01.11.1963
Neðri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (1817)

56. mál, launamál o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef á þessu hausti orðið reynslunni ríkari af nokkru samstarfi við hæstv. ríkisstj. Ég hef, eins og mörgum er kunnugt, síðan Alþingi kom saman átt nokkra viðræðufundi við hæstv. forsrh., að mér skilst við hann sem milligöngumann milli ríkisstj. og fyrst og fremst verkalýðssamtakanna. Ég ætla ekki að gefa hv. Alþingi skýrslu um þessar viðræður, en ég ætla aðeins að segja það, að þessar viðræður fóru fram milli okkar, bæði þegar við töluðum saman fleiri, þá fóru þær fram í fullum trúnaði og fullri vinsemd, og ég gat ekki annað skilið á hæstv. forsrh. en hann vildi tvennt gera með þessum viðræðum: hann vildi gagnvart verkalýðshreyfingunni játa það fyllilega, að nú væri svo komið málum, að ríkisstj. væri í miklum. vanda stödd, að í efnahagsmálum þjóðarinnar væri illa komið, og enn fremur vildi hann játa ýmiss konar orsakir til þess, að svo væri komið. Þegar þessi viðtöl fóru fram, höfðu vissulega engar kauphækkanir eða kaupbreytingar átt sér stað á síðustu mánuðum hjá verkalýðshreyfingunni.

Það er síðast frá því að segja, að á liðnu vori höfðu verkalýðsfélögin ákveðið að reyna að ná nýjum samningum um hækkað kaup, af því að þau töldu sig geta sannað það, að tekjur verkafólks hefðu farið minnkandi í hlutfalli við þjóðartekjur og þau ættu þess vegna rétt á því að bæta kjör sinna meðlima. En þá gekk hæstv. ríkisstj. í það, að verkalýðshreyfingin slíðraði vopnin um sinn og gæfi frest til þess að krefjast þeirra launabóta, sem hún taldi sig eiga rétt á. Og þetta var gert. Þessi frestur var gefinn til 15. okt. í haust. Til hvers átti að nota þennan tíma? Vitanlega áttu stjórnarvöldin að nota þennan tíma í samstarfi við atvinnurekendur til þess að undirbúa það, að hægt væri að mæta verkalýðssamtökunum við samningaborð þann 15. okt. og eigi síðar til þess að ráða fram úr launamálum verkalýðshreyfingarinnar. En hafði þetta verið gert? Nei, þetta hafði alls ekki verið gert. Í staðinn höfðu hæstv. ráðherrar farið eins og fjaðrafok út um allan heim, mest til að skemmta sér, og höfðu lagt ábyrgðina til hliðar, og svo var allt í vanda, þegar hinn gefni frestur var liðinn.

Ég játa það, að ég taldi, að viðræður hæstv. forsrh. væru af fullum heilindum, að hann vildi samráð við verkalýðshreyfinguna um lausn vandans, og ég taldi mig sannfærðan um, að það yrði ekki gripið til fantabragða og ekki til ofbeldislöggjafar rétt á eftir. Mig óraði ekki fyrir því fyrr en nú fyrir nokkrum dögum, þegar hæstv. forsrh. kallaði mig og tvo aðra þingmenn, forustumenn í stórum verkalýðsfélögum, á sinn fund og sagði þá, að hann gæti að vísu ekki gefið okkur upplýsingar um, hver yrðu úrræði ríkisstj. í launamálunum, en þó fengum við að skilja, að það stæði til innan fárra daga að setja þvingunarlöggjöf um lögbindingu kaups, og við fengum hugmyndir um það, að þetta ætti fyrst um sinn að verða til tveggja mánaða.

Þegar við höfðum fengið þessa vitneskju, þá held ég, að það sé rétt frá skýrt, að við létum hæstv. forsrh. fyllilega á okkur skilja, að við teldum þetta misráðið og við teldum þetta ekki óskylt hnífstungu í bakið. Hann sagði, að sér þætti leitt, ef við teldum á einhvern hátt ódrengilega að okkur farið. En við bættum við: Við teljum miklu ráðlegra, að ríkisvaldið og verkalýðshreyfingin leggi nú nótt við dag í vinnu næstu viku eða tíu daga, kannske hálfan mánuð, til þess að leysa málin með friðsamlegum hætti við samningaborð. Þetta var okkar tilboð, áður en flanað var inn á Alþ. með þetta ofbeldisfrv., sem hér er til umr. Þetta bárum við fram, þetta tilboð við hæstv. forsrh., án þess að hann óskaði þess. En það lá fyrir honum, og hann viðurkenndi það hér. í ræðu í dag, að þetta tilboð hefði sér verið gert og hæstv. ríkisstj., en hann hefði hafnað því, af því að hann hefði ekki talið, að við gætum tryggt vinnufrið þennan tíma. Ég held, að við hefðum getað það. Og a.m.k. hefði það verið tryggt, ef hæstv. ríkisstj. hefði lagt sig í silann við það að tryggja vinnufrið af hendi þeirra félaga, sem eru undir stjórn ákveðinna stjórnarsinna og voru á undan öllum öðrum félögum í verkalýðshreyfingunni búin að boða verkfall og þannig að segja ríkisstjórninni, sinni eigin ríkisstj., stríð á hendur.

Það liggur því skýrt fyrir, að verkalýðshreyfingin bauð að vinna að friðsamlegri lausn þessara mála á eðlilegan hátt í næstu viku, á næsta hálfum mánuði, en því var hafnað. Á þá útréttu hönd var slegið af hæstv. ríkisstj., og hún hélt, þrátt fyrir aðvaranir trúnaðarmanna úr verkalýðshreyfingunni, áfram fyrir Alþ. þvingunarlöggjöf, sem gengur svo freklega á lýðræðisleg réttindi hins vinnandi fólks, að það er í fyrsta lagi nokkurn veginn afnumið félagafrelsið, að því er þessi fjöldasamtök í þjóðfélaginu varðar. Þessi samtök eru svipt sínum samningsrétti, og þau eru svipt réttinum til þess að gera vinnustöðvun, ef samningar ekki takast við hið frjálsa samningaborð, sem að áliti verkalýðshreyfingarinnar er dýrmætur, helgur réttur. Ég leyni því þess vegna ekki, að ég tel, að undir vinsemd og viðræðum í fullum trúnaði og fullri einlægni af okkar hendi hafi búið nokkur svikráð, sem vissulega séu ekki til þess fallin að auðvelda bróðurlegt samstarf um lausn hinna miklu vandamála milli þessarar hæstv. ríkisstj. og liðsmannanna í verkalýðshreyfingunni, það verð ég að segja. En það eitt að spilla aðstöðunni til þess að leysa þessi miklu vandamál á friðsamlegan hátt, það er ábyrgð, sem ég lýsi á hendur hæstv. ríkisstj., því að hún átti annars og betra kost.

Það kveður sífellt við úr herbúðum hæstv. stjórnar og fylgismanna hennar, að viðreisnin hafi verið blessunarrík stefna fyrir Ísland og íslenzku þjóðina, það hafi verið erfitt fyrst, svo hafi þetta gengið ljómandi vel. En nú játa að vísu allir, að allt sé upp á rönd á ný, allt farið í glundroða og vitleysu. Það kemur hver ráðh. á fætur öðrum til að játa það hér nú. Og hver er alltaf skýringin hjá þeim? Að þeir hafi átt við illt afl að etja alla sína stjórnartíð og það sé verkalýðshreyfingin, verkalýður landsins, sem þar stendur á bak við. Og það verð ég þó að segja, að eitthvað hlýtur að vera bogið við það, ef ríkisstj. landsins lendir í sífelldri glímu upp á líf og dauða við vinnustéttir þjóðarinnar. Það er ekki heilbrigt ástand og verður aldrei.

Ég vil nú þessu næst fara nokkrum orðum um það, hvað satt sé í þessum áburði hæstv. ríkisstj. í garð verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsins um það, að svo mikilli frekju hafi verið beitt í launakröfum, að ríkisstj. hafi sífellt verið í vörn fyrir þessu illa afli og ekki fengið rönd við reist. Eftir þessu ætti það að vera staðreynd, að verkafólkið hefði hækkað sitt kaup svo gífurlega, að það hefði nú miklu betri lífskjör en í byrjun þessa stjórnartímabils, að það hefði þvingað fram svo hátt kaup, að vöxtur þjóðarteknanna hefði þar hvergi hrokkið til. Ég stenzt ekki mátið að rifja nokkuð upp viðskipti hæstv. ríkisstj., og þó raunar tveggja síðustu ríkisstj., því að það tel ég í raun og veru nokkurn veginn samfellt stjórnartímabil, stjórnartímabil ríkisstj. Emils Jónssonar, formanns Alþfl., og stjórnartímabil núv. stjórnar Ólafs Thors. Þetta tímabil byrjar í árslok 1958. Emilsstjórnin fer með völd árið 1959, og þá er tjaldið dregið frá, Emil sem forsrh. látinn fara bak við tjaldið og annar kemur fram fyrir það, hæstv. núv. forsrh. Ólafur Thors.

Þetta stjórnartímabil byrjar á því sín viðskipti við verkalýð landsins og verkalýðssamtökin, að allt kaup er fært niður með lögum. Öllum gildandi kjarasamningum verkalýðsfélaganna við atvinnurekendur er rift. Ríkisstj. gerist skömmtunarstjóri í staðinn fyrir niðurstöður frjálsra samninga. Og þá verðum við að ganga út frá því, að nú hafi verið rétt skammtað, að ríkisstj. hafi nú ákveðið verkalýð landsins það kaup, sem fjárhagur ríkisins og þjóðarbúskapurinn reis undir. Forustumenn margra verkalýðssamtaka voru þá kallaðir á fund hæstv. forsrh., Emils Jónssonar, og skýrt frá þeim ráðstöfunum, sem þá stóðu fyrir dyrum í efnahagsmálum, og sérstaklega gerð yrein fyrir kauplækkunarráðstöfununum — og verkalýðshreyfingin beðin að veita nú stundarfrið, því að þetta mundi verða til mikillar blessunar. Það mundi takast að stöðva dýrtið og verðbólgu, aðeins ef kaup hækkaði nú ekki í nokkra mánuði. Hvernig brást verkalýðshreyfingin við þessari beiðni þáv. hæstv. forsrh., Emils Jónssonar? Svaraði hún neitandi? Og hvað gerði hún í verki? Hún lét kauplækkunarráðstafanir ríkisstj. Emils Jónssonar í friði, vildi láta það koma í ljós, hvort það væri mögulegt að framkvæma hans stefnu, án verulegra kauphækkana, á þann veg, að þá kæmi jafnvægi í þjóðarbúskapinn og dýrtíð yrði stöðvuð og verðbólga kveðin niður. Okkur fannst ekkert lítið til þessa koma, ef það mætti gerast, jafnvel þó að laun verkafólks hefðu þarna verið skert um 13.6% mínus nokkrar aðgerðir, sem fylgdu þessum ráðstöfunum til þess að draga svolítið úr þeirri kjaraskerðingu, ef hún hefði ein verið framkvæmd út af fyrir sig.

