11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

Almennar stjórnmálaumræður

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Um það verður ekki deilt, að sú ríkisstj., sem tók við völdum fyrir fjórum og hálfu ári, hefur á valdatíma sínum notið hinna mestu góðæra frá náttúrunnar hendi, sem íslenzka þjóðin hefur lifað. Þessi ríkisstj. hefur því haft til ráðstöfunar meiri þjóðarframleiðslu en nokkur önnur og betri tækifæri en áður hafa gefizt til þess að bæta kjör almennings í landinu. Ef allt væri með felldu, ættu lífskjör alþýðu landsins, þess fólks, sem hefur með störfum sínum á sjó og landi skapað öll þessi verðmæti, að vera betri en nokkru sinni fyrr. Kaupmáttur launanna ætti að vera meiri en hann var, þegar framleiðslumagnið var miklum mun minna, enda er þá til lítils fyrir verkafólk að auka framleiðsluna, ef lífskjörin bötnuðu ekki að sama skapi. En ömurlegasta staðreyndin um stjórnarstefnuna, sú staðreynd, sem staðfestir, að núv. ríkisstj. gætir hagsmuna annarra en hins vinnandi fólks, er sú, að kaupmáttur tímakaupsins hefur ekki aukizt á þessum miklu góðærum sífellt meiri aflafengs, kaupmátturinn hefur ekki einu sinni staðið í stað, hann hefur rýrnað um 20% á þessum árum. Hann hefur rýrnað um sem svarar 41/2% á hverju einasta stjórnarári viðreisnarstjórnarinnar. Verkafólk fær nú um 20% minna af lífsnauðsynjum fyrir tímakaupið en það fékk, þegar núv. ríkisstj, tók við völdum fyrir 41/2 ári. Þetta er eina viðmiðunin, sem verkafólk getur tekið gilda. Sú speki stjórnarvaldanna, að hækkun á árslaunum, sem fæst með því móti einu að auka vinnutímann, sé kjarabót, er of auðsæ blekking til þess að hana þurfi að ræða.

Jafnhliða því sem viðreisnarstefnan hefur stórrýrt hlut hinna mörgu, sem grundvallarverðmætin skapa við framleiðslustörfin, hefur hún reynzt fær um að tryggja stóraukinn hlut hinna fáu, sem fá á eindæmi að ráðstafa þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir útflutningsvöruna. Þessir aðilar, innflutningsfyrirtækin í Reykjavík og bankarnir, hafa í tíð viðreisnarstjórnarinnar naumast haft undan við að koma stórauknum gróða sínum fyrir í byggingum stórhýsa um alla Reykjavík, en fjármunamyndun í byggingu verzlunar- og skrifstofuhúsa og í veitinga- og gistihúsarekstri hefur að magni til verið um 115% meiri á árunum 1960–62 en á árunum 1957–60, en íbúðarbyggingar voru hins vegar 1961 33% minni en 1959 og 1962 25 % minni.

Þessi þróun á valdatíma viðreisnarstjórnarinnar, rýrnandi kaupmáttur launa í góðærinu og stórkostleg gróðasöfnun einkafyrirtækja, er afleiðing stjórnarstefnunnar. Þetta er það, sem henni var frá byrjun ætlað að tryggja.

