17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

95. mál, vegalög

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að það hafi orðið ánægjuefni fyrir margan hv. alþm., að hæstv. ríkisstj. skyldi svo rumska í vegamálunum, að hún hefur nú lagt fram frv. til nýrra vegalaga. Hitt er svo annað mál, hversu aðfinnsluvert það er að gera það svo seint, að segja má, að stappi nærri kraftaverki, ef það tekst að afgreiða frv. frá Alþingi fyrir jól eða fyrir þann tíma, sem mjög miklu máli skiptir vegna fjáröflunarákvæða frv. Þegar á þetta er litið og að frv. er í ýmsum atriðum eða var fyrst og fremst í ýmsum atriðum meingallað, þá má telja það furðuvel gert af hv. samgmn. og öðrum þeim, sem utan þingnefndar hafa unnið að málinu, að það skuli þó hafa fengizt í gegn það mikilvægar leiðréttingar á frv., að ég geri ráð fyrir, að flestir telji eftir atvikum viðhlítandi, a. m. k. í bili. Ég vil ekki leyna því, að að mínum dómi eru enn ýmsir gallar á frv., sem ég hefði talið mjög nauðsynlegt og æskilegt að fá út úr því, og í sumum tilfellum kannske tæplega vansalaust af Alþingi að láta í þeim atriðum málið þannig frá sér fara eins og nú er ráðgert. En það þýðir sjálfsagt ekki heldur að leyna sig því, að vegna tímaskorts og annarra aðstæðna þarf varla að búast við því, að frekari leiðréttingar en orðið er fáist á frv., og þess vegna verði menn, hvort sem mönnum er það ljúft eða leitt, að horfast í augu við það að fylgja málinu eins og það er nú frá hendi hv. samgmn. eða leggja út í baráttu um einstök atriði, sem gætu kostað það, að málið tefðist svo, að það yrði ekki afgreitt fyrir jól.

En þótt ég segi þetta og gefi þar með í skyn, að ég fyrir mína parta muni ekki sérlega fús að fylgja brtt. við frv., öðrum en þeim, sem samgmn. hefur orðið ásátt um, þá vil ég þó minnast á eina brtt., sem ég tel fyrst og fremst mikla nauðsyn að samþykkja, þótt hún að mínum dómi gangi of skammt. Á ég þar við brtt. hv. 5. þm. Austf., þar sem hann leggur til, að lögbundið sé, að ríkissjóður leggi fram ákveðinn hundraðshluta á móti því fé, sem eftir öðrum leiðum kemur inn í þennan væntanlega vegasjóð. Ég skal ekki fara inn á það atriði, hvernig hugsað er að afla fjár til vegasjóðsins, en ég vil þó láta ánægju mína í ljós í sambandi við það, að hæstv. ríkisstj. virðist þó nú að lokum hafa talið eldri till, okkar framsóknarmanna um fjáröflun til nýbygginga og viðhalds vegakerfisins nýtilegar. Ég á þar við þær till., sem á sínum tíma voru fram bornar af Framsfl. um, að til vegagerðar skyldi beina verulegum hluta af því fé, sem ríkissjóður innheimtir og hefur innheimt af farartækjum eftir ýmsum leiðum. Og því nauðsynlegra var vitanlega að hverfa að þessari fjáröflunaraðferð til hagsbóta fyrir vegakerfi landsins, sem það er vitað mál, hversu átakanlega samgöngukerfið hefur drabbazt niður nú á undanförnum árum.

Í sambandi við till. hv. 5. þm. Austf. vil ég segja það sem mína skoðun, að eðlilegt er, að ríkissjóður leggi í vegasjóð ákveðinn hundraðshluta á móti þeim tekjum, sem í sjóðinn innheimtast eftir öðrum leiðum, og er í raun og veru skylt af ýmsum ástæðum og m.a. þar sem nú er um að ræða nýjar álögur í sambandi við benzínskatt o. fl., sem innheimtist eða leggst á farartækin, sem um veginn fara, og þá auðvitað um leið á þá aðila, sem farartækin nota. Ég geri ráð fyrir, eins og hæstv. samgmrh. vék að í framsöguræðu sinni um þetta mál, að sú skattheimta sé réttlætanleg með tilliti til þess, að féð á að nota til uppbyggingar og umbóta á því vegakerfi, sem bílaeigendur nota, og að þannig sparist viðhald á bílum vegna bættra vega og komi því eitthvað þannig á móti því, sem þessir aðilar þurfa að greiða í sambandi við hækkaða skatta af farartækjunum.

