30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er nú einkennilegur maður, hv. 1. þm. Austf. Hann kemur hér í ræðustólinn til þess að leiða rök að því, að auðvitað mundi ég verða hæstóánægður, ef Framsfl. gæfi út tvö blöð í Reykjavík og leiðararnir eða forustugreinar úr þeim væru lesnar upp á morgnana, en Sjálfstfl. gæfi ekki út nema eitt, og ég væri hæstánægður með þetta ástand, eins og það væri, í minni ræðu lét ég í ljós, að ég mundi alls ekki sakna þess, þó að það hætti, og það væri hægt að byrja morguninn á miklu skemmtilegri hátt en þetta. Það var langt í frá, að ég væri eitthvað að lýsa ánægju minni yfir þessu fyrirkomulagi.

Hins vegar benti ég á viss atriði, sem þyrfti að hugleiða í þessu sambandi, og þ. á m. að mæla leiðarana, eins og ég sagði. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að það getur á margan hátt komið fram ranglæti í þessu, ekki aðeins að það sé lesið úr forustugreinum tveggja blaða, sem styðja sama flokk, því að það gætu verið þær aðstæður, að mjög stór stjórnmálaflokkur, sem hefði mikla útbreiðslu, — og í þessum tilfellum hafa þau blöð, sem hér er um að ræða, miklu meiri útbreiðslu en önnur blöð, — að það væri beinlínis hægt að ná sér niðri á slíku í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem ríkisútvarpið er og er einokað, með því að flokkur, sem hefði mikla útbreiðslu og næði miklu meira til fólks á þeim grundvelli, hefði ekki aðstöðu í okkar þjóðfélagi til þess að ná til fólksins í gegnum útvarp, ef hann vildi setja það upp og útvarpa, eins og menn hafa frjálsan aðgang til í öðrum löndum. Það þarf ekki annað, ef menn eiga bara að miða við þetta til málamynda, en gefa út einhver blöð til þess að koma efni úr þeim í útvarp. Það liggur því hreint ekki fyrir, að það sé endilega réttlátt út af fyrir sig, að það séu lesnar jafnlangar klausur eða jafnlangan tíma úr blaði flokkanna hvers fyrir sig. Því fer fjarri, að það þurfi að vera, og það er sýnilegt, að þarna gæti komið fram stórkostleg mismunun, ef allt önnur flokkaskipting væri t.d. hér í landinu heldur en núna er. Menn geta sett upp þau dæmi í huganum sjálfir, mjög smáa flokka og gríðarstóran flokk og annað slíkt, og smár flokkur með mjög litla blaðaútbreiðslu, á kannske einn mann á þingi eða svo, en er þó þingflokkur og væri stjórnarflokkur eða hefði fylgi fyrir því í þessu ríkisútvarpi að ná miklu meiri útbreiðslu fyrir sína pólitík í gegnum slíkt einokunartæki heldur en hann á nokkurn annan hátt gæti gert. Málið er þess vegna ekki eins einfalt og menn hafa hér viljað vera láta, með því að það skipti öllu máli, að það séu jafnlangar lexíur, sem lesnar eru úr blöðunum.

En ég vil bara, að hv. 1. þm. Austf. skilji mál mitt, þegar ég tala hér, og ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég var alls ekki að lýsa yfir neinni sérstakri ánægju með þennan lestur úr forustugreinum dagblaðanna, og það gerði mér ekkert meiri ánægju með þennan lestur, þó að það væru lesnir leiðarar úr bæði Morgunblaðinu og Vísi. Ég sagði einmitt sem svo: Við erum á sitt hvorri skoðun, menntmrh. hefur gaman af að hlusta á þetta á morgnana og finnst þetta vera ágætt, en ég hef takmarkaða ánægju af því.