30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar ríkisútvarpið tók upp þann hátt að flytja að morgninum útdrætti úr forustugreinum dagblaðanna frá þeim sama morgni og deginum áður, var það gert að frumkvæði ríkisútvarpsins sjálfs og hafði mitt rn. eða ríkisstj. engin afskipti af því máli. Hugmyndin var ríkisútvarpsins sjálfs, og framkvæmd þessa máls er algerlega í höndum fréttastofu ríkisútvarpsins og algerlega á ábyrgð hennar. Hafa stjórnarvöld engin afskipti haft af því máli, og hef ég ekki séð neina ástæðu til þess að hafa slík afskipti. Ég tel þessa nýjung í starfsemi ríkisútvarpsins í fréttaflutningi þess hafa verið til mikilla bóta og hef raunar orðið þess var, að þessi nýi þáttur í fréttaflutningnum hefur verið mjög vinsæll meðal útvarpshlustenda. Ég hlusta að jafnaði á þessa þætti sjálfur og hef ekki fengið betur séð en gætt sé fyllsta hlutleysis í úrvinnslu úr forustugreinunum og það verk, sem þarna er unnið af hálfu fréttastofu ríkisútvarpsins, hafi yfirleitt verið mjög vel unnið.

Varðandi það atriði, sem hv. þm, gerði sérstaklega að umræðuefni og hefur gert að umræðuefni í blaðagrein, að tvö dagblaðanna fylgi einum stjórnmálaflokknum, en hinir þrír flokkarnir njóti stuðnings aðeins eins dagblaðs og þetta valdi misjafnri aðstöðu, vil ég aðeins segja þetta: Skyld atriði þessu hefur áður borið á góma, t.d. varðandi útvarpsumr. frá Alþingi, þar sem flokkar hafa verið mjög misstórir. Það er ekki mjög langt síðan hér var á Alþingi þingflokkur, sem aðeins hafði 2 þm., og var þingfylgi hans þannig ekki nema lítill hluti af þingfylgi stærsta þingflokksins. Það þótti engu síður þá sjálfsagt og kom aldrei fram nein opinber gagnrýni á það, að ræðutími allra þingflokkanna án tillits til stærðar í útvarpsumr. skyldi vera jafn, og taldi ég fyrir mitt leyti þá og tel enn, að engin önnur lausn sé til á þeim vanda, sem þarna var um að ræða, en sú að ætla flokkunum jafnan ræðutíma án tillits til stærðar. Segja má, að hér sé ekki um algerlega hliðstætt atriði að ræða, en bendi þó til, að að sumu leyti hafi sams konar vandamál áður verið uppi og voru í þessu tilfelli leyst á þennan hátt.

Ég fyrir mitt leyti sé ekki ástæðu til neinnar aðfinnslu við ríkisútvarpið eða fréttastofu þess, vegna þess að það hefur þann hátt á að gera öllum dagblöðunum jafnt undir höfði án tillits til þess, hvaða flokk þau styðja.