En það var ekki liðið nema árið, og raunar þó aðeins komið fram yfir kosningar á því ári, þegar það var játað, að dýrtíðin hefði ekki verið stöðvuð og verðbólgan væri í fullum blóma og nú þyrfti að gera stórkostlegar ráðstafanir til þess að bjarga við efnahagskerfi þjóðarinnar og það dygði ekkert annað en gífurleg gengislækkun, mesta gengislækkun í sögu þjóðarinnar. Svona hafði læknisráð hæstv. forsrh., Emils Jónssonar, dugað þrátt fyrir kyrrð og ró og frið á vinnumarkaðinum. Og þetta er upphafið að viðskiptum ríkisstj. hæstv. núv. forsrh., Ólafs Thors, við verkalýðshreyfinguna. Byrjunin er gengislækkunin 1960 í marz. Hann hafði sama hátt á og hans fyrirennari. Hann kvaddi forustumenn margvíslegra verkalýðssamtaka á sinn fund, sagði, að illt væri nú ástandið eftir þetta stjórnarár hans fyrirrennara og ekki yrði hjá því komizt að gera þessa stórkostlegu aðgerð í efnahagsmálum þjóðarinnar, gífurlega gengislækkun. Og ég man það enn, þegar núv. hæstv. forsrh. af miklum alvöruþunga bað verkalýðshreyfinguna um að veita nú grið þessum ráðstöfunum í nokkra mánuði, allt að ári, ekki lengur. Þá skyldi allt vera komið í lag, þá skyldi vera komið jafnvægi í þjóðarbúskapinn, þá hefði allt kaupgjald fengið aukið verðgildi og allir hafa það gott, skildist mér. Verkalýðshreyfingin verður ekki sökuð um það, að ekki varð betri árangur á stjórnarári Emils Jónssonar en reynslan sýndi, að það skyldi þurfa að verða fyrsta verk næstu stjórnar, sem tók við með hæstv. fyrrv. forsrh. innan borðs og meðráðh. úr hans flokki, sem voru ábyrgir fyrir árinu 1959, og þeir játuðu það í verki þar með, að svo vesælt og aumt hefði ástandið verið eftir þetta eina ár, að hin stóra gengislækkun væri óumflýjanleg nauðsyn.

Hvað gerðist á næstu mánuðum eftir gengislækkunina 1960? Fór verkalýðshreyfingin í verkföll, í ham, til þess að rífa niður þessa efnahagsmálaráðstöfun ríkisstj. Ólafs Thors? Onei, hún lofaði forsrh. engu, en hún gerði það að eira hans ráðstöfunum, og það var ekki hreyft við kauphækkunum almennt af verkalýðshreyfingunni fyrr en á miðju ári 1961. Og var gerð einhver launabylting þá? Nei, þá var samið um 10–12% kauphækkun, og það var ekki nema brothluti af þeirri kjaraskerðingu, sem hægt var að sanna að orðin væri við kaupniðurfærslu Emils Jónssonar og gengislækkun Ólafs Thors og hans ríkisstj. En þá trylltust stjórnarvöldin, og í ofsabræði út af því, að verkalýðshreyfingin skyldi loksins knýja fram kauphækkun um 10–12%, var skellt á nýrri gengislækkun, sem hefur ekki fyrr né síðar verið rökstudd á nokkurn hátt með efnahagslegum rökum, heldur hefur reynslan og vitneskjan um það, hvernig atvinnulífið gekk, og tekjurnar, sem þá komu á næstu mánuðum í þjóðarbúið, þær sýndu, að það voru engin efnahagsleg rök til fyrir gengislækkunarplaninu 1961. Það var hugsað sem lexía fyrir verkalýðshreyfinguna. Hún skyldi ekki leyfa sér að reyna að rétta sinn hlut. Hún skyldi verða að una við skömmtunarstjórn forsrh.

Og það er rétt, með gengislækkun 1961 tókst ríkisstj. að skerða laun verkamanna á ný, velta nýrri öldu dýrtíðar yfir þjóðina og rýra kaupmátt launanna, en færa bröskurum og spekúlöntum drjúgan gróða.

Alþýðusamband Íslands mótmælti, sama daginn og gengislækkunin 1961 var framkvæmd, þeirri aðgerð, mótmælti henni sem rakalausri ráðstöfun með tilliti til ástandsins í efnahagsmálum og lýsti því yfir, að hún væri hefndarráðstöfun reiðra stjórnarherra. Við héldum því fram í okkar álitum þá, að með annarri gengislækkun með nokkurra mánaða millibili væri álit þjóðarinnar stórskert inn á við og út á við. Það var ekki talinn sannleikur þá. En nú hafa tveir hæstv. ráðh. hér í dag viðurkennt, að gengislækkun komi nú ekki til greina, því að það mundi verða þungt áfall fyrir álit þjóðarinnar út á við. Nú má ekki framkvæma hana. Ég skil hins vegar vel, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki hugrekki til að framkvæma þriðju gengislækkunina á sínum stjórnarferli. En hitt segir hún satt, að það mundi verða til stórkostlegs álitshnekkis fyrir Ísland út á við. Ég spyr: Getur nokkur maður haldið því fram, að verkalýðshreyfingin hafi á þessu tímabili, sem ég nú hef lýst, sett efnahagskerfi þjóðarinnar úr skorðum með ofsakröfum, heimtufrekju og verkfallabaráttu? Ef því væri haldið fram, þá væri staðreyndum gersamlega snúið við. Verkalýðshreyfingin sýndi þolinmæði, umburðarlyndi og hófsemd á öllu þessu tímabili til þess að láta það sjást, hvort efnahagsráðstafanir þessara tveggja ríkisstj. gætu borið árangur, — ef nokkur ró væri á vinnumarkaðinum, gæti það komið í ljós. En það var strax greinilegt, að þessi stjórnarstefna leiddi til einskis velfarnaðar, þó að verkafólkið léti á sig halla og hefði ekki uppi fullar og réttmætar kröfur.

Ég þykist með þessu, sem ég nú hef sagt, hafa sýnt fram á það, að ásakanir hæstv. ríkisstj. um, að verkalýðshreyfingin eigi sök á því, að nú sé illa komið í efnahagsmálum, eru rangar. Verkalýðshreyfingin er þar höfð fyrir rangri sök. Stjórnarstefnan, sem byggt hefur á því að grípa til gengislækkana hvað eftir annað, þegar í óefni hefur verið komið, að skera niður laun verkafólks ýmist með beinum löggjafaraðgerðum, eins og gert var í fyrra skiptið, eða með gengislækkunum, sem var bara ný aðferð til þess að framkvæma það sama, — þessar aðgerðir báru enga blessun í sér. Önnur einkenni stjórnarstefnunnar gera það ekki heldur. Okurvextirnir urðu fyrst og fremst undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar fjötur um fót. En þeir, sem ráku braskstarfsemi, sem gat gefið ofsagróða, þurftu ekkert að hika við að taka fjármagn með 9, 10 eða 11% leigukjörum. Þeir gátu það vel. En það var ekki alveg eins hagstætt íslenzkum landbúnaði. Það var ekki heldur hagstætt íslenzkum sjávarútvegi og fiskiðnaði. En um það var ekki hugsað. Það voru ekki þær stéttir, sem voru bornar fyrir brjósti af þessari hæstv. ríkisstj. Hún var stjórn braskaranna og var að hlynna að þeim vitandi vits, og hún vissi vel, að hún var að gera það á kostnað íslenzkrar sjómannastéttar og útgerðarmanna og verkalýðsins í landinu og bændanna, en það varðaði hana ekkert um. Það var með söluskatti á söluskatt ofan verið að spana dýrtíðina enn þá meira upp en gert hafði verið með gengislækkununum. Og þannig voru allir meginþættir þessarar stjórnarstefnu við það miðaðir að skapa misskiptingarþjóðfélag, þar sem framleiðslustéttir þjóðarinnar til lands og sjávar skyldu bera skarðari hlut en þær höfðu áður borið, og þessu skyldi laumað til brjóstmylkinga ríkisstj. sjálfrar, milliliðanna, sem við stundum höfum kallað afætustéttirnar í þjóðfélaginu.

Ef það væri nú rétt, að verkalýðshreyfingin hefði á öllu þessu tímabili verið of frek í kjarakröfum, launakröfum, og knúið fram of hátt kaup og valdið þannig ófarnaði í íslenzku efnahagslífi, þá hlyti kaupið í dag að vera allt of hátt. Og það er ákaflega hætt við því, að þeir menn innan verkalýðshreyfingarinnar, sem vildu efla þessa stjórnarstefnu og styðja hana, hefðu þá risið gegn þessari ofsalegu kröfupólitík stjórnarandstæðinga innan verkalýðshreyfingarinnar. En hafa þeir gert það? Nei, á hverri einustu ráðstefnu, sem verkalýðssamtökin hafa boðað til, til þess að taka afstöðu til ástandsins í launamálum, hefur niðurstaðan orðið sú sama hjá öllum, jafnt stjórnarsinnum sem stjórnarandstæðingum, enda málin fagleg, en ekki pólitísk, að kröfur yrði að gera um hækkað kaup vegna þeirrar dýrtíðar, sem á væri skollin hverju sinni, vegna þess, hversu kaupmáttur launanna hefði rýrnað, vegna stjórnaraðgerða fyrst og fremst. Um þetta var aldrei neinn ágreiningur eftir stjórnmálaskoðunum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Ég mundi vilja spyrja: Ef stjórnarvöld landsins halda því fram, að kaupið sé nú allt of hátt, — það var víst mátulegt, þegar þeir skömmtuðu það í ársbyrjun 1959, — hvað mundu þeir þá vilja að það væri lágt núna? Hvað mundu þeir nú vilja skammta? Þið segið kannske: Það verður að vera svo lágt, að útgerðin þoli það. — Þeir hafa sent hæstv. ríkisstj. skýrslu, nokkrir útgerðarmenn, eigendur fiskiðnaðarfyrirtækja. Hvað segja þeir, að sig vanti nú mikið til þess að ná endum tekna og útgjalda saman núna, eftir 4 ára viðreisn? Þeir segja, að það þyrfti að vera 14% hærra útsöluverð á öllum þeirra afurðum. Hvað mundu þessi 14%, sem þá vantar nú, standa undir miklu af vinnulaunum? Það mundi standa undir fyllilega 56% af öllum vinnulaunagreiðslum þeirra. Þá vantar 56% til þess að geta greitt fólkinu sín vinnulaun eftir 4 ára viðreisn. Það er illt ástand. Ef þetta eru sannar tölur, þá hefur viðreisnin a.m.k. ekki fært útgerðarmönnum landsins björg í bú. Kannske það sé óskin, að laun verkalýðsins í landinu væru nú lækkuð um 56%, svo að útgerðin stæði á sléttu. Bara þetta, þetta eitt út af fyrir sig, er ærið harður dómur um niðurstöðu viðreisnarinnar, stjórnarstefnunnar eftir 4 ár.

Það hefur áreiðanlega ekki farið fram hjá hæstv. ríkisstj., hvað útgerðarmenn úr hennar röðum, menn, sem borið hafa hita og þunga dagsins í framleiðslustarfi þjóðarinnar, staðið fyrir fyrirtækjum, útgerð fiskibáta og rekstri hraðfrystihúsa, t.d. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj, í Vestmannaeyjum, hafa látið frá sér heyra. Þeir hafa látið frá sér heyra það, að nú í byrjun vertíðar væri ekki girnilegra að gera út frá þessari stærstu verstöð landsins heldur en svo, að það væri æskilegt, að ríkisstj. hirti allt draslið, tæki við bátunum. Og ég held nú, að þó að mér líki ekki hæstv. forsrh. sem skipstjóri á stjórnarskútunni, þá beri ég ekki miklu meira traust til hans sem skipstjóra á fiskibát, a.m.k. ekki til þess að rétta af það, sem formennirnir í Vestmannaeyjum ráða ekki við.

