11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Meðal þeirra fyrirheita, er stjórnarliðar gáfu þjóðinni, þegar þeir voru að tryggja sér fylgi hennar, svo að þeir næðu að komast í valdastóla, og fyrst eftir að þeir voru þangað komnir, voru fyrirheitin um lækkun fjárlaga, minni álögur og sparnað í ríkisrekstrinum. Um það, hvernig til hefur tekizt um framkvæmd á þessum fyrirheitum, vil ég ræða hér í kvöld, enda þótt það sé ekki að skapi þeirra stjórnarsinna að rifja upp þeirra fyrri fyrirheit.

Mál mitt vil ég hefja með því að færa fram sannanir þess, að fyrirheitin hafi verið gefin, með því að vitna í ummæli tveggja ráðherra, með leyfi hæstv. forseta.

Hinn 20. okt. 1958 komst hæstv. ráðh. Emil Jónsson þannig að orði við 1. umr. fjárl.: „Fjárlög hvers árs hafa sífellt verið hærri en ársins á undan. Þessi þróun er uggvænleg og stefnir greinilega í fullkomið óefni.“ Og hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, komst þannig að orði í fjárlagaræðu sinni 24. okt. 1961: „Undanfarna áratugi hafa útgjöld fjárlaga hækkað ár frá ári, svo að það hafa þótt litlar fréttir, þó að lögð væru fram á þingi hæstu fjárlög í sögu þjóðarinnar. Við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1961 var reynt að snúa inn á aðra braut og freista þess að færa útgjöld niður. 14 eru útgjaldagreinar fjárlaga. Þessi viðleitni hefur borið þann ávöxt, að 10 af 14 útgjaldagreinum fjárl. lækka. Þótt ekki sé hér um stóra fúlgu að ræða, miðað við heildarupphæð fjárl., er það stefnubreytingin, sem skiptir máll. Risabygging ríkisins verður ekki endurskoðuð og endurskipulögð á nokkrum mánuðum, en mestu varðar, að starfið sé hafið með hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari.“

Tveimur mánuðum eftir að formaður Alþfl. flutti ræðu þá, er ég vitnaði hér til, hófst stjórnarsamstarf Alþýðu- og Sjálfstfl. og hefur staðið síðan, eins og kunnugt er. Hæstv. ráðh. Emil. Jónsson og flokkur hans hafa því ráðið með samstarfsflokki sínum stefnu þeirri, sem fylgt hefur verið við afgreiðslu fjárl. undanfarin ár, og hæstv, fjmrh: hefur að sjálfsögðu haft forustu um að móta stefnuna. Og nú skulum við virða fyrir okkur, hvernig til hefur tekizt með að snúa af braut hinnar uggvænlegu þróunar hjá mönnunum, sem sögðust beita hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari.

Fjárlagafrv. fyrir 1959, sem skaut formanni Alþfl, skelk í bringu á haustnóttum 1958, var að fjárhæð 900 millj. kr., en nú, þegar viðreisnarmenn hafa setið á valdastólum í 5 ár, hafa fjárl. ekki lækkað, svo sem heitið var, heldur hækkað í að vera 3100 millj. kr., þegar tekjur skv. vegal. og hækkun söluskattsins til nýja uppbótakerfisins eru teknar með.

Stjórnarliðar, sem töluðu fjálglega um, að fjárlagafrv., sem var 900 millj, kr., stefndi málefnum þjóðarinnar í fullkomið óefni vegna þess, hve hátt það væri, — menn, sem boðuðu endurskoðun og endurskipulagningu á ríkiskerfinu, þar sem stefnt yrði að lækkun fjárlaga, og lýstu því jafnframt, að sú lækkun væri hafin, hafa nú meir en þrefaldað fjárl. á 5 árum og tvöfaldað það á tveimur. Og þeir stjórnarsinnar, sem töluðu með vandlætingu um, að á þjóðina væru lagðar drápsklyfjar af sköttum og tollum, þegar hún greiddi 700 millj. kr., eins og hún gerði 1955, þegar reiknað er með tekjuöflun útflutningssjóðs vegna niðurgreiðslu á vöruverði, þeir hika nú ekki við að innheimta hjá þjóðinni í sköttum og tollum ca. 2700 millj. kr. eða nærri 4 sinnum hærri upphæð en þá var gert. Þrátt fyrir þessa staðreynd, sem er fullkomin andstæða fyrirheitanna, er nú ekki verið að ræða um það af þeirra hendi, að þróunin sé uggvænleg í fjármálum ríkisins, skortur sé á hentugum vinnubrögðum og réttu hugarfari. Fjarri er það þeim, heldur hafa þeir uppi hávært tal um það, að þeir séu að lækka skatta og tolla á þjóðinni, af því að þeir eru að skila aftur nokkrum hluta þeirra beinu skatta, sem dýrtíðin hefur fært þeim frá 1960, svo að þeir verði ekki algerlega óbærilegir, en gera hvort tveggja í leiðinni að lækka persónufrádráttinn frá því, sem hann var þá, þar sem hækkun hans núna er aðeins 30%, á sama tíma sem vísitala framfærslukostnaðar hækkar um 55% og vísitala vöru og þjónustu um 74%, og gera skattstigann á meðaltekjum hærri en hann áður var, en halda honum að sjálfsögðu óbreyttum á hátekjum. Tollalækkun þeirra í fyrra var á þann veg, að vísitöluvogin mældi ekki svo lítinn skammt.

