12.05.1964
Sameinað þing: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er staðreynd, að vinstri stjórnin skildi við atvinnu- og efnahagslífið í kaldakoll. Enginn fiskibátur hefði komizt á flot í vertíðarbyrjun 1959, ef vinstri stjórnin hefði ekki farið frá. Íslenzka krónan var fallin og hvergi skráð í bönkum erlendis. Verulegur hluti gjaldeyristeknanna var seldur á svörtum markaði.

Viðreisnarstjórnin setti sér í upphafi tvö meginmarkmið: Annars vegar að stöðva skuldasöfnun út á við og hefja gjaldmiðil þjóðarinnar úr niðurlægingunni. Um það getur varla verið deilt, að þetta hefur tekizt. Nú er íslenzka krónan skráð og seljanleg í bönkum erlendis, og gjaldeyrisvarasjóðurinn er kominn í 1400 millj. kr. Niðurlægingu gjaldmiðils þjóðarinnar út á við er lokið. Hitt höfuðmarkmiðið var að koma á efnahagsjafnvægi inn á við, svo að unnt yrði á nýjan leik að hefja heilbrigða uppbyggingu atvinnulífsins, auka framleiðni og treysta grundvöllinn undir raunhæfar kjarabætur. Um þennan þátt viðreisnarinnar hafa stjórnmálaátökin á yfirborðinu fyrst og fremst staðið.

Stefna stjórnarandstöðunnar hefur verið mjög ísmeygileg verðbólgustefna, byggð á ábyrgðarlausum yfirboðum, en stefna ríkisstj. að hamla við verðbólguþróun, og hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar í því efni, sem sumar hverjar hafa að vonum ekki verið vinsælar, ef ekki er horft lengra fram en til líðandi stundar. Stjórnarandstöðunni var það mikill þyrnir í augum, að viðreisnin skyldi takast svo vel þegar í upphafi. Hrakspárnar um samdrátt og atvinnuleysi reyndust hugarórar eða áróður einn. Gjaldeyrisjafnvægið við útlönd náðist á skömmum tíma. Verðlag var á tímabili orðið stöðugt. Uppbygging atvinnuveganna var í fullum gangi, bátaflotinn aukinn og efldur, unninn sigur í landhelgisdeilunni, fiskiðjuver voru aukin og endurbætt, nýjar síldarverksmiðjur byggðar víða um land, stórátök í hafnabyggingum. Stálskipasmíði var hafin innanlands. Viðhald togara og stærri skipa færðist meira og meira inn í landið, og iðnaður efldist. Stofnlánasjáðir allra þriggja höfuðatvinnuveganna voru auknir og efldir, sumpart reistir úr rúst eftir viðskilnað stjórnarandstöðunnar. Grundvöllur var lagður að aukinni framleiðni og bættum lífskjörum, ef aðeins tækist að halda verðbólgunni í skefjum.

Það var þessi framvinda, sem var stjórnarandstöðunni þyrnir í augum. Stjórnmálaframi þeirra var í veði, ef ekki tækist að koma í veg fyrir aukinn kaupmátt launa og bætt lífskjör. Þeir þekktu það af eigin raun frá vinstristjórnarárunum, að verðbólgan var vænlegasta ráðið. Of miklar og of tíðar víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags mundu koma í veg fyrir raunhæfar kjarabætur og að lokum ógna gjaldeyrisjafnvæginu út á við, stöðva útflutningsframleiðsluna og koma öllu í sama farið og þá er þeir skildu við 1958. Þó að enn hafi ekki tekizt að leika þennan leik til enda, er augljóst, að markmiðið var að jafna ójafnan leik við núverandi stjórnarflokka. Allt er þetta mannlegt og skiljanlegt, en varla getur það talizt heiðarlegt af þessum flokkum að nota kjörfylgi bænda og láglaunastétta til þess að blása lofti að glæðum verðbólgunnar, þeirrar vofu, sem um 20 ára skeið hefur hamlað almennum kjarabótum, en í þess stað hefur malað skuldakóngum og spekúlöntum gull.

