08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

Íslenskt sjónvarp

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þann 12. febr. s.l. gaf hæstv. menntmrh. ýtarlega skýrslu hér í hv. Alþingi um undirbúning íslenzks sjónvarps í tilefni af fsp., sem hv. 5, þm. Reykn. hafði borið fram. Niðurstaða ráðh. í þessari skýrslu var sú, að stofnun íslenzks sjónvarps, sem fljótlega næði til alls landsins, væri fullkomlega viðráðanleg fjárhagslega, og hann lýsti þeirri skoðun sinni, að það mætti ekki dragast lengur að taka ákvörðun um, að efnt skyldi til íslenzks sjónvarps. Mér og mörgum fleirum var þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. mikið ánægjuefni, ekki sízt vegna þess, að síðan sjónvarpsstöðin á Keflavíkurflugvelli var stækkuð, hafa margir og þ. á m. ég talið nauðsyn íslenzks sjónvarps enn þá ríkari. Síðan hef ég átt von á því, að hæstv. ríkisstj. leitaði heimildar Alþingis til aðgerða í málinu, en nú liður óðum að þinglokum, og ekki hefur neitt komið fram frá hæstv. ríkisstj. í þá átt, og það eru mér vonbrigði.

Fyrir nokkru settu 60 forustumenn á sviði íslenzkra menningarmála fram kröfuna um það, að sendingar bandaríska sjónvarpsins yrðu takmarkaðar við flugvallarsvæðið, og sú krafa hefur verið flutt inn á Alþingi með þáltill., sem liggur fyrir. Ég nefni þetta aðeins vegna þess, að ég vil, að það komi skýrt fram, að ég hef ekki kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár til þess að taka undir þá kröfu. Ég læt það algerlega liggja á milli hluta, m.a. vegna þess, að það er ekki ætlun mín að stofna hér til umr. utan dagskrár um mál, sem liggur fyrir þinginu. Hins vegar er mér það mikið áhugamál, að það menningarlíf, sem þessir 60 menn eru svo ágætir fulltrúar fyrir, hafi ekki lakari skilyrði til þess að ná til íslenzkra heimila en það menningarumhverfi. sem Bandaríkjasjónvarpið flytur þeim. Þess vegna vil ég beina þeim spurningum til hæstv. menntmrh., í fyrsta lagi, hvort Alþingi geti enn átt von á því, að ríkisstj. leggi fram á þessu þingi till. um íslenzkt sjónvarp, og í öðru lagi, hvort eitthvað hafi komið fram við frekari athugun málsins og undirbúning, síðan ráðh. gaf skýrslu sína í febrúar, sem hafi breytt afstöðu hans í málinu eða tafið aðgerðir í því.