Ekkert sannar þó betur, hvað fjarri þetta skattalækkunartal er raunveruleikanum, en toll- og skattheimtan sjálf, sem er svo, að óbeinir skattar hafa hækkað um allt að 40 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu síðan 1958. Ekki er að undra, þó að þjóðin reynist nokkuð baldin við að meðtaka þennan sannleika.

Enda þótt þær upplýsingar, sem ég hef hér gefið um álögur ríkisstj. á þjóðina skv. fjárl., segi sitt um stefnu hennar, er sagan þó ekki öll sögð. Þar má því við bæta, að ýmsar þjónustustofnanir ríkisins, eins og póstur og sími, ríkisrafveiturnar, ríkisspítalarnir, Skipaútgerð ríkisins, hafa hækkað greiðslu fyrir þjónustu sína um allt að 100%, m.a. vegna þess, að ríkissjóður hefur þrátt fyrir sínar háu tekjur lagt minna fé til. þeirra en áður var. Auk þess eru svo álögur eins og bændaskatturinn, útflutningsgjöld af sjávarafurðum, ríkisábyrgðasjóðsgjald o.fl. o.fl., sem komið hafa til á þessu stjórnartímabili.

Það er ljóst af því, sem ég hef nú sagt, að fyrirheitin um lækkun fjárlaga áttu ekki að gera annað en færa stjórnarliðinu aukið fylgi hjá þjóðinni og gleymast svo. Enda þótt fæsta muni hafa dreymt um lækkun fjárl. í þeirra höndum, hefur þó enn færri grunað, að það álöguflóð mundi eiga sér stað, sem síðan hefur verið staðreynd.

Þegar álögur á þjóðina vaxa svo sem raun ber vitni um, skiptir hana mestu, á hvern hátt fénu er varið. Það hefur svo til tekizt hjá ríkisstj., að aukinn rekstrarkostnaður ríkisins og dýrtíðin gleypir þar mest. Hins vegar hefur hlutfallslega minna verið varið til uppbyggingar í landinu og til stuðnings fyrir atvinnuvegina en áður var. T.d. ætti nú að vera varið til nýrra raforkuframkvæmda yfir 70 millj. kr. í staðinn fyrir 42 og til atvinnubótasjóðs 45 millj. kr. í stað 10, miðað við sama hlutfall fjárl. og var 1958.

Vegaframkvæmdir voru að komast í algera sjálfheldu vegna fjárskorts, þó að ríkissjóður hafi haft ca. 200 millj. kr. í hreinar tekjur af umferðinni og innflutningi bifreiða 2 s.l. ár. 100 millj. kr. nýju skattarnir, sem voru lagðir á þjóðina og samþ. voru í vetur af öllum þm., sanna betur en nokkuð annað, að gagnrýni okkar Framsóknarflokksmanna um aðgerðarleysi ríkisstj. í vegamálum var á rökum reist og úrbóta var sannarlega þörf.

Ekkert sýnir þó betur hug hæstv, ríkisstj. til uppbyggingar í landinu en það að láta liðsmenn sína samþ. handa sér heimild til þess að stöðva á árinu 1964 verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins og framkvæmdir þær, sem njóta fjárhagslegs stuðnings ríkisins skv. fjárl. Þetta var gert mánuði eftir að Alþingi hafði samþ. fjárveftingarnar, á öðru ári framkvæmdaáætlunarinnar, sem mest var gumað af fyrir kosningarnar í fyrra, en er nú litið rætt um, og um leið og 300 millj. kr. nýjum álögum var bætt á þjóðina með hækkun söluskattsins til viðbótar langhæstu fjárl. í sögu hennar.

Hver er tilgangurinn með þessu álöguæði ríkisstj.? Hann er m.a. sá að safna greiðsluafgangi, svo að hundruðum millj, nemur, svo sem átt hefur sér stað 2 s.l. ár, en á þó að vera í ríkasta mæli á yfirstandandi ári, þegar búið er að stöðva framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga í skólamálum, sjúkrahúsbyggingum, hafnarmálum og e.t.v. vega- og raforkumálum, svo að þeir fjársterku, sem í náðinni eru hjá hæstv. ríkisstj., eigi auðveldari aðgang að vinnuafli og fjármagni til þess að koma sínum fjárfestingum áfram fyrir næstu gengislækkun.

