14.12.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

Verkföll

Lúðvík Jósefsson Herra forseti. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á því alvarlega ástandi, sem nú er að skapast í landinu vegna verkfallanna. Verkföll þau, sem þegar eru á skollin, eru víðtækari og ná til fleiri staða á landinu en dæmi eru til um áður hér á landi. Segja má, að svo til öll framleiðslustörf í kaupstöðum og þorpum landsins hafi stöðvazt. Sjávarútvegsstörf liggja svo að segja alveg niðri, iðnaður hefur stöðvazt, flutningar eru nær engir í landinu, og samgöngur liggja að mestu niðri. Á því er enginn vafi, að þjóðarbúið sem heild hefur þegar tapað tugum milljóna króna á því ástandi, sem hér hefur skapazt, og standi verkföllin lengi, þá er enginn vafi á því, að það tjón, sem þjóðarbúið sem heild hlýtur af þessum deilum, hlýtur að skipta hundruðum milljóna króna.

Aðdragandi þeirra kaupdeilna, sem nú standa yfir, hefur orðið með nokkuð sérstökum hætti. Eins og kunnugt er, voru gerðir bráðabirgða kaupgjaldssamningar um miðjan júní í sumar á milli vinnuveitenda og fjölmargra verkalýðsfélaga í landinu. Þeir samningar áttu að standa í aðeins fjóra mánuði, en að þeim tíma loknum var gert ráð fyrir, að til nýrra samninga kæmi og til frekari launabreytinga en gerðar voru um miðjan júní.

Það, sem síðan gerðist á næstu fjórum mánuðum, frá miðjum júní og fram til miðs október, var með þeim hætti, að engum manni í landinu gat blandazt hugur um, að það hlaut að koma til, að verulegar kaupbreytingar þyrftu að verða í landinu við almenna verkamannavinnu, með tilliti til þeirrar gífurlegu dýrtíðar, sem á hafði skollið einmitt nú á s.l. sumri, og einnig þeirra miklu og almennu launabreytinga, sem urðu á þessum sama tíma hjá ýmsum starfshópum í landinu.

Það var því fyllilega ljóst öllum atvinnurekendum í landinu og einnig ríkisstj., hvað að fór í þessum efnum. Staðreyndirnar eru þær, síðan kaupgjaldssamningarnir voru gerðir í miðjum júní og þar til nú, að hin almenna framfærsluvísitala hefur hækkað um 15 stig, og nú er vitað um 6 viðbótarvísitölustig vegna verðhækkana, sem þegar hafa verið ákveðnar eða er nokkurn veginn vitað um að munu á detta á næstunni, þannig að heildarhækkun framfærsluvísitölunnar er um 21 stig, sem nú er gengið út frá, en það samsvarar um 16% hækkun á verðlagi. Slíkar staðreyndir gera það vitanlega alveg ljóst, að til verulegra kaupbreytinga hlýtur að þurfa að koma, eins og þessi mál öll liggja fyrir nú.

Hæstv. ríkisstj. hefur þegar lagt fram till., sem áttu að verða til þess að auðvelda lausn þessarar deilu. En till. ríkisstj. náðu allt of skammt, eins og þegar kom í ljós, því að þær gerðu hvergi nærri að jafna þann mun, sem liggur í þessari fyrirsjáanlegu 16% verðlagshækkun, sem orðin er eða alveg sýnilega verður nú næstu daga.

Vegna þess, hve þetta ástand allt saman er alvarlegt og vandinn fer sýnilega vaxandi, því lengra sem líður, þá vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi ekki hugsað sér að leggja fram nýjar till., sem greitt gætu fyrir lausn vinnudeilnanna, eða er málinu kannske þannig komið, að hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til frekari afskipta af málinu og þykist hafa gert allt það, sem hún geti gert? Ef málið er þannig, þá tel ég alveg óhjákvæmilegt, að það komi skýrt fram hér á Alþingi og það fyrr en síðar, vegna þess að að öllum líkindum fer nú mjög að styttast sá tími, sem þm. eru hér að störfum fyrir jólafrí, en ég tel, telji ríkisstj. sig ekki hafa möguleika til frekari aðgerða, þá hljóti Alþingi sjálft að athuga, hvað það getur gert til þess að greiða fyrir samkomulagi á milli deiluaðila. Það vakir ekki fyrir mér, að Alþingi setji löggjöf um lausn deilunnar, heldur hitt, að á því leikur enginn vafi, að Alþingi hefur í sínum höndum aðstöðu til þess að gera ráðstafanir, bæði til hagsbóta fyrir launþega og einnig ráðstafanir til hags fyrir framleiðendur í landinu, sem gætu orðið til þess, að þessir aðilar, sem semja þurfa um kaup sín á milli, geti náð eðlilegu samkomulagi í þessari deilu.

Á því leikur enginn vafi, að margt og mikið er í hættu í landinu, ef verkföllin halda áfram að breiðast út, eins og allar Líkur benda til. Þó að svo hafi nú til tekizt, að verzlunarmenn hafi gert bráðabirgðasamning um sín kjör og séu ekki lengur í verkfalli, þá breytir það í rauninni mjög litlu um alvöruna í þessu máli. Þjóðarbúið lifir ekki lengi á því, að seldar verði upp þær vörur, sem nú liggja í verzlunum landsins. Það er hitt, sem skiptir mestu máli, hvort hægt verður að hefja framleiðslustörf á ný, þau störf, sem öll undirstaðan í þjóðfélaginu hvílir á. Ég minni á í þessu sambandi, að nú er einmitt sá tími, sem nauðsynlegur er til þess að undirbúa vetrarvertíðina hjá fiskibátaflotanum, og verði hin almennu verkföll lengi enn, þá hlýtur að falla framan af vetrarvertíð hjá mörgum, og auðvitað er skammt til þess tíma, að vetrarvertíð á að byrja, og þá er líka einnig fyrirsjáanlegt, að hún getur ekki hafizt víðast hvar á landinu, ef verkföllin standa þá enn yfir. Slíkt mundi auðvitað valda mjög tilfinnanlegu tjóni fyrir þjóðarheildina. Mér sýnist furðulegt, ef málin verða látin ganga þannig af hálfu atvinnurekenda og ríkisvaldinu sjálfu, að það þyki fært að eyða tugum eða jafnvel hundruðum milljóna króna í herkostnað í slíkri deilu eins og þessari, í staðinn fyrir að nota þá fjármuni, sem þannig fara, til þess að leiðrétta það, sem flestir menn í landinu nú viðurkenna að sé óhjákvæmilegt að leiðrétta, en það er að hækka laun hinna lægra launuðu í landinu.

Ég vil vænta þess, að hæstv. forsrh. svari spurningu minni um þetta mál, hvað ríkisstj. hefur hugsað sér í þessum efnum, hvort hún telur ekki nauðsyn á því og hún geti gert nýjar till., sem mættu verða til þess, að þessi mál leystust, eða hvort hún hefur nú dregið þannig að sér höndina, að hún telji sig ekki geta gert frekar að í málinu.