Stefna stjórnarandstöðunnar hefur verið rakin verðbólgustefna. Þeir hafa stutt allar kröfur um kauphækkanir, hversu háar sem þær voru og hvaðan sem þær komu. Þeir hafa yfirleitt stutt alla kröfugerð, hvaðan sem hún hefur komið, jafnt frá atvinnurekendum sem öðrum, þ. á m. kröfugerð um hækkun álagningar. Það væri í sjálfu sér ekkert athugavert við það, þótt núverandi stjórnarflokkar og stjórnarandstöðuflokkar hefðu mismunandi skoðanir á því, hvaða efnahagsráðstafanir eru verðbólguaukandi og hverjar ekki, ef þeir bara héldu þeim skoðunum, meðan þeir eru sannfærðir um, að þær séu réttar, og héldu því sama fram, hvort heldur þeir eru í ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu. Þjóðin gæti þá óblekkt valið á milli þeirra skoðana og reynslunnar af þeim. En þeim skoðanamismun var ekki til að dreifa. Allir stjórnmálamenn þekkja í meginatriðum þau orsakasambönd, sem valda verðbólgu, en kjarni málsins er sá, að núverandi stjórnarandstaða leyfir sér í augsýn og áheyrn allrar þjóðarinnar að gerbreyta ekki aðeins allri sinni baráttu, heldur einnig allri sinni túlkun á efnahagsmálum, við það eitt að lenda í stjórnarandstöðu. Það veit t.d. hver einasti stjórnmálamaður, og þarf ekki stjórnmálamann til, að 30% kauphækkun og meira á einu ári til allra stétta launþega og að sjálfsögðu tilsvarandi verðhækkun á landbúnaðarvörum er ekki raunhæf kjarabót. Verðlagið hlýtur að fylgja fast á eftir. Með þessu er ég ekki að áfellast stjórnir einstakra launþegafélaga. Þær hljóta að verða að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, þannig að þeir dragist ekki aftur úr, þegar skriðan er komin af stað. Það er beinlínis hlutverk þeirra. En ég áfellist þá stjórnmálamenn, sem vitandi vits vinna að því öllum árum að koma slíkri skriðu af stað.

Í þessu sambandi er rétt að benda á nokkur atriði um tvískinnunginn eftir því, hvort þessir herrar eru í stjórn eða í stjórnarandstöðu, og þá í fyrsta lagi, hverra erinda Hermann Jónasson gekk í samráði við sjálfan forseta Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, inn á Alþýðusambandsþing haustið 1958. Var það til þess að bjóða verkafólki 30% kauphækkun? Nei, það var til þess að biðja um kauplækkun. Og hvers vegna? Jú, það var af því, að þeir vissu mætavel báðir, Hermann og Hannibal, að með 17 stiga vísitöluhækkun var risin sú verðbólgualda, sem skola mundi þeim báðum úr ráðherrastólunurri. Með þessu vil ég ekki halda því fram, að þeir Hermann og Hannibal hafi sérstaklega verið að reka erindi atvinnurekenda. Ástandið var svo alvarlegt, að það var vissulega ástæða til þess að staldra við, og einmitt verkafólkið átti mest í húfi um, að verðbólgan yrði stöðvuð. Þá mætti einnig spyrja: Hvert var innihald greinar þeirrar, sem Hannibal skrifaði í málgagn Alþýðusambandsins, Vinnuna, um þetta leyti í samráði við Hermann Jónasson? Var það að bjóða bændum verðhækkun á búvöru, sem svaraði til 30% kauphækkunar? Nei, það var áskorun til bænda um lækkun á afurðaverði og jafnframt áskorun forseta Alþýðusambandsins til verkafólks um lækkun á kaupi. Man nokkur eftir því, að þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hafi boðið opinberum starfsmönnum 30% kauphækkun? Ég var þá formaður bandalagsins og minnist þess ekki. Hins vegar kostaði það nokkurra vikna baráttu, að þeir fengju svipaðar hækkanir og aðrir höfðu þegar fengið og þó nokkru lægri. Greiðslur almannatrygginganna hafa verið ferfaldaðar í tíð núv. ríkisstj. Framsóknarmenn með Þórarin Þórarinsson í broddi fylkingar hafa haft í frammi sífelld yfirboð í því sambandi. Man nokkur eftir baráttu Þórarins og framsóknarmanna fyrir auknum almannatryggingum fyrir það herrans ár, 1958? Núv. ríkisstj. hefur framkvæmt nokkra lagfæringu á aðflutningsgjöldum og tvívegis lækkað tekjuskatt og útsvar. Nú á íslenzka þjóðin öruggan talsmann, Eystein Jónsson og Framsfl., í yfirboðum um tolla- og skattalækkanir. Man nokkur eftir Eysteini Jónssyni í því hlutverki fyrir 1958? Á sama hátt er stefna þeirra í lánamálum eintóm yfirboðspólitík. Seðlabankinn á að auka kaup á afurðavíxlum, en má hvergi afla fjár til þess. Það á yfirleitt að veita öllum hærri lán í lengri tíma og með lægri vöxtum en sparifjárframboðið leyfir. Man nokkur til þess, að það hafi beinlínis verið stefna Framsfl. að leysa alla lánsþörf með prentun peningaseðla á verðbólgutímum, þegar þeir báru sjálfir ábyrgð á stjórn landsins?

