24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

Olíugeymar í Hvalfirði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur ekki viljað verða við því að leggja fram sönnunargögn í þessu máli nema eitt, sem hann minntist á í upphafi sinnar ræðu, og það er raunar allgott. Það var Þjóðviljinn. Og það er rétt, að það sé farið að athuga það. Þetta er nefnilega í fyrsta skipti, sem við lifum það, að hæstv. utanrrh. vitnar beinlínis í Þjóðviljann til að komast út úr klípu, sem hann er kominn i. Og hvað er það, sem Þjóðviljinn hefur getað sagt frá í þessum efnum frá upphafi vega? Þjóðviljinn hefur getað sagt frá því, að Bandaríkjamenn fóru fram á það 1. okt. 1945 að fá Hvalfjörð sem flotastöð til 99 ára undir amerískri lögsögu, að Hvalfjörður væri undanþeginn íslenzkri lögsögu í næstu 99 ár og væri undir Bandaríkjastjórn og það, sem þar gerðist, kæmi síðan Íslendingum ekki neitt við. Þetta er vitanlegt, þetta er viðurkennt, þetta hefur Þjóðviljinn sagt, og þetta er staðreyndin, sem enn þá liggur fyrir. Þarf nokkur maður að efast um það, sem hefur minnstu hugmynd um pólitík, að það, sem Bandaríkjamönnum var neitað um þann vetur, það eru þeir síðan að leitast við að framkvæma? Og öll þau tök, sem Bandaríkjastjórn í 20 ár er meira og meira að ná á Íslandi, pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg, þau miða öll að því að ná því marki, sem Íslendingar neituðu þeim um 1945–1946. Það er þess vegna ekki ófyrirsynju, að í þessi 20 ár og áfram hefur því verið haldið fram og verður því haldið fram, að það sé stefna Bandaríkjastjórnar að reyna að fá Hvalfjörð sem flotastöð. Og það er nú upplýst og loksins viðurkennt pínulítið brot úr sannleikanum, togað á víxl út úr tveim utanrrh. og með hálfgerðum harmkvælum.

Það er greinilegt, að Bandaríkjastjórn er alltaf að færa sig lengra og lengra upp á skaftið með þetta, reyna að ná því smátt og smátt, fet fyrir fet, sem henni tókst ekki að ná í einu áhlaupi 1. okt. 1945. Þess vegna þarf hæstv. utanrrh. ekkert að verða hissa, þó að okkur bregði við og við séum alveg hreint undrandi. Við erum svo óvanir því, að hæstv. utanrrh. segi satt eða viðurkenni eitthvað pínulítið af sannleikanum. Við vitum það, að allan þennan tíma er þessu alltaf neitað, að þarna er verið að sækja á. Við vitum, að það er alltaf verið að neita því, að Bandaríkin séu að reyna að ná þessu. Núna meira að segja, þegar menn neyðast til að viðurkenna pínulítið af sannleikanum, er sagt: Þetta er ósköp lifandi skelfing saklaust, þetta eru bara einir einustu 8 olíutankar, og kannske er það eitthvert pínulítið skipalægi, og svo er verið að hressa okkur með því, að Wright yfirhershöfðingi hjá þeim — ég man ekki titilinn nákvæmlega — segi, að þetta verði bara herskipalægi, ekki flotastöð, a.m.k. á friðartímum. M.ö.o.: það er greinilegt, að yfirhershöfðingjar Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins liggja í ríkisstj. hérna, en þeir eru svo hvekktir á því, hvernig þjóðin hefur tekið þessum tilmælum, að þeir þora ekki að fara fram á nema pínulítið í einu. Ætli það hefði ekki verið haldið áfram að stækka Keflavíkurflugvöll, ætli Keflavíkurflugvöllur væri ekki núna höfuðflugvöllur Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi í staðinn fyrir flugvöll í Grænlandi, svo framarlega sem það hefði ekki komið það babb í bátinn, að Alþingi Íslendinga samþykkti þáltill. 26. marz 1956 og vinstri stjórnin var mynduð á eftir? Ætli Bandaríkin hafi ekki þá misst nokkra von um að geta gert Keflavíkurflugvöll að höfuðflugvellinum fyrir Norður-Atlantshaf? Það gæti kannske líka farið eins, ef það væri sagt þvert nei um Hvalfjörðinn, að auka þar nokkurn skapaðan hlut. Bandaríkin gæfust kannske endanlega upp við að ná því, sem þau ætluðu sér að ná 1. okt. 1945. Þess vegna er það að gefa eftir pínulítið, þótt það sé ekki nema 8 tankar, það er að halda áfram að rétta þeim litla fingurinn. Og þeir munu náttúrlega vita, hvað þeir ætla sér að taka á eftir, þó að það kunni að taka þá nokkuð langan tíma, því að það er ekki enn þá búið að drepa alla sjálfstæðistilfinningu úr Íslendingum.