Þessir menn í Vestmannaeyjum, sem ég held að séu engir fjandmenn núv. hæstv. ríkisstj., hafa sagt ríkisstj. skýrt og skorinort, hvernig þeir telja að hafi verið búið að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, útgerðinni, og dómurinn er ekki lofsamlegur. Hafa fleiri látið heyra til sín úr þessum herbúðum, eða er þetta bara einstök rödd, rödd hrópandans? ójá, það hafa fleiri látið til sín heyra. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hélt aukafund núna á dögunum til þess að láta sína rödd heyrast. Hún gaf m.a. frá sér þetta, að það vantaði 14% tekjur móti gjöldum. Frsm. á þeirri ráðstefnu sagði, að það mundi nú kannske einhverjum finnast það undarlegt, að hann, ákveðinn stuðningsmaður ríkisstj., gæti ekki farið lofsamlegum orðum um það ástand, sem útgerðin og fiskiðnaðurinn byggi við, heldur yrði að segja þann dapurlega sannleika, að oft hefði verið svart í álinn hjá útgerðarmönnum og fiskiðnaðinum, en aldrei eins og nú eftir 4 ára viðreisn.

Ég er alveg viss um það, að þetta hefur ekki farið fram hjá hæstv. ríkisstj., og ég held, að það sé þá ekki hægt að fá núv. hæstv. ráðh. til að hugsa alvarlega hugsun um þjóðmál, ef þeir fara ekki að leggja sig í bleyti um að reyna að finna einhver skynsamleg ráð og bæta ráð sitt, breyta um stefnu, þegar þeir fá órækar sannanir um það, að þeirra stuðningsmenn í röðum útgerðarmanna og forustumenn fiskiðnaðarins í landinu, sjómenn, verkafólk og bændur telja sig vanhaldna undir þessari stjórnarstefnu og óánægjuraddirnar berast hvaðanæva að. Það er óhugsandi, að hæstv. ríkisstj. huggi sig við það, að þetta sé allt saman undirspilað af fjandmönnum ríkisstj., sé ómaklegt, hennar stefna sé samt sem áður góð. Ef hún snýr þessu þannig, þá er hæstv. ríkisstj. óforbetranleg. Það má vel vera, að ánægjuhljóðið í ýmsum gæðingum, sem hafa auðgazt á undanförnum árum, hljómi hærra í eyrum hæstv. ríkisstj. og það sé það, sem hún telji sér nóg. Það ern stundum flutt ávörp, þakkarávörp til núv. hæstv. ríkisstj., sérstaklega til hæstv. viðskmrh., fyrir það, að hagur verzlunarinnar hafi blómgazt. Ég veit, að þetta vegur þungt hjá hæstv. ríkisstj., en ég vara hana samt við að fyllast of mikilli sjálfsánægjan, þó að hún heyri eitthvað af köttum sín um mala af ánægju, því að þeirra ánægja hefur verið gerð á kostnað alþýðustéttanna í landinu.

Það fer ekki hjá því, að fólki hlýtur að finnast það undarlegt, að í vor sögðu allir stuðningsmenn ríkisstj., sem voru að tala við fólkið úti um land, ráðh. og þeirra frambjóðendur í alþingiskosningunum, að það væri alveg ljómandi gott ástand í landinu, viðreisnin hefði heppnazt með ágætum og allt væri í blóma og velsæld hjá öllum. Og síðan þetta var, síðan þessir sannleikspostular voru á ferðinni, hefur liðið eitt sumar. Og er þetta ekki eitt ægilegt hallærissumar? Hefur ekki allt brugðizt? Hlýtur það ekki að vera ástæðan til þess, að nú játa allir, að svo illa er komið, þessir sömu hæstv. ráðh. og sjálfsagt þeirra þinglið nú, sem tókst að telja fólki trú um það í vor, að allt væri í blóma, það mætti eiginlega ekki vera betra? Með griðasáttmálanum við verkalýðshreyfinguna í vor var síldveiðunum fyrir Norðurlandi borgið. Þegar verkalýðshreyfingin gekk til sátta í það sinn og frestaði sín um réttmætu kröfum til þess að bjarga síldarvertíðinni, þá varð hæstv. núv. forsrh. glaður. Það var á þjóðhátíðardaginn, eins og hann sagði áðan, og hann sagði, að nú hefðu verið gerðir gleðilegir þjóðhátíðarsamningar. Hann var svo ánægður með, að verkafólkið hafði ekki þá heimtað í sinn hlut nema 71/2%. Og það var vissulega af engri óbilgirni við getu þjóðarinnar, sú kanphækkun, enda hefði hæstv. ráðh. ekki kennt þá niðurstöðu við þjóðhátíðardaginn sem gleði- og fagnaðarboðskap, ef hann hefði þá talið, að sú niðurstaða tefldi efnahagslífi þjóðarinnar í voða.

Hvernig fór svo þessi síldarvertíð, sem verkalýðshreyfingin bjargaði með hófsemd sinni? Hún fór ágætlega. Það er aðeins eitt ár í Íslandssögunni, sem hefur borið meiri síldarafla að landi. Það var sumarið í fyrra. Þetta liðna sumar er mikið síldveiðisumar, afli nokkuð misjafn, en þó fjöldi skipa með metafla, yfir 20 þús. mál og tunnur, heildaraflinn að magni til minni en í fyrrasumar, meira af honum verkað í söltun, sem skilar miklu meira gjaldeyrisverðmæti heldur en síld, sem fer í bræðslu. Lýsið hefur á heimsmarkaðinum nærri hækkað um 100%, nærri tvöfaldazt í verði. Heildarverðmæti liðinnar síldarvertíðar slagar því upp í metárið í fyrra. Enn fremur kemur það til, að á þessu ári hafa togararnir fiskað miklu betur en í fyrra. Dragnótaaflinn hefur verið með eindæmum góður. Heildarverðmæti sjávarafurða er rétt við það að vera í nýju meti. Og þannig mætti lengi telja. Þó að sumarið væri kalt og gengi þannig hart að nokkrum byggðarlögum, þá er þetta í heild gott sumar, hefur verið gjöfult til lands og sjávar. Það er ekkert slíkt hallærissumar, sem hæstv. ríkisstj. geti afsakað sig með, að þess vegna hafi nú allt farið úrskeiðis hjá henni. Það er ekki guði að kenna, að illa hefur farið í sumar. Það er valdhöfum íslenzka ríkisins, ríkisstj., að kenna og engum öðrum.

Ég hlýt að spyrja: Allt, sem var gott í vor, og allt, sem er í hörmungarástandi núna, hvenær gerðist þetta? Og hver er orsökin? Hvernig gerðist þetta? Það er mér algerlega dularfullt. En hæstv, ríkisstj. þyrfti helzt sjálfrar sín vegna að komast að niðurstöðu um þetta, því að ef það skyldi nú vera leiðum í stjórnarstefnunni að kenna, þá þarf hæstv. ríkisstj. að breyta henni, svo að þannig haldi sagan og þróunin ekki áfram, að í mesta góðæri fari allt úrskeiðis, jafnvel svo, að hæstv, viðskmrh. verður að játa, að hinn dýrmæti gjaldeyrissjóður sé að minnka, hann sé að rýrna í góðærinu, meðan verkafólkið hefur þó engar kauphækkanir knúið fram. Ekki geta það verið kröfur verkalýðsins, sem nú liggja fyrir, sem hafa sett þetta allt úr böndunum. Það er óhugsandi. Íslenzkt efnahagskerfi hrynur ekki, þó að verkalýðsfélögin leggi fram kröfur sínar, og lengra eru þau ekki komin. Þau eru ekki komin lengra en það.

Nei, sannleikurinn er sá, efnahagskerfi þjóðarinnar var komið úr böndum á vordögum, þegar gengið var til kosninga, og það var skrökvað að þjóðinni um, að allt væri í lagi. Nú er það komið í ljós, að þá var sitthvað í ólagi og að þeir vissu það vel. Þeir hafa að vísu komizt lengra áfram á ófarnaðarbrautinni í sumar. Það er hægt að nefna nokkuð, sem leiddi til aukins ófarnaðar og er orsökin til þess, að dýrtíðarskriðan hefur aldrei tekið annað eins stökk og í sumar, að verðbólgan hefur aldrei magnazt jafnmikið á jafnskömmum tíma. Og það er í dálitlum tengslum við kosningarnar sumt af því. Það er t.d. augljóst mál, að okkar litla efnahagskerfi hefur ekki þolað enska lánið, 240 millj. kr., sem var spýtt inn í íslenzka efnahagskerfið á nokkrum vikum, í viðbót við verðbólgudæluna hérna suður á Suðurnesjum, Keflavikurflugvöll, sem spýtir inn í íslenzka efnahagskerfið nokkrum hundruðum millj, á ári hverju, án þess að nokkurt verðmæti í framleiðslu liggi þar á bak við. Það átti líka nokkurn þátt í verðbólguþróun sumarsins, að það þótti nauðsynlegt fyrir kosningar að láta bankana vera liðlegri í lánum til hinna og þessara gæðinga, svo að þeir gætu keypt inn bíla upp á krít og annað, sem væri gott að eiga, ef krónan yrði nú enn verðminni með haustinu, sem hvarflaði óneitanlega að mörgum nánum gæðingum hæstv. ríkisstj. Og þeir miðuðu sitthvað af sínum aðgerðum við það, að það væri von fyrir þá á einni gengislækkuninni enn.

Ég hirði ekki að rekja nánar fleiri orsakir þess, að efnahagslífið hefur á liðnu sumri haldið áfram að fara úr böndunum hjá hæstv. ríkisstj. og það svo greypilega, að hún játar það nú, að svo sé komið, gjaldeyrishallinn orðinn 700 millj, kr., gjaldeyrissjóðirnir að þverra, sjávarútvegurinn þannig, að hann vill kasta sínum eignum í hendur ríkisstj., gefast upp, fiskiðnaðinn vantar 14% í útflutningsverðmætum til þess að hafa tekjur á móti gjöldum. Verkafólkið hefur ekki vinnulaun, þó að það vinni hverja einustu stund alla virka daga ársins, nema fyrir brothluta af því, sem hæstv. ríkisstj. viðurkennir í opinberum skýrslum að meðalfjölskylda verði að hafa til þess að hafa fyrir viðurkenndum útgjöldum fjölskyldunnar. Svona stendur búskapur viðreisnarstjórnarinnar í dag.

