06.04.1964
Sameinað þing: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur komið saman á fund og athugað þau fimm kjörbréf, sem til hennar var vísað. Mun ég nú gera grein fyrir niðurstöðum kjörbréfanefndar um hvert einstakt þessara kjörbréfa.

Þá kemur fyrst kjörbréf fyrir Gunnar Guðbjartsson bónda, 2. varamann Framsfl. í Vesturlandskjördæmi, en óskað er eftir því, að hann taki sæti á Alþingi í forföllum 3. þm. Vesturl., Halldórs E. Sigurðssonar. Það liggur fyrir skeyti frá 1. varaþm. Framsfl. í þessu kjördæmi, Daníel Ágústínusson, um það, að honum sé ekki unnt að mæta á Alþingi nú vegna annríkis. Kjörbréfanefnd hefur ekkert fundið athugavert við kjörbréf Gunnars Guðbjartssonar og leggur til, að kosning hans sé tekin gild og kjörbréf hans samþykkt.

Þá liggur hér næst fyrir kjörbréf fyrir Steinþór Gestsson bónda, 3. varaþm. Sjálfstfl. í Suðurlandskjördæmi, en það er óskað eftir því, að hann taki sæti á Alþingi í forföllum fyrir Sigurð Ó. Ólafsson, 5. þm. Sunnl. Það liggur fyrir bréf frá 1. varaþm. Sjálfstfl. í þessu kjördæmi, Ragnari Jónssyni, þar sem hann tilkynnir, að vegna anna í starfi hafi hann ekki tök á því að taka sæti Sigurðar Ó. Ólafssonar, 5. þm. Sunnl., á þingi nú. í bréfi 5. þm. Sunnl., Sigurðar Ó. Ólafssonar, forseta Ed., er tekið fram, að honum sé kunnugt um, að 2. varaþm. Sjálfstfl. í kjördæminu hafi forföll. Mun hann vera erlendis. Kjörbréfanefnd sér því ekkert athugavert við kjörbréf Steinþórs Gestssonar og leggur til, að kosning hans sé gild metin og kjörbréf hans samþykkt.

Þá er í þriðja lagi kjörbréf fyrir Sverri Hermannsson viðskiptafræðing, 1. varaþm. Sjálfstfl. í Austf., en það er óskað eftir því, að hann taki sæti hér á Alþingi í forföllum Jónasar Péturssonar, 3. þm. Austf. Kjörbréfanefnd hefur athugað kjörbréf Sverris Hermannssonar og hefur ekkert fundið þar við athugavert og leggur til, að kosning hans sé tekin gild og kjörbréfið samþykkt.

Þá er hér kjörbréf fyrir Valtý Guðjónsson, 1. varaþm. Framsfl. í Reykjaneskjördæmi, en það er óskað eftir því, að hann taki sæti hér í forföllum Jóns Skaftasonar, 4. þm. Reykn. Kjörbréfanefnd hefur ekki fundið neitt athugavert við kjörbréf Valtýs Guðjónssonar og leggur til, að kjörbréf hans sé samþykkt og kosningin gild tekin.

Þá er hér að lokum kjörbréf fyrir Berg Sigurbjörnsson viðskiptafræðing, 1. varaþm. Alþb. í Reykjavíkurkjördæmi, en óskað er eftir, að hann taki sæti í forföllum Einars Olgeirssonar, 3. þm. Reykv. Kjörbréfanefnd hefur athugað kjörbréf Bergs Sigurbjörnssonar og hefur ekki neitt við það að athuga og leggur til, að kosning hans sé gild metin og kjörbréf hans samþykkt.