25.11.1963
Sameinað þing: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

Minning forseta Bandaríkjanna

forseti (BF):

Síðastliðinn föstudag spurðust þau hörmulegu tíðindi um heim allan, að John Fitzgerald Kennedy, forseti Bandaríkjanna, hefði beðið bana í skotárás í borginni Dallas í Texas, þar sem hann var á ferðalagi til þess að flytja ræðu.

Hvarvetna setti menn hljóða við þessa skelfilegu fregn, eins og jafnan þegar mikinn voða ber óvænt að höndum og erfitt er að sætta sig við, að slíkir hlutir geti átt sér stað.

En fregnin var sönn, og í dag fer jarðarför forsetans fram í höfuðborg Bandaríkjanna að viðstöddum þjóðhöfðingjum og forustumönnum þjóða víðs vegar að úr heiminum.

John Fitzgerald Kennedy hafði aðeins verið forseti þjóðar sinnar í 3 ár, er hann lézt með svo sviplegum hætti, en á þeim skamma tíma hafði hana aflað sér slíks álits og virðingar, bæði meðal samherja og andstæðinga, að fátítt mun vera í sögunni. Þess vegna streyma í dag til þjóðar hans frá öllum löndum heims hinar einlægustu samúðarkveðjur. Þess vegna heiðrum við minningu hans á þessum stað og á þessari stundu og viljum jafnframt votta fjölskyldu hans, hinum nýja forseta, þjóðþingi Bandaríkjanna og bandarísku þjóðinni allri dýpstu og innilegustu samúð Alþingis og íslenzku þjóðarinnar.

Ég leyfi mér að rifja upp örfá atriði úr ævi forsetans.

John Fitzgerald Kennedy var aðeins 46 ára gamall, er dauða hans bar að höndum. Hann var af írskum ættum, sonur Josephs og Rose Fitzgerald Kennedy og var næstelztur af 9 systkinum. Faðir hans er auðugur maður og var um skeið sendiherra Bandaríkjanna í Bretlandi. Afar hans voru báðir þekktir stjórnmálamenn á sínum tíma, og snemma hneigðist hugur hins unga Kennedys inn á þá braut. Hann stundaði háskólanám í þekktustu háskólum Bandaríkjanna, í Princeton og Harvard, og voru aðalnámsgreinar hans stjórnvísindi og alþjóðastjórnmál. Hann útskrifaðist með láði frá Harvard-háskóla árið 1940.

Á stríðsárunum starfaði Kennedy í bandaríska sjóhernum og stjórnaði tundurskeytabáti á Kyrrahafi. Kynntist hann þannig hörmungum stríðsins og rataði í miklar mannraunir. Gat hann sér frægðarorð fyrir björgunarafrek, er hann vann, þegar bátur hans var sigldur í kaf af japönskum tundurspilli.

Árið 1946 hófst stjórnmálaferill Kennedys með því, að hann var í framboði fyrir Demókrata í Massachusetts og var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann var endurkjörinn í fulltrúadeildina árin 1948 og 1950, en árið 1952 bauð hann sig fram fyrir flokk sinn í Massachusetts við kosningar til öldungadeildarinnar. Bar hann við þær kosningar sigurorð af andstæðingi sínum úr flokki Repúblikana og átti eftir það sæti í öldungadeildinni, þar til hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna í sögulegum og minnisstæðum kosningum haustið 1960.

Er þannig eitt ár eftir af kjörtímabili hans, og hefur það nú komið í hlut Lyndons B. Johnsons, sem var kjörinn varaforseti Bandaríkjanna árið 1960, að taka við hinu mikilvæga og vandasama forsetaembætti út kjörtímabilið. Hinn nýi forseti er Íslendingum að góðu kunnur síðan hann var hér í heimsókn í s.l. septembermánuði ásamt konu sinni og dóttur.

John Fitzgerald Kennedy kvæntist árið 1953 eftirlifandi konu sinni, Jacqueline, fæddri Læ Bouvier, og eiga þau tvö ung börn á lífi. Var hún manni sínum jafnan mikil stoð og glæsilegur fulltrúi yngri kynslóðarinnar sem húsmóðir í Hvíta húsinu.

Systkini hins látna forseta og fjölskylda hans öll veittu honum mikinn stuðning á stjórnmálaferli hans. Bræður hans, Robert, núv. dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og Edward, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, eru einnig þekktir stjórnmálamenn vestanhafs.

Á fyrstu þingmannsárum Kennedys lét hann sig einkum varða málefni heimahéraðs síns og iðnaðarins í Nýja-Englandi, en auk þess studdi hann eindregið stefnu Trumans forseta varðandi efnahagsaðstoð til annarra ríkja og Marshalláætlunina. Árið 1957 var hann kjörinn í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar og gerðist þá og var jafnan síðan talsmaður þess, að auka bæri aðstoð til vanþróaðra ríkja.

