14.12.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

Verkföll

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan fá leyfi til að segja nokkur orð um þessi efni, sem hér hefur borið á góma, en ég skal reyna að haga orðum mínum þannig, að þeirra vegna þurfi ekki að þreyta hér langar umr. almennt um efnahagsmálin eða ástandið.

Það er enginn vafi, að mjög alvarlegt ástand er að skapast í landinu. Um það hljóta allir að vera sammála. Í þessu sambandi vil ég leggja alveg sérstaka áherzlu á, að mér finnst, að ríkisstj, berí skylda til að greiða fyrir því, að samningar geti tekizt, og eiga frumkvæði að samningaleiðinni. Allir vita, að almenna kaupgjaldið í landinu er óbærilega lágt, samanborið við önnur laun og einnig samanborið við hækkanir, sem orðið hafa á öðrum launum, enn fremur samanborið við það, sem raunverulega þarf minnst að hafa til þess að geta dregið fram lífið, eins og dýrtíðin er orðin. Og einnig vita menn, að samningsbundna, almenna kaupið er einnig lægra en það, sem borgað er í æðimörgum starfsgreinum, sem telja sig hafa ráð á því. En ýmsar nauðsynlegustu framleiðslugreinarnar telja sig ekki geta borgað hærra en samningar segja til um og þar með allt of lágt kaup, lægra en menn geta komizt af með. Þeir, sem búa við þetta samningsbundna kaup, þeir búa við óbærileg kjör.

Það, sem mér sýnist því fyrst og fremst þurfa að gera, þegar ástandið er svo alvarlegt, og ég skal ekki ræða hér, hvers vegna ástandifi er svona, þó að ég hafi mínar skoðanir á því, sem hafa ekkert farið dult og hafa í engu breytzt, heldur staðfestst, ef nokkuð er, — það, sem fyrst og fremst þarf að gera að mínu viti, er, að ríkisstj. standi fyrir því að greiða götu þeirra framleiðslugreina, sem höllustum fæti standa, svo að þessar framleiðslugreinar sjái sér fært að semja um lífsnauðsynlega kauphækkun strax. Ég tel, að ríkisstj. verði að gera þetta strax, því að ég get ekki séð, að málið leysist á viðunandi hátt öðruvísi en ríkisstj. eigi þannig frumkvæði að því að ganga í þessa hlið á málinu.

Ég hef þá skoðun, en skal ekki fara að útfæra það hér nú eða vekja um það kappræður, að ef það hefði verið snúið að því að semja í október í stað þess, sem gert var, þá vært fyrir löngu búið að gera viðunandi samninga.

Ég álít einnig, að tillögur ríkisstj., sem hún gerði 3. des. eða eitthvað þar í kring, hafi verið þess alls ómegnugar að leysa þennan vanda og það hljóti öllum að vera ljóst. Þetta hlýtur að hafa átt að vera eins og fyrsta útspil af hendi hæstv. ríkisstj. Ég held, að ríkisstj. hljóti að hafa verið það alveg ljóst, að till. megnuðu alls ekki að leysa málið, og ég hef ævinlega leyft mér að líta svo á, að þær hlytu að vera fyrsta útspil ríkisstj. í málinu. Og ég álít það lífsnauðsyn, að hæstv. ríkisstj. dragi ekki stundinni lengur að spila út sínum spilum áfram, til þess að einhver von verði til, að hnúturinn leysist.

Þessar till. gengu að sumu leyti í rétta átt, en að öðru leyti voru gallar á þeim. Þær gengu að sumu leyti í rétta átt, en allt of skammt, til að þær gætu leyst vandann. Og ég held því, að hæstv. ríkisstj. hljóti að hafa verið ljóst, að þarna þurfi að bæta mikið um og gera stórfelldari ráðstafanir til hagsbóta fyrir framleiðsluna en hæstv, ríkisstj. ráðgerði í þeim till.

