17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

95. mál, vegalög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð í sambandi við ummæli hæstv. samgmrh. um þá brtt., sem ég flyt.

Hæstv. ráðh. notar enn þau kynlegu rök, að það sé engin trygging fyrir því um það, sem nú yrði sett í þessi lög um lágmarksskyldur ríkisins til þess að greiða fé til vegamála, að ekki verði vikið frá því, sem nú verði ákveðið í lögum, og vegna þess að Alþingi hafi vald til þess að breyta því, sem nú yrði samþykkt, þá hafi þetta sáralítið gildi. Á nákvæmlega sama hátt mætti segja: Það hefur ekkert gildi að vera að samþykkja það að leggja á svona mikinn benzínskatt, næsta Alþingi getur breytt öllu saman. Til hvers er verið að gera áætlun um 4 ára framkvæmdir, byggðar á þeim tekjustofni, sem Alþingi getur breytt eftir eitt ár? Slíkt eru auðvitað engin rök. Reynslan hefur hins vegar sýnt, að það, sem búið er að binda í lögum af framlögum til nauðsynlegra mála, er allajafna reynt að standa lengi við, en hins vegar gengur ekki eins vel að fá inn nýjar samþykktir og binda ríkinu skyldu, sem það hefur ekki verið bundið til þess að standa undir áður. Þetta eru því auðvitað engin rök og ekki sæmandi fyrir hæstv. ráðh. að vera að endurtaka annað eins og þetta.

Nákvæmlega sama er að segja um það, að reynslan hafi sýnt á undanförnum árum, meðan allar fjárveitingar til vegaframkvæmda í landinu voru ákveðnar gegnum fjárlög, þá hafi þessar fjárveitingar smám saman farið hækkandi, og vegna þeirrar reynslu muni verða sama reynsla á því nú, þegar tekur við allt annað kerfi, þegar búið er að byggja upp kerfi, þar sem vegaframkvæmdir í landinu eiga að hafa sjálfstæðan tekjustofn, en aðeins gert ráð fyrir því, að Alþingi bæti þar eitthvað við, eftir því sem Alþingi ákveður hverju sinni. Vitanlega þurfa engar sérstakar líkur að benda til þess, að ríkið haldi áfram að hækka sitt framlag, t.d. á sama tíma sem þessir tekjustofnar fara vaxandi, sem ákveðnir hafa verið í frv. Nei, mér sýnist þvert á móti allt benda til þess, að sé þetta hlutfall ekki ákveðið nú, séu langmestar líkur til þess, að framlag ríkisins fari minnkandi, og ég skal færa að þessu nokkuð frekari rök.

Samkv. þessu frv. á að gera framkvæmdaáætlun um vegagerðir í landinu til fjögurra ára og þar á að leggja til grundvallar það fjármagn, sem úr er að spila til vegagerðarmálanna, og þá verður vitanlega fyrst og fremst áætlað: Hvað eiga þessir föstu tekjustofnar að gefa miklar tekjur, fyrst á árinu 1965, síðan á árinu 1966, svo á árinu 1967 og 1968. Vitanlega þarf að gera ráð fyrir þessu öllu saman á áætluninni, hvað miklar tekjur muni koma úr þessum tekjustofnum á þessu tímabili. Og síðan er auðvitað ákveðið á áætluninni jafnframt, í hvaða vegaframkvæmdir þetta fé eigi að fara. E.t.v. hafa menn sett á þessa áætlun eitthvert hugsanlegt framlag á fjárl., þó að fjárlög hafi auðvitað ekki verið ákveðin fyrir fjögurra ára tímabil. Við skulum samt sem áður gera ráð fyrir því, að í algeru heimildarleysi geri þeir, sem gera till. um vegáætlanir fram í tímann, þó ráð fyrir einhverju fé, sem muni koma í gegnum fjárlög, áður en fjárlög hafa verið samþykkt. En svo verður bara reynslan sú, eins og oft áður, að tekjustofnarnir af benzínskattinum og gúmmískattinum skila miklu meira fé. Áætlaðar tekjur fyrir fyrsta árið, 1965, fara kannske 10 millj. kr. fram úr áætlun, af þessum tekjustofni, og fyrir næsta ár þar á eftir fara tekjurnar e.t.v. 20 millj. fram úr áætlun. Þetta er í fullu samræmi við það, sem við þm. höfum horft á hér um áætlanir af hálfu ríkisins um ýmsa tekjustofna. Og hvað svo? Búið var að semja áætlun, þar sem gert hafði verið ráð fyrir tilteknum útgjöldum til tiltekinna framkvæmda. Tekjustofnarnir, sem eiga að standa undir framkvæmdum, reynast miklu drýgri. Þá er nú rétt sem ég sjái þá. fjmrh., sem ég hef kynnzt til þessa, segja á eftir: Ætli það sé nokkur þörf á því að fara að raska þeirri áætlun, sem gerð hefur verið, og fara að auka framlög ríkisins fram yfir það, sem þarf, til þess að hægt sé að framkvæma áætlunina, ef benzínskatturinn gefur meira fé en við höfðum áætlað til fjögurra ára? Þá er alveg ástæðulaust að vera að fara fram á það, að ríkið leggi hér fram meira fé. — Ætli það sé ekki af þessu, sem andstaðan kemur einmitt nú, að menn vilja hafa þennan enda lausan?