Það er ekki að ástæðulausu, að íslenzk alþýða hefur um árabil óttazt meirihlutavald íhaldsins. Það meirihlutavald hefur íhaldið á Íslandi nú haft um nokkurra ára skeið með auðsveipri þjónustu þm. Alþfl. Samtímis því sem með viðreisnarstefnunni hefur verið tryggt, að aukin þjóðarframleiðsla renni sem gróði til innflutningsfyrirtækja og til þeirra aðila, sem innangengt eiga í lánastofnanir og geta gert húsnæðisskort almennings að gróðalind fyrir sig, hefur viðreisnarstefnunni ekki síður verið beitt til þess að létta skattabyrðinni af þessum gróðafélágum, svo að gróðinn verði ekki hirtur af þeim aftur með sköttum og ráðstafað í almenningsþarfir. Til þess að skerða lífskjörin í góðærum hefur þannig þurft sérstaka stjórnarstefnu, viðreisnarstefnuna. Þeir, sem að henni hafa staðið, hafa stuðzt við það, sem þeir sjálfir kalla gengislækkunarleik. Með endurteknum gengislækkunum hefur vöruverð verið hækkað stórlega og ofan á það bætt nærri jafnháu tollaálagi í prósentum og fyrir var og þannig sópað stórkostlegu fé til ríkissjóðs. Síðan hefur verið bætt við það stórfelldum söluskatti á allar neyzluvörur. Innheimta tolla og skatta til ríkisins hefur hækkað svo gífurlega í tíð viðreisnarstjórnarinnar, að á þessu ári eru þeir ráðgerðir um 1750 millj. kr. hærri yfir árið á hvert mannsbarn í landinu. Með þessari skattheimtu eru ekki aðeins heimtar af almenningi stórauknar fjárhæðir í ríkissjóð, heldur hefur í grundvallaratriðum verið breytt sjálfri tilhöguninni á tekjuöflun ríkisins, þannig að skipulega og markvisst hefur verið unníð að því, að þeim, sem hafa fengið að rífa til sín síaukinn hlut af þjóðarframleiðslunni, er sem mest hlíft við að greiða af þeim gróða í skatta til ríkisins. Stjórnarstefnan hefur markvisst verið sú að lækka hlutfallslega þá skatta, sem greiddir eru í beinu hlutfalli við tekjur og eignir, en hækka neyzluskatta, sem greiddir eru í beinu hlutfalli við fjölskyldustærð, þannig að stærstu barnafjölskyldurnar borga mest. Þessar álögur, stórhækkuð aðflutningsgjöld og söluskattar, eru lagðar ofan á það vöruverð, sem endurteknar gengislækkanir hafa stórlega hækkað. Þetta eru þær álögur, sem almenningur er að sligast undir.

Á þessu ári eru tekju- og eignarskattar áætlaðir 255 millj. kr., en neyzluskattar. sem greiðast eftír fjölskyldustærð, 2300 millj. kr. Ef athuguð er þróunin í þessum efnum í tíð viðreisnarstjórnarinnar, sést, hvert hefur verið vísvitandi stefnt. Arið 1959 námu neyzluskattar 350 kr. fyrir hverjar 100 kr., sem á sama tíma voru greiddar í tekju- og eignarskatta, en árið 1964 hefur sú breyting orðið á, að fyrir hverjar 100 kr., sem greiddar eru í tekju- og eignarskatta, nema neyzluskattar ekki 350 kr., heldur um 910 kr. Neyzluskattar hafa því ekki aðeins margfaldazt í krónutölu, heldur ekki sízt hlutfallslega, miðað við beina skatta. Þetta er beinlínis gert til hagsbóta fyrir hina efnameiri á kostnað þeirra, sem stærstu fjölskyldurnar hafa og verða að greiða hæstu neyzluskatta án nokkurs tillits til efnahags. Þær fjölskyldur hafa orðið að taka á sig hlutfallslega mest af nærri 2000 millj. kr. hækkun á árlegum neyzlusköttum í tíð viðreisnarstjórnarinnar.

Alþýðuflokkurinn á Íslandi þykist stundum eiga eitthvað skylt við þá flokka, sem hafa farið með stjórn annars staðar á Norðurlöndum undanfarin ár. En þangað sækir ríkisstj. ekki fyrirmyndina að því, hvernig ríkistekna skuli aflað. Breytingin er ekki gerð til þess að nálgast þeirra aðferðir, öðru nær. Af hverjum 100 kr., sem Dönum er ætlað að greiða í samanlagða skatta til ríkisins á þessu ári, eru tekju- og eignarskattarnir áætlaðir 41 kr., en hér á Íslandi undir viðreisnarstjórn nema tekju- og eignarskattar kr. 9.90 af hverjum 100 kr., sem greiddir eru í samanlagða ríkisskatta. Rúmlega 90 kr. af hverjum 100 eru teknar með neyzlusköttum hér. Þannig hefur viðreisnarstjórnin skipulega beítt hinum margvíslegustu ráðum til þess að auka álögurnar á almenning, á sama tíma og hún gerir ráðstafanir til þess að hlífa auðfélögum og fyrirtækjum.