En samt sem áður, hefur nokkuð gerzt í launamálum þjóðarinnar á liðan sumri? Jú, ábyrgir menn, útvaldir af hæstv. ríkisstj., menn með góða dómgreind og þekkingu, vinir ríkisstj., engir fjandmenn, enginn landráðalýður, þeir voru beðnir að dæma um það, hvað fólkið, sem starfaði í þjónustu íslenzka ríkisins, mætti fá í kaup. Þessi dómstóll ríkisstj. kvað upp sinn dóm rétt eftir kosningarnar. Og hann hefur náttúrlega ekki verið kveðinn upp út í loftið, slíkur dómur. Það er alveg óhugsandi, að þessir ábyrgu menn hafi ekki gluggað eitthvað í það, áður en þeir kváðu upp sinn dóm, hvað ríkisbúið þyldi nú, hvað efnahagskerfið þyldi í launagreiðslum til jafnfjölmenas hóps og alls starfsfólks ríkis og ríkisstofnana. Og ég er alveg sannfærður um, að þeir hefðu ekki kveðið upp dóm nm, hver þessi laun skyldu vera til opinberra starfsmanna, án þess að hugleiða: Svo hátt kaup megum við ekki ákveða þessu fólki, að efnahagskerfið og þjóðin og atvinnuvegirnir rísi ekki undir því. Þeir hafa vitanlega ákveðið það þannig, að það væri borð fyrir báru hjá þeirra ágæta, kæra þjóðfélagi. Þetta voru nefnilega alls ekki fjandmenn þjóðfélagsins, enginn landráðalýður. Meðal þessara dómara var annar aðalefnahagsmálasérfræðingur ríkisstj., sjálfur Jóhannes Nordal. Hann getur enginn kennt við landráð. Hann getur enginn kennt við fjandskap við ríkisstj. Hann er ekki heldur kenndur við það að vera óglöggur á tölur, og hann er ekki við það kenndur að hafa ekkert vit á efnahagskerfinu. Nei, maðurinn hafði öll hin beztu skilyrði til þess að dæma rétt um það, hvað þjóðarskútan bæri í lannagreiðslum til opinberra starfsmanna, og hann gerði engan ágreining. Hann var sammála meðdómendum sínum. Hvernig var þessi dómur? Þessi dómur var á þá leið, að þjóðfélagið rísi undir því að borga hinum lægst launuðu í þjónustu ríkisins 20% hærra kaup en þeir áður höfðu Jæja, 20%. Það er sjaldgæft, að íslenzk verkalýðshreyfing hafi náð fram 20% kauphækkun í einu, mjög sjaldgæft, og það hefði þótt ofsalega mikið, ef við hefðum tekið oft slík stökk. En dómurinn var nú ekki um 20% meðaltalshækkun til opinberra starfsmanna. Nei, meðaltalahækkunin er talin vera 45%. Dómararnir sögðu: Þjóðfélagið ber það, að meðaltalshækkun launa hjá opinberum starfsmönnum ríkisins verði 46%. En það þurfti að gera betur við ýmsa en í meðallagi. Og það var gert þannig, að allir hæst launuðu embættismenn ríkisins skyldu fá prósentvís meiri hækkun, eftir því sem þeir höfðu hærri laun, algerlega í anda misskiptingar þjóðfélagsins, sem hæstv. ríkisstj. hafði verið að skapa í gegnum gengisfellingar sínar og í gegnum skattapóltík sína og aðra þætti hinnar víðfrægu viðreisnar. Allt upp í 90% kauphækkun, 4 sinnum 20% hækkun og betur þó, skyldu þeir hafa, sem hæst höfðu launin fyrir. Og þetta var ekki knúið fram við verkföll af landráðalýð, heldur uppkveðinn dómur af hollustu við hæstv. ríkisstj.

Ég skal játa það, þegar ég á þeim degi, 3. júlí, þá var kjaradómurinn kveðinn upp, hafði tal af ýmsum mönnum, þá varð mér það á, að ég spurði þá eina 3 eða 4, sem ég mætti fyrst: Hvað hækkar kaupið þitt í dag við kjaradóminn? Ég mætti fyrst skólastjóra við fjölmennan barnaskóla í Reykjavík, skóla með marga kennara. Og hann svaraði: Ja, mitt kaup hækkar um 7 þús. kr. á mánuði. Jæja, það er nú eins og hálf önnur verkamannslaun, sem hann fær í kauphækkun á mánuði, hálf önnur verkamannslaun á mánuði. Já, hann var næsta glaður yfir þessu. Þetta var dómur, sem honum líkaði vel. Skömmu síðar átti ég tal við annan embættismann og spurði hann líka þessarar nærgöngulu spurningar: Hvað hækkuðu nú launin þín í dag við kjaradóminn? Hann sagði hiklaust: Nærri 8 þús. kr., eða nákvæmlega sagt 7986 kr., svolítið hærra en sá, sem ég spurði fyrst, nærri 8 þús. kr. á mánuði. (Grípið fram í: Eru kennaralaun þetta há núna?) Þetta eru engin kennaralaun, sem ég er að miða við núna. Þeir hafa fengið minni hækkun en þetta. Og svo kom ég til eins af þeim embættismönnum, sem eru í hæsta flokki með 19 990 kr. í kaup á mánuði, og spurði hann, hvað hans kaup hefði hækkað. Mér heyrðist, að honum nærri því blöskraði. Hann sagði: Eins og þú veizt, þá er það í dag nærri helmingi hærra en það var í fyrradag.

Þetta var kveðið upp með dómi. Þetta skyldi þjóðarskútan bera. Og ég efast ekkert um það, að það hefur verið álit dómendanna, að þetta væri ekki of hátt, þessu risi íslenzkt efnahagskerfi undir, og ég hef ekki heyrt neinn úr röðum hæstv. ríkisstj. bera brigður á það. Það var viðurkennt, m.a. held ég af hæstv. viðskmrh., að þetta mundi a.m.k. þýða 200 millj. kr. í öllum launagreiðslum. Ég fagna því, að það er álit tilkvaddra dómenda ríkisstj., launadómenda, að þeir meta það svo, að þjóðfélagið beri svona laglegar kanphækkanir. En þá hugsaði ég: Er það nú hugsanlegt, þegar hlutlaus dómur hefur kveðið upp slíkan dóm, að þá verði verkamönnum svarað 15. okt.: Þið eigið ekkert að fá? Og ég sagði: Það er alveg óhugsandi. Slíkt ranglæti munu stjórnarvöld landsins aldrei taka sér í munn. — En hvað er nú að koma á daginn? Frv. til l. á Alþingi um, að verkafólkið skuli sitja með óbreytt kaup. Það er þeirra réttlæti. Það hefur einhvern tíma verið sagt: Illt er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti. Og þetta réttlæti ríkisstj. er verra en allt hennar ranglæti.

Það vantaði ekki, að það væri á því hamrað af sumum spekingum hæstv. ríkisstj., að kjaradómurinn mætti ekkert fordæmi skapa. Það voru þá þeirra hugmyndir, að eingöngu þeir, sem væru í þjónustu ríkisins, skyldu fá slíkar launahækkanir. En hefur það orðið svo? Hafa engir getað fótað sig á því, að þeir ættu sama rétt á launahækkunum og starfsfólk ríkisins? Hvað voru margir dagar liðnir frá því, að kjaradómur var kveðinn upp, þangað til fyrsti hópurinn fór af stað og staðhæfði, að hann ætti rétt á sams konar launum og nokkrir þeir, sem höfðu fengið sína launahækkun með dómi? Ég ætla hér aðeins að staldra við það atriði, að fréttamenn ríkisútvarpsins sem ríkisins starfsmenn höfðu fengið sín laun ákveðin með kjaradómi. Þeir eru í stéttarfélagi, sem heitir Blaðamannafélag Íslands. Fréttamennirnir við dagblöðin, félagsbræður þeirra, sáu, að þeirra kaup var nú miklu lægra en þessara, sem höfðu fengið sín laun ákveðin með kjaradómi. Þeir sögðu: Við viljum ekki una þessu. Við viljum fá sömu laun og þessir félagsmenn okkar, sem nú komust þarna undir kjaradóminn, — og gerðu sínar kröfur miðað við það. Það lá ekki á lausu. Það samrýmdist ekki réttlætishugmyndunum hjá stjórnarvöldunum, að allir menn í Blaðamannafélagi Íslands skyldu hafa sömu laun og þeir, sem voru búnir að fá sín laun dæmd með kjaradómi. Þetta stéttarfélag varð að boða verkfall, fór í verkfall; samþykkti einróma að létta ekki fyrr en þeir hefðu náð sín um rétti fram, launin væru eins hjá fréttamönnum blaðanna og hjá fréttamönnum ríkisútvarpsins. Þetta var eðlilegt. En hvaða illræðismenn voru nú þarna á ferðinni? Hvaða landráðalýður var þarna á ferðinni? Það voru m.a. blaðamennirnir við Alþýðublaðið, blaðamennirnir við Vísi, heildsalablaðið Vísi, blaðamennirnir við Morgunblaðið, ritstjórarnir við þessi blöð greiddu ekki atkv. á móti verkfallinn. Þeir töldu sig standa á rétti sínum, mennirnir, og þeir stóðu það vissulega. Blöðin hættu að koma út, meðan stjórnarvöldin voru að átta sig á þessu réttlæti, og svo endaði það auðvitað með því, að blaðamennirnir fengu fram sinn rétt. Blaðamannafélagið fékk viðurkennd sams konar laun fyrir alla sína meðlimi eins og dómurinn hafði skammtað fréttamönnum ríkisútvarpsins. Blaðamenn og ritstjórar Morgunblaðsins höfðu upplifað það að standa í heiðarlega verkfalli í hálfan mánuð og sigra í verkfallinu og voru vel að þeim sigri komnir.

En þetta var nú fyrsta versið þar. Svo kom annað vers. Og hvaða illræðisóþjóðalýður reið nú þá á vaðið? Vinnuhjúin á þeim bæ, sem heitir höfuðborg Íslands, Reykjavík. Starfsmenn Reykjavíkurborgar, þjónustumenn borgarstjórans, Geirs Hallgrímssonar, risu nú upp, gerðu sínar kröfur og sögðust miða sínar kröfur við kjaradóm. Skrifstofufólkið hjá Reykjavíkurborg ynni nokkurn veginn sams konar stórt og skrifstofulýður ríkisins. Það næði ekki nokkurri átt annað en laun hvorra tveggja yrðu þau sömu. Þar kom nú ekki til verkfalls. Það var setzt að samningum, og það tókust samningar, eins og vera bar. Þannig á að leysa svona mál. Og svo kom út kjarareglugerð, launareglugerð Reykjavíkurborgar, og bar það með sér, að starfsfólk Reykjavíkurborgar hafði samkv. hinum nýju samningum fengið fyllilega sambærileg kjör við starfsfólk ríkisins eftir niðurstöðu kjaradóms og þó í ýmsum tilfellum orðið einum launaflokki hærri, svo að heldur var þetta nú á uppleið en niðurleið, burðarmagn þjóðfélagsins enn þá í ágætu lagi og hægt að vera svolítið rausnarlegur, enda áttu góðir í hlut, enginn landráðalýður enn þá.

Þegar Reykjavíkurborg var búin að fá hliðstæð laun og starfshópar ríkisins samkv. kjaradómi, þá gekk launareglugerð Reykjavíkurborgar út um allt land, til allra bæjarfélaga úti um land, og þar hefur hún verið höfð að fyrirmynd fyrir endurskoðun launa hjá öllu starfsfólki við alla kaupstaði landsina, að svo miklu leyti sem við getur átt. Það er því vitað mál, að flest eða öll bæjarfélög landsins taka nú upp launagreiðslur í samræmi við launareglugerð Reykjavíkurborgar, sem er fyllilega jafnhá og launaákvæði samkvæmt kjaradómi, nema nokkra ríflegri sé.

Mér er tjáð, að nokkrum hv. þm., sem starfa í bæjarstjórn úti um land, hafi nú þótt svo miklu skipta, þegar þeir vissu, að kúgunarlögin voru að koma yfir Alþingi, kúgunarlögin gegn verkalýðnum, þá hafi þeim þótt svo miklu skipta, að það væri búið að hækka kaupið hjá starfsfólki sinna bæjarfélaga, að þeir hafi rokið í símann og þurft endilega að brýna það fyrir sínum bæjarfulltrúum að vera nú búnir að þessu fyrir kl. 12 á miðnætti í fyrradag eða undir öllum kringumstæðum áður en þingfundur byrjaði hér kl. 2 í gær. Og þetta hafði kostað nokkra fyrirhöfn þessa ágætu þm., en þetta mun hafa tekizt. Það þarf því ekki að efa, að þessi launalagfæring er komið yfir allt starfsfólk ríkisins, meðlimina í Blaðamannafélagi Íslands, allt starfsfólk Reykjavíkurborgar, flestallt starfsfólk annarra bæjarfélaga nú eða alveg á næstunni.

