12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

Almennar stjórnmálaumræður

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Kjarabaráttan verður eilíf. Hún mun eiga sér stað í síbreytilegum myndum, svo lengi sem jörðin er byggð. Þannig hafa framsýnum mönnum farizt orð, og er þá beint og óbeint svarað þeim spurningum, þeim sífelldu spurningum, sem ávallt bryddar á, þegar undirbúningur að framgangi nýrra kjarabóta er hafinn, spurningum eins og þessum: Hvernig enda þessar víxlhækkanir, og er ekki mögulegt að finna þann sanna grundvöll, sem forðar okkur sem einstaklingum og í heild sem þjóðfélagi frá fórnfrekum átökum við hið eilífa deiluatriði um það, hvað hverjum okkar ber af því, sem til skiptanna á að koma?

Þessar og þvílíkar hugsanir munu nú sem svo oft áður vera ofarlega í hugum manna, sem hugann leiða að þjóðmálum og þeim vanda, sem þar er við að etja. Því er of oft haldið fram, að forustumenn verkalýðsfélaganna einir geti með pólitískan hefndarhug einan að leiðarljósi att vinnandi fólki til kjarabaráttu. Slíkur þankagangur er hættuleg blekking. Almennt líta hinar vinnandi stéttir kjarabaráttu sína alvarlegum augum, og til hennar þurfa að liggja ákveðnar og skýrar forsendur. Undirstaða allra slíkra átaka hlýtur ávallt að verða sú, að einhvers staðar herðir svo að fólkinu, að það finnur sig knúið til baráttu til leiðréttingar og línunar þeirra þrenginga. Ýmsir forustumenn verkalýðssamtakanna geta svo hins vegar haft lag á því að nota sér slíkt ástand til að koma höggi á pólitískan andstæðing, en það er önnur saga. Reynsla undanfarandi áratuga hefur þó orðið sú, að þar hefur hönd skamma stund orðið höggi fegin og harðast hefur. þunginn af því komið á þá, sem sízt skyldi og erfiðast áttu með að bera höggið af sér. Ljósast dæmi þessu til sönnunar er margendurtekin barátta verkalýðssamtakanna fyrir fleiri krónum fyrir hverja unna klukkustund, sem nú er viðurkennt að engan árangur hafi borið til raunhæfra kjarabóta. Þeim kjarabótum, sem birzt hafa í aukinni ytri velmegun fólks almennt er því miður fyrst og fremst náð með lengdum vinnutíma, sem kostur hefur verið á vegna mikillar eftirspurnar vinnuafls. Þetta ástand hefur átt sér stað s.l.. tvo áratugi þrátt fyrir ríkisstjórnarþátttöku allra stjórnmálaflokka í landinu og meiri og minni áhrif þeirra á gang þjóðmála.

Með þessar staðreyndir í huga hefur nú verið lögð höfuðáherzla á kröfuna um verðtryggingu launanna, þ.e. vísitöluuppbót á launin. Krafan er eðlilega byggð á þeirri staðreynd, að launahækkanir í krónutölu hafi ekki borið árangur þrátt fyrir óeigingjarna og mjög fórnfreka baráttu. Önnur aðalkrafan, sem ekki er síður mikilvæg, er meiri og betri úrbætur í húsnæðismálum. Þessi krafa er rökstudd með þeim staðreyndum, að þar er nú með örfáum undantekningum um langstærsta útgjaldaliðinn í framfærslukostnaði almennings að ræða. Úrbætur í þessum efnum eru því tvímælalaust raunhæfasta leiðin til kjarabóta, sem hægt væri að þreifa á. Skal nú gerð nánari grein fyrir ástandi þessara mála nú.

