10.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1798)

17. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt á áfengisl., nr. 58 1954, var vísað til allshn. 29. okt. s.l. Hefur n. síðan haft frv. til athugunar og rætt það á allmörgum fundum sínum. Sendi n. nokkrum aðilum frv. til umsagnar, og hafa svör borizt frá þessum aðilum: áfengisvarnaráði, Landssambandi gegn áfengisbölinu, Landssambandi ísl. barnaverndarfélaga og Stórstúku Íslands. Auk þess barst n. umsögn um frv. frá Félagi framreiðslumanna. Enn fremur ræddu nm. við nokkra forustumenn í bindindissamtökum í landinu um efni frv. Allir þeir aðilar, sem n. hefur fengið umsagnir frá, hafa tjáð sig samþykka og fylgjandi þeim nýmælum, sem í frv. felast, sumir þó með nokkrum aths., sem n. hefur yfirleitt tekið tillit til að nokkru leyti eða öllu við afgreiðslu frv.

Frv. þetta er samið á vegum dómsmrn. á grundvelli till. n., sem skipuð var af menntmrh. í júnímánuði s.l. í samráði við dómsmrh. vegna atburða, sem gerðust í sambandi við ferðir æskufólks í Þjórsárdal um hvítasunnuhelgina 1963. Tilgangurinn með setningu þeirra nýmæla, sem í frv. felast, er í stuttu máli sá að reyna að fyrirbyggja ölvun ungmenna innan tiltekins aldurs og ósæmilega hegðun þeirra í sambandi við neyzlu áfengis. Þótt gerð sé í aths. um frv. grein fyrir nokkrum nýmælum, sem í frv. felast, mun ég þó í stuttu máli drepa á nokkur þessara nýmæla og um leið geta stuttlega um þær brtt., sem meiri hl. n. flytur við frv.

Í 1. gr. frv. felst aðeins sú breyting á gildandi áfengislögum, að þar er bætt við, að óheimilt sé að veita eða afhenda yngri mönnum en 21 árs áfengi með nokkrum hætti. Munu þessi orð „með nokkrum hætti“ fyrst og fremst eiga að taka af öll tvímæli um það, að jafnóheimilt sé að veita ungmennum innan tiltekins aldurs áfengi í heimahúsum sem annars staðar og varði það refsingu, ef út af er brugðið.

2. gr. frv. er öll nýmæli, en þar er lagt bann við því, að ökumenn leigubifreiða og annarra almenningsbifreiða taki ölvuð ungmenni yngri en 21 árs til flutnings í bifreiðum sínum og leyfi þeim þar áfengisneyzlu. Þó skal heimilt að flytja slík ungmenni tafarlaust heim til sín. Hér er raunverulega um eitt helzta nýmæli frv. að ræða, og hlýtur það bann, sem í þessari grein felst, að skoðast tímabært eftir það, sem á undan er gengið, enda mun það fyrst og fremst hafa verið tilefni þess, að þetta frv. var flutt, að ölvuð ungmenni voru flutt í leigubifreiðum og almenningsbifreiðum á þann stað, sem þau ullu hneyksli á með ölvun sinni og drykkjulátum. Við þessa grein frv. flytur meiri hl. n. þá brtt., að auk þess sem heimilt sé að flytja ölvuð ungmenni til heimila sinna, sé einnig heimilað að flytja þau til lögregluyfirvalda og á sjúkrahús.

Ákvæði 3. gr. frv. eru nýmæli í áfengislögunum sjálfum. Þó er í reglugerð um sölu og veitingar áfengis, 9. gr., — þessi reglugerð er frá 1945, — bann lagt við því að hafa með sér áfengi á eða út af veitingastað. Við þessa mgr. hefur meiri hl. allshn. flutt þá brtt., að jafnóheimilt og það sé að bera með sér áfengi inn á veitingastað, annað en það, sem þangað er flutt til heimilla veitinga, skuli það einnig vera óheimilt að bera með sér áfengi út af slíkum stöðum, og er þetta í samræmi við ákvæði þeirrar reglugerðar um sölu og veitingar á áfengi, sem ég gat áður um.

