11.05.1964
Sameinað þing: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

Almennar stjórnmálaumræður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Dreifing fjármagnsins hefur gagnger áhrif í þjóðfélaginu, en þetta hefur ríkisvaldið í sinni hendi. Stjórnarstefnan er því áhrifarík gagnvart atvinnuvegunum og hag hvers heimilis. Þegar meta á aðstöðu atvinnuveganna, er rétt að gera sér grein fyrir þremur atriðum:

1. Hvers leitar vinnuaflið?

2. Hvar á landinu eru verðhækkanir mestar á fasteignum, en það fylgir að jafnaði eftirspurn?

3. Í hvaða atvinnugrein er helzt leitað eftir stofnun nýrra atvinnufyrirtækja?

Þegar litið er á landbúnaðinn í þessu sambandi, þá verða svörin skýr og ótvíræð. Landbúnaðurinn dregur ekki að sér vinnuafl um þessar mundir. Í þess stað fækkar fólki víða í sveitum.

Verðhækkanir fasteigna eru yfirleitt minni úti í sveitum heldur en í þéttbýlinu, og í sumum héruðum eru jarðir lítt seljanlegar, nema hlunnindi séu í boði.

Það er eitt af meginatriðum stjórnarstefnunnar, að opnaðar séu leiðir til þess, að fjármagnið leiti að gróðalindunum og renni þangað, sem það skilar skjótfengnum arði. Augljóst er, að slík stefna verður landbúnaðinum þung í skauti. Verðlagsgrundvöllur landbúnaðarafurða er miðaður við það, að bóndinn hafi sambærilegar tekjur við aðrar vinnandi stéttir. Afurðaverðið á að miða við það hverju sinni, að það veiti meðalbónda svipaðar tekjur og aðrir hafa fengið, þegar það er ákveðið, og þessu afurðaverði er náð með samningum eða yfirdómi. Bændur eru sú stétt, sem árum saman hefur sætt sig við að leggja á vald gerðardóms að úrskurða tekjur þeirra. Alloft hefur skort á, að bændur fái að fullu greitt það verð, er í verðlagsgrundvellinum segir. Nú hefur t.d. verið frá því skýrt, að á stærsta mjólkursölusvæði landsins hafi á s.l. ári vantað 8.5 aura á verð hvers mjólkurlítra, til þess að grundvallarverði yrði náð. Bændur eru ekki ánægðir með þá niðurstöðu. Á s.l. ári undirbjuggu stéttarsamtök bænda lagabreytingar, sem miða að því m.a. að tryggja betur en nú er hlut bóndans að þessu leyti, en ekki hefur reynzt auðið að fá landbrh. eða þingmeirihlutann til að heita fylgi við þetta mál.

Skv. yfirliti, sem hagstofan hefur gert um tekjur einstakra starfsstétta á árinu 1962, hafa meðaltekjur bænda á því ári orðið lægri en annarra atvinnustétta. Athugun á skuldasöfnun bænda gefur og nokkra bendingu um fjárhag þeirra. Í Árbók landbúnaðarins, 1. hefti þessa árs, er birt yfirlit um skuldir bændastéttarinnar í árslok 1962. Niðurstaðan er sú, að á árinu 1962 hafi orðið veruleg aukning á lausaskuldum bænda. Um þessa niðurstöðu segir fyrrv. ritstjóri árbókarinnar orðrétt: „Svona mikil aukning dýrra og óþægilegra skulda á einu ári hefur eigi verið fyrr hjá bændastéttinni, jafnvel þótt þess sé gætt, hversu verðlitlir peningar okkar eru nú. Margt bendir til, að ekki hafi færzt til betra horfs að þessu leyti á s.l. ári.“

Samkvæmt þeim verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, er nú gildir, skiptast gjöld meðalbúsins hlutfallslega þannig: áburður, kjarnfóður og kostnaður við vélar 24%, viðhald húsa og girðinga 4%, flutningskostnaður o.fl. 6%, vextir 12%, aðkeypt vinna 6%, kaup bóndans 47%. Meira en helmingur af afurðaverðinu fer til annars en að greiða kaup bóndans og fjölskyldu hans. Þetta er athyglisvert bæði fyrir framleiðandann og neytandann. Hinar hóflausu, almennu verðhækkanir, sem eru fylgifiskar stjórnarstefnunnar, bitna á bændastéttinni ekki síður en öðrum. Sífelldar hækkanir rekstrarkostnaðar á verðlagsárinu valda því m.a., að nettótekjur bóndans minnka og hann verður að skerða þann hlut, sem honum er ætlaður í kaup til að standa straum af hækkun á óhjákvæmilegum kostnaði.

Ein afleiðing stjórnarstefnunnar er sú, að stofnkostnaður við framkvæmdir í sveitum hefur vaxið gífurlega á valdatíma núv. stjórnarflokka, en fjárhagsleg aðstoð af hálfu ríkisvaldsins ekki verið aukin að sama skapi. Á þessu þingi hefur að vísu verið stigið það spor að miða hið hærra jarðræktarframlag við 25 ha. túnstærð og hækka framlag til súgþurrkunar. Það stefnir í rétta átt, en jarðræktarframlag er að öðru leyti látið haldast óbreytt þrátt fyrir stóraukinn ræktunar- og byggingarkostnað.

