14.12.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

Verkföll

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé nú um mál að ræða hér, sem Alþingi geri ekkert þarfara í dag heldur en að ræða þessi mál, og ég vil mælast til þess alvarlega, að það verði haldið umr. áfram um þetta, og ég býst við, að þjóðin mundi verða undrandi yfir því, hvað Alþingi hefði annað nauðsynlegra að ræða heldur en þetta. Og ég geri það að mínum tilmælum, bæði til hæstv. forseta og annarra, að það sé haldið áfram umr. um þetta og reynt að komast að einhverri niðurstöðu í því.

Það er aðeins tvennt, sem ég vildi segja hér. Í fyrsta lagi viðvíkjandi siðferðilegri skyldu ríkisstj. til þess að skipta sér af vinnudeilum. Ég held, að flestar ríkisstj., sem ég hef haft nokkur kynni af, hafi álitið það siðferðilega skyldu sína að hafa eitthvað með vinnudeilur að gera og hjálpa til með að reyna að leysa þær. Ég man eftir því t.d. fyrir 20 árum, í tíð nýsköpunarstjórnarinnar, um leið og ein vinnudeila hófst, voru þrír af ráðh., Pétur Magnússon, Brynjólfur Bjarnason og Emil Jónsson, settir í það allan tímann að vinna eins og sáttasemjarar að því að koma sáttum á, og þannig hafa flestar ábyrgar ríkisstj. litið á þessi mál, hvaða flokkar sem hafa skipað þær.

Þessari hæstv. ríkisstj., sem nú situr, ber alveg sérstök skylda til þess að reyna að sætta í svona efnum. Af hverju? Af því að það er einvörðungu núv. hæstv. ríkisstj., að vísu ekki sú, sem hæstv. núv. forsrh. er í forsæti fyrir, heldur sú, sem hann tók við af, sem ber sökina á því, að atvinnurekendur og verkamenn koma sér ekki saman, vegna þess að sú hæstv. ríkisstj. sletti sér fram í þá samninga, sem verkamenn og atvinnurekendur höfðu gert af frjálsum vilja, og nam með lögum burt það ákvæði úr þeim, að kaupgjald skyldi hækka í hlutfalli við vísitölu, og með þessum afskiptum hefur núv. ríkisstj. og sú fyrrv., þar sem var annar forsrh., valdið öllum þeim vinnudeilum, sem hafa verið tvö síðustu ár. Öll þau verkföll, sem staðið hafa tvö síðustu ár, og þetta verkfall líka, eru eingöngu og einvörðungu af því, að þessi afskipti ríkisvaldsins fóru fram, og allt, sem verkamenn hafa getað áorkað með öllum þeim verkföllum, sem háð hafa verið tvö ár, hefur eingöngu náð til þess að bæta upp helminginn af því, sem ríkisstj. hefur gengið á verkamenn, þannig að það er siðferðileg skylda ríkisstj., sem sjálf hefur rænt verkamenn með lögum og hefur þeirra kaup nú 20% lægra en það var fyrir 3 árum, að sjá um að hjálpa þarna til að bæta. Aðilarnir hafa komið sér saman, en það eru lög ríkisstj., sem hindra það. Þeir vilja framkvæma þann frjálsa samning, sem þeir hafa áður gert, og þessa ábyrgð verður hæstv. ríkisstj, að muna.

Svo er hitt: Dettur nokkrum manni í hug, að það sé hægt að hækka um 40% kaupið hjá opinberum starfsmönnum, án þess að það hafi sín áhrif annars staðar? Hér er talað um 32%, það þykir ekki stórt, þegar hálaunamenn eiga í hlut. Við skulum yfirfæra þetta á hraðfrystihúsin. Það er talað um 30% kauphækkun. Hvað borga hraðfrystihúsin í kaup? 200 millj. kr. Hvað eru 30%, af því? Það eru 60 millj. Hvað er það fyrir þetta þjóðfélag að snara út 60 millj., þjóðfélag, sem hefur tugi þús. millj. í árstekjur? Eins og það þurfi að bera það á borð fyrir nokkurn lifandi mann, að það þurfi að stoppa einn einasta dag til þess að breyta slíku smáræði til. Þjóðfélagið fer sannarlega ekki úr skorðum, þó að þjóðfélagið snaraði þessum 60 millj. út Hún hefur það í kassanum. Það er þess vegna ekki til neins að koma hér og segja, að ríkisstj. fái ekkert við þessu gert. Hún getur lagað það á einni sekúndu.

