16.10.1963
Sameinað þing: 3. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

Olíugeymar í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur I. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður virðist ekki hafa tekið vel eftir því, sem ég sagði um það, sem gerðist í París haustið 1955 og 1956, og ég vil aðeins biðja hann, til þess að lengja ekki umr., að lesa það, sem í ræðu minni stóð. Þar getur hann séð, að hann hefur ekki haft alls kostar rétt eftir mér.

Til viðbótar vil ég aðeins undirstrika, að fjárhagsáætlunin um framkvæmdirnar, m.a. í Hvalfirði, var gerð 1. marz 1956. 28. marz 1956, nokkrum dögum síðar, er ályktunin um endurskoðun varnarsamningsins samþykkt á Alþingi, og í byrjun desember 1956 er samþykkt að fresta endurskoðun á varnarsamningnum. Snemma á árinu 1957 taka svo Bandaríkjamenn að ræða um það og spyrjast fyrir um það, hver sé afstaða ríkisstj. Íslands til framkvæmda varnarliðsins á Íslandi, m.a. vegna þess, sem gest hafði í ályktuninni í marz 1956. Þá var þeim frá því skýrt eftir nána athugun, að Snæfellsnesið væri það eina, sem við vildum standa við, en hitt ekki. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum um þetta, því að umr. eru þegar orðnar nokkuð langar.