Í 2. mgr. þessarar gr. segir, að ungmennum yngri en 18 ára skuli óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á þeim veitingastöðum, sem leyfi hafa til vinveitinga, nema í fylgd með forráðamönnum sínum. Í gildandi áfengislögum er ekki tilgreint aldurslágmark fyrir heimild til aðgangs að þeim veitingastöðum, sem veita mega áfenga drykki. Hefur slík aðgangsheimild hingað til verið bundin við það aldurslágmark, sem ákveðið er í lögreglusamþykktum um aðgang að almennum veitingastöðum og skemmtistöðum, þ.e.a.s. 16 ára aldur. Hér er því lagt til, að aldurslágmarkið hækki úr 16 ára aldri í 18 ára aldur. Ég vil geta þess hér, að við umr. um frv. í n. hafa komið fram raddir um það, hvort ekki væri rétt að fella niður það ákvæði í frv., að ungmenni yngri en 18 ára fengju aðgang að veitingahúsum, sem vínveitingaleyfi hafa, eftir kl. 8 á kvöldin, væru þau í fylgd með forráðamönnum sínum. Ég játa það fúslega, að frá mínu sjónarmiði getur það verið mikið álitamál, hvort leyfa eigi þetta eða banna, og eru frá mínu sjónarmiði til rök bæði með og móti báðum þessum sjónarmiðum. Meiri hl. n. taldi þó að athuguðu máli naumast fært að ganga lengra að svo stöddu með aðgangsbann að veitingastöðum með vinveitingaleyfi en gert er í frv. og taldi naumast fært að banna ungmennum yngri en 18 ára dvöl í veitingastað eftir kl. 8, væru þau í fylgd með t.d. foreldrum sínum eða jafnvel maka. Þetta atriði mun n. þó e.t.v. ræða frekar á milli umr.

Í 4. gr. frv. eru sektarákvæði fyrir óleyfilega áfengissölu og brugg hækkuð úr 800–800a kr. sekt í 1500–15 000 kr. sekt og fyrir ítrekun brots úr 1600–20000 kr. sekt í 3000–30000 kr. sekt.

Í gildandi áfengislögum, 41. gr., er sektarákvæði 100–2000 kr. fyrir að afhenda eða veita bersýnilega ölvuðum manni áfengi, fyrir að afhenda eða veita yngri mönnum en 21 árs áfengi og fyrir að selja þeim mönnum áfengi, sem sekir hafa gerzt um óleyfilega áfengissölu og óleyfilegan tilbúning áfengis. Nú er í 2. mgr. 5. gr. frv. sérstakt sektarákvæði um sölu og veitingar áfengis til yngri manna en 21 árs, og er sektin fyrir slíkt athæfi þar ákveðin 400–4000 kr. Meiri hl. leggur til í 4. brtt. sinni, að þessi sektarrammi verði hækkaður upp í 800–5000 kr. sekt.

Heimild til upptöku á áfengi, sem yngri menn en 21 árs hafa með höndum, er í 3. mgr. 5. gr. frv., og er það nýmæli.

Nýtt sektarákvæði kemur í 6. gr. frv., vegna þess nýmælis í 2. gr. þess, að óheimilt sé að flytja ölvuð ungmenni innan tiltekins aldurs í vissum bifreiðum, og er það ákvæði miðað við 400–4000 kr. sekt.

7. gr. frv. gerir ráð fyrir, að sérstök sekt komi fyrir að bera með sér ólöglega áfengi inn á veitingastað samkv. 3. gr. frv., og er hún í frv. ákveðin 400–4000 kr. Samkv. fyrri brtt. meiri hl, n. nær þetta sektarákvæði einnig til þess að bera með sér ólöglega áfengi út af veitingastað. Nýmæli er það í þessari grein, að slíkt áfengi, þ.e. það, sem borið er ólöglega inn og út af veitingastað, skuli gert upptækt. — Þá segir loks í niðurlagi 7. gr. frv., að það varði áminningu eða sekt frá 100–500 kr., ef ungmenni yngri en 18 ára dveljist á vínveitingastað á óleyfilegum tíma. Samkv. 6. brtt. meiri hl. n. skal beita þessum viðurlögum við ungmennin, sem brotleg gerast, en meiri hl, leggur til, að nýtt sektarákvæði komi fyrir brot veitingamanns á þessu ákvæði og verði það 800–6000 kr. sekt, ef hann gerist sekur um slíkt brot.

Í 8. gr. frv. eru sektir fyrir ölvun á almannafæri, hinar svokölluðu brennivínssektir, hækkaðar úr 100–2000 kr. upp í 400–4000 kr. í þessari grein felst einnig það nýmæli, að áfengi í vörzlu þeirra, sem sekir gerast um slík brot. skuli gert upptækt.

Í 9. gr. frv. eru hækkaðar sektir fyrir það, ef opinberir starfsmenn, þeir sem gegna trúnaðarstörfum eða vandasömum störfum, eru ölvaðir við starf sitt, fyrir fyrsta brot úr 400–2000 kr. sekt upp í 600– 3000 kr. sekt og fyrir annað brot úr 800–4000 kr. sekt upp í 1200-6000 kr. sekt. Ákvæði gildandi áfengislaga um stöðu- og réttindamissi í slíkum tilfellum haldast óbreytt.