Þrátt fyrir þá staðreynd, að húsnæðismálastofnunin hefur á 8 ára starfsferli sínum lánað til hátt á sjöunda þúsund íbúða og árleg lánsfjárgeta stofnunarinnar hefur vaxið úr 40 –50 millj. kr. á ári í 110 millj. kr. á s.l. ári, hefur biðröð lánsumsækjenda lengzt vegna stóraukinna byggingarframkvæmda, þannig að hinn 1. apríl s.l. biðu nálega 3000 lánsumsækjendur úrlausnar sinna mála. Með víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags hefur byggingarkostnaður sífellt verið að aukast svo mjög, að þrátt fyrir 50% hækkun hámarkslána í árslok 1961 eða úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr., er þessi opinbera aðstoð ekki orðin nema 25 –30% byggingarkostnaðar. Svipaða sögu geta sjálfsagt aðrir aðilar, svo sem lífeyrissjóðir og betur stæðari sparisjóðir, einnig sagt um þróun eftirspurnar og útiánagetu sinnar. Þær nálega 3000 lánsumsóknir, sem úrlausnar bíða, má hiklaust margfalda með tölunni 5 til þess að fá út þá tölu fjölskyldumeðlima, sem hér á beina aðild að. Er þá ótalinn sá fjöldi ættingja og vina hverrar fjölskyldu, sem hefur rúið allt sitt sparifé til hjálpar ungu hjónunum, sem eru að hefja búskap, eða hjónunum, sem eiga of mörg börn, til þess að nokkurt leiguhúsnæði fáist. Í þeim efnum virðist svo sem börn megi ekki nefna.

Hér hefur einvörðungu verið minnzt á erfiðleika þeirra húsbyggjenda, sem enn þá bíða úrlausnar síns lánsfjárvanda, og þeim sleppt, sem ófullnægjandi úrlausn hafa fengið, en eiga þrátt fyrir mikla yfirvinnu í vök að verjast um að halda þeim íbúðum, sem þeir hafa komizt yfir. Er nokkur landsmaður, sem um þessi mál vill hugsa, svo fjarri raunveruleikanum, að hann sjálfur eða einhver nákominn honum hafi ekki kynnzt þeim erfiðleikum, sem við er að etja í þessum efnum? Ég hygg, að þeir séu fáir. En finnist þeir samt sem áður, er brýn nauðsyn til, að sá hinn sami kynni sér þessi vandamál, því að þau eru engum Íslendingi óviðkomandi og þangað má tvímælalaust rekja stóran hluta þess vanda, sem við er að etja í uppeldismálum yngri kynslóðarinnar, og þar af leiðandi skortinn á heilbrigðu fjölskyldulífi, sem til þessa hefur verið talið undirstaðan og alger forsenda fyrir því, að upp vaxi heilbrigðir þjóðfélagsþegnar; — fólk, sem ekki verði af fyrrgreindum ástæðum öfgastefnum eða niðurlægingu hins óreglusama að bráð með tilheyrandi andúð á allri sinni samtíð, — fólk, sem ekki þarf að bugast undan fjármálaáhyggjum vegna íbúðar sinnar eða hlaupast af heimili sínu í sveit og við sjó vegna þrengsla og ófullnægjandi heimilisaðstæðna. Persónulega þekki ég vegna starfs míns svo mikið af hörmungum þeim, sem í kjölfar þessa vanda sigla, að ég teldi mig ganga á snið við staðreyndir, ef ég segði ekki frá þeim við slíkar aðstæður og nú eru, þó að of langt mál. yrði að rekja einstök atriði þeirrar harmasögu.

En það verður ekki unnið að lausn húsnæðisskortsins á þann hátt að auglýsa með skrumfyrirsögnum, að allir, sem vilji, geti fengið lán, eins og of mikið bar á um og eftir setningu l. um húsnæðismálastjórn frá 1955. Enn þá stynur húsnæðismálastofnunin undan þeim biðröðum, sem þá urðu til, þótt stundum hafi tekizt að vinna verulega á í þessum efnum, eins og á s.l. ári. Það eru einnig blekkingar og skrum að tala um stórhækkun hámarks íbúðalána, án þess að minnsta tilraun eða till. sé gerð um úrlausn þeirra, sem enn þá hafa ekkert lán fengið þrátt fyrir langan biðtíma. Nefndarskipun bætir heldur ekki vandann. Slíkar skrum- og blekkingartill. hafa því miður einnig nú borið of hátt í störfum Alþingis og bera vott um lítinn skilning á þessum vanda, á sama tíma sem ófullnægðar lánsumsóknir eru fyrirliggjandi upp á 270–290 millj, kr. Þessi óraunhæfa tillögugerð bætir ekki eða leysir vandamál þessa fólks. Þar þarf annað og meira til. Lýðskrumstill. í þessum efnum geta aðeins leitt til enn meiri erfiðleika og verða að leggjast að jöfnu við tilraunir þeirra einstaklinga, sem vilja nota sér þessa erfiðleika fólksins í auðgunarskyni.