Eins og eðlilegt var, vildi starfsfólkið í bönkunum ekki horfa upp á það að vera með miklu lægri laun en skrifstofufólkið í skrifstofum ríkis og Reykjavíkurborgar, og þar hófust upp samningar í sumar. Þeir gengu skikkanlega. Þeim var lokið í septembermánuði, og þá var gefin út launareglugerð bankanna. Hún bar það alveg ótvírætt með sér, að þar voru launin öllu hærri en samkv. niðurstöðum kjaradóms og ívið riflegri en samkv. launareglugerð Reykjavíkurborgar, og kaupið, eins og tíðkazt hafði hjá bönkunum áður, miðað við 13 mánuði á ári í staðinn fyrir 12 hjá venjulegu fólki, en það var ekkert nýmæli, það hafði verið svo áður. Rök fyrir því að hafa þetta heldur ríflegra en í hinum tilfellunum eru þau m.a., að margt af starfsfólki bankanna beri peningalega ábyrgð umfram það, sem skrifstofufólk almennt beri hjá Reykjavíkurborg og ríkinu og ríkisstofnunum, og það eru kannske rök, enda eru launin hjá bankastarfsfólkinu ívið hærri en hjá hinum tveimur aðilunum, sem ég nefndi.

Enn þá stefndu þannig afleiðingarnar af kjaradómi í þá áttina, að menn fyndu ekki til þess, að þjóðarskútan væri að sökkva, enda virtist öllu vera óhætt, talsvert borð fyrir báru. Og svo leið tíminn fram að því, að það var orðið vitað hérna innan Hringbrautar, í kringum Alþingishúsið, að það væri von á dálítið sérkennilegri löggjöf, það ætti að binda allt kaup hjá öllu fólki, sem ekki væri búið að fá launalagfæringu á ákveðnum degi, ákveðinni klukkustund. Og það var kannske sérstök hending, en það bar upp á þann dag, að þá sáust bankaráðsmenn á ferli í öllum bönkum samtímis, mikið að gera. Bankastjórarnir voru líka á kreiki, þeir eiga líka að mæta á bankaráðsfundum, og þetta var í öllum bönkunum samtímis. Hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, mun nú „fungera“ sem formaður bankaráðs Landsbankans, þ.e.a.s. viðskiptabankans, og hann setti bankaráðsfund í snarheitum. Emil Jónsson skundaði á fund í bankaráði Seðlabankans, og Guðmundur Í. Guðmundsson utanrrh. gaf sér tíma til að kalla saman fund í bankaráði Útvegsbanka Íslands. Og hvað var á seyði? Jú, það var þetta á seyði, að það mátti ekki ske, að það væri ekki búið að hækka laun bankastjóranna í landinu, áður en hin boðaða löggjöf kæmi fram fyrir Alþingi. Það var á þessum bankaráðsfundum, — það er nú að vitað, — ákveðið að hækka dálítið kaup bankastjóranna. Þeir bera mikla ábyrgð og þeir eiga að hafa gott kaup, og það ei. sagt, að þeirra kaup sé 20 þús. kr. á mánuði plús 2000 kr. á mánuði fyrir að sitja bankaráðsfundi, þá er kaupið komið í 22 þús. á mánuði, og svo hafa þeir 22 þús. í 13 mánuði, því að það er 13 mánaða ár í bönkunum. Og þeir hafa auðvitað bankaráðsmenn líka í 13 mánuði, það nær ekki nokkurri átt annað. Svo hafa þeir einhverja bílastyrki. Landsbankinn hefur nú víst bíl og bílstjóra handa bankastjórunum, hinir hafa bílastyrki. Og svo þurfa þeir að hafa eitthvað í risnu og hafa það, einhvern skilding. Það er víst, að þeirra kaup er ekki undir 25 þús. kr. á mánuði, 300 þús. kr. á ári.

Menn voru að velta því fyrst fyrir sér: Er þessi launahækkun nú ákveðin með vitund og vilja ríkisstj.? Hefur hún ekki sent aðvörun, að svona megum við ekki hækka kaup að lítt þörfu? Nei, svo sáu menn, að það gat ekki verið án vitundar og vilja ríkisstj. Hæstv. fjmrh. stjórnaði bankaráðsfundi Landsbankans, hæstv. sjútvmrh., Emil Jónsson, sat fund í bankaráði Seðlabankans, og hæstv. utanrrh. stjórnaði fundi bankaráðs Útvegsbankans. Það voru einmitt 3 ráðh. hæstv. ríkisstj., sem sáu það, að bankastjórarnir máttu ekki vera utan gátta, máttu ekki lenda undir kaupbindingarlöggjöfinni. Það varð að bjarga þeim. Það varð að gerast með eins skjótum hætti og þegar kerlingin kom að gullna hliðinu með syndirnar hans Jóns síns í poka, og það varð að kasta skjóðu bankastjóranna og Jóhannesar Nordals sérstaklega inn í gáttina, áður en hún lokaðist, og þarna er hún komin inn í himnaríki ríkisstj. og bankastjórunum er bjargað.

En svo, hvað átti svo að gerast næsta dag? Þá átti að skella hurðum á verkalýð landsins, — hingað og ekki lengra, óbreytt kaup. Það var þetta, sem átti að gerast daginn eftir. Nú gerðist það ekki daginn eftir, af því að það kom dálítill kengur í Alþfl. Það stóð á honum á miðstjórnarfundi að samþykkja þetta góðgæti verkalýðnum til handa, og það gleður mig, að það skyldi þó örla á einhverri tilfinningu til verkafólksins enn þá í miðstjórninni. Það voru samt ekki fyrst og fremst fulltrúar verkalýðsins í miðstjórninni, sem sögðu til sín. Nei, það var einn af bankastjórunum, sem minntist þess, að honum hafði verið ákvarðað 25 þús. kr. kanp á mánuði þann dag eða daginn áður, og þá sagði hann: „Ég get ekki fengið mig til að traðka á verkamönnum með þessum hætti, sem hér er lagt til. Þá fengu ýmsir aðrir, sem áttu að vera fulltrúar verkalýðsins, málið og tjáðu sig andvíga þessu, og formaður Alþfl, þorði ekki að bera málið undir atkv., bjargaði því í það skiptið frá því að vera fellt með því að bera það ekki undir atkv. Og svo byrjuðu fortölurnar til næsta dags, og þá rann það niður eins og mjólk, þá var það samþykkt, — skella bara hurðunum á verkamennina, og það var gert.

Frv. um launamál o.fl. er með þeim óvenjulega hætti, að það bannar að hækka nokkurt kaup, í hvaða formi sem er. Það bannar verkalýðsfélögunum að gera samninga til hækkunar á kaupi. Það bannar verkalýðsfélögunum að notfæra þann verkfallsrétt, sem er viðurkenndur í vinnulöggjöfinni. Þetta frv. skerðir stórkostlega félagafrelsið í landinu að því er snertir öll verkalýðsfélög landsins, sem hafa 30 þús. meðlimi. Og þetta bann á ekki bara að gilda frá þeirri stundu, sem Alþingi hafði lokið því afreki að samþykkja þetta frv. sem lög. Nei, þetta frv. á að gerast lög með einhverjum dularfullum hætti frá þeirri stund, sem því er kastað inn á Alþingi, áður en umr. fara fram um það, áður en nokkur maður hefur rétt upp hönd með því. Það á að hafa verkanir nokkra daga, áður en það er orðið að lögum. Hingað til hefur því verið haldið fram, að ekkert frv. væri orðið að lögum, fyrr en það hefur í fyrsta lagi farið í gegnum allar umr. samkv. þingsköpum og hlotið samþykki, verið sent forseta Íslands og hann staðfest það ásamt ráðh., og enn hafa frv. ekki verið talin orðin lög, fyrr en búið væri að birta þau í Stjórnartíðindum. En þetta blað hérna á með dularfullum hætti að vera lög, frá því að því var. kastað inn í þingið kl. á í gær. Svona liggur mikið á að skella hurðunum á verkamenn.

Það fer ekkert á milli mála, að þetta frv. er engin frelsisskrá, ekki fyrir verkalýðsstéttina. Það er ofbeldislöggjöf. Verkalýðshreyfingin er svipt lýðræðislegum rétti, Það eru brotin grið á henni. En er ekki með þessari löggjöf verið af refsa einhverjum sökudólg? Það er verkalýðshreyfingin, sem er höfð fyrir sökum um það að setja öll launamál úr skorðum. Og þó er það staðreynd, að það er verkalýðshreyfingin ein, sem á eftir að leiðrétta sín laun nú að haustnóttum, þegar ríkisstj, sjálf hefur búið til dómstól til þess að hækka launin hjá opinberum starfsmönnum og allir aðrir nálega farið í kjölfarið. Verkalýðshreyfingin á samt að vera sökudólgurinn og skal fá á sig kúgunarlög. Hvað voru verkalýðssamtökin búin að gera, þegar hæstv. ríkisstj. greip til þessa ráðs að bera fram þessi þvingunarlög Það voru þrjú verkalýðsfélög búin að hefja samningaviðræður við sína viðsemjendur í stétt atvinnurekenda, og þegar þeim þótti lítið þokast í áttina með það, að tekið væri undir þeirra kröfur, þá lýstu þau yfir verkfalli. Það var Hið íslenzka prentarafélag, sem hafði boðað verkfall 1. nóv. Það er ekki undir stjórn landráðalýðs. Þetta elzta starfandi verkalýðsfélag landsins, stofnað 1897, það er undir stjórn stuðningsmanna hæstv, ríkisstj., og prentarastéttin er ekki meðal þeirra lakast launuðu innan raða verkalýðssamtakanna. En samt sem áður vildu þeir ekki una sín um launakjörum eftir þær breytingar, sem orðið höfðu fyrir frumkvæði stjórnarvaldanna í landinu, og vildu færa sín launakjör til samræmis, jafnvel kröfur um það lágu ekki á lausu, boðuðu verkfall. Það verkfall hófst kl. 12 á miðnætti s.l. nótt. Þeir lýstu yfir, prentararnir, á fundi í gærkvöld í troðfullu húsi, ég held einróma, að þeir mundu halda verkfallinu áfram, nema þeir yrðu til annars knúðir, ég skil það þannig, nema þeir yrðu ofurliði bornir, og eru þeir þó þarna áreiðanlega löghlýðnir menn, en ekki fúsari en þetta til þess að beygja sig undir ólög. Bókbindarar höfðu ákveðið, þegar ekkert gekk í þeirra samningum, að boða verkfall, og Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og Landssamband ísl. verzlunarmanna höfðu staðið í alllöngu samningaþófi hér í alþingishúsinu. Ekkert gekk, atvinnurekendurnir vissu, að þeir höfðu bakhjarl, þurftu ekkert að semja. Það stóð til að binda hendurnar á verzlunarfólkinu, og þeir gáfu því ekki kost á neinum kauphækkunum, sem ekki var von. Þetta félag og mörg félög innan Landssambands ísl. verzlunarmanna hafa því boðað verkfall frá og með 4. nóv.

