14.12.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

Verkföll

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ekki skal ég álasa hæstv. forsrh. fyrir það, þó að hann vilji gæta þess hófs í þessum málum sem öðrum, að þjóðarskútan haldist á réttum kili. Það er vitanlega hans frumskylda sem forsrh., sem kapteins í brúnni. En er ekki þjóðarskútan nú á réttum kili, eigum við ekki að ganga út frá því, eða er hún farin að hallast eitthvað talsvert? Það kann nú að vera, að hún sé farin að hallast, en þó mun hún vera á réttum kili. Segjum það, að hún þoli ekki að taka á sig fyllstu kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Hún hafi ekki burðarþol til þess. Þó voru þær kröfur lægri en búið var átakalaust að úthluta öðrum stéttum á liðnu sumri. Þá hafði hún slíka kjölfestu. Nú hefur enn þokazt í áttina millí aðila. Verkamenn hafa gefið eftir af sínum kröfum um 12%. Atvinnurekendur hafa komið til móts við þá, um 10%, skulum við segja. Það eru ekki 10% á allt kaup, en á dagvinnukaup. Það hefur minnkað bilið. Ég álít, að þarna þurfi að halda áfram og eyða ekki ógnartíma í það. Það liðu ekki aðeins dagar, heldur vikur, þangað til atvinnurekendur fengust til að gera sitt fyrsta boð, sögðust ekkert geta boðið. Það var illa farið með tíma. Við gerðum okkar boð á sömu kvöldstund. Þegar atvinnurekendur höfðu gert sín boð, þá sendum við boð til baka í bæði skiptin. Og ég álít það dýrast af öllu fyrir þjóðarbúið að draga þetta mjög á langinn að óþörfu. Ég hef sagt það áður, og ég segi það enn, að það er skylda atvinnurekenda að gera það upp við sig sem allra fyrst, hvað þeir geti ýtrast teygt sig. Þá eiga verkalýðsfélögin að svara, og þá, á ríkisstj. að taka a.m.k. til óspilltra málanna að finna öll ráð, sem hún geti, til að brúa bilið.

Það er ekki rétt hjá hæstv. forsrh., ef hann hefur meint það í sambandi við tilboð hans um hagræðingu á útsvarsstiganum, að því hafi verið tekið með því að fussa og sveia. Það er ekki rétt. Við höfum metið þetta sem kjarabót til hinna lægst launuðu eða a.m.k. sem þátt í verðtryggingu þess kaups, sem þeir nú fái. Hins vegar vitum við það vel, að teknaþörf bæjarfélaganna kann að hafa aukizt svo síðan í fyrra, síðan á síðasta skattári, að útsvörin verði nú hærri og að menn þrátt fyrir það, að þeir væru með lágtekjur og fengju ívilnun, þá yrðu þeir kannske með eins há útsvör á þessu ári. Við höfum ekki fussað og sveiað við þessu, við höfum virt það, eins og við getum virt það. Það er til léttis sumum launastéttanna og er til að íþyngja öðrum.

Rétt er það hjá hæstv. forsrh., að við eigum að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvaða afleiðingar kauphækkanir hafi, hvaða aðrar hækkanir þær hafa í för með sér. Það kemur ekkert á mig að óvöru, að afurðir bænda eiga að hækka eftir vissum reglum, ef kaup verkafólks hækkar, og ég horfi ekki á þetta með neinum hryllingi. Ég tel þetta alveg sjálfsagðan hlut, að bændastéttin og launamenn, sem vinna að landbúnaðarstörfum, fái hækkað kaup, þegar verkafólk og allar aðrar stéttir þjóðfélagsins hafa fengið hækkað kaup. Og undir því verður þjóðarskútan að rísa.

Það var einn boðskapurinn í gerðardómnum, sem boðaður var í gær og samið hafði verið um í gær, að það eigi að koma til móts við kröfur verzlunarfólks. Framsögumaður Landssambands verzlunarmanna mun hafa sagt á þeim fundi, að hann hefði fyrir því fullar sannanir, að meðaltalshækkun verzlunarmanna yrði ekki undir 45%. Hann mun hafa sagt þetta á 600 manna fundi í gærkvöld í Sjálfstæðishúsinu. Þetta eigum við nú, sem sitjum við samningaborðið, líka að taka með í reikninginn. Þarna eru verulegar hækkanir, sem munu leiða af sér aðrar hækkanir, ef þetta er sannleikur. En af hverju er svona þungt og erfitt fyrir verkafólkið að fá svolitla hækkun á sínu kaupi, verkafólkið, sem allir vilja nú gera allt fyrir? — Ég er alveg að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. — Það er af því, að það er búið að tengja allt við þetta. Það stendur nú í samningsréttarlögum opinberra starfsmanna, að verði almennar kauphækkanir, þá eigi þeir endurskoðunarrétt á öllum sínum launakjörum. Það stendur í gerðardómssamkomulaginu frá í gær eða fyrradag, að verði almennar kauphækkanir, þá á gerðardómurinn, sem kveða skal upp fyrir 1. febr., að taka tillit til þess, þá eiga þeir rétt á hækkunum umfram gerðardóminn. Það er allt saman búið að binda í kippu við launamál hinna lægst launuðu, og svo segja allir ósköp angurblíðir í tóni: Við viljum gera allt fyrir hina lægst launuðu. — En það er búið að binda allt við þetta, og svo þykist enginn geta hreyft þetta neitt. Þá er talað um, að hætta sé á, að þjóðarskútan missi kjölfestuna. Ég fullyrði, að það er vilji, fullur vilji innan verkalýðssamtakanna fyrir hendi til samninga, til samninga á sem allra skemmstum tíma. Ég tel, að góður vilji frá ríkisstj. í verki mundi nú geta mjög stuðlað að því, að samningar tækjust á skömmum tíma.