Það er auðvelt að hvísla því í hvers manns eyra, sem þægilegast er að hlusta á á líðandi stundu, í algeru ábyrgðarleysi. En þjóðin ætti vissulega að leysa þá menn frá ábyrgð í stjórnmálum, sem þá iðju stunda, því að ekkert er lýðræðinu hættulegra. Það er hinn gamalkunni áróðursskóli kommúnista í lýðfrjálsum löndum.

Þjóðinni er það fyrir beztu og láglaunafólki alger nauðsyn, að verðbólgan verði stöðvuð. Í samræmi við þá nauðsyn lagði ríkisstj. til í kjarasamningum í des. s.l., að beinum kauphækkunum yrði stillt í hóf, takmarkaðar við 4–8%, en auk þess veitt útsvarslækkun, sem svaraði til 4–5% kauphækkunar, áherzla lögð á, að samið yrði til lengri tíma, og mætti í því sambandi hugsa sér verðtryggingu kaups með vísitölu. Með þessu var að því stefnt, að kjarabæturnar hefðu sem minnst áhrif á verðlagið og yrðu þannig raunhæfar kjarabætur. Þessum grundvallaratriðum var hafnað, og því fór sem farið hefur með verðlagið undanfarna mánuði.

Almenningsálitið er nú mjög á verði fyrir því, að sami leikur verði ekki endurtekinn. Þjóðin krefst aðgerða gegn verðbólgunni og raunhæfari vinnubragða í kjaramálum. Væri í því sambandi fyllilega tímabært, að atvinnurekendur og Alþýðusambandið tækju höndum saman um að koma á vinnuhagræðingu í atvinnurekstrinum og ákvæðisvinnu á þeim grundvelli og með þeim hætti, sem reynsla er af fengin í nágrannalöndum okkar að er til stórfelldra hagsbóta fyrir báða aðila. Má telja líklegt, að með tilliti til þeirrar reynslu og raunar einnig með nokkurri reynslu, sem fengin er hjá íslenzkum fyrirtækjum, mætti takast að stytta daglegan vinnutíma um 2 klst. á dag með óbreyttu kaupi á tiltölulega stuttum tíma. Ríkisstj. hefur þegar gengið á undan og veitt fé á fjárl. til stuðnings því, að vinnuhagræðing verði tekin upp, og er þess að vænta, að samningsaðilar nýti þá möguleika, sem í þessu eru fólgnir. í samræmi við það almenningsálit, sem nú er ríkjandi, og almenna kröfu um raunhæfari vinnubrögð, hefur stjórn Alþýðusambandsins nú lagt til umræðugrundvöll um kjaramál, sem er mjög í anda þess umræðugrundvallar, sem ríkisstj. lagði til í des. s.l., en var þá hafnað. Ber að sjálfsögðu að fagna þessari stefnubreytingu, þótt ýmsir óttist, að um málatilbúnað einn sé að ræða. Ég vil samt ekki trúa því, fyrr en á reynir, og ég vænti þess, að nógu sterkt almenningsálit og nógu almenn krafa um raunhæf vinnubrögð verði aðilum það aðhald, sem dugir. — Góða nótt.