08.05.1964
Neðri deild: 95. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þetta mál olli nokkrum umr. í hv. Ed., og er það að vonum, að um það séu skiptar skoðanir, þar sem þarna má segja, að sé um tvo hagsmunahópa að ræða, annars vegar þá; sem óska eftir því að hafa búfjárhald í þéttbýlinu, og svo aftur hina, sem telja sér það kannske verða eitthvað til ama.

Ég vil taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður benti á, að hér er aðeins um heimild að ræða handa sveitarstjórnum til þess að hafa þá skipan á þessum málum, hver á sínum stað, sem þær telja bezt henta. Ég held, að það sé mjög eðlilegt, að það séu einmitt sveitarstjórnirnar, sem séu þar ráðandi eða hafi þar tillöguréttinn. Ef þær óska eftir því að fá setta um það reglugerð, telja það nauðsynlegt fyrir sig, tel ég mjög eðlilegt og sjálfsagt, að þær hafi til þess heimild.

Í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. benti á, skal það viðurkennt, að það má vafalaust telja eðlilegt, að ekki sé ástæða til að setja það sérstaklega í lög, að búfjárhald skuli leyfi á tilraunastofnunum. En það, sem réð úrslitum hjá n. í þessu sambandi, var bæði þau erindi, semi frsm, benti á, að n. hefðu borizt, og þó frekast, að menntmrn. sendi n. ákveðin tilmæli um þetta atriði, og vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp síðustu mgr. þess bréfs, en hún hljóðar svo:

„Fer ráðuneytið fram á, að hv. n. hlutist til um, að tilraunastöð háskólans í meinafræði, Keldum, og hliðstæðar rannsóknarstofnanir verði undanþegnar nefndu ákvæði fyrirhugaðra laga.“

Það var þetta, sem réð úrslitum, að n. tók þetta ákvæði inn. Hins vegar skal ég viðurkenna, að okkur fannst kannske ástæðulaust að setja þetta inn í till., en urðum þó við þessum tilmælum frá ráðuneytinu.