23.01.1964
Sameinað þing: 36. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2208 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

Afgreiðsla mála úr sameinuðu Alþingi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa óánægju yfir því, hve mikill dráttur er á því, að mál, sem lögð eru fram í sameinuðu Alþingi, séu tekin til meðferðar á þingfundum. Oft liða mánuðir, frá því að mál eru þar lögð fram, þangað til þau eru fyrst tekin til umr. í þinginu. Nú mun vera þannig ástatt í þessu efni, að 14 till. til þál., sem lagðar voru fram fyrir áramót, hafa enn ekki komið til umr. Af þessum 14 till. voru tvær lagðar fyrir þingið í október og 7 í nóvembermánuði. Þrátt fyrir það, þó að svona mörg mál liggi óafgreidd og hafi lengi beðið afgreiðslu, eru þingfundir ekki haldnir nú eða hafa ekki verið haldnir að undanförnu nema 4 daga vikunnar. Það er ekki hægt að telja, að þetta séu góð vinnubrögð og hér þyrfti áreiðanlega úr að bæta.

Ég vil í tilefni af þessu ástandi leyfa mér að beina þeirri áskorun til hæstv. forseta, að hann boði fund í sameinuðu þingi á morgun, föstudag, svo framarlega sem ekki verða þá ákveðnir fundir í þd., en annars á laugardag, svo að hægt sé að taka fyrir til fyrstu meðferðar á þingi eitthvað af þessum mörgu málum, sem enn hafa enga afgreiðslu fengið. Það er sannarlega kominn tími til að byrja að ræða þessi mál og vísa þeim til þingnefnda til athugunar.