Þetta voru verkalýðsfélögin, sem voru búin að tilkynna verkföll og auðvitað öll með löglegum hætti. Var það nú ekki óbilgirni af verzlunarfólkinu í Reykjavík að heimta það, að verzlunarfólkið í þjónustu kaupmannanna og heildsalanna, sem er vitanlega í eðli sínu nákvæmlega sama eðlis og vinna skrifstofufólksins hjá Reykjavíkurbæ og ríkinu, skyldi fá sömu laun og ákveðin höfðu verið með kjaradómi og síðan með launareglugerð Reykjavíkurborgar? Var það ekki ósvífið? Var ekki sjálfsagt að beita afli gegn þessari kröfu? Var það ekki sjálfsagt að neita verzlunarfólkinu og skrifstofufólkinu hjá prívatkaupsýslunni um sömu laun og skrifstofufólkinu hjá því opinbera samkv, réttlæti ríkisstj.? Samkvæmt hinu sérstaka réttlæti ríkisstj. var það sjálfsagt. En að dómi allra annarra var ekki sjáanlegt annað en væri sjálfsagt að ganga að sams konar launakjörum hjá verzlunarfólkinu í Reykjavík og búið var að ákveða hjá skrifstofufólki ríkis og Reykjavíkurborgar, og það verða margir fleiri, sem eru á þeirri skoðun, að það hafi ekki verið stætt á að neita verzlunarfólkinu í Reykjavík um sams konar kaup og búið var að ákveða hjá hinu opinbera.

Ég veit ekkert á þessari stundu, hvað verzlunarmannasamtökin gera, þegar þau nú horfast í augu við, að það er búið að setja handjárnin á þau, eins og öll önnur félög innan verkalýðssamtakanna. En nöturlegt er það að láta forustumenn verzlunarsamtakanna sitja hér á samningafundum undir stjórn sáttasemjara ríkisins dag eftir dag, nótt eftir nótt, bara sem hvert annað kómedíuspil, vitandi það í röðum atvinnurekendanna, að þetta var ekkert annað en látalæti, þessir samningar. Það stóð aldrei til að gera neina samninga. Það var skákað í því skjóli, að það væri að koma þvingunarlöggjöf. Samningamenn verzlunarstéttarinnar hafðir þarna að háði og spotti og svívirtir með því að láta þá vera hér nótt eftir nótt við svo sem samninga og svo að svipta þá félagafrelsi, samningarétti og verkfallsrétti með lögum, rétt eins og aðra.

Og svo höfðu Verkakvennafélagið Framsókn og Verkakvennafélagið Framtíðin í Hafnarfirði, Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur og Verkalýðsfélag Akraness boðað verkfall þann 6. nóv. út af kaupi við síldarvinnu. Það átti svo sem ekki að leiðrétta þetta kaup verkakvennanna með góðu, og það hafði ekki fengizt nein rétting þeirra mála, ekki í gær kl. 2, þegar þvingunarlögin voru hér lögð fram með því orðalagi, að þau ættu að taka lagagildi strax.

En þrátt fyrir ákvæði laganna, sem í því tilfelli virðast hafa verið höfð að engu, var setzt að samningaborði í gærkvöld uppi í húsi Vinnuveitendasambands Íslands hérna við Fríkirkjuveginn, og rétt fyrir kl. 12 á miðnætti í gærkvöld var undirskrifaður samningur um 22.5% hækkun við síldarvinnu.

Ég fagna þessu, ef þarna er ekki sá fláttskapur á ferðinni, að þrátt fyrir undirritaðan samning verði vinnuveitendum á þessu svæði tilkynnt, að þeim sé óheimilt að standa við orð sín og undirskriftir. Kannske það sé ætlunin að hafa þá að fíflum? Kannske það sé ætlunin að gera þá ómerka að undirskrift sinni og orðum? Sjáum til. En ef þessir samningar, gerðir eftir að frv. er lagt fram, hafa gildi, þá kynnu og allar aðrar ákvarðanir um breytt kaup að hafa gildi.

En verkalýðsfélögin höfðu, þegar leið að 15. okt. í haust, eins og sjálfsagt var, farið að bera saman ráð sín um það, hvaða kröfur þau ættu að gera 15. okt., þegar griðasáttmálinn, sem gerður var við hæstv. ríkisstj. s.l. vor, væri útrunninn og úr sér genginn. Alþýðusamband Norðurlands hélt ráðstefnu fyrstu dagana í okt. og komst þar að þeirri niðurstöðu, að kaup yrði að hækka verulega, bæði vegna þeirrar dýrtíðaröldu, sem hefði flætt yfir á s.l. sumri, og með hliðsjón af þeim stórkostlegu kjarabreytingum, þeirri launabyltingu, sem orðið hafði í landinu á sumarmánuðunum, síðan griðasáttmálinn var gerður. Alþýðusamband Vestfjarða hélt, sömu dagana og Alþýðusamband Norðurlands hafði sitt þing, ráðstefnu um kaupgjaldsmál og komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu, án þess að nokkurt samband væri á milli þessara þinga, því að þau voru haldin samtímis. Alþýðusamband Íslands boðaði svo öll fjórðungssamböndin og fulltrúaráð verkalýðsfélaga, þ.e.a.s. stærri heildirnar í verkalýðshreyfingunni, til ráðstefnu 12, og 13. okt. Og þar voru mótaðar þær kröfur, sem seinna var ákveðið af hinum ýmsu almennu verkalýðsfélögum að gera að sínum. Og kröfurnar voru þær, að kaup verkafólks, lágmarkskaup verkafólks, skyldi vera 40 kr. á tímann. Það er nú 28 kr. samkv. samningum.

Það var öllum í verkalýðshreyfingunni ljóst, að þetta var mikið stökk. Þetta var langhæsta krafa, sem hafði verið gerð í verkalýðshreyfingunni. En hún var gerð með tilliti til þeirrar óðadýrtíðar, sem skollið hafði yfir og rýrt hafði kaupmáttinn á liðnu sumri í viðbót við það, sem áður var orðið, og einnig með hliðsjón af kjaradómi og öllum afleiðingum hans, sem ég hef rakið hér í minni ræðu. Það var allra hugsun: Það getur ekki venið, að það sé ætlunin að skilja verkafólkið eitt eftir. — Ráðstefna Alþýðusambandsins komst að þeirri niðurstóðu, að einnig bæri að stytta vinnutímann. því verður ekki móti mælt, að hann er óhóflegur orðinn í okkar landi. Það er full ástæða til að reisa þar skorður við, svo að verkafólk biði ekki tjón af ofþrælkun, og þá alveg sérstaklega að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að börn séu ekki ofþjökuð. Og þriðja krafan, sem ekki var lögð minnst áherzla á á ráðstefnu Alþýðusambandsins, var sú, að við yrðum að heimta verðtryggingu þeirra launa, sem um semdist, því að það er sama, hvað smáar kauphækkanir við höfum dregið að landi, hversu hóflega sem við höfum farið í sakir, hvort sem við höfum komið með 5% eða 7% að landi, þá hefur þeim verið eytt á örskömmum tíma í eldi óðadýrtíðar og verðbólgu.

Og svo héldu lýðræðissinnar í verkalýðshreyfingunni ráðstefnu, að vísu var það brot á öllum skyldum þessara manna við sín heildarsamtök að neita að taka þátt í ráðstefnu Alþýðusambandsins, sem þau eru meðlimafélög í. En ég hefði getað skilið erindi þessara manna á sérstaka ráðstefnu, ef þeir hefðu haft allt aðra stefnu í kaupgjaldsmálum en forráðamenn Alþýðusambandsins og þeirra niðurstaða hefði verið: Unum óbreyttu kaupi. Eða: Þolum lækkun kaups. Gerum ekki kröfur til stórkostlegrar hækkunar kaups, eins og hinir gera. — En þeir áttu ekki það erindi á sina ráðstefnu, lýðræðissinnar, um kaupgjaldsmál. Þeirra niðurstaða var nákvæmlega sú sama. Þeir heimtuðu stórfellda hækkun kaups, því að annað væri ekki hægt, hvorki með tilliti til þeirrar dýrtíðar, sem skollið hafði yfir á sumrinu, né heldur með tilliti til kjaradóms og annars, sem hefði farið í hans kjölfar.

Þegar forráðamenn þeirrar ráðstefnu voru inntir eftir, hvað fælist í kaupkröfunni sjálfri, þá var tekið blað og þá var tekinn blýantur og reiknað út og sagt: Krafan þýðir nánast 38 kr. eða 39 kr. á tímann. — Á okkar ráðstefan var sagt 40 kr. En ég segi nú, þegar búið er að bera fram á Alþ. lög um að brjóta niður lýðræðisleg réttindi verkalýðshreyfingarinnar, lýðræðissinnanna innan hennar eins og annarra, þá fyndist mér væri ráð að halda ráðstefnu lýðræðissinna. Nú væri tilefni til þess. Nú væri það a.m.k. ekki út í hött.

Hvernig var kröfum verkalýðshreyfingarinnar tekið, þegar Alþýðusamband Norðurlands, Alþýðusamband Vestfjarða, ráðstefna Alþýðusambands Íslands og ráðstefna lýðræðissinna höfðu tjáð sig um miklar kauphækkanir? Rak ekki Morgunblaðið upp öskur? Rak ekki Vísir upp öskur? Og gólaði ekki Alþýðublaðið með, eins og það er vant, um að þetta væru ósvífnar kröfur? Nei, það var eins og það væri stungið upp í þau steini öll saman. Engin gagnrýni á þessar kröfur. Og það hefur ekki heyrzt enn. Það hefur enginn lagt sig í það að sýna fram á, að það væri ósvífið, ef verkamenn fengju 40 kr. á tímann, eftir það, sem hefur gerzt á sumrinu, það verður þó að segja öllum til lofs.

Hvað þýðir krafan um 40 kr. á klst. fyrir verkamann og verkakonu? Hvað gefur sú krafa háar árstekjur, ef verkamaðurinn og verkakonan vinna sérhvern virkan dag 8 stundir, og meira á ekki að heimta af íslenzkum verkamanni eða verkakonu nema í sérstakri nauðsyn. Það ern 2400 vinnustundir í árinu, þegar allir dagar eru unnir 8 stundir, allir virkir dagar, 2400 stundir. Og með 40 kr. á klukkustund, þá gefur það 96 000 kr. En hvað segja svo Hagtíðindin um, að meðalfjölskylda þurfi að hafa í tekjur til þess að standast þau útgjöld meðalfjölskyldunnar, sem þar eru viðurkennd? Þar segir, að meðalfjölskylda þurfi að hafa ekki minna en 100 þús. kr. — 40 kr. á tímann allar vinnustundir ársins, alla virka daga, gefa ekki þær tekjur, sem viðurkennt er að vísitölufjölskyldan þurfi að hafa, til þess að tekjurnar hrökkvi fyrir gjöldum. Krafan er ekki ósvífnari en þetta, og má þó frekar búast við því, að hún hefði við samningaborðið ekki fengizt til fulls.

Nei, sannleikurinn er sá, að verkamann, sem vinnur alla virka daga ársins 8 stundir á dag, hann vantar með núgildandi kaupi 49608 kr. til þess að hafa tekjur á móti viðurkenndum vísitöluútgjöldum meðalfjölskyldu. Og þessi lífskjör skal lögbinda, þegar hæst launuðu embættismenn þjóðarinnar hafa fengið 90% kauphækkun. Það er þetta, sem frv. á að gera að lögum á Íslandi.

