. fyrri greinum hefur ríkið veghald á öllum vegum, en getur framselt það til sveitarfélaga eða sýslunefnda eftir aðstæðum. Ef Kópavogskaupstaður óskaði ekki eftir að hafa veghald á þessum þjóðvegi, fellur það samkv. 9. gr. í hlut vegagerðarinnar, ef ég hef skilið hana rétt, þannig að engan veginn er útilokað a.m.k. verkfræðilegt samstarf þarna á milli.

Ég get einnig tekið undir hugsun, sem kom fram hjá hv. þm. um að tryggja, að það fé, sem sveitarfélögin fá, verði raunverulega notað til gatnagerðar. Verð ég þó að segja, að gatnavandamálin eru orðin svo aðkallandi og svo rík í hugum fólksins, að mér finnst lítil hætta á því, að þótt kaupstaðir eða kauptún fái einhverja hýru frá ríkinu samkv. þessum lögum, færu þau að draga úr eigin framlögum til þessarar gatnagerðar. Vegalaganefnd hefur ekki beinlínis sett í lögin, að þessu fé skuli varið til varanlegrar gatnagerðar, til að malbika eða steypa. Okkur fannst rétt að hafa það opið, af því að vandamál staðanna geta verið ákaflega ólík. Hins vegar er í 32. gr. tekið fram, að kostnaður við holræsi, færslur á leiðslum, gangstéttir, umferðarljós, götulýsingu og því líkt greiði sveitarfélagið. Og þá er ekki mikið eftir, þannig að það er erfitt að hugsa sér, að sveitarfélag muni ekki nota þetta fé til varanlegrar gatnagerðar, ef aðstæður hjá því eru að öðru leyti slíkar, að það er skynsamlegt.

Loks er í 35. gr. gert ráð fyrir, að ráðh. setji með reglugerð nánari ákvæði um eftirlit með því, að því fé, sem sveitarfélögum er veitt samkv. 32. gr., verði varið á þann hátt, sem lög gera ráð fyrir. Er augljóst, að n. hefur séð þennan hugsanlega vanda, sem ég held að sé ekki mikill í raun og veru, og þarna er leið opin til þess að tryggja það, sem hv. þm. talaði um, að þessu fé verði raunverulega varið eins og til er ætlazt.