24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

Olíugeymar í Hvalfirði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta fer nú bráðum að verða eins og spennandi leynilögreglusaga í útvarpinu. Hér höfum við sem sagt tvo sakborninga. Annar segir við hinn: Heyrðu, þú framdir glæpinn þarna um árið. — Og hinn segir: Nei, nei, ég framdi hann ekki, þú ert að fremja hann núna. — Og svo koma þeir hérna upp og segja hvor við annan: Þú hefur ekki sönnunina fyrir því, að ég hafi framið hann. — Það verður ákaflega gaman að fylgjast með þessu. Ég var að spyrja um eina höfuðsönnunina áðan, en bæði hæstv. núv. utanrrh. og hv. fyrrv. ráðh. í þeirri stjórn, sem hér er rætt um, stjórn, sem var 1955, fóru hjá sér um að gefa nokkrar upplýsingar um það, sem ég spurði að, hvernig er með fundargerðarbækur þeirrar ágætu leyninefndar, undirnefndarinnar, sem áttí að vera vígð inn í öll þessi mál, Atlantshafsbandalagsnefndar utanrmn. Alþingis, og hvernig er hins vegar með bækurnar í utanrrn. Því verður þó ekki trúað; að utanrrh. Íslands láti sín samtöl við valdamenn annarra þjóða fara fram án þess að bóka nokkurn tíma einn einasta staf, að það séu ekki til nein skjöl í utanrrn. Íslands, sem sanna það, að þegar þessi herra frá Atlantshafsbandalaginu hafi komið og talað við utanrrh. Íslands og sagt: Heyrðu, má ég fá hjá þér Hvalfjörð fyrir stórkostlegar hernaðarframkvæmdir, — þá séu í fyrsta lagi ekki bókuð þessi tilmæli og það sé ekki heldur bókað, hvort utanrrh. hafi sagt: Já, með mestu ánægju, — eða: Nei, það kemur ekki til mála, — og svo eigi menn, t.d. Alþingi Íslendinga, að standa eins og spennandi lesendur að leynilögreglusögu og reyna að geta í eyðurnar. Hverju svaraði utanrrh., þegar tilmælin komu 1955? Eru engar bækur til í utanrrn. um þetta? Af hverju forðast bæði núv. hæstv. utanrrh. og sá maður, sem lengi hefur verið ráðh. í ríkisstj. Íslands, hv. 1. þm. Austf., af hverju forðast þeir báðir að minnast á þetta? Af hverju er talað bara um, að menn verði að gera sér það í hugarlund, hvort þetta og þetta hafi verið svona, hvort það hafi verið sett á fjárveitingu infrastructure-sjóðsins í París svona og svona fjárveiting án þess að hafa talað við Ísland eða hvort dr. Kristinn Guðmundsson hafi virkilega fallizt á svona nokkuð? Eigum við að vera að geta til um svona hluti?

Hvers konar stjórnarfar er þetta? Hvar á byggðu bóli hjá sjálfstæðri þjóð finnst ekki í utanrrn. bókað neitt um það, hvernig utanrrh. hafi svarað, þegar fram komu tilmæli um stórkostlegar hernaðarframkvæmdir? Af hverju þurfum við að vera að deila um þetta hérna? Af hverju er ekki hægt að leggja þetta á borðið? Eða þá, ef ekkert er til, ef ekkert skjal er til um neitt, að segja: Við höfum það ekki fyrir vana að skrifa neitt niður það, sem við segjum. Það á að vera fyrir leynilögreglusagnahöfunda framtíðarinnar að geta í eyðurnar.

M.ö.o.: spursmálið er þetta: Samþykkti Kristinn Guðmundsson þessi tilmæli, eða samþ. hann þau ekki? Nú eru þeir tveir hérna, sakborningarnir, annar segir já, hinn segir nei. Geta þeir nú ekki lagt fram þessa einföldu sönnunarbók, gjörðabók utanrrn. Íslands? Leyninefndin, sú sem ætlaði að líta eftir fyrir hönd Alþingis tryggilega, svo að engir vondir menn kæmust að, hélt hún enga fundi, fylgdist hún ekki með neinu, eða bókaði hún ekki neitt?

Það er eðlilegt fyrir okkur, þegar loksins er nú farið að koma í dagsins ljós það, sem gerzt hefur í leynum á þessum árum, og þeir, sem voru samsekir um, hvað gerðist, geta ekki einu sinni verið sammála um það, að við förum að heimta það núna, að þessir menn geri svo vel að hafa fyrir því að bóka, hvað þeir gera.

Ég verð að segja, að um eitt gátum við hæstv. utanrrh. þó verið sammála. Ég skrifaði niður hjá mér það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði. Hann sagði: Það er ekki okkar mál, hvað þeir setja í hernaðaráætlanir í París. — Ég er fyllilega sammála hæstv. utanrrh. Það er vissulega ykkar mál, sem eruð ábyrgir fyrir því, að Ísland er að flækjast í þessi hernaðarbandalög, og hafið ekki hugmynd um, hvað þeir eru að gera þar, og steytið hnefana hvor á móti öðrum og segið hvor við annan: Þú drýgðir glæpinn, — það er vissulega ykkar mál, það er á ykkar ábyrgð.

Það er bezt fyrir Framsfl., ef hann tekur eitthvað alvaslega það, sem hann segir, að taka þá afleiðingunum, draga réttar ályktanir út af þessu og segja: Fyrst Atlantshafsbandalagið dirfist að fara að setja inn í infrastructure-fjárveitingar 1955 hluti viðvíkjandi Íslandi, sem Framsfl. hefur aldrei samþykkt, þá svarar Framsfl. með því að segja sig úr svona bandalagi. — Það er vissulega ykkar mál, þetta er á ykkar ábyrgð. Það er á ábyrgð Framsfl. líka, nema hann fari að hafa sig út úr þessu bandalagi, og ég held, að það væri bezt fyrir hann.

Ég sé þess vegna ekki betur en það séu komnar enn fleiri ástæður en voru, þegar ég talaði áðan, til þess að Alþingi láti þetta mál til sín taka, og líklega yrði rannsóknarnefnd Alþingis að byrja á því að athuga, hvort það fyrirfinnast einhverjar bækur í utanrrn. um þetta, og ef þeir væru mjög hræddir um leyndardómana í því, þá gætu þeir sent þá inn á víxl, t.d. Eystein, t.d. hv. 1. þm. Austf., og svo einhvern Alþfl: manninn, til þess að láta þá þá glugga í þetta og segja okkur, hvað standi þar, ef óguðlegir mega ekki kíkja í það. Alþingi getur ekki sóma sins vegna og hagsmuna landsins vegna annað en gengið úr skugga um það, að það sé hægt að komast fyrir um, hvort Atlantshafsbandalaginu hafi verið heitið leyfi til stórkostlegra hernaðarframkvæmda í byrjun ársins 1955 eða ekki. Og héðan af sé ég ekki neitt annað ráð til þess heldur en það sé sett slík rannsóknarnefnd þessarar hv. d. eins og hv. 5. landsk. lagði til.