Og svo segir hæstv. forsrh.: Þegar búið er að lögleiða þetta frv., þá eiga að byrja vinsamlegar viðræður við verkalýðshreyfinguna, og þá á að leggja sig í líma um það að leysa málið í bróðerni og vinsemd. — Er það ekki líklegt, að þessi lagasetning laði fram sáttfýsi af hendi verkafólks og verkalýðssamtaka til þess að leggja sig í líma við að leysa málin í sáttfýsi og bróðerni? Ætli það hefði ekki verið öllu auðveldara að fá sættir í málinu, ef það hefði verið gengið að tilboði verkalýðshreyfingarinnar um að vinna eins og menn næsta hálfan mánuð að því að leysa málin og láta frv. ekki koma fram? Ég held það hefði verið jafnhyggilegt eins og það, að ef maður ætlar að fá samkomulag við mann, þá er ekki ráðið að gefa honum á kjaftinn eða gefa honum sitt undir hvorn. Ég trúi ekki á þá vinsemd, sem upp úr því skapist.

Því hefur verið haldið fram stundum, að það sé eðlilegt, að kjaradómurinn hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að hinir hæst launuðu í þjóðfélaginu ættu og yrðu að fá hærri laun en verkamenn, því að verkafólkið hefði verið búið að knýja fram svo miklar kjarabætur áður, að hinir opinberu og sérstaklega hinir hæst launuðu hafi dregizt langt aftur úr, þessi met hafi verið löguð með kjaradómi. Ég vil líta á þetta, því að ef kjaradómurinn væri leiðrétting milli hinna hæst launuðu og verkamanna, þá væri ekki að öllu leyti rétt að miða við 90% hækkunina þeirra og bera hana saman við 35% hækkun verkamanna, sem þeir hafa fengið samtals á þessu sameiginlega stjórnartímabili Emils Jónssonar og núv. hæstv. forsrh. Ólafs Thors. En það er ekki svo. Þeir hæst launuðu hafa á undanförnum árum fengið meiri launahækkanir en almennir verkamenn.

Ég hef hér plagg fyrir framan mig, sem er samanburður á launum og kauptöxtum miðað við 8 stunda vinnudag hjá nokkrum starfshópum 1950, 1958 og 1963. Þar er gerður samanburður að því er snertir Verkamannafélagið Dagsbrún, ófaglært verkafólk á öllum kauptöxtum Dagsbrúnar, Verkakvennafélagið Framsókn, Iðju, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, iðnaðarmenn. Opinberir starfsmenn byrja þar á ráðherrum og enda hjá sorphreinsunarmönnum hjá Reykjavíkurborg, sem auðvitað eiga að vera á lægstu launum, og þessi tafla er miðuð við það að setja laun Dagsbrúnarverkamanns við almenna vinnu, setja þá launaútkomu sem 100 og miða síðan hina launaflokkana þar við.

Hér stendur þá, að verkamaðurinn í Dagsbrún hafði 1950 1848 kr. á mánuði, 1958 var þetta kaup hans komið upp í 4370 kr. og 1. okt. 1963, núna fyrir nokkrum dögum, var mánaðarkaup Dagsbrúnarverkamanns komið upp í 5600 kr. Á árunum 1950–58 hafði kaup Dagsbrúnarmanasins hækkað um 136%, og á árunum 1950–63 hafði kaup Dagsbrúnarverkamannsins hækkað um 203%. En í prósentum af fyrsta taxta Dagsbrúnar var þetta kaup sett þann 1. okt. 1968 sem 100. Verkamaðurinn í steypuvinnu hafði 1. okt. s.l. þá 102 stig, bifreiðastjórar í Dagsbrún höfðu þá 103 stig. Verkamaður í Dagsbrún, sem vann með loftþrýstitækjum, hafði 106 stig 1. okt. 1963. Verkamaður við kola- og saltvinnu hafði 107 stig, og verkamaður við stjórn á steypuvélum í rörasteypustóð og við þess konar störf hafði 113 stig 1. okt., við sementsvinnu 117 og við stjórn á vélskóflum og ýtum o.fl. 121 stig. Og að síðustu pakkhúsmenn hjá heildsölum o.fl., mánaðarkaup þeirra var metið 105 stig skv. þessu, miðað við 1. apríl 1950 og svo aftur 1. okt. 1963. Hjá Iðju og Verkakvennafélaginu Framsókn eru þetta mjög svipaðar tölur, og ég akal til að spara tíma ekki fara út í það, en menn geta séð þessar töflur hjá mér, ef þeir vilja, og það er sízt örari þróun þar. Iðnaðarmenn, járnsmiðir, þeir hafa 135 stig í hámarkstaxta þeirra, 135 stig 1. okt. 1963, trésmiðir — sveinar 127, trésmiðir — vélamenn 143 stig og múrarar í tímavinnu 131. Og þá kem ég að opinberum starfsmönnum. Fyrst eru ráðherrar. 1. apríl 1950 var mánaðarkaup ráðh. 4313 kr., 1958 þann 1. okt. voru ráðherralaun 9111 kr., 1. okt. 1963 voru ráðherralaun 22 þús. kr. skv. dómi kjaradóms. Þeirra vísitala í samanburði við Dagsbrúnarmanninn er 393, þannig hefur hallað á ráðh., þegar Dagsbrúnarverkamaður var settur sem 100. Borgarstjórinn í Reykjavík hefur vísitöluna 393 eins og ráðh., ráðuneytisstjórarnir vísitöluna 356, borgarverkfræðingur 35.5, verkfræðingar vita- og hafnarmálaskrifstofu vísitöluna 258, skólastjórar við barnaskóla með 11–18 kennara hafa vísitöluna 258, fulltrúar 1. flokks í stjórnarráði 244, framfærslufulltrúar hjá Reykjavíkurborg 196, barnakennarar vísitöluna 182, lögregluþjónar ríkisins 161, Reykjavíkurborgar einnig 161, bifreiðastjórar stjórnarráðsins 149, bifreiðastjórar hjá borgarskrifstofum einnig 149 og þungavinnuvélstjórar hjá Reykjavíkurborg 149, ritarar 1. flokks, góðar skrifstofustúlkur í stjórnarráði, vísitöluna 144, sorphreinsunarmenn hjá Reykjavíkurborg vísitöluna 129 og vinnumenn á ríkisbúum vísitöluna 124.

Sýnist mönnum nú af þessu, að verkafólk hafi fengið meiri kauphækkanir en opinberir starfsmenn, sem hér hafa nú verið nefndir? Vísitala þeirra opinberu starfsmanna er öll hærri, en það á að setja þvingunarlög á verkafólkið.

Ég hef skýrslu yfir það, hvað iðnverkamenn og iðnverkakonur hafi mikið af tekjum sínum, eins og þær hafa verið skrásettar í opinberum skjölum, hve mikils hluta teknanna sé aflað með yfirvinnu og nætur- og helgidagavinnu, því að það er augljóst mál, að enginn getur framfleytt sinni fjölskyldu á dagvinnutekjunum einum. Verkamenn höfðu 13.6% af tekjum sínum árið 1961 með eftirvinnu, þ.e.a.s. með því að vinna á tímanum frá 6 til 7 síðdegis, og þeir hafa 20.3% fyrir vinnu á nóttum og helgidögum — í nætur- og helgidagavinnu, eða þeir höfðu alls 85.9%, meira en þriðjung af öllum tekjum sínum, í eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu. Verkakonurnar höfðu 21.3% af sínum tekjum í eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu. Iðnverkamenn höfðu 27% af sínum tekjum í eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu og iðnverkakonur 5.8% af sínum tekjum í eftir og helgidagavinnu. En yfirleitt eru þó hin skrásettu launakjör opinberra starfsmanna miðuð við það, að þeir vinni ekki 8 tíma, heldur í flestum tilfellum 6 eða 7 tíma á dag. Enn fremur er það eitt atriðið í kjaradómi, að sérhver maður í opinberri þjónustu, sem vinnur eftirvinnu, skal fá eftírvinnukanpið sitt reiknað sem 150. hluta af mánaðarkaupinu, en skv. stéttarfélagasamningunum skal deila í mánaðartekjurnar með 200, svo að yfirvinnukaupið hjá hinum opinbera starfsmanni verður strax vegna mismunarins á þessum reglum mun hærra, miklu hærra skv. kjaradómi heldur en skv. stéttarfélagasamningum. Auk þess er nú orðið ljóst af ákvörðun kjaradóms hjá hinum lægst launuðu, í lægstu launaflokkunum, sem hafa 20–30% launahækkun, þá er kaupið þrátt fyrir það, þótt það sé lágt, hærra en hjá hliðstæðu verkafólki. Það kemur t.d. í ljós, að verkamenn, ófaglærðir verkamenn í þjónustu Reykjavíkurborgar, skv. launareglugerðinni, sem nú er að taka gildi hjá flestum bæjarfélögum landsins, sem einnig hafa hvert um sig allmarga verkamenn í sinni þjónustu, hafa fyrir dagvinnutímann, þegar þeir eru komnir á full laun, 8000 kr. á mánuði. Það er nákvæmlega það, sem verkalýðshreyfingin gerir kröfu til, að verkamaðurinn fái 40 kr. á tímann, 40 kr. á klst., það eru 8 þús. kr., því að það eru 200 vinnustundir í mánuði. Við gerum kröfu um það, og það er það sama og kjaradómur hefur dæmt verkamönnum í Reykjavík, sem annast t.d. sorphreinsunina, og öðrum ófaglærðum verkamönnum, sem bærinn hefur í sinni þjónustu. Vinni þeir svo eftirvinnu, þá skal deila í þessa upphæð þeirra með 150, og verður þannig eftirvinnukaupið þeirra mun hærra en hjá verkamönnunum, jafnvel þótt þeirra kaup hefði verið hið sama í starfinu, sem það ekki er.

Líti maður á kaup skrifstofustúlku hjá Reykjavíkurborg eða ríkinu, og þær eru ekkert ofhaldnar í launum, það voru þær, sem fengu einna minnsta kauphækkun skv. kjaradómi, og reikni út, hvað þær hafi í kaup á klst., þá er leitun á fullæfðri stúlku, sem hafi ekki 40 kr. á tímann. En verkamennirnir hérna niður við Reykjavíkurhöfn, sem vinna við Togaraafgreiðsluna og h já Eimskip, þeir hafa 28–30 og 32 kr., eitthvað slíkt. Það skal lögbindast, það er fjandans nóg fyrir þá. Það er ósvífni, þeir eru að setja þjóðfélagið upp á rönd með því að heimta 40 kr. eins og skrifstofustúlka hjá því opinbera. (Gripið fram í: Hvað fengu bankastjórar mikla kauphækkun í síðustu viku?) Ætli það væri ekki bezt, að ráðherrarnir, sem voru í bankaráðunum, svari því.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, hafði framsögu fyrir frv., sem hér er til umr. Hann rakti afrek sinnar ríkisstj. á undanförnum árum, og það var eiginlega dýrðaróður nm ágæti viðreisnarstefnunnar og árangur hennar, batnandi lífskjör, þangað til kom að niðurlagskaflanum um ástandið núna. Þá varð hæstv. forsrh. að viðurkenna, að nú horfði allt fremur illa, og hans niðurstaða var sú, að það mætti ekki hækka kaup, því að það væri eins og að ætla sér að slökkva bál með því að hella í það olíu. En eru þeir ekki búnir að hella einhverjum olíusopa í sumar? Voru þeir ekki að undirbyggja með þeim aðgerðum, að laun hlytu að hækka í landinu? Eða var það ásetningur frá fyrstu byrjun, að verkafólk skyldi ekkert fá, það skyldi skapað misréttisþjóðfélag meðal launastéttanna eins og annars staðar? Nei, þeir voru sannarlega, hæstv. ráðh., á liðnu sumri búnir að hella bæði olíu og benzíni í dýrtíða- og verðbólgubálið, þeir gerðu það rækilega fyrir kosningarnar, bæði með enska láninu, sem var eins konar kosningamútur, og með lánapólitíkinni til kaupsýslunnar og á fleiri vegu. Og ef mikil hækkun kaupgjalds setur efnahagskerfið úr böndum og má líkja við að hella olíu á eld, þá hefur það verið gert á liðnu sumri.