Alþfl. hefur stundum afsakað þessa nýju stefnu sína í skattamálum með því, að beinu skattarnir, tekju- og eignarskattarnir, séu að vísu réttlátastir, ef rétt væri talið fram til skatts, og hefur jafnan þótzt hafa mikinn áhuga á auknu skatteftirliti, gerði m.a. um það sérstaka samþykkt á siðasta flokksstjórnarfundi. Það reyndi á heilindi Alþfl, í þessu máli fyrir fáum dögum hér á Alþingi. Alþb. lagði fram till. um það, að til þess að tryggja réttari skattframtöl skyldu skattyfirvöld, auk þess sem þeim ber að athuga grunsamleg framtöl, vera skyld til þess að grandskoða fimm ár aftur í tímann 5% framtala allra fyrirtækja og 2% framtala allra einstaklinga í landinu skv. útdrætti, sem hagstofan sæi um, þannig að hvert fyrirtæki og hver einstaklingur ætti það jafnan yfir höfði sér, að hans framtal yrði tekið til sérstakrar, gagngerðrar rannsóknar og endurskoðunar fimm ár aftur í tímann. Hér reyndi á, hvort Alþfl. meinti nokkuð með tali sínu um aukið skatteftirlit. Þeim, sem fylgzt hafa með ferli Alþfl. og meðferð hans á gömlum stefnumálum, þarf naumast að skýra frá því. að Alþfl. greiddi atkv. gegn till. E.t.v. hefur Alþfl. verið að forða kaupmönnum og öðrum innheimtumönnum söluskatts frá eftirliti með þeirri innheimtu. Hún skiptir ekki svo litlu, þegar hlutur ríkissjóðs, þ.e.a.s. það, sem skilað er af söluskattinum, er áætlaður um 650 millj. kr. á ári. Ef kaupmenn og aðrir innheimtumenn halda eftir, hirða sjálfir 20%, svona til samræmis við önnur framtöl sín, nemur þeirra hlutur af söluskattinum rúmlega 16U millj. kr. á ári, og þó að þeir skiluðu 90%, þá verður þeirra hlutur rúmlega 70 millj. kr. á einu ári.

Þegar þróun síðustu ára er höfð í huga og minnkandi hlutur almennings á auknum þjóðartekjum er metinn, er naumast að ófyrirsynju, að félagsmenn verkalýðsfélaganna, þeir þjóðfélagsþegnar, sem færa grundvallarverðmætin í þjóðarbúið, séu orðnir úrkula vonar um, að viðreisnarstefnan geti fært þeim annað en áframhaldandi rýrnun lífskjara og aukinn vinnuþrældóm. Barátta verkalýðssamtakanna á stjórnartíma viðreisnarstjórnarinnar, sú barátta, sem málgögn ríkisstj. hafa reynt að stimpla sem þjóðhættulega starfsemi, hefur ekki beinzt að því að heimta, að verkalýðurinn í landinu fái að raka saman gróða, eins og stórfyrirtækin og braskararnir hafa gert á þessu tímabili, heldur hefur hún einungis beinzt að því, að í góðærinu fái verkafólk að þokast nær því að geta unnið fyrir brýnustu lífsnauðsynjum með því að vinna í átta klukkustundir hvern rúmhelgan dag allt árið um kring. Það er því fullkomlega eðlilegt, að verkafólk um allt land spyr í dag: Er ekki eitthvað bogið við þá stjórnarstefnu, sem færir framleiðslustéttunum rýrnandi lífskjör, samtímis því sem þær framleiða meiri verðmæti en þær hafa nokkru sinni áður gert?

