09.05.1964
Neðri deild: 96. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér þykir það miður, að hv. heilbr.- og félmn. hefur ekki talið sér fært að taka upp þá till., sem ég minntist á hér áðan, og vil þess vegna leyfa mér að leggja hana fram. Eins og hv. þm. er kunnugt, hljóðar 2. gr. frv. nú á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í reglugerð má ákveða, að tiltekið búfjárhald sé algerlega bannað í kaupstaðnum (borginni), takmarkað að því er snertir fjölda hverrar tegundar eða bundið við tiltekið svæði innan bæjarlandsins (borgarlandsins). Algert bann við tilteknu búfjárhaldi skal tilkynnt búfjáreigendum með a.m.k. eins árs fyrirvara, miðað við 1. október.“

Ég legg til í fyrsta lagi, að niður falli orðin „algerlega bannað í kaupstaðnum (borginni)“, og svo í öðru lagi síðari mgr. Greinin mundi þá hljóða þannig: „í reglugerð má ákveða, að tiltekið búfjárhald sé takmarkað að því er snertir fjölda hverrar tegundar eða bundið við tiltekin svæði innan bæjarlandsins (borgarlandsins“. Og lengri yrði till. ekki.

Eins og komið hefur fram í þessum umr., er hér í raun og veru um tvö mál að ræða. Annað málið er það, að sveitarfélög fái aðstöðu til að setja reglur um fyrirkomulag búfjárhalds í sínu umdæmi, bæði að takmarka búfjáreignina og eins að binda búfjárræktina við tiltekin svæði í sveitarfélaginu. Hitt málið er svo það að veita þessum aðilum leyfi til þess að banna búfjárhald með öllu. Mér finnst fyrra málið vera eðlilegt og sjálfsagt, að veita bæjarfélögum og sveitarstjórnum heimild til þess að setja ákveðnar reglur um þessi mál, en á þessu stigi get ég ekki fallizt á það að veita þeim svo víðtækt vald, að þau megi með öllu banna búfjárhald í sínu umdæmi, og í samræmi við það hef ég flutt þessa till.

Nú er, eins og ég gat um áðan, þannig komið, að það hefur orðið sú breyt. á frv. í meðförum þess í þinginu, að það er búið að veita vissum félögum aðstöðu til að hafa búfé innan kaupstaðanna, þ.e. hestamannafélögum, og það er líka búið að veita ríkinu eða tilraunastöðvum rétt til þess að hafa búfjárhald á sumum svæðum. Og mér finnst það ákaflega óviðeigandi til viðbótar því, sem ég áðan sagði, að veita ríki og félögum slíkan forgangsrétt, en banna einstaklingum það með öllu. Ég er það mikill einstaklingshyggjumaður, að ég get ekki sætt mig við slíka afgreiðslu málsins.

Ég vil svo, ef þessi till. mín nær ekki fram að ganga, leyfa mér að flytja aðra till. til vara við 1. gr. 3. málsgr. 1. gr. hljóðar á þessa leið: „Þó er reiðhestahald undanþegið ákvæðum laga þessara, ef það er á vegum hestamannafélaga og þau hafa sett um það reglur, sem hlutaðeigandi bæjarráð (borgarráð) staðfestir.“ Ég legg til til vara, að ef fyrri till. mín er felld, hljóði þessi mgr. á þessa leið:

„Þó er reiðhestahald og sauðfjárhald undanþegið ákvæðum laga þessara, ef það er á vegum hestamannafélaga eða fjáreigendafélaga og þau hafa sett um það reglur, sem hlutaðeigandi bæjarráð (borgarráð) staðfestir.“

Ég leyfi mér svo að leggja þessar till. fyrir hæstv. forseta.