16.01.1964
Sameinað þing: 34. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

Alþingishús og ráðhús

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst ekki vera hægt að segja, að þetta mál sé í æskilegu horfi, því að bæjaryfirvöld Reykjavíkur eru mjög langt komin að ákveða fyrir sitt leyti, að þau vilji hafa ráðhúsið í norðurenda Tjarnarinnar, en Alþingi hefur ekki gert það upp við sig, hvað það vill gera í þinghúsmálinu. En í raun og veru þarf, eins og hér hefur verið tekið fram, að ákveða þetta hvort tveggja í senn, því að þetta getur rekið sig hvað á annað, eins og hér hefur greinilega verið undirstrikað.

Ég skal ekki dæma um, hverjum þetta er að kenna, en ég hygg, að það megi engu síður segja, að hér sé um að kenna tómlæti þeirra, sem ráðið hafa þessum málum á Alþingi, en bæjarstjórninni, nema hvorum tveggja sé hér nokkuð um að kenna, því að hér hefði þurft að hafa meira samráð á fyrri stigum málanna.

Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er víst æðilangt síðan menn vissu það hér í þessu húsi, að það kom mjög til greina að hafa ráðhúsið í norðurenda Tjarnarinnar, og forusta Alþingis, sem í þessu falli eru forsetarnir, hefur náttúrlega ekki knúið nóg málið og ekki gengið nógu djarflega fram í því, að gert yrði upp, hvað yrði um framtíðarlausn á húsnæðismálum Alþingis.

Öll hljótum við að vita, að þetta getur varla staðið stundinni lengur hérna, eins og það er. Það má segja, að hér sé ekki hægt að tala við mann í einrúmi í þessu húsi, hér er orðið svo þröngt. Hér eru engin sérstök vinnuherbergi til fyrir þm. af neinu tagi og ekkert athvarf þeim til handa, nema gangarnir og eitt herbergi fyrir hvern flokk. Hér þarf að ráða til lykta mörgum stórlega merkum málum. Hér þarf að veita móttöku fjölda manna, sem hér koma til að ræða við þm. um áhugamál sín, og slíkar viðræður verða oftast að fara fram úti við vegg einhvers staðar, þar sem mannfjöldi er nærstaddur, eða í gluggakistum eða í öðrum skotum, sem menn flýja í. Þessi vinnuskilyrði eru lengi búin að vera alveg ófullnægjandi, og þetta getur ekki staðizt. Þess vegna hefur verið sýnt of mikið tómlæti í þessu máli. Menn hafa haft við nóg annað að glíma o.s.frv., og þetta hefur setið á hakanum.

Nú vil ég taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að endanleg ákvörðun í þessu efni, varðandi ráðhús Reykjavíkur, getur náttúrlega ekki orðið tekin nema yfirvöld landsins samþykki, hvað gera á, til viðbótar því, sem yfirvöld bæjarins gera. Ég þori ekki að segja um, hvort það getur farið saman, að ráðhúsið sé byggt í norðurenda Tjarnarinnar, og hitt, að Alþingi verði áfram á þessum stað. Ég þori ekki að dæma um slíkt eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja. Það þarf ýtarlegrar athugunar við. En þetta þarf að athuga gaumgæfilega, m.a. vegna þess að frá mínu sjónarmiði væri langæskilegast á allan hátt, að Alþingi gæti verið áfram, þar sem það hefur verið síðan alþingishús var byggt á Íslandi. En hvort það getur farið saman, að ráðhúsið verði í norðurenda Tjarnarinnar og Alþingi verði áfram hér á þessum stað og með þeim viðbótarráðstöfunum, sem hægt er að gera, þori ég ekki að dæma um. En þetta sýnist mér þurfa að athuga gaumgæfilega, áður en ráðhúsmálinu verður ráðið endanlega til lykta. Yfirvöld bæjarins taka ákvarðanir fyrir sitt leyti og segja, hvað þau vilja láta gera, en eins og hér hefur m.a. verið undirstrikað af hæstv. forsrh., er það ekki endanlegt, því að það verður að sækja þessi mál undir ríkisstj., og ég dreg það ekki í efa, að ríkisstj, muni hafa samráð við Alþingi varðandi þetta efni.

