17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins, áður en umr. lýkur, segja hér nokkur orð í tilefni af því, sem á góma hefur borið við þessa 3. umr., og ég vil þá einnig enn á ný nota tækifærið og þakka samvinnunefnd samgöngumála fyrir það, að hún hefur náð samstarfi og samstöðu í öllum meginatriðum um þetta mikilsverðu mál, og það er út af fyrir sig ómetanlegt, því að án þess var vitanlega vonlaust að koma málinu í gegn fyrir jól, eins og vonir standa til að megi verða. Þetta tel ég dæmi um, að það má ná miklu með samstarfsvilja og góðri forustu, eins og samvn. samgm. hefur haft.

Hv. þm. hafa eðlilega ekki verið að öllu leyti sammála um frv., — og hvernig ætti það að geta verið? Þetta er stór lagabálkur, — og hvernig mætti það vera öðruvísi en sitt sýnist hverjum að einhverju leyti? En í megindráttum og því, sem mestu máli skiptir, eru menn sammála, og á þeim forsendum má ætla, að þetta frv. verði gert að lögum á mettíma.

Það er í sambandi við brtt., sem hér hafa verið fluttar. Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) gerir hér aths. við það, að vegáætlun um sýsluvegi eigi samkv. frv. að taka gildi 1. júlí 1965, og þykir það heldur seint. Ég get verið hv. þm. sammála um, að það er heppilegra, að vegáætlunin gæti verið tilbúin 1. júní, og ég held, að það verði ekkert til fyrirstöðu að samþykkja þessa till. Hitt er svo vitað mál, að það er mikið verk að undirbúa vegáætlanir og þá sýsluvegaáætlanir líka, og það er nú ætlazt til þess, að sýslunefndirnar undirbúi vegáætlanir, og stundum eru nú sýslufundir ekki haldnir fyrr en í maí, stundum jafnvel ekki fyrr en í júní. Það er náttúrlega undir þeim komið. Það mætti segja, að ef dagurinn væri færður fram, þá ýtti það undir sýslumennina að hafa sýslufundina fyrr, a.m.k. það ár. Ég geri ráð fyrir því, að það væri til bóta, að vegáætlun gæti verið tilbúin mánuði fyrr en gert hefur verið ráð fyrir, og tel, að það sé sjálfsagt að taka til athugunar, hvort nokkur mæli því í gegn að samþykkja þessa till.

En seinni till., um snjómoksturinn, er vitanlega allmiklu hæpnari. Það er vitanlega eðlilegt, að menn séu viðkvæmir fyrir því með snjómokstur, því að allir vilja komast sína leið, og það er alltaf vont, þegar snjórinn teppir leiðina. En ég vil taka það fram, að það var ekki rétt, sem haldið var fram hér í kvöld, að sveitarfélög hafi verið krafin um að greiða snjómokstur að fullu. Vegamálastjóri hefur sagt mér, að það hafi ekki komið fyrir, að það hafi verið krafið um meira en helming greiðslu af sveitarfélagi. En það hefur komið fyrir, að það hefur verið krafizt fullrar greiðslu af einstaklingum, sem hafa farið af fullkomnu fyrirhyggjuleysi upp á reginfjöll og skilið þar eftir bíla sína í ófærð og kallað síðan á vegagerðina til þess að sækja farartækið. Undir slíkum kringumstæðum hefur verið krafin full greiðsla, sem og sjálfsagt var. En um það, hvar eigi að moka og hvað eigi að láta mikið eftir af þeim sköflum, sem koma, það náttúrlega verður að vera hverju sinni eftir því, sem möguleikar eru til, og ég hygg, að meðalvegurinn hafi verið farinn í þessu efni, eftir því sem mögulegt hefur verið, og þegar féð er takmarkað til viðhalds vega og vegamála yfirleitt, þá náttúrlega eru takmörk fyrir því, hversu miklu fé má eyða í snjómokstur. Ég held, að hvað snjómokstrinum viðkemur, þar verði tæplega lengra gengið en vegalaganefnd hefur gert ráð fyrir, ekki a.m.k. að svo komnu máli, þangað til við erum orðnir efnaðri og höfum úr meira að spila.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) var að tala hér um fjallvegina og hefur flutt brtt, um þá. Þar er gert ráð fyrir því, að aðalfjallvegir verði teknir í vegáætlun, og það er einnig gert ráð fyrir því, að nokkurt fé verði áfram, eins og verið hefur, til þess að láta í aðra fjallvegi, eftir því sem efni og möguleikar eru til. Það hefur verið gert talsvert að því að ryðja vegi, jafnvel smalavegi til afrétta, en vitanlega í of litlum mæli, vegna þess að fjármunir hafa ekki verið fyrir hendi. Við skulum vona, að það geti nú orðið eitthvað meira en verið hefur við það, að fjárráðin verða nú meiri en áður var.