Hann taldi stjórnarfarslegt fullveldi þjóðanna vera lítið annað en orðin tóm, ef þær skorti ráð og leiðir til þess að berjast gegn fátækt, fáfræði og sjúkdómum, og þess vegna lagði hann til á þingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1961, að þau samtök helguðu framþróuninni þennan áratug. Hann beitti sér fyrir því, að þjóð hans fylgdi þessari stefnu í reynd og legði meira af mörkum en nokkur önnur þjóð til þess að hjálpa nýfrjálsum ríkjum og vanþróuðum löndum til efnahagslegs sjálfstæðis og sjálfsbjargar. Hann boðaði þá stefnu, að ríki heimsins skyldu öll vera frjáls og jafnrétthá, og stóð þess vegna fastur fyrir gegn ásælni þeirra einræðisafla, sem hvorki viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt né frjálsar kosningar. Hann hét því, að þjóð hans skyldi hvorki hefja árásir á aðra né heldur gefa öðrum tilefni til árása, þótt hún stæði ávallt föst fyrir gegn árásaröflum.

Kjörorð hans var að semja aldrei af hræðslu, en vera ekki heldur hræddur við að semja. Þetta voru ekki innantóm orð. Gleggsta sönnun þess úr lífi forsetans er Kúbudeilan og lausn hennar. Þá var hann einbeittur og hugrakkur á hættunnar stund, en hikaði þó ekki við að semja við andstæðing sinn, þegar svo var komið, að báðir gátu gefið eftir með sæmd.

Hinar frjálsu þjóðir heims hafa við fráfall Johns F. Kennedys forseta misst mikilhæfan og dugandi leiðtoga, sem þær virtu og treystu til árangursríkrar forustu.

Þann skamma tíma, sem honum auðnaðist að gegna forsetastörfum, var hann mjög athafnasamur á sviði innanríkismála í Bandaríkjunum og vann að margháttuðum umbótum í menntamálum og félagsmálum. Hann vildi koma á sjúkra- og ellitryggingum, og fyrir honum var lausn kynþáttavandamálsins aðeins ein: Fullt jafnrétti þeldökkra manna og hvítra, ekki aðeins í orði kveðnu, heldur í reynd.

Hann var eindreginn stuðningsmaður Sameinuðu þjóðanna og vildi efla þær og styrkja. Taldi hann friðinn í heiminum vera bezt tryggðan með eflingu þeirra. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1961 komst hann þannig að orði í gagnmerkri ræðu, að í nútímastyrjöld gæti hvorugur aðili sigrað. Það er ekki framar hægt að útkljá deilumál með styrjöldum, og styrjaldir eru ekki lengur málefni stórþjóðanna einna, sagði forsetinn í þessari ræðu. Og hann bætti við: Hættan af kjarnorkunni mundi breiðast út með vindum og vatni, og í krafti óttans, og hún gæti skollið yfir stóra og smáa, ríka og fátæka — jafnt þátttakendur í styrjöld sem hina, er utan við stæðu.

„Mannkynið verður að binda endi á styrjaldirnar, því að annars valda styrjaldirnar endalokum mannkynsins,“ sagði Kennedy forseti í áminnztri ræðu, og það var vissulega alvöruþrungin aðvörun, eins og þá var ástatt í heimsmálunum. í framhaldi af þessum orðum gerði forsetinn síðan grein fyrir stórmerkum tillögum stjórnar sinnar um afvopnun og varðveizlu friðarins.

Sá heimur, sem Kennedy forseti sá fyrir sér, þegar búið væri að yfirstiga ófriðarhættur okkar tíma, var heimur friðarins, þar sem þeir voldugu væru réttlátir, en hinir veiku öruggir.

Þannig voru helztu hugðarefni Kennedys, og hefur þó fátt eitt verið talið. Sagan mun geyma verk hans og dæma þau, en um manninn sjálfan er dómur samtíðarinnar óskeikull: Hann var mikill mannvinur og göfugmenni, drenglundaður og hugrakkur.

Það er fáum mönnum gefið að gera hvort tveggja, að tileinka sér háleitar hugsjónir og lifa og starfa og deyja fyrir þær, en slíkur maður var Kennedy forseti. Hann áleit það undirstöðu mannlegs siðgæðis, að hver maður gerði skyldu sína, þótt að honum kynnu að steðja persónulegir örðugleikar, hættur og ögranir.

Hann lifði samkvæmt þessari lífsskoðun og dó vegna hennar, en þótt dauða hans hafi borið að svo snemma og svo óvænt og hann hafi átt margt ógert, þá er það víst, að störf hans hafa markað spor, sem ekki verða máð af spjöldum sögunnar.

Kyndill vonarinnar, sem hann tendraði, verður ekki slökktur. Aðrir munu taka upp merki hans í baráttunni fyrir jafnrétti og frelsi manna og þjóða, en það jafnrétti er bezta trygging þess friðar í heiminum, sem hinn látni forseti vildi að ríkti.

Ég bið hv. alþm. að heiðra minningu Johns Fitzgeralds Kennedys, forseta Bandaríkjanna, með því að rísa úr sætum. – [Þingmenn risu úr sætum.]