Ég vil því taka undir, að það verði farið að starfa að þessum málum af meira afli en áður, því að hér verður sjálfsagt að taka ákvörðun, áður en mjög langt um líður.

En þá kemur spurningin, ef það kæmi til greina, að Alþingi flytti sig um set, hvað þá ætti að gera. Og ég skal ekki fara langt út í það. Ég vil þó að gefnu tilefni hér núna segja það sem mína skoðun, og það er í framhaldi af því, að ég hef oft hugleitt þau efni, að ég álít það með öllu óframkvæmanlegt að flytja Alþingi úr höfuðstaðnum. Það liggur blátt áfram í því, að ef Alþingi á að verða áfram, eins og við sjálfsagt öll viljum, æðsta stofnun landsins og sú valdamesta, þá verður Alþingi að eiga æðilanga setu á hverju ári. Alþingi getur ekki komið sér við, ef svo mætti segja, ekki beitt áhrifum sínum nema með því að sitja æðilengi árlega, og þróunin verður auðvitað sú, að það situr lengur og lengur árlega, eins og þjóðþing í öðrum löndum og eins og á að verða og hlýtur að verða, ef Alþingi á ekki að verða málamyndastofnun. Og þá gefur auga leið, að stofnun, sem þarf að sitja til að ráða fram úr jafnflóknum viðfangsefnum og Alþingi eru nú ætluð og þar sem þm. er þar að auki ætlaður fjöldi starfa fyrir almenning í ýmsum stofnunum, stjórnarstofnunum, slík stofnun verður að vera á sama stað og ríkisstj. og aðrar aðalstöðvar ríkisins. Ef svo verður ekki, verður niðurstaðan sú, að valdið dregst úr höndum Alþingis og færist yfir til stjórnarskrifstofanna og ríkisstj., ef þetta er ekki haft á sama stað. Enn fremur mundi þm. ekki verða kleift að annast þingstörfin og það, sem stendur í sambandi við þau, eins og nú er komið málum, nema vera innan um hinar stærstu stofnanir, sem þarf að hafa samband við.

Það væri á ýmsan hátt mjög æskilegt af sögulegum og þjóðernislegum ástæðum t.d., eins og hér var skotið fram áðan, að flytja Alþingi til Þingvalla. En mín skoðun er sú, að eftir því sem menn velta þessu meira fyrir sér, eftir því muni menn komast nær þeirri skoðun, sem Jón Sigurðsson hélt fram um þetta, að Alþingi verður að vera í höfuðborginni. Og ekki sízt er þetta nauðsynlegt einmitt með okkar Alþingi , því að ég hygg, að það muni verða niðurstaðan, þegar farið verður að rekja þessa þræði, að Alþingi heldur ekki þeim sessi að vera raunverulega valdamesta stofnun landsins og sú, sem tekur hinar raunverulegu ákvarðanir um þýðingarmestu málin, nema því aðeins að það sitji æðilengi árlega og sitji í höfuðborginni, þar sem ríkisstj. er og þar sem aðrar stjórnarstofnanir landsins eru. Það er óhugsandi, að hægt sé að halda saman þeim þráðum, sem þarna þurfa að vera fast tengdir saman, með öðru móti. Ég veit, að það eru sjálfsagt æðimargir nú, eins og oft hefur verið áður, eins og var getið um áðan og kom fram kringum 1930, sem mundu gjarnan vilja, að hægt væri að færa Alþingi á Þingvöll við Öxará. En mér sýnist það óframkvæmanlegt, og hef ég talsvert íhugað þessi mál undanfarið. Það hefur gefizt tilefni fyrir mig til að hugleiða þetta, vegna þess að ég á að heita að vera í þessari nefnd, sem fjallar um þinghúsmálið, en hefur verið svona ódugleg, eins og réttilega hefur verið bent á. En forsetar Alþingis hafa átt að hafa forustuna í nefndinni.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en að lokum aðeins endurtaka, að ég mæli sterklega með því, að það verði tekið til óspilltra málanna varðandi þetta þýðingarmikla málefni. Ég vil leggja aðaláherzlu á það, að hvað sem ofan á verður, þá verður eitthvað að aðhafast í þessum málum sem fyrst, því að það er alveg ómögulegt, að Alþingi geti notið sín í þeim húsakynnum, sem það nú hefur yfir að ráða. Þau eru gersamlega ófullnægjandi til þess.