Hv. 10. landsk. þm. (GeirG) flutti hér tvær brtt. varðandi Kópavog, aðaltill. og varatill.. eins og hann orðaði það. Hv. þm. viðurkennir, að brtt. samgmn. séu til bóta hvað Kópavog snertir, en nái ekki nógu langt, og telur, að sú till., sem hann flytur, tryggi hagsmuni Kópavogskaupstaðar betur. Ég satt að segja er í miklum vafa um það, og ég held, að samvn. samgm. hafi hitt naglann á höfuðið og tryggt Kópavogskaupstað mjög vel með því, sem hún leggur til í þeim till., sem hér eru fluttar á þskj. 154, og það er með því að fella 2. mgr. niður og gera þannig mögulegt, að Kópavogskaupstaður, sem allir telja nú að eigi nú eiginlega að ganga fyrir, fái framlag af 10% framlaginu án frádráttar í því framlagi, sem kaupstaðurinn ætti að fá samkv. höfðatölureglunni. Og ég held, að það verði tæplega betur fyrir málum Kópavogskaupstaðar séð að sinni heldur en með þessu, um leið og yfir er lýst, að Kópavogskaupstaður verði eiginlega að hafa að miklu leyti forgang að þessu fé, sem 10% gefa, en það eru rúmlega 3 millj. kr. á ári. Og ég hef engan hv. þm. talað við, sem viðurkenni ekki sérstöðu Kópavogs og þörfina á því að byrja á því sem allra fyrst að bægja hættunum frá, sem af umferðinni stafa, eins og nú er þarna, enda hafa þar orðið mjög alvarleg slys.

Frv. 5. þm. Austf. endurflytur till. sína um það, sem hann kallar að tryggja, að framlag á fjárl. úr ríkissjóði verði a.m.k. hlutfallslega jafnhátt eftirleiðis og ætlazt er til að það verði á árinu 1964. Það má segja, ef þessi till. væri samþ., fljótt á litið, að það væri einhver trygging í henni. En ef við förum að athuga reynslu undanfarinna ára og gerum okkur grein fyrir því, að það er meiri hl. Alþingis hverju sinni, sem ræður fjárframlögum til vegamála og annarra framkvæmda í landinu, þá er ekki nokkur trygging í þessu, þótt þetta væri samþykkt, því að þótt þetta ákvæði væri í vegalögum, þá gagnar það ekki, ef meiri hluti Alþingis vill ekki halda þessu hlutfalli og vill draga úr því framlagi, sem ríkissjóður á að greiða, því að þá getur meiri hl. Alþingis breytt þessu ákvæði í vegal., og kemur þess vegna ekkert að gagni, ef meiri hl. Alþingis vill ekki stuðla að því, að fjárframlög til vegamála haldist hlutfallslega jafnhá og nú er gert ráð fyrir að leggja til þeirra. Og ég held, að reynslan kenni hv. þm. þarfa lexíu um þetta allt saman, því að, þótt allir hafi kvartað undan of litlu framlagi til vegamála á undanförnum árum, hafa framlögin þó alltaf stöðugt farið hækkandi, stöðugt hækkandi á öllum fjárl., og þess vegna er ég sannfærður um, að það verður ekki barátta um það, hvort þessi útgjaldaliður fjárl. eigi að lækka í framtíðinni, heldur snýst baráttan um það, hversu mikið hann eigi að hækka. Og það mætti vel segja mér það, að þótt hv. 5. þm. Austf. telji það nú vel í lagt að tryggja að ¼ framlag úr ríkissjóði, þá mætti segja mér það, að eftir tiltölulega fá ár þætti ¼ ekki ríflegt framlag, og ég mundi þess vegna segja, að þessi till. og þetta spor, sem þessari till. er ætlað að marka í vegal., gæti orðið miklu frekar til skaða heldur en gagns, vegna þess að með þessu er ætlazt til, að það sé ákveðið, að framlagið skuli vera a.m.k. ¼, vegna þess að það þykir ríflegt. Ef svo kæmi í ljós eftir örfá ár, að þetta framlag væri of lítið, þá yrði vitnað til þess höfðingsskapar, sem sýndur var á Alþingi 1963 með því að ákveða með þessari till. framlagið, úr því að það hefði verið svona rausnarlegt 1963, þá hljóti þetta a.m.k. að vera nægilega mikið á árinu 1965. — Að öllu þessu athuguðu tel ég hyggilegast, að þessi till. verði dregin til baka, vegna þess að hún er óþörf, algerlega óþörf. Ég veit að hv. þm. meinar vel með því að flytja hana, hann meinar það að tryggja, að framlög til vegamála minnki ekki og þau gjöld, sem nú eru lögð á, benzín-, gúmmí- og þungaskattur, skuli raunverulega allt leggja til veganna. Þetta meinar hann. En þegar hann athugar málið niður í kjölinn, athugar, á hvaða forsendum þetta er allt saman byggt og reynslu undangenginna ára um framlög til vegamála, þá er ég sannfærður um, að hv. þm. áttar sig á því, að það er bezt, að till. komi ekki undir atkv., það er bezt fyrir vegamálin.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara nánar út í einstakar brtt., sem fluttar hafa verið, eða ræða um málið frekar. Það hefur verið allýtarlega rætt. Eins og ég áðan sagði, hafa hv. þm. sameinazt um kjarna málsins, og það er áreiðanlegt, að ef það tekst að gera þennan lagabálk að lögum á hálfsmánaðartíma og menn sameinast um það að auka gjöldin um 100 millj. kr., þótt til þarfra hluta sé, þá er það alger nýlunda og ég vil segja til fyrirmyndar og ástæða til að fagna því.