En eins og ég hef sagt hér áður í þessum umr., tel ég það vera svo stórt mál, ef á að leggja nú á landsmenn nýjan skatt, sem nemur um 100 millj. kr. á ári, með þeirri meginröksemd, að þessi nýi skattur skuli allur ganga til viðbótarframkvæmda í vegagerðarmálum fram yfir það, sem hingað til hefur verið gert í þessum efnum, þá á líka að tryggja það með lagasetningu um leið, að við þetta verði staðið, að ríkið haldi áfram að leggja beint af hinum almennu tekjum sínum til vegagerðarmálanna í svipuðu hlutfalli og það gerir nú, en að hlutfall ríkisins minnki ekki, en á sama tíma verði byggt meir og meir á þeim tekjustofnum, sem tilfærðir eru í þessu frv. Það á að slá þessu föstu fyrir fram. Og það er alveg augljóst mál, að það hlýtur að vera einhver ástæða til þess, að menn vilja ekki hafa það bundið í lögum, að það skuli gilda lágmarksákvæði í þessum efnum. Einhverjar ástæður hljóta að liggja til þess. Ég vil ekki gera það að mínum orðum, sem hæstv. samgmrh. hafði hér yfir áðan, að framlagið nú, þessar 47.1 millj., sem gert er ráð fyrir að komi til vegagerðarmála í gegnum fjárlög, að það sé sérstaklega ríflegt, höfðinglegt, rausnarlegt eða annað þess háttar, eins og hæstv. ráðh. sagði. Ég tel þetta framlag í rauninni ekkert af þessu, síður en svo. Hér er aðeins um að ræða, að það er verið að tryggja það með þessu framlagi, þessum 47.1 millj. kr., á árinu 1964, — það er verið að tryggja það með því að veita þetta fé til vegagerðarmála, að nýja gjaldið eða nýju gjöldin, sem nú er verið að leggja á, skuli að öllu leyti ganga til vegagerðarmála. Það er verið að tryggja það með þessari upphæð. Ef upphæðin væri minni en 47 millj., þá væri raunverulega nokkur hluti af þessu nýja gjaldi að ganga á óbeinan hátt til ríkissjóðs. Þetta veit hæstv. samgmrh. mætavel. Talan 47.1 millj. er einmitt fundin þannig, að hún á aðeins að tryggja þetta, að nýja gjaldið renni allt á árinu 1964 til viðbótarframkvæmda í vegagerðarmálum, en ef framlagið á fjárl. væri minna en 47 millj., mundi það ekki gera það.

Ég álít líka, að það sé í raun og sannleika óframkvæmanlegt að gera á nokkuð raunhæfan hátt áætlun 4 ár fram í tímann um vegagerðarframkvæmdir og fjármuni í því sambandi, ef ekkert hefði verið sagt um það, hvert á að vera lágmarksframlag ríkissjóðs. Á meðan málið stendur eins og það er uppsett nú í frv., er í rauninni ekki hægt að gera áætlun til fjögurra ára fram í tímann nema miða við þá tekjustofna, sem eru bundnir í lögum. Það er ekki hægt að gera áætlun 4 ár fram í tímann um einhverjar væntanlegar fjárveitingar gegnum fjárlög, sem enginn veit, hvað eiga að vera miklar. Það er því í rauninni alveg nauðsynlegt að ákveða fyrir fram, hvert eigi að vera framlag ríkisins sem lágmark. Og ef hlutfallið á milli þess, sem veitt er á fjárlögum, og þess, sem áætlað er að komi út úr tekjustofnunum, er orðið fast, þá vitanlega kemur af sjálfu sér að taka inn sem áætlað fjármagn komandi frá ríkissjóði beint ¼ hluta, eins og ég hef lagt til í minni till., miðað við það, sem áætlað er að komi út úr tekjustofnunum.

Ég skal svo ekki eyða lengri tíma í umr. um þetta. Þegar atkv. hafa fallið um mína till., kemur alveg greinilega í ljós, hverjir það eru, sem vilja, um leið og þessi hái skattur er lagður á, slá því föstu í löggjöfinni, að nýi skatturinn skuli að öllu leyti fara sem viðbótarframlag til vegagerðarmála. Þeir, sem ekki vilja samþykkja þessa till. og láta 89. gr. frv. standa eins og hún stendur enn, vilja hafa allt á lausu með það, hvað þeir láta í þessi mál, þeir vilja. hafa það allt á lausu. Og þá er engin trygging fyrir því, að þessi nýi skattur renni ekki á óbeinan hátt til ríkisins, því að það mundi hann auðvitað gera, ef ríkið kippir að sér hendinni með framlög í þessum efnum.

Ég vona svo, að hv. d. sjái sér fært að samþykkja mínar tillögur.