18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

95. mál, vegalög

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til þess að taka undir ýmis atriði í ræðu hv. 5. þm. Reykn. í sambandi við undirbúning þessa máls. Og enn fremur það, að það hefði verið mjög æskilegt, ef ríkisstj. hefði séð sér fært að sjá af stærri hluta þeirra tekna til vegamála, sem ríkissjóður hefur nú þegar af umferðinni. Það hefði einnig verið æskilegt, að þetta mál hefði verið undirbúið á breiðari grundvelli af mþn., sem skipuð væri fulltrúum fleiri flokka en þeirra, sem þar hafa að máli staðið, og enn fremur hefði verið mjög æskilegt fyrir Alþingi að hafa meiri tíma til þess að fjalla um þetta mál. Eigi að síður hefur okkur þm. Framsfl. virzt, að hér væri um svo mikilsvert mál að ræða og svo jákvætt og stórt skref í þá átt að leysa þau stórkostlegu vandamál og viðfangsefni, sem okkar bíða í vegamálunum, að okkur þótti einsýnt að vinna að því, að málið næði fram að ganga, eins og til var ætlazt.

Sjálfsagt er um mörg þau nýmæli, sem í þessu frv. ræðir, svo, að eftir er að fá á þau reynslu, og sjálfsagt verður eðlilegt, að þessi lög verði athuguð og endurskoðuð á nýjan leik, áður en mjög langt um líður. Ég nefni t.d. það atriði í 12. gr. frv., hvernig þjóðvegum er skipt í vegáætlun í hraðbrautir A og B þjóðbrautir o.s.frv. Ég hefði talið það æskilegt, að við hefðum getað sett markið nokkru hærra með gerð varanlegra vega en svo, að við þyrftum að setja það lágmark, að um vegina færu 1000 bifreiðar á dag. En um þetta er ástæðulaust að fjalla á þessu. stigi málsins. Reynslan á eftir að skera úr því, hvort okkur verði fært að setja markið hærra. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi þess að sjálfsagt verður að hafa vakandi auga með því að reynslan af framkvæmd þessara laga verði eins og til er ætlazt og að við komumst sem lengst áleiðis með þau verkefni, sem því er ætlað að leysa.

Ég geri ráð fyrir því þó að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á frv. í Nd., flestar fyrir tilstilli samgmn. beggja deilda, sem höfðu samvinnu um þetta mál, og þm. Framsfl., sem höfðu í fyrsta skipti tækifæri til þess að athuga málið í sambandi við það, áttu hlut að því að gera, þá muni einhverjar brtt. enn koma fram við málið við 2. umr. hér í deild, og ég skal ekki fara frekar út í að ræða einstök atriði þess á þessu stigi, en vil aðeins lýsa samþykki mínu við frv. í aðalatriðum.