Ég geri ráð fyrir því, að ég muni fyrst og fremst greiða þessari till. hv. 5. þm. Austf. atkv. mitt, þótt ég hefði í raun og veru kosið, að till. hefði náð mun lengra, og hefði gjarnan viljað, að lögbundið væri, að 50% mótframlag kæmi frá ríkinu á móti því fé, sem innheimtist til sjóðsins eftir öðrum leiðum. Ég tel, að þó að þessi brtt. hv. þm, sé of lág, þá sé samt vinningur að hafa lögfest þessa leið, því að ég er sannfærður um, að það muni sýna sig og það gjarnan og mjög sennilega strax á þessum vetri, þegar á að fara að skipta vegafénu, að það verður langt frá því að hrökkva til þess að mæta eðlilegum og nauðsynlegum kröfum. Það er m.a. á það að líta, að gert er ráð fyrir verulegri aukningu þjóðveganna og miklu betri og meiri framtíðaruppbyggingu í sambandi við nýbyggingar og stóraukið viðhald. Þegar á þetta er litið og í raun og veru fleiri atriði, gefur auga leið, að við munum komast að því fullkeyptu í vetur að koma okkur saman um, að þessi vegasjóður hrökkvi til að fullnægja því lágmarki í byrjun, sem gert verður til hans um fjárframlög. Og því frekar mun þetta atriði koma meir og betur í ljós, þegar farið verður að vinna meir að þessum málum.

Eins og ég gat um, hef ég ekki borið fram brtt., þó að ég sé óánægður með ýmis atriði frv. En ég get samt ekki stillt mig um að koma að nokkru inn á einstök atriði málsins, en skal vera stuttorður.

Ég vil þá fyrst nefna það, sem sumir kunna að telja meinlaust og vera má að sé ekki stórvægilegt, allra sízt ef það er borið saman við önnur atriði, sem liggja enn þá óbætt utan frv., að mér finnst skilgreining á þjóðvegum í 12. gr. frv. vera á ýmsa lund allt að því furðuleg. Það má vel vera, að það sé talið nauðsynlegt og heppilegt að skilgreina ýmsar þjóðvegagerðir, en mér finnst, að það hefði gjarnan mátt þá gerast á aðra lund. Ég kann t.d. ekki við orðið hraðbraut, og ég tel það í raun og veru nokkuð undarlega nafngift á þjóðvegi. Ég hef heyrt talað um hraðakstursbíla og hraðbáta og fleira þess háttar, m.ö.o. maður hefur skilið, að það væri farartæki, sem væri þannig úr garði gert, að það færi hraðara yfir á láði eða legi heldur en venja væri til um algeng farartæki. Ég hef eiginlega skilið það svo, að hraði tákni því óvenjulega stuttan tíma, t.d. vegfaranda á milli tveggja staða, en ekki kyrrstæða leið, eins og veginn, sem um er farið, og það sé ekki hann, sem fari hratt, heldur farartækið, sem fer um hann. Mér finnst líka svolítið undarlegt nafnið þjóðbraut. Það er gott orð, og það má vel vera, að það sé út af fyrir sig viðunandi, eins og það á að nota, en þegar sagt er, að þjóðbraut skuli vera vegur, sem liggur um hérað, sem minnst 1000 menn búa í, þá finnst mér það a. m. k, dálítið vafasamt. Ég hef vanizt því, að í þjóðbraut sé sá staður, sem er nálægt alfaraleið, hvort sem íbúarnir eru margir á bænum ellegar í næsta umhverfi. Mér finnst því, að þessar nafngiftir þjóðvega séu mjög vafasamar, eins og raunar fleiri orðtök og ýmislegt málfar í frv. Þetta segi ég ekki hv. samgmn. til lasts. Það er öllum vitanlegt, eins og ég vék að áðan, að hún hefur unnið mikið og á marga lund mjög gott starf á mjög fáum dögum, og það er engin von til þess, jafnvel þð að það væru atriði, sem hún gæti orðið sammála um, að allt sé upp tekið og til tínt. En mér finnst sem sagt, að það hafi verið ósköp frambærilegt í fyrrnefndu dæmi að nota bara gamla orðið þjóðvegur og ef þurfti að skilgreina þá eitthvað nánar, að gera það þá undir a, b o. s. frv.

