10.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1800)

17. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. nefnd fyrir athugun hennar og meðferð og till. í þessu máli. Meðan hún hefur haft málið til athugunar, hefur form. n. og frsm. meiri hl., hv. 4. þm. Norðurl. v., haft nokkuð náið samband við mig og rætt þær brtt., sem lagt er til að gerðar verði á frv. á þskj. 283. Ég vil lýsa því yfir, að ég er samþykkur öllum þeim brtt., sem þar eru fluttar, og tel þær vera til bóta. Ég tel augljóst, að n. hefur lagt sig í líma við að athuga þetta frv. og gera á því umbótatill. Ég vil sérstaklega taka það fram, að þetta frv. er nokkuð sérstætt að því leyti sem breyting á áfengislögunum, að það tekur aðeins til eins þáttar þess mikla vandamáls, áfengisvandamálsins, en að vísu til viðkvæmasta þáttar þess, sem snýr að ungmennunum og æskufólkinu. Það er von mín, að þær breyt., sem gerðar eru í frv. og brtt. meiri hl., verði til umbóta á þessu sviði og megi koma nokkru góðu til leiðar.

Um brtt. hv. minni hl., 1. þm. Norðurl. v., á þskj. 286 skal ég ekki segja annað en það, að þær snerta aðra þætti áfengisvandamálsins en þessu frv. upphaflega var ætlað að taka til, enda er það svo, að varðandi aðra brtt. liggur fyrir sérstakt frv. hér, og með hliðsjón af því, að þetta snertir aðra þætti en viðhorfið til æskufólksins sérstaklega, þá mun ég vera mótfallinn þessum till. en í því felst í sjálfu sér ekki efnisafstaða til þeirra og allra sízt til till. nr. 2 varðandi áfengisvarnasjóð eða fjárveitingu til þess að stuðla að því að bæta úr og lagfæra þau vandræði, sem af áfengisneyzlunni stafa. En ég tel, að það mál þurfi sérstakrar athugunar við og sé því ekki eðlilegt, að það geti hlotið afgreiðslu í sambandi við meðferð þessa máls.

Að öðru leyti þakka ég n. fyrir athugun hennar og brtt. til bóta á frv., sem ég styð, eins og ég hef gert grein fyrir.