16.04.1964
Efri deild: 69. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Í tilefni af brtt. á þskj. 465, varðandi undanþágu fyrir reiðhestahaldi, hef ég kannað hug nm. í heilbr.- og félmn. til þeirrar till., og niðurstaðan af þeirri athugun er sú, að n. í heild hafði ekki áhuga á því að styðja hana, en einstakir nm. hafa áskilið sér frjálsar hendur í því efni. En sem sagt, n. í heild hafni þá afstöðu til málsins að taka ekki undir þessa till.

Þá vil ég fara hér nokkrum orðum um brtt., sem ég hef flutt á þskj. 466 og er þá á leið að bæta við 2. gr. frv. orðunum: „Algert bann við tilteknu búfjárhaldi skal tilkynnt búfjáreigendum með a.m.k. eins árs fyrirvara; miðað við 1. okt.“ Það er í sjálfu sér hægt að vísa að nokkru leyti til þeirra umr., sem urðu um þessi mál hér við 2. umr., er við 3 nm. úr heilbr.- og félmn. töldum rétt að koma nokkuð til móts við búfjáreigendur og það væri ekki nægilega tekið tillit til þeirra sjónarmiða í þessu frv. Brtt. frá okkur var felld við 2. umr., eins og kunnugt er. Með þessari brtt., sem hér liggur fyrir, er gengið nokkru skemmra, og er sem sagt lagt til, að algeru banni sé ekki hægt að beita fyrirvaralaust, heldur verði að tilkynna það búfjáreigendum með a.m.k. eins árs fyrirvara og miðað sé við það, að bannið gangi í gildi 1. okt., en það er álitið heppilegasti árstíminn til þeirra hluta, ef búfjárhald á að banna. Þetta þýddi þá í framkvæmd t.d. héðan af, ef þessi l. yrðu samþ., að þá væri ekki hægt að banna búfjárhald algerlega fyrr en 1. okt. 1965, ég ef 1. okt. 1964 liði, án þess að tilkynnt væri um bann, væri ekki hægt að skella á banni fyrr en 1. okt. 1966. Ég tel, að í sjálfu sér sé till. auðskýrð.

Með þessari till. er ég ekki endilega að halda því fram, að það sé ætlan þeirra sveitarfélaga, sem fá heimildina til að banna búfjárhald, að gera það með mjög skömmum fyrirvara eða fyrirvaralaust. En á hitt er þó að líta, að búfjáreigendur hafa engan lögverndaðan rétt í því efni, þar sem á það er ekki minnzt einu orði í frv., eins og það liggur nú fyrir; og þess vegna tel ég einmitt nauðsynlegt, að eitthvert slíkt ákvæði komist inn í frumvarpið.