14.12.1963
Neðri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

95. mál, vegalög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm., barst erindi frá bæjaryfirvöldum í Kópavogi varðandi þá algeru sérstöðu, sem við Kópavogsbúar teljum að sé varðandi samgöngumál um okkar byggðarlag. Ég ætla nú að fara nokkrum orðum um þetta atriði. Ég veit hins vegar, að allir, sem til þekkja, viðurkenna það mikla vandamál, sem við eigum þarna við að glíma. En fyrir aðra, sem ekki eru þessu jafnkunnugir, ætla ég hér að rifja upp örfá atriði.

Reykjanesbrautin, sem er ein fjölfarnasta umferðaræð landsins, liggur um miðja byggð í Kópavogi. Það má segja, að hún kljúfi Kópavogsbæ í tvennt. Þarna fara daglega um nú um 15 þús. bílar, og þessi umferð mun fara vaxandi ár frá ári. Nú er ástandið þannig, að oft tímum saman rofnar ekki samfelld bifreiðaumferð á þessum vegi, þannig að þeir, sem þurfa að fara yfir þessa götu, verða að bíða, og þá er að líta ekki aðeins á óþægindin af því, heldur hina alvarlegu hlið málsins, að oft og tíðum þreytast vegfarendur á því að bíða sem skyldi og grípa máske hæpin tækifæri til þess að komast yfir götuna. Þá er rétt að minnast á, að hundruð skólabarna úr Kópavogi þurfa dagsdaglega yfir þessa götu að sækja. Bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa, eftir því sem í þeirra valdi hefur staðið fjárhagslega, reynt að forða bráðustu hættunni. Það hefur verið stóraukin löggæzla við Reykjanesbrautina, ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar til þess að auka á öryggi, og á þessum vetri munu verða sett upp umferðarljós í þessu skyni. Allar þessar ráðstafanir miða að því fyrst og fremst að tryggja öryggi gangandi fólks. En um leið munu þessar ráðstafanir einnig tefja og torvelda hina gegnumgangandi umferð gegnum bæinn. Það er okkur fullljóst.

Eins og ástatt er með Reykjanesbrautina í dag, flytur hún illa þá bifreiðaumferð, sem á henni er, og með þeim ráðstöfunum, sem við í Kópavogi neyðumst til að gera til þess að tryggja öryggi vegfarenda þar, mun það eðlilega leiða til þess, að umferð mun þarna verða enn tafsamari en ella. Nú er samkv. þeim till., sem hér liggja fyrir, gert ráð fyrir því, að þarna eigi að leggjast hraðbraut A, þ.e.a.s. fjórföld akbraut, og sízt mun vanþörf á því. Ég vil þá einnig vekja athygli á því, að það er ekki nóg. Þarna til viðbótar þarf síðan miklar framkvæmdir til þess að tryggja eðlilega umferð milli bæjarhluta í Kópavogi, bæði fyrir gangandi fólk og ökutæki, þannig að tryggja verður það, að hægt sé að komast annaðhvort yfir eða undir Reykjanesbrautina aðskilið frá hinni gegnumgangandi umferð í gegnum bæinn. Bæjaryfirvöld í Kópavogi leituðu fyrir ári til vegamálastjóra um hans álit á því, hvað slíkar framkvæmdir mundu kosta, og lausleg áætlun hans var sú, að það yrði aldrei undir 20–30 millj. Ég nefni þetta hér vegna þess, að það má öllum ljóst vera, að það er óhugsandi, að Kópavogskaupstaður geti hrundið þessu í framkvæmd, þrátt fyrir það þó að hann fái í sinn hlut sama hluta af benzínskatti og önnur bæjarfélög miðað við íbúafjölda. Þetta er framkvæmd, sem getur ekki dregizt nema örskamma hríð. Eftir því, sem samgöngur sunnan að aukast, Reykjanesbrautin lengist fullgerð, þ.e.a.s. hin steypta Reykjanesbraut verður komin alla leið, þá eykst bæði umferðarþunginn, umferðarhraðinn, og allt mun þetta enn auka á vanda Kópavogs, og er hann þó ærinn fyrir.