Lán og framlag til íbúðarhúsa í sveitum hefur og verið hækkað nokkuð að krónutölu. Hlutur þess, sem húsið reisir, er þó sízt betri en áður, þar sem byggingarkostnaður hefur meir en tvöfaldazt síðan 1955, og nú eru bændur sjálfir skattlagðir til tekjuöflunar fyrir stofnlánadeildina.

Á lánin falla og hinir háu viðreisnarvextir. Bóndi, sem 1959 tók 200 þús. kr. lán úr ræktunarsjóði, þurfti þá að greiða í árgjald af því 14716 kr. Árgjald af jafnháu láni til sams konar framkvæmda er nú 18151 kr. Hækkun þessa árgjalds vegna vaxtahækkunar er 23.3%. Þetta bitnar harðast á þeim bændum, sem mest eiga ógert til að koma búskap sínum í fullkomið horf, og það er engin furða, þótt ungu fólki reynist örðugt eða ókleift að stofna bú í sveit, þegar hinar fjárhagslegu byrðar viðreisnarinnar leggjast á herðar þess. Afurðalár, landbúnaðarins úr Seðlabankanum námu 67% af verði afurðanna. Nú hafa þau verið lækkuð í 55%, og rekstrarlánin, sem veitt eru fyrir fram ár hvert, eru jafnhá að krónutölu og þau voru 1958, þótt miklu fleiri krónur þurfi nú fyrir hverja vörueiningu, sem kaupa þarf. Þetta m.a. veldur svo tilfinnanlegum rekstrarfjárskorti, að bændur og verzlanir þeirra eiga í miklum örðugleikum við að afla nægilegs áburðar á þessu vori.

Aðalfundur Stéttarsambands bænda samþykkti með shlj. atkvæðum áskorun um, að afurðalánin verði hækkuð að miklum mun. Í þeirri ályktun segir orðrétt, að fundurinn telji þá stefnu, sem fylgt hefur verið í þessum lánamálum síðustu árin, mjög rangláta og algerlega óviðunandi. Vill fundurinn leggja sérstaka áherzlu á hina brýnu þörf, sem á því er, að leiðrétting þessara mála fáist.

Þessi eindregna áskorun Stéttarsambandsins hefur ekki verið tekin til greina, og nú hefur verið frá því skýrt, að ríkisstj. láti hætta niðurgreiðslum á áburðarverði. Við það hækkar áburðarverðið til bænda um 13–17%. Sennilega verður þessi hækkun tekin til greina í næsta verðlagsgrundvelli. En með þessari stjórnarathöfn er enn stefnt að því að hækka búvöruverðið til neytenda, án þess að bóndinn hagnist af því. — Og bak við allt þetta svífur sá andi í stjórnarsölum, að bændum eigi að fækka, eins og opinberlega hefur verið gefið til kynna.

Framsfl. er andvígur þeirri stjórnarstefnu, sem hefur þessi áhrif. Hann vill, að bændur fái raunverulega réttlátt afurðaverð í samræmi við ákvæði og anda gildandi laga, en flokkurinn leggur jafnframt áherzlu á að draga úr rekstrarkostnaði búanna og auka öryggi þeirra og bæta þannig aðstöðu landbúnaðarins. Við framsóknarmenn höfum á þessu þingi sem fyrr borið fram mörg mál, sem að þessu miða. Enn fremur leggur Framsfl. áherzlu á að bæta aðstöðu landbúnaðarins með því að auka fjárhagslegan stuðning við framkvæmdir. Það léttir ekki sízt fyrir fæti hjá þeim bændum, sem skammt eru á veg komnir með framkvæmdir eða hafa minna en meðalbú. Þetta er og í samræmi við það, sem gert er víða í nágrannalöndum okkar. Við höfum borið fram mörg þingmál, þar sem að þessu er stefnt, en þessi mál hafa ýmist verið felld eða þau fást alls ekki afgreidd.

Um síðustu aldamót hafði meiri hl. þjóðarinnar framfæri af landbúnaði. Síðan hefur því fólki stöðugt fækkað í hlutfalli við íbúafjölda landsins. Talið er, að 1960 hafi um 15% af þjóðinni stundað landbúnað. Þrátt fyrir þessa þróun hefur framleiðsla landbúnaðarins vaxið hröðum skrefum, svo að á síðustu 15 árum hefur mjólkurframleiðslan um það bil þrefaldazt og framleiðsla sauðfjárafurða nærri tvöfaldazt. Vélvæðing landbúnaðarins eykur þannig afköstin og framleiðslumagnið. 15% landsmanna senda á innanlandsmarkað nægilegt magn af hollri fæðu, sem þjóðina má ekki skorta, og nokkurt vörumagn til útflutnings. Svo er því varpað fram, að þetta fólk dragi með starfi sínu úr hagvexti í þjóðfélaginu.

Hið sanna er, að sveitafólkið þarf engan afsökunar að biðja á verkum sínum eða menningu. Við, sem þetta land byggjum, erum öll Íslendingar, hvort sem við búum í sveit eða við sjó. Milli stétta þjóðfélagsins á að ríkja gagnkvæmur skilningur. Mikil kynni og mörg tengsl milli strjálbýlis og þéttbýlis eiga að geta stuðlað að því. Íslenzka þjóðin kemst ekki af án landbúnaðar. Veðurfarið er blíðara en oft áður og gróðurmold landsins gjöful, en hér er að verki röng stjórnarstefna, og henni þarf að hnekkja.