Enginn getur heldur efazt um það, að því verkafólki, sem býr við 20% rýrari kaupmátt launa en fyrir 41/2 ári, ætla stjórnarvöldin ekki meiri skammt en því er nú skammtaður og þykir hann meira að segja of stór. Morgunblaðið segir í leiðara í fyrradag, að kaupgjald hér hafi verið spennt úr hófi fram, þ.e. að verkamannakaup sé of hátt í dag, og í sama leiðara er haldið áfram hinni sömu föðurlegu umhyggju fyrir verkafólki, sem einkennt hefur íhaldið allt frá því, að það barðist gegn stofnun verkalýðsfélaganna í upphafi af einskærri umhyggju fyrir verkafólki. í þeim sama leiðara er enn endurtekið: Kjarabætur geta einungis byggzt á framleiðsluaukningu. — Það er ekki í fyrsta sinn, sem þessi föðurlega áminning heyrist: Bíðið með kaupkröfurnar, þar til framleiðslan hefur aukizt. — Og vissulega er það rétt að auk þess sem réttlátari skipting þjóðartekna mundi færa verkafólki kjarabætur, þá á aukin framleiðsla að vera grundvöllur kjarabóta, en s.l. 41/2 ár sanna, svo að ekki verður um villzt, að ríkisstj. eins og sú, sem nú situr, getur með stefnu sinni komið í veg fyrir, að jafnvel stórfelld framleiðsluaukning lendi hjá þeim, sem skapa hana. Viðreisnarstjórnin hefur meira að segja getað séð um, að hlutur verkafólks minnkaði á tímum mikillar framleiðsluaukningar.

Hvað er það, sem hefur gerzt s.l. ár í atvinnulífi landsmanna? M.a. það, að þau sílarsumur, sem menn biðu árangurslaust eftir í hálfan annan áratug, hafa komið eitt af öðru, hvert öðru meira. Auk þess hafa bætzt við algerlega nýir framleiðsluþættir, mikil vetrarsíldveiði sunnanlands og þorskveiði með herpinót. Var þá ekki kominn tími til, að verkalýðurinn hlyti nú viðbót við þann hlut, sem hann áður hafði? Eftir þessu hafði honum verið sagt að bíða. Eða höfnuðu þessi auknu verðmæti e.t.v. annars staðar? Staðreyndin er sú, að eftir öll þessi miklu síldarsumur og vetrarsíldveiðina miklu, eftir alla framleiðsluaukninguna á 41/2 árs valdatímabili viðreisnarstjórnarinnar, býr verkafólk nú við það, að kaupmáttur launa er ekki hærri en hann var, ekki jafn og hann var, heldur 20% rýrari en hann var eftir 15 ára algert síldarleysi. Hver skyldu kjörin vera í dag, ef síldarleysið hefði haldizt? Og enn fær Morgunblaðið sig til að segja, síðast á laugardaginn var, að verkafólk skuli bíða eftir framleiðsluaukningu, hún sé grundvöllur kjarabóta. Það þarf ekki að bíða eftir henni. Hún hefur komið fram. En það hefur svo sannarlega þurft sérstaka stjórnarstefnu til þess að koma í veg fyrir, að verkafólk héldi sínum hlut af þeim þjóðartekjum, sérstaka stefnu til þess að tryggja, að hlutur þess beinlínis minnkaði, á sama tíma og framleiðslan óx. Þessi stefna er það, sem kallað er viðreisnarstefna. Og stjórnarvöldin hafa beitt margvíslegum aðferðum til að knýja fram þennan árangur. Alveg sérstaklega hefur hún verið lagin við að notfæra sér, að almenningur vill leggja sitt af mörkum til þess að stöðva verðbólguna. Með stöðvun hennar að skálkaskjóli hafa stjórnarflokkarnir með hverri aðgerðinni eftir aðra þrýst kjörum verkafólks neðar og neðar, án þess að þess hafi vitaskuld sézt nokkur merki, að sú verðbólga, sem er gróðalind stórgróðamanna, hafi látið hið minnsta undan síga, heldur hið gagnstæða.

