23.01.1964
Sameinað þing: 36. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

Afgreiðsla mála úr sameinuðu Alþingi

Skúli Guðmundsson:

Út af ummælum hæstv. forseta vil ég benda á, að tímaskorti verður ekki um kennt, meðan líður svo hver vikan af annarri, að ekki eru haldnir fundir nema 4 daga í viku. Meðan ekki eru haldnir fundir á föstudögum, eins og var venja áður, þá er ekki hægt að kenna tímaskorti um, að þessi mál eru ekki rædd. Það mætti líka, ef þörf gerðist, halda fundi á laugardögum, þó að það hafi ekki tíðkazt að undanförnu, en ég man ekki betur en það væri fyrir allmörgum árum siður að halda fundi einnig á laugardögum eins og aðra daga vikunnar. Annars þakka ég hæstv. forseta fyrir það fyrirheit, sem hann gefur um að taka þessi mál fyrir og halda fundi til þess svo fljótt sem tök eru á, og vona ég, að þetta verði gert.