14.12.1963
Neðri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. samgmn. fyrir það, hversu fljótt hún hefur unnið að þessu máli og leitazt við að ná samkomulagi um meginatriðin. Og það er ljóst, að af þeim 30 brtt., sem fluttar eru af n., munu vera til bóta flestar af þeim og til nánari skýringa á frv., en aðrar veigaminni, sem vafasamt er talið að séu til bóta, munu a.m.k. ekki á neinn hátt vera til skemmda á málinu.

Það hefur komið hér fram í umr. tvenns konar skilningur á ýmsum atriðum í málinu og það er e.t.v. eðlilegt, og ég verð að segja það, að sá skilningur, sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm. (RA) á 30. gr., var mér algerlega framandi. í 32. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Árlega skal veita ákveðna fjárhæð til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri.“

Það er til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum, en ekki til þjóðvega, sem liggja að kaupstöðum eða kauptúnum. Það er ekki ætlazt til, að það sé til vega innan lögsagnarumdæmis utan við þéttbýlið, heldur eingöngu til gatnagerðar í þéttbýlinu, og þess vegna er enginn vafi á því, að þessi hluti, 11%, sem hér er nefnt í frv., á að koma kaupstöðum og kauptúnum til gagns við gatnagerðir innan þéttbýlisins. En sjálfsagt er, að þessi grein verði athuguð nánar fyrir 3. umr. málsins. Sömuleiðis 34. gr., sem einnig er óútkljáð, og það er sú prósenta, sem ganga skal til kauptúna og kaupstaða af því heildarfjármagni, sem til gatna- og vegagerðar á að fara. Í framsöguræðu minni við 1. umr. málsins lýsti ég því, að það væri til nánari athugunar, og sú skipting, sem er á fskj. með frv., er samkv. lauslegri áætlun vegamálanefndar, eins og hún sjálf segir: Þetta atriði mun einnig koma til nánari athugunar hjá hv. samgmn. við 3. umr. málsins, sömuleiðis 34. gr. varðandi það, sem hv. 1, þm. Reykn. gerði hér að umtalsefni áðan.

Það má vel vera, að hv. Alþingi gangi ekki þannig frá vegalögum, að ekki komi fram, þegar til framkvæmda kemur, einhver ágalli á lagasmíðinni. Ég hygg þó, að með tilliti til þess, hversu þetta mál er vel undirbúið af vegamálanefnd, verði þessi lög í heildinni að segja megi nákvæm og byggist á reynslu undanfarinna ára, en í framkvæmdinni kemur þá í ljós, hvort fljótlega þarf að sníða einhverja ágalla af, og það er vitanlega á valdi Alþingis að gera það, þegar reynslan er farin að sýna sig.

Hv. 5. landsk. þm. fann að því, að það væri með þessu frv. ekki tryggt, að öll þau gjöld, sem talað er um að renni til vegamála, þ.e. benzíngjaldið, gúmgjaldið og þungaskatturinn, verði það í framtíðinni, vegna þess að ekki sé nákvæmlega tilskilið í frv., að framlag ríkissjóðs verði a.m.k. það, sem hér er lagt til að þessu sinni, 47.1 millj. kr. Ég hygg, að það væri ákaflega erfitt að tryggja slíkt með vegalögunum einum, ef meiri hl. Alþingis vildi síðar hætta að láta ríkissjóð greiða til veganna. Ég hygg, að úr því að þessu sinni er ákveðið, að framlag ríkissjóðs skuli vera 47 millj., þurfi varla að óttast það, að sú upphæð verði lækkuð. Ef miða á við reynslu undanfarinna ára, er miklu líklegra, að sú upphæð verði hækkuð, og hygg ég því, að ótti þessa hv. þm. sé ástæðulaus.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar að þessu sinni. Það eru, eins og fram hefur komið, 3 greinar frv., sem talið er að þurfi að taka sérstaklega til athugunar við 3. umr. Það veit ég, að hv. samgmn. vill gera, og ég vænti þess, að það megi nú takast að fá lögin afgreidd fyrir jól, enda þótt það sé rétt, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að það er eiginlega meira en hægt var að búast við. En það hefur tekizt samstarf um þetta mál, ánægjulegt samstarf, hv. þm. vilja leitast við að fá það bezta út úr því og sníða þá ágalla af, sem komið hafa í ljós við nánari athugun málsins.