Sparnaður í ríkisrekstri var eftirlætisumræðuefni stjórnarsinna á fyrstu valdarirum þeirra, þótt það tal sé nú af eðlilegum ástæðum fallið niður. Vil ég máli mínu til sönnunar nefna dæmi um sparnaðarfyrirheitin og þá fyrst, með leyfi hæstv. forseta, vitna í ræðu tveggja ráðherra.

Guðmundur Í. Guðmundsson sagði í ræðu 24. apríl 1959: ,.En af þeirri reynslu og þeim kynnum, sem ég hef haft af þessum hlutum, er það sannfæring mín, að mikið megi spara í ríkisbákninu.“

Og hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, lýsti sparnaðaráhuga sínum í sinni fyrstu fjárlagaræðu m.a. á þessa leið: „Og það ætla ég, að allir góðir Íslendingar séu mér sammála um, að nauðsynlegt sé að hafa sívökult auga á öllu því í rekstri ríkisins, er til sparnaðar má horfa, bættra vinnubragða og aukinnar hagsýni.“

Til viðbótar þessum yfirlýsingum minni ég á, að í tveim fyrstu fjárlagaræðum hæstv. fjmrh. og nál. meiri hl. fjvn. frá fyrstu viðreisnarárunum er að finna 59 tölusett sparnaðarfyrirheit.

Nú spyrja allir góðir Íslendingar hæstv. fjmrh. um árangurinn af bættum vinnubrögðum og aukinni hagsýni, og þeir spyrja hæstv. ráðh. enn fremur, hvað hans sívökula auga hafi fest á, er til sparnaðar hafi orðið og megi verða, og í framhaldi af þessu leyfi ég mér að fletta upp í sparnaðarfyrirheitunum og spyrja um framkvæmdir á örfáum þeirra.

1) Hefur verið fækkað sendiráðum á Norðurlöndum? 2) Hefur verið dregið úr opinberum veizlum? 3) Hefur verið dregið úr tölu sendimanna á alþjóðaráðstefnum og slíkum ferðum verið fækkað? 4) Hefur verið fækkað bifreiðum ríkisins? Kostnaðurinn hefur hækkað um 4 millj. síðan 1958. 5) Hefur breytingin á framkvæmd skattalaganna leitt til sparnaðar? 6) Hafa verið lagðar niður launaðar nefndir? Kostnaður við þær hefur tvöfaldazt frá 1958 til 1962. 7) Mistókst sparnaðurinn við annan kostnað ráðuneytanna? Hann hækkaði um 4 millj. frá 1958 til 1962.

Um framkvæmd á sparnaðarfyrirheitunum er svipaða sögu að segja og lækkun fjárl. Framkvæmdin hefur farið í öfuga átt við fyrirheitin. Í staðinn fyrir sparnað hefur komið útfærsla á ríkiskerfinu. Skulu hér nefnd örfá dæmi: Efnahagsstofnunin, innheimtustofnunin, almannavarnir, saksóknaraembættið, bankaeftirlit, fjölgun sakadómara, borgardómara og borgarfógeta. Þessi fáu dæmi verða látin nægja að sinni. Aukinn kostnaður þessara stofnana og embætta og útfærsla annarra nemur stórum fjárhæ um. Má geta þess, að á einu slíku embætti, ar sem embættinu hafði verið skipt í 4, hækka húsaleiga, ljós og hiti á fjárl. 1964 um 21/2 millj. frá fyrra ári.

Herra forseti. Í ræðu minni hér að framan hef ég lýst fyrirheitum hæstv. ríkisstj. um lækkun fjárl., minni álögur og sparnað í ríkisrekstri og sýnt fram á, að framkvæmdin er á annan veg. Hún er aukinn rekstrarkostnaður ríkissjóðs, fleiri kr. af þegnunum teknar í skattheimt sparnaður fyrirfinnst enginn, hærri fjárl. en nokkru sinni fyrr.

Afleiðing þessarar skattheimtu ríkisstj, er ásamt gengislækkunum og vaxtaokrinu það dýrtíðarflóð, sem nú flæðir yfir og ógnar efnahagskerfi þjóðarinnar.

Ekkert nema alger stefnubreyting getur leyst þann vana í málefnum þjóðarinnar, sem nú er við að fást. Til þess að það megi verða, verður þjóðin sjálf að taka í taumana og fela öðrum að leysa þau verkefni, sem hæstv. ríkisstj. þóttist geta leyst, en reynslan hefur sannað, að henni hafi gersamlega mistekizt. — Góða nótt.