Kópavogsbúar hafa ávallt vænzt þess, og ég vil segja með nokkrum rétti, að þeir þyrftu ekki nema að litlu leyti að standa undir þessum fjárfreku framkvæmdum. Mjög mikill hluti umferðarinnar um Reykjanesbraut gegnum Kópavog er Kópavogi óviðkomandi. Mjög stór hluti þeirrar umferðar kemur þar ekki einu sinni við. Ég sé, að í aths. um frv, að vegalögum er minnzt á tvo staði aðra, sem líku máli skiptir, þ.e.a.s. Blönduós og Selfoss. Ég viðurkenni fúslega þeirra sérstöðu, en vil samt halda fram, að Kópavogur hafi þó umfram þessa staði algera sérstöðu.

Eins og ég gat um í upphafi, þola þessar framkvæmdir enga bið. Það er hins vegar gersamlega ofvaxið fjárhagslegri getu okkar unga bæjarfélags að ráðast í þessar framkvæmdir. Við væntum því þess, að ríkisvaldið komi þarna til aðstoðar, og einmitt þess vegna hafa bæjaryfirvöld í Kópavogi ritað samgmn. þingsins bréf, þar sem vakin er athygli á því, að ef það verður meiningin, að Kópavogur eigi að hrinda þessu í framkvæmd og fá til þess þá aðstoð, sem felst í hluta hans af benzínskattinum, þá teljum við, að niðurlag 34. gr. geri það gersamlega óframkvæmanlegt, að þetta geti orðið með eðlilegum hætti, en í 34. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Af heildarframlagi því, sem veitt er til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum samkv. 32. gr., skal árlega halda eftir 10%, og skal því fé ráðstafað eftir till. vegamálastjóra til að flýta framkvæmdum, þar sem sérstök ástæða þykir til að ljúka ákveðnum áfanga, eða til að stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum.

Þrátt fyrir aukaframlag samkv. 1. mgr. skal einstakt byggðarlag ekki bera meira úr býtum á 5 ára tímabili eftir fyrstu aukagreiðslu, af framlagi samkv. 32. gr., en því ber, miðað við íbúafjölda.“

Þó að þarna sé möguleiki til þess að færa fram, þannig að hugsanlegt fjármagn, sem koma skal í hlut viðkomandi bæjarfélags á áætlunartímabilinu, færist kannske allt yfir á fyrsta árið, þá mundi það þýða það, að yfir tímabilið allt fengist ekki meira fjármagn en hlutfallslega ætti að koma. En þar sem um svo geysilega fjárfreka framkvæmd er að ræða og svo mikið nauðsynjamál, fyrst og fremst kannske fyrir Kópavogsbúa, en ekki síður fyrir þá, sem þar eiga leið um dagsdaglega, þá er augljóst, að þessu verður ekki hrundið í framkvæmd á einu áætlunartímabili, og í öðru lagi, að það er útilokað, að þetta unga bæjarfélag hafi fjárhagslegt bolmagn til þess.

Ég vildi vænta þess, að málum gæti skipazt svo, að þessi braut yrði lögð að mestu fyrir fé ríkissjóðs, og ég vænti þess, að eins og fram kom hjá hv. frsm., muni samgmn. þingsins finna einhverja þá lausn, sem getur komið þessu máli í höfn. Ég sé á þessu stigi ekki ástæðu til þess að flytja um þetta ákveðna brtt. Ég vænti þess, að það finnist á þessu sú lausn, sem viðhlítandi er.

Herra forseti. Ég vil að endingu láta í ljós þær vonir mínar, að samgmn. þingsins viðurkenni algerlega sérstöðu Kópavogs í þessu efni og hv. alþm. skilji þann vanda, sem okkar bæjarfélagi er á herðar lagður með því, að í gegnum miðja byggð okkar liggur fjölfarnasta umferðaræð landsins.