Eðlilegt er, að menn spyrji, hvaða ráð séu til úrbóta í þessum málum. Það er einnig eðlilegt, að verkalýðssamtökin knýi nú á um þær úrbætur, því að meðlimir samtakanna eiga hér mest undir, að vel takist til. Á s.l. hausti fól hæstv. félmrh., Emil Jónsson, sem samkv. starfsskiptingu ríkisstj, er yfirmaður þessara mála, húsnæðismálastjórn að ræða skýrslu hins norska húsbankastjóra, Johanns Hoffnianns, og vandamálið í heild og gera síðan úrbótatili. sinar til ríkisstj. Í byrjun aprílmánaðar s.l. skilaði húsnæðismálastjórn till. sínum um þetta efni eftir ýtarlegar umræður um málið á mörgum fundum. Tillögur þessar hefur ríkisstj. til meðferðar nú, og munu einstakir liðir þeirra eðlilega koma til umræðu í þeim samningaviðræðum, sem nú eiga sér stað við verkalýðsfélögin. Af þeim ástæðum er ekki eðlilegt að ræða einstakar till. efnislega nú. Einstakir liðir þessara till. hafa þó verið opinberaðir með beinum frv.-flutningi ríkisstj., eins og um hækkun skyldusparnaðarins og um ráðstöfunarfé tryggingafélaganna. En eftirfarandi atriði eru þó öllum augljós:

1) Frumverkefnið er aukin fjáröflun og þá fyrst og fremst auknar fastar tekjur stofnunarinnar til þess að fullnægja þeim lánabeiðnum, sem fyrir liggja.

2) Þegar fyrir því fé hefur verið séð, þarf að hækka hámarkslánin og gera um leið strangari kröfur til hóflegrar stærðar á íbúðunum, sem þeirrar aðstoðar njóta.

3.) Koma verður á betri verkaskiptingu þeirra aðila, sem í dag lána fé til íbúðabygginga, þ.e. fyrst og fremst húsnæðismálastjórnar og lífeyrissjóðanna, byggingarsjóðs verkamanna og ráðstafana til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, þannig að meira jafnræði íbúðabyggjenda skapist til lántöku.

4) Vegna sérstaks skorts á minni íbúðum, 2 og 3 herbergja, kæmi til greina að verðlauna byggingu þeirra með hærri lánum eða skemmri biðtíma. En þessi stærð íbúða er í dag tiltölulega langdýrust á hinum svonefnda frjálsa markaði, eða 20–30% hærri hver rúmmetri vegna gífurlegs skorts á þeim og þar af leiðandi eftirspurnar. Þetta ástand bitnar því miður fyrst og fremst á unga fólkinu, sem er að hefja búskap og stofna heimili.

5) Í stað þess langa biðtíma og nagandi óvissu um, hvenær að lánveitingu komi, þarf í kjölfar aukinna fastatekna stofnunarinnar að skapa möguleika til útgáfu lánsloforða fyrir fram, sem tryggja útborgun lánsins, þegar viðkomandi hefur komið íbúð sinni eða íbúðarhúsi í tiltekið ástand. Slík fyrirframloforð þyrfti að gefa út í upphafi hvers árs, til þess að byggingartíminn nýtist betur og verði skemmri. En langur byggingartími er í dag veigamikill liður byggingarkostnaðarins.

6) Til þess að stuðla að lækkuðum byggingarkostnaði þyrfti húsnæðismálastofnunin að geta haft til umráða árlega nokkurt fé, sem varið yrði til fyrir fram skipulagðra heildarframkvæmda á stórum byggingarsvæðum.

Þetta eru þau meginatriði, sem ég tel, að þyrftu að koma fram í breyttri tilhögun þessara mála. Þrátt fyrir flokkslega og persónulega aðild mína að þessum málum undanfarin ár, þá hika ég ekki við að viðurkenna það, sem ekki hefur tekizt, því að án þess er lítilla úrbóta að vænta. Hér yrðu fjárútveganirnar að sjálfsögðu afl þeirra hluta, sem gera skal. Óeðlilegt er að ræða nú einstakar leiðir, sem fara þarf til fjáröflunar, meðan þær hugmyndir eru á umræðustigi, jafnvel þótt þær hafi í dag komið hér fram á hv. Alþingi í frv. þeirra Alþb.-manna.