Hæstv. ráðh. skar ekki úr þessu, sem hér var spurt að. Hann kom aftur með staðhæfingu á móti staðhæfingu, og tveir utanrrh. vitna nú hér hvor á móti öðrum, og við skulum nú rannsaka þessa hluti ofur lítið nánar og vita, hvar það er raunverulega, sem hnífurinn stendur í kúnni. Tilmælin eru viðurkennd núna, — tilmæli, sem búið var að neita langalengi, þau eru viðurkennd. Það er upplýst í viðbót, og þar á hæstv. utanrrh. þakkir skildar fyrir, hann upplýsir, að það hefur verið veitt úr infrastructure-sjóði Atlantshafsbandalagsins 1. marz 1955 ákveðin fjárveiting til aðgerða í Hvalfirði, sem hann hefur orðað svo, að það væru, ef ég man rétt, stórkostlegar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði. M.ö.o.: Atlantshafsbandalagið hefur 1955 viljað framkvæma stórkostlegar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði. Og nú er spurningin, sem við, sem ekki höfum fengið að fylgjast með þessum málum, hljótum að leggja fyrir þá flokka, sem þá stóðu í ríkisstj. og standa með Atlantshafsbandalaginu enn þá og eiga meira eða minna fulltrúa á fundum þess: Ákvað Atlantshafsbandalagið þessa fjárveitingu án þess að hafa spurt íslenzku ríkisstj. eða eftir að hafa fengið neitun íslenzku ríkisstj. Þetta er það, sem við viljum fá að vita. Ráðstafar Atlantshafsbandalagið Íslandi eins og þetta væri einhver herstöð þess, einhvers konar nýlenda þess, þar sem þyrfti ekki að spyrja viðkomandi ríkisstj. um leyfi eða þótt viðkomandi ríkisstj. segði nei, þá skyldi því ráðstafað samt? Þetta þurfum við að fá að vita, og hér stangast nú þegar fullyrðingar hæstv. núv. ráðh. og þeirra ráðh., sem voru með dr. Kristni Guðmundssyni sendiherra í ríkisstj. 1955. Dr. Kristinn Guðmundsson segir, að hann hafi sem utanrrh. aldrei léð máls á þessu, og hvernig hefur þá Atlantshafsbandalaginu dottið í hug að setja þetta á sína fjárveitingu? Og má ég spyrja í þessu sambandi: Hvað segja bækur utanrrn. um þessa hluti? Það fara þó varla fram viðtöl í utanrrn. Íslands, án þess að þar sé bókað, hvers konar tilmæli koma fram, t.d. frá hershöfðingjum eða frá Atlantshafsbandalaginu, og hvernig þeim sé svarað. Vill hæstv. utanrrh. leggja þessar bækur utanrrn. Íslands fyrir utanrmn. Alþingis til þess að fara í gegnum þær og sjá, hvort þessi tilmæli hafa komið fram og hvernig þeim hefur verið svarað, svo að við getum gengið úr skugga um það? Ég býst við, að viðtöl utanrrh. á Íslandi við hina og þessa mektarmenn Atlantshafsbandalagsins séu engin prívatviðtöl, heldur opinber viðtöl, sem séu skráð í utanrrn. Í öðru lagi, 1955 var starfandi hér ekki aðeins utanrmn. Alþingis, heldur var þar að auki skipuð sérstök einhvers konar háyfir-utanrmn., eins konar leyndar-utanrmn. Atlantshafsbandalagsins, vegna þess að mönnum þótti, eftir að Ísland gerðist hernaðarstórveldi 1949, ekki óhætt að ræða þessi miklu hernaðarleyndarmál í utanrmn. Alþingis, og var skipuð sérstök undirnefnd, sem hinir svokölluðu lýðræðisflokkar, eins og þeir titluðu sig sjálfa, þóttust vilja vera vissir um, að eingöngu innvígðir menn væru í, sem treysta mætti fyrir öllum leyndardómum. Þessi undirnefnd utanrmn. var starfandi 1955, og í henni munu hafa átt sæti bæði fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. Ég geng út frá, að svona mál eins og tilmæli um stórkostlegar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði hafi verið rædd við þessa leyninefnd, við þessa undirnefnd, og hún hafi haldið fundi og þá vafalaust marga og það hafi verið vendilega bókað og geymt í traustum peningaskápum, hvernig hún tók í þau tilmæli, sem komu fram um stórkostlegar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði 1955. Og má ég spyrja hæstv. utanrrh. og hv. 1. þm. Austf., sem bæði var í ríkisstj. þá og átti með sínum flokki fulltrúa í þessari undirnefnd, — má ég spyrja hann: Hverju svaraði þessi undirnefnd, þegar utanrrh. þá lagði fyrir hana vafalaust tilmæli frá erlendum aðilum um stórkostlegar hernaðarframkvæmdir í Hvalfirði? Þetta langar mig til að fá upplýsingar um. Ég býst við, að hver einasta þjóð gæti þess í sínum utanríkismálum að færa sínar bækur, og utanríkisnefndir, ekki sízt leyninefndirnar, færi sínar bækur vel og greinilega. Þá þarf ekki að fara neitt á milli mála, hvað gert hefur verið og hvað sagt hefur verið. Hv. 1. þm. Austf. á jafnvel að geta sagt okkur þetta. Þess vegna tel ég það alveg eðlilegt og rétt og tek undir það, sem hv. 5. landsk. þm. kom hér með. Ef við fáum ekki fullkomnar upplýsingar í þessum málum, þá á hv. d, að setja rannsóknarnefnd til þess að athuga þetta. En sem sé, sönnunargögnin út utanrrn. ættum við að geta fengið á borðið hjá okkur í utanrmn. Alþingis.