Ég vil þó aðeins drepa á nokkur þau einstök atriði, sem ekki fæst samkomulag um og ég tel veigamikil, og þá fyrst og fremst, að ekki skyldi verða samkomulag um, að allir sýslu- og hreppavegir, sem nú eru, væru teknir í þjóðvegatölu. Það er vitað og viðurkennt, að stefna Alþingis fram að þessu hefur verið í þá átt, að smátt og smátt kæmu þessir vegir inn í þjóðvegatölu og þar með uppbygging þeirra og viðhald borið uppi af ríkissjóði. Ég er líka óánægður yfir því, að þorp með íbúatölu undir 300 njóti ekki sama réttar og kaupstaðir og stærri kauptún í sambandi við þann hluta vegasjóðsins, sem ætlað er að gangi til uppbyggingar vega innan umdæmis kauptúns og bæjar. Þessir aðilar leggja þó fram sinn hlut í þennan sjóð, alveg eins og oftast hlutfallslega ekki minna en þeir aðilar, sem í stærri kauptúnunum og kaupstöðunum búa. Ég tel því ranglæti, að hér skuli ekki einmitt fámennustu þorpin, sem í mörgum tilfellum eru kannske sízt megnug þess að bera uppi af eigin rammleik vegakerfi sitt, fái að njóta sama réttar og stærri kauptún og kaupstaðir. Og það spor, sem hv. samgmn. hefur, eftir því sem mér skilst, stigið í áttina, að vegur innan slíks kauptúns megi teljast sýsluvegur, þá er það að vísu til bóta, en nefndin átti ekki og þurfti ekki að vera neitt hikandi í því að stíga hér fullt spor til jafnréttis við aðra aðila.

Þá hefði ég talið æskilegt, að ákvæðin um fjallvegi hefðu verið öðruvísi orðuð, og á ég þar við, að þar gætí verið opin leið til þess, að vegamálastjóri gæti ákveðið eða fallizt á t.d. rudda jeppaleið upp á heiðar eða a.m.k. upp á heiðarbrúnir áleiðis til afrétta, en eins og menn vita, er það nú víðast orðið mikið vandamál að halda uppi fjallskilum og bjarga fé úr afréttum á haustin. Og þó að ekki væri hér kannske um stórvægilegt mál að ræða; þá mun það sýna sig, að það hlýtur að verða sótt á að fá viðurkennda einhverja leið, sem hjálpar mönnum í sveitunum til þess að hafa auðveldari aðstöðu í þessu efni en nú er. Ég vil ekki segja, að ég skilji hlutaðeigandi frvgr. þannig, að þetta sé vegamálastjóra óheimilt; að ákveða leiðir á þennan hátt, en ég tel, að það hefði verið æskilegra, að frv. á þessu sviði bæri það með sér, að til þess væri ætlazt, að ósk manna yrði að einhverju leyti mætt í þessu efni. Ég tel það líka mjög ósanngjarnt, að ekki skuli vera í frv., þar sem um er að ræða framlag til brúa á sýsluvegi, brúa, sem geta orðið allt að 10 m á lengd, að þar skuli ekki gilda það ákvæði, að ríkissjóði sé heimilt að leggja þar fram meir en helming á móti heimaframlagi. Ég veit það verður bent á, að með þessum ákvæðum eigi sýslusjóðirnir von á mun meiri fúlgu til vegaframkvæmda og þ. á m. til brúaframkvæmda heldur en verið hefur, en hver, sem þekkir til a.m.k. víða um sveitir, veit, að t.d. 10 m brú kostar nú sva mikið, að það er algerlega ofviða hlutaðeigandi sýsluvegasjóði að bera þann hluta af brúarkostnaðinum, sem frv. ætlast til, jafnhliða því að byggja upp sýsluvegakerfið og halda því sómasamlega við. Brúargerðirnar eru, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, orðnar svo ofboðslega dýrar, að það er of mikið af því góða að ætlast til þess, svo að viðunandi verði, að sýsluvegasjóðirnir taki svona mikinn hlut á sig af brúabyggingum.