Þess hefur orðið vart, að ummæli hæstv. félmrh. hér á Alþingi á dögunum um lán til lífeyrissjóðsaðila hafi verið mistúlkuð og jafnvel rangtúlkuð. Í útlánareglugerð húsnæðismálastjórnar frá 1957 eða frá stjórnartíð vinstri stjórnarinnar hefur það ákvæði verið óbreytt, að þeir, sem góða lánsmöguleika hafa annars staðar, skuli mæta afgangi við lánveitingarnar. Á þessu ákvæði hefur stundum verið linað og þá helzt, þegar vel hefur gengið með fjárútveganir. Sé miðað við betri verkaskiptingu þeirra aðila, sem lána veðlán til langs tíma, og nánari samvinnu þessara aðila, má auðveldlega gera áætlun um það, hve mörg íbúðalán hver aðili um sig þarf að sjá fyrir af þeim 1500 íbúðum, sem nauðsynlegt er talið að fullgera á ári hverju til ársins 1970, en þá mun þörf þessi enn aukast, mest vegna nýrra heimilisstofnana. Augljóst er, að árleg bein fjárþörf hinna opinberu lánaaðila, þ.e. húsnæðismálastofnunarinnar, byggingarsjóðs verkamanna og til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, verður vart undir 300 millj. kr., en fastatekjur þessara aðila eru í dag á milli 60 og 70 millj. kr. Mismunarins á þessum upphæðum er því þörf að afla árlega, eftir að séð hefur verið fyrir þörfum þeirra, sem í dag bíða úrlausnar um löglegar lánsumsóknir. Það væri blekking að halda því fram, að þessa fjár verði aflað í einhverri námu, sem menn hefðu til þessa ekki komið auga á.

Fjáröflun til almannatrygginganna mætti á sínum tíma andstöðu og var jafnvel af einstökum aðilum talin óþörf og skaðvænleg. Í dag telur meginþorri fólks hana sjálfsagða og eðlilega. Þar gildir það félagslega sjónarmið, að þeir, sem starfsorku hafa og eru heilbrigðir, styrki og styðji þá, sem vegna örorku, sjúkdóma eða elli geta ekki séð sér farborða.

Eða hvaða stjórnmálaflokkur vildi í dag gera afnám þeirrar mannréttindalöggjafar, sem almannatryggingarnar eru, að stefnuskráratriði sínu?

Húsnæðisvandamálin eru ekkert einkamál þeirra aðila, sem í dag berjast við að eignast húsnæði eða fá leiguhúsnæði, jafnvel þótt við sjálf höfum með einhverjum ráðum komizt yfir íbúð. Þau eru vandamál þjóðarinnar allrar, og í ljósi þeirrar staðreyndar ber að vinna að lausn vandans.

Þegar um húsnæðismál er rætt, er oft vitnað til þess, hvernig þeim málum sé fyrir komið á Norðurlöndum undir áratuga stjórnarforustu jafnaðarmanna þar. Það er minnt á möguleika fólks til þess að fá opinber lán til íbúðabygginga fyrir allt að 60–90% byggingarkostnaðarins og að lánstíminn sé frá 50–80 ár. Allt eru þetta staðreyndir, sem bera þess ríkan vott, hverjum sugum þar er litið á þennan vanda, enda er húsnæðiskostnaður þar aðeins hlutfallslegt brot af því, sem hann er hjá okkur, og kemur þó að sjálfsögðu margt til.