Hef ég þá stuttlega getið nýmæla frv. og vikið einnig nokkuð að nokkrum brtt, meiri hl, n. við það. Einfaldra orðalagsbreytinga, sem n. gerir till. um, hef ég þó ekki getið.

Ég kem þá að þeim brtt. meiri hl. n., sem mestu máli skipta efnislega og skoðanir manna kunna að vera eitthvað skiptar um.

Eins og áður hefur verið getið, felur eitt af nýmælum þessa frv. í sér bann við því, að ungmenni innan 18 ára aldurs dveljist eftir kl. 8 á kvöldin á veitingastöðum, sem leyfi hafa til vínveitinga, nema í fylgd með forráðamönnum sínum. Heimild til að selja og veita áfenga drykki hefur samkv. íslenzkum áfengislögum verið bundin við 21 árs aldurslágmark allt frá árinu 1935, þegar fyrstu áfengislögin voru sett, eftir að bann við sölu áfengra drykkja hafði með öllu verið afnumið í landinu. Er enn gert ráð fyrir þessu sama aldurslágmarki fyrir sölu og veitingum áfengis í frv. þessu og önnur aldurslágmörk, sem frv. setur, einnig miðuð við 21 árs aldur, að undanskildu því 18 ára aldursmarki, sem ég hef áður getið um, þ.e. banni við aðgangi að vínveitingastöðum á vissum tímum.

Fljótlega eftir að n. tók að ræða frv. og þær breytingar, sem í því felast á gildandi áfengislögum, komu upp raddir um það, hvort ekki væri rétt í því skyni að samræma hin mismunandi aldurslágmörk frv. og um leið að auðvelda framkvæmd áfengislaga að áorðnum þeim breytingum, sem frv. gerir ráð fyrir, að hafa aldursmörkin öll hin sömu og miða þau við 18 ára aldur í stað 21 árs aldurs, sem frv. gerir yfirleitt ráð fyrir. Taldi meiri hl. n., um það er lauk, að með slíkri samræmingu á aldursmörkunum, með útgáfu persónuskilríkja almennt eða til ungmenna á tilteknum aldri, sem gert er ráð fyrir í aths. við frv., og með þyngingu refsinga fyrir brot á þeim ákvæðum um aldurslágmörk, sem í frv, felast, væri gert stórum auðveldara að framfylgja ákvæðum frv. Er það ekkert launungarmál, að misbrestur hefur orðið á því, að 21 árs aldurslágmarkið fyrir sölu og veitingum áfengis hafi verið virt í sumum tilfellum, og hefur í því sambandi oft verið minnzt á áfengisveitingar í gleðisamkomum nýstúdenta, sem margir hverjir hafa ekki náð 21 árs aldri, þegar þeir taka þátt í slíkum samkomum, og afhendingu áfengis til ungmenna undir 21 árs aldri á skipum, sem sigla til útlanda, og þá aðallega á kaupskipaflotanum. Okkur, sem leggjum til, að aldurslágmarkið fyrir veitingum og sölu áfengis sé lækkað úr 21 árs aldri í 18 ára aldur, er að vísu ljóst, að skoðanir kunna að vera nokkuð skiptar um þessa ráðabreytni, og viðurkennum við, að rök séu til bæði með og móti slíkri lækkun, þótt við teljum, að þau rök, sem mæla með lækkun aldursmarksins, séu þyngri á metunum, þau rök, að stórum meiri líkur séu fyrir því, að ákvæði áfengislaga um aldurslágmark fyrir sölu og veitingum áfengis verði virt, ef það er miðað við 18 ára aldur, en 21 árs aldur. Á þessi rök hafa þeir bindindismenn, sem við höfum rætt við, fallizt og sumir hverjir meira að segja gert að sínum rökum.

Þá vil ég að lokum geta þess, að ekki mun enn vera fullráðið, með hvaða hætti persónuskilríkjum þeim, sem gert er ráð fyrir í frv., verði úthlutað, en ákvörðun um það mun væntanlega verða tekin, áður en frv. verður afgr. héðan af hv. Alþingi.

Samkv. því, sem ég hef áður sagt, leggur meiri hl. allshn. til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hann stendur að. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja brtt, við frv. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma við það. Einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), skilar sérstöku nál. um frv. og annar nm., hv. 4. þm. Sunnl. (BFB), skrifar undir nál. meiri hl. með fyrirvara.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.