30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hallast helzt að því, að hæstv. dómsmrh. muni vera eini maðurinn, sem skildi það ekki, sem ég sagði áðan, og mér þykir leiðinlegt að þurfa að fara að endurtaka það. En hæstv. ráðh. sagði, að það væri ófyrirsynju, að hv. 1. þm. Norðurl. v. var að kvarta yfir því, þó að það væru lesnir leiðarar úr tveimur blöðum frá einum flokknum, en aðeins einu frá öðrum flokkum. Hann taldi það mjög óviðeigandi af hv. þm. að finna að þessu.

Það var erindið, sem hann átti hingað í ræðustólinn í fyrra skiptið, að lýsa því, að það væri ekki nema líkt framsóknarmönnum að vera að finna að svona smámunum.

Út af þessu benti ég hæstv. ráðh. á, að eftir því sem við þekkjum til, getum við svona hér um bil ímyndað okkur, hversu ánægður hann hefði verið með ástandið, ef það hefðu verið tvö dagblöð af hendi Framsfl. í Reykjavík, en eitt af hendi Sjálfstfl. og síðan lesið eftir sömu reglum og nú er gert. Menn geta ímyndað sér þetta.

Um þetta skal ég ekki fjölyrða, en ég ætla að bæta því við að gefnu tilefni, af því að ég veit, að það er rétt, að ef dæmið hefði staðið þannig, að Framsfl. hefði haft tvö dagblöð í Reykjavík, en Sjálfstfl. eitt, þá hefði ríkisútvarpið, eins og nú standa sakir, aldrei byrjað á því að láta lesa leiðarana úr blöðunum. Hin pólitíska hlutdrægni í þessu er svona mikil. Það hefði ekki verið byrjað á því að lesa upp úr leiðurum blaðanna við slíkar aðstæður. Mér dettur ekki í hug, að þeir, sem raunverulega ráða þessum málum, hefðu farið að láta lesa upp leiðara blaðanna, ef Framsfl. hefði haft tvö dagblöð hér og Sjálfstfl. eitt.