27.04.1964
Efri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

217. mál, lögsagnarumdæmi Akraneskaupstaðar

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um stækkun á lögsagnarumdæmi Akraneskaupstaðar hef ég leyft mér að flytja eftir beiðni bæjarstjórnar Akraness. Eins og fram kemur í grg. fyrir málinu, er það talin óhjákvæmileg nauðsyn að stækka lögsagnarumdæmið, þar sem nú stendur yfir skipulagning á því landssvæði, sem næst er kaupstaðnum, og byggingarframkvæmdir fyrirhugaðar þar á næsta ári. Áður en unnt er að leyfa umræddar byggingarframkvæmdir, verður bæjarfélagið að leggja í mikinn kostnað, t.d. í sambandi við gatnagerð, raflögn, vatns- og skolpveitu og annað það, sem óhjákvæmilegt er talið í þessu sambandi.

Mestur hluti þess landssvæðis, sem hér um ræðir og fyrst verður skipulagt, eru jarðirnar Garðar og Kalmansvík. Báðar þessar jarðir eru eign kaupstaðarins, og hefur svo verið um langan tíma. Varðandi mestan hluta jarðarinnar Garða er það að segja, að allt frá 1. des. 1939 hefur verið í gildi samningur, sem gerður var á milli hreppsnefnda Ytri-Akraneshrepps og Innri-Akraneshrepps um það, að allt Garðaland að undanskildum býlunum á Sólmundarhöfða skuli tilheyra Akranesi á sama hátt og um eitt og sama lögsagnarumdæmi væri að ræða. Var þá samið um þær bætur, sem Ytri- Akraneshreppur skyldi greiða fyrir þá tekjurýrnun, sem Innri- Akraneshreppur var talinn verða fyrir vegna þessa samnings.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um það, að Akraneskaupstaður tekur að sér framfærslu allra þeirra þurfamanna, sem eru eða verða og framfærslurétt eiga eða mundu eignast í Innri-Akraneshreppi, ef lög þessi yrðu ekki sett, vegna fæðingar og/eða dvalar á landi því, sem skv. frv. þessu fellur undir lögsagnarumdæmi Akraness:

Þar sem frv. þetta nær yfir stærra landssvæði en áðurnefndur samningur nær til, er að sjálfsögðu í frv. gert ráð fyrir því, að Innri- Akraneshreppur fái bætur fyrir þá tekjurýrnun, sem hreppsfélagið nú verður fyrir og leiðir af l. þessum. Báðir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, telja eðlilegast, að bæturnar verði ákveðnar af gerðardómi, svo sem 3. gr. frv. felur í sér.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.