Fyrsti atburðurinn í sögu þeirrar baráttu, sem ríkisstj. hefur háð undir því yfirskini að stöðva dýrtíðina með það að hinu eina raunverulega markmiði að færa til tekjur í þjóðfélaginu á kostnað verkafólks, var sá, að ríkisstj. Alþfl. lækkaði laun verkamanna um, 600–500 kr. á mánuði veturinn 1959, og var því haldið fram, að með því ætti að stöðva verðhækkanir í eitt skipti fyrir öll. Þessi fórn almennings varð að sjálfsögðu til einskis annars en að auka gróða atvinnurekenda, því að með gengislækkuninni 1960 hækkaði verðlag meir en dæmi voru til áður. Gróðastéttirnar fengu því hvort tveggja í senn: beina kauplækkun verkafólks og svo verðbólguna sína, sem tryggði þeim stórfellda eignaaukningu. Þá var aftur komið til verkafólks og sagt: Nú þarf enn að gera ráðstafanir til að berjast gegn verðbólgunni, og þó að það hafi mistekizt að stöðva hana með því að lækka kaupið ykkar, þá erum við núna búnir að finna bölvaldinn. Það er vísitöluuppbótin, sem þið fáið á kaupið. Nú tökum við hana af, þá stöðvast verðbólgan sjálfkrafa. — Og enn var vilji almennings til að stöðva verðbólguna misnotaður, og enn bætti gróðastéttin sinn hlut. Nú fékk hún hvort tveggja: afnám vísitöluuppbótar á laun og þar með frjálsar hendur til verðhækkana og aukna verðbólgu, aukinn gróða.

Það eru því engin undur, þótt verkafólk taki nú með tortryggni tilmælum stjórnarflokkanna um enn frekari fórnir og enn frekari bið eftir framleiðsluaukningu, þegar haft er í huga, að allar fórnir almennings til þess að stöðva verðbólguna hefur ríkisstj. misnotað til þess að auka hlut gróðastéttanna, en látið verðbólguna lönd og leið. Og þrátt fyrir stórfellda framleiðsluaukningu hafa lífskjörin rýrnað. Verkafólk þarf ekki að bíða eftir neinni framleiðsluaukningu til að fá bættan hlut. Það hefur þegar skapað hana í ríkum mæli s.l. ár. Það á aðeins eftir að fá sinn hluta af henni, og þeir samningar, sem verkalýðssamtökin eiga nú í við ríkisstj., hljóta að snúast um það, að hún standi skil á þeim hlut. Og í þeim samningum hlýtur verkalýðsstéttin að gera kröfu til þess, að auk úrbóta í launamálum verða gerðar sérstakar ráðstafanir í húsnæðismálum til þess að bæta úr því neyðarástandi, sem þar er orðið.

Aðstaða almennings til þess að eignast eigið húsnæði hefur stórlega versnað í tíð núv. ríkisstj. Byggingarkostnaður íbúðar af meðalstærð hefur s.l. fjögur ár hækkað um nálega 250 þús. kr. Á sama tíma hafa lán húsnæðismálasjóðs verið hækkuð um 50 þús. kr. í 150 þús. kr., og eftir þeim bíða nú á milli 2000 og 3000 manns. Hækkun á lánum húsnæðismálastjórnar í tíð viðreisnarstjórnarinnar dugir því ekki fyrir 1/5 hluta þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á byggingarkostnaði, og allt lánið aðeins fyrir 3/5 hlutum hækkunarinnar einnar. Þegar á það er litið, að hámarkslán frá húsnæðismálasjóði dugir ekki fyrir meiru en broti af þeirri hækkun, sem orðið hefur á byggingarkostnaðinum í tíð viðreisnarstjórnarinnar, og ekkert er lánað upp í 2/5 hluta hækkunarinnar og ekkert til greiðslu á þeim byggingarkostnaði, sem á0ur var, og þá voru lánaðar 100 þús. kr. til bygginga, þá er auðsætt, að húsnæðismálasjóðslánin, eins og þau voru fyrir tíð viðreisnarstjórnarinnar, hefur hún í rauninni afnumið með öllu, og nú er einungis lánað brot af beim hækkunum, sem ríkisstj. hefur sjálf valdið með stefnu sinni. Þó er vandi húsbyggjenda enn meiri en þessar tölur um byggingarkostnaðinn sýna. því að svo óheyrilegur sem byggingarkostnaðurinn er, þá eiga húsnæðisleysingjar í Reykjavík a.m.k. og sífellt víðar á landinu engan kost á því að eignast íbúð á kostnaðarverði, heldur verða þeir til viðbótar að borga okurgróða til þeirra, sem fá byggingarlóðir og hafa aðgang að lánsfé. Það er ein ömurlegasta staðreynd húsnæðismálanna í dag, að af því fé, sem húsnæðismálastjórn lánar til Reykjavíkur a.m.k. og jafnvel víðar, fer bróðurparturinn ekki til þess að greiða byggingarkostnað íbúðanna, heldur sem gróði beint í vasa þeirra, sem selja íbúðirnar. Það er því mikið hagsmunamál almennings, að í þessum málum verði tekin upp algerlega ný stefna, sem tryggi, að almenningur geti eignazt íbúðir með viðráðanlegum kjörum og að allur einkagróði hverfi af verði íbúða. Alþb. hefur mótað till. sínar í þessum efnum og mun leggja þær fram á Alþingi þessa dagana.

