11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

Almennar stjórnmálaumræður

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Það er víst siðvenja við hinar svokölluðu eldhúsdagsumræður að binda sig ekki svo mjög við ákveðin mál, og það, sem ég segi hér, er aðeins ofan af því, sem er efst í huga mínum þessa dagana við þessi þingslit, en það verður ekki margt sagt á tíu mínútum og þess vegna ekki hægt að rekja nein mál til róta.

Um nýju vegalögin, sem afgreidd voru endanlega fyrir fáum dögum, þ.e.a.s. áætlunina, segir fjvn, þingsins í áliti 5. maí og skrifar öll undir það álit, menn úr öllum flokkum: „Með nýju vegalögunum hafa stórauknar tekjur verið tryggðar til samgöngubóta á landi. Er ástæða til að fagna þeirri þróun.“

Framlög til nýbygginga vega og brúa nær tvöfaldazt nú frá því, sem var í fyrra, og nýtt framlag kemur að auki til vega í kaupstöðum. Fjárráð sýsluvega þrefaldast. Og er það nú fyrst, sem löggjafinn viðurkennir rétt allra býla í landinu til að fá akveg.

Á þessu þingi var samþ. styrkur allmyndarlegur til súgþurrkunar í hlöðum og aukajarðræktarstyrkur fyrir jarðir, sem hafa tún frá 15–20 ha. Áður var þess konar styrkur greiddur til býla, sem hafa tún innan við 15 ha. skv. breyt., sem gerð var á l. á næstliðnu þingi. Nær nú þessi aukajarðræktarstyrkur til um 3800 jarða í landinu, og er áætlað, að sú viðbót, sem nú kemur, nemi um 20 millj. alls.

Útlán stofnlánadeildar landbúnaðarins urðu 103 millj. 1963. Til samanburðar má geta þess, að útlán byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs 1959 urðu 42.6 millj. Auk stofnlánadeildarlánanna lánaði veðdeild Búnaðarbankans til jarðakaupa 5.6 millj., eða 100 þús. kr. út á jörð. Var það mikil breyting frá því, sem áður var, en þá var hámark lána úr veðdeild 35 þús. og aðeins örfá lán á ári. Breytingin, sem gerð var á lögunum 1962, gerði þetta mögulegt.

Fleiri og fleiri láta nú í ljós ánægju sína yfir því að hafa nú nokkurn veginn að föstu að ganga um lán út á nytsamlegar framkvæmdir í sveitum. En úr því að ég er kominn að bæjardyrum Búnaðarbankans, er ókurteisi, býst ég við, að minnast ekki á gagnrýni þá, sem tvö atriði í stofnlánadeildarlögunum hafa sætt, vaxtahækkunin og 1% gjaldið.

Auðvitað er engum sérlega ljúft að leggja á skatta. Er nauðsyn kallaði á að þessu sinni, og um vaxtahækkunina segir réttilega, að því er ég hygg, í Árbók landbúnaðarins 1962, á bls. 118: „Svo undarlegt sem það sýnist vera, ætti bændastéttin í heild frekar að græða en tapa á vaxtahækkun stofnlánanna.“ Á rítstjórinn, Arnór Sigurjónsson, þar við, að bændur fái hækkun vaxtanna vel endurgreidda í hækkuðu búvöruverði, og enginn mun bregða Arnóri um óvilja til bænda, greindarleysi, þekkingarskort né hlutdrægni af aðdáun á ríkisstj. né stuðningsmönnum hennar. Og hafi einhverjir bændur staðið í þeirri meiningu 1960, 1961 og 1962, að steiktar gæsir kæmu fljúgandi ofan af himinfjöllum að setjast í hlaðbrekku Búnaðarbankans, sem þá var með öllu bjargarlaus, þá er það mesti miskilningur. Það þurfti mikið átak að gera og mörg öfl að sameina, og 75% gjaldinu á neytendur hefur verið svo vel tekið, að þaðan hefur hvorki heyrzt stuna né hósti. Það er til virðingar þeim, sem kjötið kaupa og mjólkina, sem skilja, að fjáröflun í einn þarflegan sjóð kemur ekki af engu. Flestir beztu bændur skilja þetta auðvitað líka og telja sér jafnvel sóma að því að leggja steina í góða byggingu fyrir sjálfa sig. En það hefur líka heyrzt, að einhver búnaðarsamtök vilji kaupa sér lögfræðinga fyrir 200–300 þús. kr. til að reyna að kippa fjárhagsstoðum undan Búnaðarbankanum, 1% gjaldinu og væntanlega þá um leið framlagi ríkísins, sem lagt er á móti, og þá einnig sjálfsagt framlagi neytenda. Þetta finnst mér álíka ótrúlegt og Njáli heitnum á Bergþórshvoli fannst fregnin um vígaferli Þórðar leysingjasonar, sem hann lét segja sér þrisvar, áður en hann trúði. En líklega er þetta bara eins konar fótboltaleikur.

Verðlagsmál bænda eru í höndum Stéttarsambandsins innan ramma framleiðsluráðslaganna og svo fulltrúa í sex manna nefnd. Tvö s.l. haust hefur mikið þokað fram til leiðréttingar á verðlagsgrundvellinum, frá því að búnaðarþing gaf eftir sín 9.4% 1944, en þar með segi ég þó ekki, að bændur fáí nógu hátt verð fyrir sínar vörur. Þar að auki er svo verðtryggingin, sem nam 1963 130 millj. kr.

Í ár fá bændur á samlagssvæði KEA 3 aura yfir grundvallarverð, og allir bændur í landinu munu nú fá sem næst grundvallarverð fyrir vöru sína, síðan verðtryggingin kom til sögunnar, en aldrei áður.

Okkar búnaðarmálastefna hefur um 30 ára skeið miðað að því að skapa einyrkjabúskap á smájörð með um 5 ha. tún og húsakost í hæfi við það. Á þessu verður að verða breyting, og eru það mikil verkefni, sem þar liggja fyrir fram undan. Allir þurfa að skilja, öll landsins börn, ekki vegna bænda sérstaklega, en vegna alþjóðar, vegna heilbrigði, vegna framtíðar, vegna velferðar þjóðfélagsins, að sú þjóð, sem ekki stendur föstum fótum á gróandi jörð og vaxandi grasrót, verður engin þjóð áður en varir. Hana vantar rótina. Að ræktun verður að vinna í vaxandi mæli, raflögnum og vegagerðum og öðrum undirstöðumálum hinna dreifðu byggða. Að þessum málum hefur landbrh. unnið af dugnaði og forsjálni. Auðvitað er enn eftir margt ógert á þessum sviðum. Þau verkefni eru ótæmandi.

Herra forseti. Ég sé, að tíma mínum er að ljúka, og get því ekki drepið á nærri allt, sem ég hefði viljað á drepa, bæti aðeins við að lokum: Það er engin ástæða til að vera svartsýnn á afkomumöguleika íslenzkra sveita. Möguleikar blasa þar við í öllum áttum. Barlómur sá, sem Björn á Löngumýri gerði að umtalsefni í skömlegu erindi um daginn og veginn fyrir skömmu, er stórhættulegur og dregur máske kjark úr fleiri mönnum en flesta grunar. Þess vegna tek ég undir þá þörfu ábendingu og undirstrika hana rækilega. Skal ég svo ekki um það dæma, í hvaða átt Björn hefur beint skeytum sínum einkanlega, en sumum hefur dottið í hug, að það hafi verið blekbytturnar í Edduhúsinu. — Góða nótt.