Ég vil benda á, að það hefur verið eytt miklum tíma til að fá sem flesta til að koma að samningaborðinu í einu. Mjög miklum tíma og mikillí fyrirhöfn hefur verið eytt í þetta, og þá álit ég, að það eitt sé sæmandi fyrir hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því, að mál allra þessara aðila verði leyst í einu, sem hafa þarna, sumpart fyrir hennar tilmæli, skipað sér saman til samninga. Fram að þessu hefur það mest verið fundið að, að það kæmi einn og einn í einu og þess vegna væri ekki hægt að koma neinni heildarlausn við. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á, að hæstv. ríkisstj. vinni þannig að þessum samningum og beiti áhrifum sínum í þá átt, að þannig verði að þeim unnið, að það verði leitað að heildarlausn fyrir þá, sem hafa skipað sér saman, nánast eftir tilmælum hæstv. ríkisstj., til þess að fremur væri hægt að ná tökum á þessum málum, en ekki verði farið út á þá braut að reyna að slíta þessi samtök í sundur og láta stórdeilu þessa standa óleysta, á meðan er verið að reyna við slíkt, — að gengið sé í þetta með heilindum og reynt að leysa málið sem mest í heild, þar sem nú loksins því hefur fengizt framgengt, að svo margir hafa komið í senn til að reyna að afgreiða kjaramál sín í einu lagi.

Hv. 5. þm. Austf., sem hóf þetta mál, spurði hæstv: ríkisstj. um, hvað hún ætlaðist fyrir og hvað væri hennar næsta skref í málinu, og hæstv. forsrh. kom nokkuð inn á það, og ég varð fyrir vonbrigðum að ýmsu leyti af því, sem hann sagði. Ég skal greina strax, í hverju það lá sérstaklega. Það lá í því, að hæstv. ráðh, talaði í þeim anda, að það væri ekki ríkisstjórnarinnar að eiga frumkvæði til að komast út úr þessum erfiðleikum. Þar er ég á allt öðru máli. Hann sagði líka, að launþegasamtökin hefðu ekki snúið sér til sáttasemjara og beðið um fund. Launþegasamtökin eiga sannarlega ekki að þurfa að snúa sér til sáttasemjara til að biðja um fund. Það á öllum, sem hér eiga hlut að máli, að vera skylt að halda uppi látlausum, linnulausum tilraunum til að leysa deiluna, kynna sér viðhorfin og gera þá uppástungur til lausnar henni.

Enn fremur sagði hæstv. ráðh., — og ég varð líka fyrir vonbrigðum með það, — að ríkisstj. mundi hvenær sem er ræða við aðila og athuga þeirra till. Þetta finnst mér ekki heldur rétt viðhorf. Ég álít, að hæstv. ríkisstj, verði að eiga frumkvæði í þessu máli og það muni seint leysast ella, vegna þess að lausn þess veltur svo mjög á því, hvaða ráðstafanir verða gerðar í málunum almennt, því að án slíkra ráðstafana verður ekki auðið að leysa þetta. Lögþvingunarleiðin er útilokuð. Hún er úr leik, sem betur fer, og það verður að leysa þetta mál með samningum, og þá verður ríkisstj. að eiga þar mikið frumkvæði og gera myndarlegar ráðstafanir, ef vel á að fara, og ekki bíða eftir því, að einn eða annar aðili geri þetta eða hitt, heldur hafa forustu í málinu.

Þetta er mitt svar við þeirri spurningu, sem hæstv, forsrh. varpaði í raun og veru fram, þar sem hann sagði, að spurningin væri, hvenær væri tímabært fyrir ríkisstj. að hefjast handa að nýju.

Ég vænti, að það, sem hæstv. forsrh. sagði svo um afskipti Alþingis og þá deilu, sem hér varð um lögbindingu kaups og annað þvílíkt, beri ekki að gott þannig, að hann beri ekki gott skynbragð á, að það er allt annað og sitt hvað og eins óskylt og austur og vestur eða suður og norður, að lögfesta kaupgjald á Alþ., og hitt, að ríkisstj. landsins geri allar hugsanlegar ráðstafanir með tilstyrk löggjafarvaldsins til þess að greiða fyrir því að leysa málið eftir samningaleiðinni og hafi frumkvæði um það, og það er það, sem ég fyrir mitt leyti vil leggja höfuðáherzluna á.