Alþýða landsins hefur nú um langt skeið séð þjóðfélagskerfið engjast í stjórnleysi sínu og skipulagsleysi, þegar gróðaöflin ganga lausbeizlaðri en nokkru sinni fyrr og skófla upp gráðanum í þeim umsvifum og athöfnum, sem eru minnst þjóðarnauðsyn, á sama tíma og þeir, sem vinna framleiðslustörfin, stynja undir síauknum byrðum og versnandi lífskjörum, jafnhliða því sem þeir stórauka þjóðartekjurnar með sífellt lengri vinnudegi. Endalaus bjargráð, viðreisnir og hvað þær eru nú kallaðar, tilraunirnar til þess að lappa upp á hina kapítalistísku endileysu, koma að engu haldi, en sífellt eykst gróði hinna ríku og skerðast kjör framleiðslustéttanna. Einungis lausn sósíalismans, sameign allrar alþýðu á þeim framleiðslutækjum, sem hún vinnur við, og skipulagning allra framleiðsluþátta og þjónustu, getur tryggt henni réttlátan afrakstur vinnu sinnar, og þá leið fara sífellt fleiri þjóðir í heiminum, þ. á m. margar þeirra, sem eftir langa baráttu hafa nýlega öðlazt frelsi undan áþján nýlenduvelda og eru nú að byggja upp sitt þjóðskipulag. Þessum þjóðum blöskrar stjórnleysi og sóun kapítalismans og það, hvernig því hagkerfi er hvarvetna beitt atvinnurekendavaldinu í hag á kostnað framleiðslustéttanna, og þær velja í æ ríkara mæli leið sósialismans.

Rýrnandi lífskjör framleiðslustéttanna á Íslandi í mestu góðærum, sem komið hafa í sögu þess, ættu a.m.k. að sýna þeim fram á, að það er meira en lítið bogið við það hagkerfi, sem við nú búum við. Uppgjöf viðreisnarstefnunnar, ráðleysið og skipulagsleysið og kjararýrnun almennings í uppgripaárum ætti að færa fleiri alþýðumönnum heim sannindin um fánýti þess hagkerfis, sem miðast einungis við hagsmuni gróðastéttanna í landinu.

Við vitum það frá fyrri árum, og sums staðar á Íslandi fá menn að reyna það enn í dag, hvert hlutskipti kapítalistískt hagkerfi ætlar verkafólki. Þegar eitthvað bjátar á, aflsleysi eða önnur óáran, þá er hlutskiptið atvinnuleysi og örbirgð. Það er því full ástæða til að spyrja í dag: Hvers virði er alþýðu manna það hagkerfi, sem þannig hefur reynzt, þegar á bjátar, og ræður svo ekki einu sinni við hin mestu góðæri, sem þjóðin hefur lifað frá upphafi byggðar í landinu.