Atvinnurekendur, það er talað um, að þeir vilji ekki semja. Hvenær hafa atvinnurekendur hér í 20 ár viljað semja um annað en að tryggja sér verðbólgu? Aldrei, aldrei nokkurn tíma, enda hafa þeir alltaf fengið hana.

Hæstv. forsrh. segir, að verkalýðsfélögin verði að koma sér niður á eitthvað raunhæft. 30% kauphækkun þýðir sömu kaupgetu og verkamenn höfðu 1947, þegar hæstv. núv. forsrh. var í fyrsta skipti ráðh. Það þýðir sömu kaupgetu og er 1959. Er það farið fram á mikið? Það er eðlilegt og raunverulegt, að kaup verkamanna hefði tvöfaldazt á síðustu 20 árum, ef það væri nokkur mynd á stjórnarlagi á Íslandi.

Svo er hitt atriðið, ég skal reyna að vera stuttorður: Hæstv. forsrh. spurði: Hvað er markmiðið? Það er alveg greinilegt, hvað hefur verið markmiðið allan tímann hjá íslenzkum verkamönnum í þeirra baráttu. Þeir hafa verið að reyna að tryggja verðgildi síns kaupgjalds. Markmið atvinnurekendanna hefur verið allan tímann verðbólga. Það er það „prinsip“, sem atvinnurekendastéttin á Íslandi hefur haft, og það eru örfáir atvinnurekendur, sem eru á móti þeirri þróun. Það hefur verið „prinsip“ atvinnurekendastéttarinnar á Íslandi í 20 ár, og það er hárrétt hjá hæstv. forsrh., að hver einasta ríkisstj., sem hér hefur setið, mun hafa látið undan atvinnurekendum með þetta, og það er eingöngu af þeirri ástæðu, að verðbólgan hefur verið aðalgróðalind íslenzkrar atvinnurekendastéttar. Hún hafði ekki manndáð í sér til þess að græða með því að skipuleggja af viti sitt atvinnulíf, aldrei, hún hefur alltaf orðið að græða á verðbólgu. Og þeir örfáu atvinnurekendur, sem hafa sýnt það, að þeir geta skipulagt sín fyrirtæki af viti, hafa raunverulega tapað á þessari verðbólgu.

Þetta er það, sem við verðum að gera okkur ljóst. Verkamenn og verkamannastéttin hefur alltaf verið og er reiðubúin til að tryggja verðgildi kaups, af því að hún hefur aldrei haft pólitísku völdin, aldrei haft ríkisvöldin til þess. Atvinnurekendurnir hafa öll þessi 20 ár haft sín pólitísku völd, haft ríkisvaldið, hvaða flokkar sem það eru annars, sem hafa skipað ríkisstj, hverju sinni. Þess vegna vil ég taka það fram að lokum, að atvinnurekendastéttin íslenzka er ein um þessa þróun af öllum atvinnurekendastéttum Evrópu. Hún er sú eina, og hún gerir þetta vegna þess, að hún gengur hér í ríkisbankana og sparifé almennings, tekur peningana þaðan og heimtar svo, að verðgildi þeirra sé lækkað, þegar á að fara að borga þá til baka. Þess vegna er það, sem þarf að gera, og það, sem hver heiðarleg ríkisstj. ætti að skoða sína skyldu, það er að skapa aðhald við atvinnurekendur, hækka kaup verkamanna, sem er nú 20% lægra hvað verðgildi snertir heldur en það var fyrir 4 árum, og skapa aðhald að atvinnurekendunum. Þess vegna er ekki til neins að afsaka sig svo með því. Það stendur ekki á verkamönnum í þessu. Þeir eru með 20% lægra kaup en raunverulegt kaupgjald var fyrir 3 árum og 20% lægra en það var fyrir 18 árum. Svona hefur ríkisvald atvinnurekendanna farið með þá.