Ég tel það einnig mjög misráðið og í raun og veru ósanngjarnt og óraunhæft, að enn skuli vera ráðgert, að haldist við í vegalögum það ákvæði, að heimilt sé að krefja sveitarfélögin um fulla greiðslu fyrir snjómokstur af vegum að vetrarlagi. Ég segi m.a.: þetta er óraunhæft, — og er kannske ekki eins alvarlegt atriði og mætti ætla í fljótu bragði, vegna þess að ég veit ekki til, að það sé gengið lengra í þessu efni en að krefjast hálfs framlags af heimabyggð í slíku tilefni. En hvers vegna að halda gömlu ákvæði, sem verður ekki hægt að framkvæma? Hvers vegna ekki breyta þessari frvgr. þannig, að vegamálastjóra sé þó ekki heimilt að krefjast framlags að heiman meira en að hálfu?

Svo ætla ég ekki að fara að ræða það, hvernig snjómokstri yfirleitt er hagað, hvernig hlutföllin eru þar, að sumir fá snjó ruddan af sínum vegum án þess að þurfa að leggja nokkuð fram o. s. frv. Það getur verið í einstaka tilfelli eðlilegt, og ég skal ekki heldur tefja tímann með því að ræða um það meir.

Þetta eru nokkur dæmi af þeim atriðum, sem ég er óánægður með, og ég geri ráð fyrir og veit, að það eru fleiri, sem ekki una vel öllum þeim ákvæðum, sem lítur út fyrir að hljóti nú að verða að lögum í þessu frv. En ég spái því, að það hljóti að verða fyrr en seinna, sennilega ekki langt að bíða þess, að samtök verði um það og háværar raddir rísi hér innan hv. Alþingis um að fá m.a. þeim ákvæðum breytt, sem ég hef nefnt.

Ég vil svo aðeins að lokum minnast á eitt atriði í frv., sem vissulega er ekki ástæða til að óttast svo mjög í framkvæmd, en mér virðist það vera dálítið táknrænt dæmi um þá einræðishneigð, sem í raun og veru gekk sem rauður þráður gegnum allt vegalagafrv., þegar það var lagt fyrir hv. Alþingi. Það er sagt í 81. gr. frv., að óheimilt sé að tengja einkaveg við þjóðveg nema með leyfi vegamálastjóra. Það væri nú kannske ástæða til að fara dálítið út í það, að mér finnst, að ýmis ákvæði um skyldur þeirra einstaklinga, sem byggja upp, kosta þessa einkavegi, gangi nokkuð nærri þeim aðilum, sem þar um ræðir. En í sambandi við þetta atriði í nefndri frvgr. hefði ég haldið, að það hefði verið skemmtilegra orðalag, að sá, sem byggir einkaveg og þarf að tengja hann aðalvegaleiðinni á viðeigandi stað í sínu byggðarlagi, að það sé ekki gert ráð fyrir, að það sé hægt að neita manninum um að tengja hann, heldur að tengingin skuli fara fram eftir fyrirsögn vegamálastjóra.

Ég skal þá ekki orðlengja meira um þetta og ekki tefja meir þessar umr., en vildi þó hafa sagt þessi orð.