16.10.1963
Sameinað þing: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

Olíugeymar í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. hefur spurzt fyrir um það, hvort ríkisstj. hafi í hyggju að gera samninga um mannvirkjagerð í Hvalfirði eða hvort slíkur samningur hafi verið gerður. Ég mun að sjálfsögðu svara þessari spurningu, en um leið og ég geri það, þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir málinu í heild, sérstaklega í tilefni af þeim orðum, sem hv. 1. þm. Austf. lét falla hér áðan.

Samkv. varnarsamningnum frá 5. maí 1951 taka Bandaríkin að sér að annast varnir Íslands í umboði NATO. Bandaríkin greiða allan kostnað við veru varnarliðsins á Íslandi og mannvirkjagerð þess hér. Íslandi ber þó að láta varnarliðinu í té nauðsynlegt land án endurgjalds, eftir því sem um verður samið.

Síðan varnarliðið kom til Íslands, hefur það ráðizt í framkvæmdir fyrir þúsundir milljóna ísl. kr. Allar hafa þessar framkvæmdir verið bornar fyrir fram undir ríkisstj. Íslands. Hún hefur samþ. þær og látið í té nauðsynlegt land. Þessar framkvæmdir hafa aldrei verið bornar undir Alþingi.

Fyrir mörgum árum komu NATO-ríkin sér saman um að stofna sérstakan sjóð, sem skyldi greiða vissar varnarframkvæmdir. Fé í þennan sjóð hafa öll aðildarríki NATO greitt nema Ísland. Bandaríkin greiða yfir 40% af framlagi til sjóðsins. Sjóður þessi hefur verið nefndur infrastructuresjóður, og þær framkvæmdir, sem aðallega hafa fallið undir sjóðinn, eru flugvallagerðir, olíuleiðslur, eldsneytis- og sprengiefnageymslur, fjarskiptastöðvar og annað slíkt.

Á árinu 1953 fór NATO fram á það við ríkisstj. Íslands, að leyft væri að taka byggingu lóranstöðvar á Snæfellsnesi inn á infrastructure áætlun NATO og að byggja stöðina á kostnað infrastructure-sjóðsins. Utanrrh., dr. Kristinn Guðmundsson, veitti þetta leyfi. Málið var ekki borið undir Alþingi, enda ekki um þingmál að ræða.

Snemma á árinu 1955 komu fram till, frá NATO um, að komið skyldi á fjarskiptasambandi milli Bretlands og Íslands á vegum NATO og á kostnað infrastructure-sjóðsins. Einnig komu fram á sama tíma till. um, að gerðar skyldu í Hvalfirði geymslur fyrir olíu og sprengiefni ásamt aðstöðu fyrir skipalægi samkv. infrastructure-áætlun NATO. Á árinu 1955 verður utanrrh. Íslands, dr. Kristinn Guðmundsson, forseti NATO. Tilmælin um infrastructure-framkvæmdir í Hvalfirði eru þá ræddar hér heima og við NATO. Niðurstaðan verður sú, að fjárveiting til þessara framkvæmda er tekin upp í áætlanir um fjárveitingar úr infrastructure-sjóði, og eru áætlanir þessar gerðar 1. marz 1956. Utanrrh., dr. Kristinn Guðmundsson, er þá enn í forsæti Atlantshafsbandalagsins.

Það er ekki venja og ég þekki þess engin dæmi að taka fjárveitingar upp í fjárhagsáætlun infrastructure-sjóðsins, nema áður sé gengið úr skugga um, að viðkomandi land sé samþykkt framkvæmd þeirri, sem fé er veitt til. Við ályktun Alþingis frá 28. marz um endurskoðun varnarsamningsins féllu niður að mestu verklegar framkvæmdir varnarliðsins á Ísiandi. M.a. stöðvuðust infrastructure-framkvæmdir þær, sem fé hafði verið ráðgert til.

Að áliðnu ári 1956 var það kannað af hálfu NATO, hver afstaða ríkisstj. Íslands væri til ráðagerða þeirra um infrastructure-framkvæmdir á Íslandi, sem uppi höfðu verið, áður en vinstri stjórnin var mynduð. Utanrrn. þurfti því að taka til athugunar, hvort þessar framkvæmdir skyldu leyfðar eða ekki. Það kann að orka tvímælis, hversu bindandi aðgerðir fyrirrennara vinstri stjórnarinnar voru í þessum efnum. Ég ætla ekki að fara út í það, en hv. þm. Hannibal Valdimarsson, þáv. félmrh., lýsti því yfir í ræðu á Alþingi 6. des. 1956, að ekki væri hægt að ógilda loforð fyrrv. ríkisstj. um varnarframkvæmdir á Íslandi.

