14.12.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

Verkföll

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð, því að tíminn er mjög takmarkaður.

Mér þóttu það fréttir, sem komu fram hjá hv. 5. þm. Vestf., sem ég hafði ekki heyrt áður, að á bak við till. ríkisstj. hefðu legið áætlanir um að leggja á 220 millj. kr. nýjar álögur, og ég heyrði ekki, hvort hann sagði 45 eða 75 millj. af því til framleiðslunnar aftur. En séu þessar upplýsingar réttar, þá er náttúrlega ekki von, að þessar till. hafi reynzt þess megnugar að koma áleiðis lausn á málinu.

Ríkissjóður hefur núna stórkostlegan greiðsluafgang, og svona lagaðar álögur geta varla verið hugsaðar til annars en að halda áfram stórkostlegum greiðsluafgangsbúskap eða raunverulega til þess að taka eitthvað af kauphækkun, sem yrði, aftur til baka, draga úr kaupgetunni með álögum á móti. En ég held að slíkar till. verði að leggja til hliðar, ef á að takast að leysa málið.

Við vitum, í hvaða hnút þessi efni eru komin, þegar við athugum, að verkamaður hefur 67 þús. kr. fyrir 8 stunda vinnu og 32% kauphækkun mundi koma kaupinu fyrir 8 stunda vinnu upp í 89 þús. kr., en hæstv. forsrh. segir, að um slíkt geti maður ekki í alvöru talað. En nú er vaxtakostnaður, beinn kostnaður við litla íbúð orðinn 50 þús. kr. á ári eða svo. Á þessu sjáum við, hvað geigvænlegan vanda er við að fást og hvað þessu er öllu illa komið, en út í það ætla ég ekki að fara að ræða ástæðurnar fyrir því. En forsrh. segir, að hér beri svo mikið á milli, að allt sé óviðráðanlegt, eins og þetta horfi að sinni. En ég vil benda á, að nú þegar greiðir mikið af atvinnurekstrinum kaup yfir taxta, þannig að vandamálið er ekki eins stórfellt að því leyti til og hæstv, forsrh. vildi vera láta, að því er mér fannst. Það er ekki eins geigvænlegt vandamálið eða það bil, sem þarf að brúa, vegna þess að atvinnureksturinn eða mikið af honum greiðir nú mjög mikið yfir taxta.

Ég vil líka láta í ljós þá skoðun, að þetta mál, eins og nú er komið, sé gersamlega óleysanlegt, á meðan t.d. hraðfrystihúsunum, sem lakast standa nú víst að vígi, er ætlað að borga nær því jafnmikið samanlagt í vexti og útflutningsgjöld og þau borga í vinnulaun. Meðan þannig standa málin, virðist þetta ekki vera með nokkru móti leysanlegt. Og ég legg áherzlu á, að mér sýnast ekki vera neinar líkur til þess, að raunhæfir samningar geti tekizt, nema ríkisstj, breyti afstöðu sinni og geri nú sem allra fyrst og helzt strax frekari boð af sinni hendi til að greiða fyrir a.m.k. þeim hluta framleiðslunnar, sem erfiðast ú með að greiða lífsnauðsynlegt kaup.

En það sjáum við öll, að þetta kaupgjald, sem nú er, getur ekki staðizt stundinni lengur, það er alveg óhugsandi, miðað við þann kostnað, sem orðinn er við að lifa, og það ósamræmi allt, sem orðið er í þjóðarbúskapnum. Ég vil því enn undirstrika áskoranir mínar á hæstv. forsrh. að taka frumkvæði í þessum málum og bíða ekki eftir öðrum, því að aðrir munu bíða eftir honum, og það fer ekki vel um slíkt mál sem þetta, ef þannig verður til lengdar.