Í krafti hinna hagstæðu lána er á Norðurlöndunum kleift að setja ströng skilyrði fyrir stærð, íburði og byggingarkostnaði íbúðanna. Þar er meðalíbúðin frá 50–75 m2, en hjá okkur 100–120 m2 og stækkar enn. Og húsnæðismálastjórn sætir jafnvel aðkasti, þegar hún neitar lánum út á íbúðir að stærð 160–200 m2. Þar er byggingarkostnaðurinn og ágóði þess, sem byggir og selur, opinbert plagg. Með hlutfallslega lágum opinberum lánum, sem hér eiga sér stað, þegar frá eru dregnir verkamannabústaðir, er erfiðara um vik að setja ströng skilyrði fyrir lánunum, sem þó eru nauðsynleg. Með hækkuðum hámarkslánum batnar að sama skapi aðstaðan til áhrifa á allan gang þessara mála. Norðurlönd eru í þessum efnum sem og mörgum fleiri til fyrirmyndar, enda er þar enginn ágreiningur um, að lita beri á húsnæðismálin sem félagslegt vandamál, sem beri að leysa sem slíkt. Það er alls ekki skoðun mín, að banna eigi með opinberum aðgerðum byggingu stærri íbúða en reglur húsnæðismálastjórnar segja til um. Þeir, sem það geta og vilja, eiga þá að gera það. En opinber lán, sem aflað er með almannafé, á ekki að lána til slíkra íbúða.

Alþfl. hefur allt frá stofnun haft húsnæðismál og úrbætur í þeim á stefnuskrá sinni. Fyrsti árangur flokksins á þeim vettvangi var setning laganna um verkamannabústaði árið 1929. 4stæðan til þess, að flokkurinn hefur lagt áherzlu á þessi mál, er einfaldlega sú, að hann hefur talið og telur enn, að húsnæðismálin séu svo samofin þeirri öryggiskennd, sem mannsæmandi lífskjör eiga að tryggja, að þar verði ekki í sundur skilið. Það álit flokksins og verkalýðshreyfingarinnar stendur óhaggað. Í beinu framhaldi þeirrar staðreyndar hlýtur hár húsnæðiskostnaður að knýja á um hækkuð laun til að mæta kostnaðinum. Lækkun þessa stærsta útgjaldaliðar hverrar fjölskyldu í formi hærri og hagkvæmari lána hlýtur á sama hátt að stuðla að hinni margumtöluðu ró og festu á vinnumarkaðinum, sem allir virðast sammála um, að nauðsynlegt sé að ná, og aldrei er ljósara en nú, að þar yrði vegið að einni verstu og erfiðustu torfæru almennings í baráttunni við að láta laun sín endast fyrir mannsæmandi lífskjörum. Alþfl. mun hér eftir sem hingað til ljá lið hverri raunhæfri og blekkingalausri leið, sem gefst til lausnar þessu erfiða vandamáli.

Ég gat þess í upphafi, að kjarabarátta hljóti á öllum tímum að eiga sér stað. Hvernig þessi barátta er háð hverju sinni, fer hins vegar eftir aðstæðum. Verkalýðshreyfingin á nú sem svo oft áður valið. Verður nú komizt lengra með raunhæfar og áþreifanlegar kjarabætur eftir samningaleiðinni, eða er líklegra til árangurs að fara troðnar slóðir liðinna ára? Þannig spyr maður mann. Reynslan í þessum efnum er ólygnust, og hún blasir hvarvetna við. Er þess vegna ekki rétt og einmitt nú staður og stund til að þrautreyna aðrar leiðir, nýjar leiðir í hagsmunabaráttunni. Alþfl. telur reynslu undanfarinna áratuga sanna, svo að ekki verður um villzt, að leið félagslegra umbóta hefur reynzt íslenzkri alþýðu haldbezt, á sama hátt og skyndiupphlaup, hávaði og ævintýri hafa horfið sem dögg fyrir sólu og ekkert skilið eftir. Alþfl. leggur því hiklaust til, að mannsæmandi lífskjör íslenzkrar alþýðu verði byggð á þeim undirstöðum, sem henni hafa reynzt traustastar, félagslegri samhjálp. Frelsi einstaklingsins ber að virða, en frelsi eins má aldrei og verður ekki þolað til heftingar á frelsi annars og þá helzt lítilmagnans. Barátta fyrir þessari stefnu krefst víðtæks samstarfs allra þeirra afla, sem ekki eru blinduð eiginhagsmunum eða gömlum fordómum og flokksofstæki. Fyrir auknum mannréttindum öllum til handa, en gegn öllum öfgum, munu jafnaðarmenn og íslenzki Alþfl. berjast. — Góða nótt.