Að athuguðu máli tók utanrrh. þá ákvörðun að standa við leyfið um byggingu lóranstöðvar á Snæfellsnesi, enda hefur rekstur þeirrar stöðvar mikla þýðingu fyrir þjóðina langt út yfir varnargildi hennar. Fyrirhugaðar framkvæmdir í Hvalfirði vildi utanrrn. hins vegar ekki leyfa. Af hálfu NATO hefur á undanförnum árum hvað eftir annað veríð leitað eftir leyfi til að byggja olíutanka í Hvalfirði og nauðsynleg löndunartæki í því sambandi. Tankar þessir eru einvörðungu ætlaðir til birgðageymslu á friðartímum og engar skipaferðir um Hvalfjörð í sambandi við þá nema til að fylla þá með eldsneyti og endurnýja það, er það hefur verið geymt þar vissan tíma. Ríkisstj. hefur nú fallizt á, að fé sé veitt úr infrastructure-sjóði til að gera mælingar og athuganir á byggingu olíutanka í Hvalfirði og mælingar og nauðsynlegar athuganir um afgreiðsluútbúnað í því sambandi. Þessar athuganir standa yfir. Olíutankarnir í Hvalfirði eru orðnir mjög gamlir. Flestir voru þeir byggðir á árunum 1942 og 1943. Eins og títt er um mannvirki gerð á stríðstímum, var lítt til þeirra vandað í upphafi, enda eru margir þeirra nú í slæmu ástandi. Einhver endurnýjun hefur farið fram, en öldungis ófullnægjandi. Ljóst er, að miklu frekari endurnýjunar er þörf. Er þar um að ræða fjárfrekari framkvæmdir en svo, að slíkt verði gert fyrir innlent fé. Eldsneytismagn það, sem hægt hefur verið að geyma í Hvalfirði, hefur og í mörg ár verið talið öldungis ófullnægjandi. Þessi staðreynd var viðurkennd af Íslands hálfu þegar fyrir daga vinstri stjórnarinnar. Loks hafa Íslendingar tvöfaldra hagsmuna að gæta í sambandi við tankana í Hv alfirði. Annars vegar er þýðing þeirra fyrir varnir landsins og hins vegar þýðing þeirra fyrir íslenzkan sjávarútveg. Það hefur komið fyrir, að olíuforði landsmanna hefur þrotið á vetrarvertið. Fram undan var stöðvun bátanna. Málinu var bjargað með olíu frá tönkunum í Hvalfirði. Ég minnist a.m.k. tveggja slíkra tilfella. Annað var á dögum vinstri stjórnarinnar, hitt tilfellið var í fyrra.

Að öllum þessum ástæðum athuguðum, hefur ríkisstj. áformað að leyfa nokkra endurnýjun og aukningu á tönkunum í Hvalfirði, byggingu afgreiðsluaðstöðu í því sambandi. Verklegum athugunum í Hvalfirði er ekki lokið enn þá. Fyrirsjáanlegt er þó, að þarna verður um miklu minni framkvæmdir að ræða en áformað var 1955, þegar beiðnin kom upphaflega fram. Þá var talað um 25–28 tanka, nú eru ráðgerðir 8 með tilheyrandi löndunaraðstöðu og tvennum legufærum. Þegar verklegum athugunum er lokið í Hvalfirði, verður málið athugað nánar og ef ríkisstj. sýnist svo, verður sérstakt samkomulag gert um framkvæmdirnar. Grundvöllur þess samkomulags verður sá, að tankarnir verði eingöngu notaðir fyrir varabirgðir á friðartímum, sem gripa megi til, ef til ófriðar kemur. Skipaferðir í Hvalfirði breytast ekkert þrátt fyrir þessa mannvirkjagerð frá því, sem verið hefur.

Varnarliðið hefur verið hér í full 10 ár og haft hér stórkostlegar verklegar framkvæmdir. Allar hafa þessar framkvæmdir, eins og ég sagði í upphafi, verið bornar undir ríkisstj. og leyfðar án samráðs við Alþingi, enda ekki þingmál. Þó að fé til tankbygginga í Hvalfirði komi úr infrastructure-sjóði, en ekki ríkissjóði Bandaríkjanna beint, þá breytir það engu í málinu. Í samkomulaginu, sem gert verður, ef til kemur, um framkvæmdir í Hvalfirði, verður samið um þær sem hluta varnarliðsframkvæmda samkv. varnarsamningnum. Þessar framkvæmdir fara fram á vegum Bandaríkjanna, og gagnvart Íslandi virðist það ekki breyta máli, hvaðan féð kemur.

Ég hygg, að með þessum upplýsingum sé ekki aðeins svarað þeirri fsp., sem hv. 1. þm. Austf. lagði hér fyrir, heldur einnig gefin nokkru gleggri mynd af málinu en áður hefur verið. Fréttatilkynning um þetta var gefin út í sumar, þegar ráðið var að láta athuganir fara fram upp frá, en þá var málið enn á því byrjunarstigi, að fyllri upplýsingar var ekki hægt að gefa.