08.05.1964
Neðri deild: 95. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en vil í sambandi við þetta mál taka fram, að þetta mál var, eins og kemur fram í grg. frv., til meðferðar á landsþingi sveitarfélaganna í sumar og var þar samþ. einróma. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að hér er um heimildarlög að ræða, og það er ekki hægt að setja þessar reglugerðir, þó að bæjar- eða sveitarstjórnir samþykki þær, nema samþykkt ráðh. komi þar einnig til. Þess vegna held ég, að það sé ekki ástæða til að óttast mikið um aðgerðir í þessu máli, að þær verði of harðsnúnar, eins og mér finnst, að hafi komið fram.

Hins vegar er því ekki að neita, að þetta mál er orðið vandamál í þéttbýli viða og verður það í æ ríkara mæli. Þess vegna er brtt. sú, sem hv. heilbr.- og félmn. gerir, til bóta, þar sem hún gerir þetta mál að almennu máli fyrir kauptún og kaupstaði í landinu, og það þarf það að sjálfsögðu að vera.

Ég verð að segja það sem mína skoðun, að mér finnst, að seinni hl. í 1. gr. frv., samkv. brtt. á þskj. 605, þar sem talað er um tilraunastöðina á Keldum, sé óþarfur, vegna þess að ég er nú sannfærður um það, eins og fram kom hjá hæstv. forsrh., að borgarstjórnin í Reykjavík mundi ekki leggja það til að banna þá, starfsemi, sem þar er um að ræða, og í öðru lagi mundi ráðh. alls ekki samþ. þá reglugerð, sem fæli það í sér. Og mér finnst, að þeir, sem fyrir þessum mótmælum hafa staðið, hafi í raun og veru ekki gert sér grein fyrir því, að hér er um heimildarlög að ræða og það er reglugerðin, sem á að fela í sér ákvæðin, er til framkvæmdanna kemur, og það er ráðh., sem verður að samþ. hana auk borgarstjórnarinnar, áður en hún næði fram að ganga.

Þess vegna finnst mér, að þessi hluti tillgr. sé óþarfur, en fagna hinu, að þetta skuli vera gert að almennum lögum, og hefði talið skynsamlegast fyrir afgreiðslu málsins, að n. hefði athugað till. betur.