Ég hafði dálítið gaman af því að heyra enn þá einu sinni af vörum hæstv. forsrh. endurtekna spekina um það, að ef allir fá kanphækkun, þá fær enginn neitt. Ef allir fá kauphækkun, þá fær enginn neitt. Þetta er búið að endurtaka í leiðurum Morgunblaðsins í allt sumar, og þetta hafa hagspekingar oft þulið yfir okkur. Það á enginn að sækjast eftir kauphækkun, því að ef allir fá kauphækkun, þá fær enginn neitt. En af hverju var þá verið að dæma opinberum starfsmönnum svona miklar kauphækkanir? Af hverju voru allir að sækjast eftir því að fá þetta sama og kjaradómur hafði ákveðið? Af hverju var þetta óðagot í bankaráðsformönnunum að hækka launin hjá bankastjórunum núna fyrir nokkrum dögum? Höfðu menn ekki þetta í huga, þessa speki: Ef allir fá kauphækkun, þá fær enginn neitt? Af hverju þótti þeim betra að vera sloppnir inn fyrir dyrastafinn á gullna hliðinu sjálfir? Og svo koma þeir hérna á eftír, þylja þessa kenningu yfir þeim, sem á að skella hurðunum á: Þið hafið ekkert gott af því að fá kauphækkun, því að ef allir fá kauphækkun, þá fær enginn neitt. En þetta segja þeir, sem ern búnir að bjarga sér, þeir, sem löbbuðu heim einn dag í september með 50 þús. kr. í umslagi og vissu ekkert, hvað þeir áttu að gera við það, það voru hæstv. ráðh. íslenzku ríkisstj., og lögðu þá í fyrsta sinn á ævinni í sparisjóðsbók, en þeir vita, að það hefur enginn gott af að fá kauphækkun, því að ef allir fá það, þá fær enginn neitt.

Hæstv. forsrh. gerði örlitla grein fyrir frv. sjálfu, eins og í hans hlut féll sem frsm., og þó að stjórnarblöðin hafi hrópað núna upp, að í þessu frv. felist stöðvun kaupgjalds og verðlags, þá viðurkenndi þó hæstv. forsrh., að það vari ekki alveg ætlunin að stöðva verðlagið. Í því væri ekki fullkomin verðstöðvun, enda er fjarri því, að svo sé. Það eru geysilega rammar skorður reistar við, því, að kaupgjald megi hækka í neinni mynd með löglegum hætti, en það slaknar á ákvæðunum, þegar kemur að 4. gr. um ráðatafanir til þessa að stöðva verðlagið, enda munum við þreifa á því á næstu tveimur mánuðum, að verðlagið heldur áfram að hækka. Það eru engar ráðstafanir til þess í frv, að stöðva það. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa þessa 4. gr. um verðstöðvunina, þar segir:

„Óheimilt er að hækka hundraðahluta álagningar á vörum í heildsölu og smásölu frá því, sem er, þá er frv. til þessara laga er lagt fyrir Alþingi: Má ekki hækka álagningu í hundraðshluta. Mikið var. „Sama gildir um álagningu á hvers konar selda vinnu og þjónustu, þ. á m. meistaraálag. Frá því að frv. til þessara l. er lagt fyrir Alþingi, er óheimilt að hækka verð á öllum öðrum vörum en þeim, er ræðir um í 1. mgr., nema með samþykki viðkomandi yfirvalda,“ — það kynni að fást, — „og mega þau ekki leyfa meiri hækkun en svarar sannanlegri verðhækkun efnivara og annarra kostnaðarliða.“ En ef um þetta sannast, þá er alveg sjálfsagt að hækka. „Sama gildir um hvers konar selda þjónustu, þ. á m. um aksturstaxta vörubifreiða, fólksbifreiða og sendiferðabifreiða og um fargjöld og flutningsgjöld skipa og flugvéla.“

Eins og hver maður heyrir, þá eru þarna engar ráðstafanir um takmarkanir. Það á bara ekki að lækka álagningu hjá þeim í prósentutölu, og það er beint sagt, að þeir megi hækka verðið, ef einhverjir útgjaldaliðir hækka. Þar skal á engan hátt þrengt að. Og verðlagið getur þannig hlaupið upp á næstu tveimur mánuðum drjúgan spöl. Frv. er ekki verðbindingarfrv.

Hæstv. viðskmrh. hélt hér fyrirlestur áðan, fyrirlestur um vandann, sem þjóðinni er á höndum, um þann greiðsluhalla, sem nú væri orðinn og færi alltaf sívaxandi, — er kominn eitthvað yfir 700 millj., — og um það, að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri alltaf að minnka, í þessu líka voðalega árferði, sem við búum við. Og hvernig á nú að ráðast gegn þessu? Hvernig á að stöðva sig á óheillabrautinni? Frv. hér er auðvitað úrræðið: binda kaup verkafólks næstu tvo mánuði, svipta verkalýðssamtökin samningafrelsi, svipta þau verkfallsréttinum, stórskerða þannig félagafrelsið í landinu og brjóta þar með stjórnarskrána, sem á að tryggja borgurunum félagafrelsi, svipta fjölmennustu stéttir þjóðfélagsins lýðræðislegum réttindum til þess að fá svo hið bezta fram hjá þessu fólki og þess samtökum til þess að leysa málið í bróðerni á eftir.

Hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, hefur ekki talað enn þá í þessum umr., kannske gerir hann það ekki. En það er mynd af honum á forsíðu Vísis í dag, og það er innrömmuð grein, sem er viðtal við ráðh., og viðtalið heitir: „Ríkisstjórnin treystir á dómgreind Íslendinga“. Hún gerir það enn, að dómgreind Íslendinga viðurkenni réttlæti ríkisstjórnarinnar. Þessi hæstv. ráðh. er með játningar eins og hinir ráðh., sem hér hafa talað, og hann segir: „Þjóðin er farin að eyða meiru en hún hefur aflað. Þetta kemur fram í því, eftir að við höfðum hagstæðan gjaldeyrisjöfnuð gagnvart útlöndum árin 1981 og 1882, þá er mikill gjaldeyrishalli það sem af er þessu ári.“ hvert segir hann, að það sé á leið? Upp á við? Nei, það er allt á leið niður á við a.m.k. En það er sjaldan ein báran stök, og þess vegna segir hæstv. ráðh.,með leyfi hæstv. forseta: Í öðru lagi hefur svo tilkostnaður útflutningsatvinnuveganna aukist svo gífurlega, að öll samkeppnisaðstaða þeirra er á erlendum mörkuðum við aðrar þjóðir hefur stórversnað.“ Nei, nú lýgur Herlegdáð að kónginum. Það er algerlega útilokað að halda því fram, að samkeppnisaðstaða íslenzkra útflutningsatvinnuvega sé eyðilögð vegna kaupgjaldsins á Íslandi, því að kaupgjaldið á Íslandi er lægra en í nokkru öðru landi, sem við höfum viðskipti við, og við eigum því að hafa betri samkeppnisaðstöðu en nokkur önnur nágrannaþjóð okkar. Kaupgjaldið í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi er stórkostlega miklu hærra en hjá verkalýðnum á Íslandi. Og þetta ætti að drepa samkeppnisaðstöðu þeirra þjóða gagnvart okkur, ef nokkuð væri. Ef þetta eru beztu rökin, sem hæstv. fjmrh. hefur fyrir því, að þeir beri fram þetta þvingunarfrumvarp, þá eru rökin ekki upp á marga fiska, því að þetta eru ósannindi, hrein ósannindi. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þennan hæstv. ráðh. og bankaráðsformann.

Vinnulaunin eiga að vera banabitinn. Þetta ofsalega kaup, sem verkafólkinu eru greitt, það er það, sem er að fella íslenzka atvinnuvegi, bæði innanlands og í samkeppnisaðstöðu við útlönd. Þó eru vinnulaunin, t.d. í rekstri hraðfrystihúsanna, líklega innan við 20% af útgjöldunum. Og hér var í kvöld upplýst, að útflutningsgjaldið eitt samsvaraði 30–35% í kaupi.. Hvað ætli vextirnir nemi miklu af útgjöldunum? Hvað ætli það nemi nú miklu fyrir íslenzka útflutningsatvinnuvegi, ef útflutningsgjald og vextir væri lækkað svo sem eins og um helming? Ég held, að með því opnuðust leiðir og væru þó fleiri til — til þess að gefa verkafólki eitthvað svipaða launabót og kjaradómur dæmdi opinberum starfsmönnum.

Hver eru nú viðbrögð verkalýðssamtakanna til frv., stjórnarfrv. um launamál o.fl.? Það er ekki að öllu leyti komið í ljós enn, en af því, sem þegar hefur gerzt, má þó nokkuð ráða í það. Miðstjórn Alþýðusambandsins kom saman til fundar í gærkvöld, kynnti sér frv. til laga um launamál o.fl., ræddi efni þess og gerði svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega frv. því til laga um launamál o.fl., sem ríkisstj. lagði fram á Alþ. í dag. Lagafrv. þetta er eigi aðeins hatröm árás á samningsréttinn, félagafrelsið og verkfallsfrelsið, heldur þýðir samþykkt þess einnig afnám þessara lýðréttinda. Heitir Alþýðusambandið því á öll meðlimafélög sín að slá órofa skjaldborg um þessi dýrmætu grundvallarréttindi lýðræðisins. Í baráttu þeirri, sem fram undan er, er óendanlega mikið komið undir árvekni og baráttuþreki félagsheilda og einstaklinga, og ber að neyta sérhvers færis, sem gefast kann til varðveizlu lífskjaranna og mannréttindanna.“

Ég veit það með vissu, að það hefði orðið mikil ólga í verkalýðshreyfingunni, ef samningar við atvinnurekandur hefðu engan áraagur borið um hækkað kaup, ef atvinnurekendur hefðu þverlega neitað að hækka kanpið um einn eyri. En það vekur áreiðanlega miklu meiri ólgu í verkalýðshreyfingunni, þegar slíkt kemur frá ríkisstjórn, sem hefur lofað því við skegg sitt og skalla, lofað því í hvítu bókinni „Viðreisn“ að skipta sér ekki af kjaramálum, það skuli vera milli verkalýðssamtaka og atvinnurekendasamtaka. Og þannig stendur hæstv. ríkisstjórn sem svikari að þessari yfirlýsingu sinni. Og til hvers? Til þess að sjá um það, að verkafólk fái enga umbun launa, þó að aðrar stéttir hafi fengið um 45% launahækkun fyrir opinbera tilhlutan á undanförnum vikum. En það, sem sker miklu, miklu dýpra inn í merg og bein hjá verkalýðshreyfingunni heldur en að ríkisstj. tekur að sér að sjá um það hlutverk atvinnurekenda að neita um sérhverja kauphækkun, er það, að hún ræðst með frv. sinn á helgustu lýðréttindi verkalýðssamtakanna. Þau eru ekki frjáls, eftir að þetta frv. hefur verið samþ. Þið, hv. alþm., sem verðið til að samþ. þetta frv., þið eruð að leggja frelsissviptingu á verkalýð landsins, þið eruð að fjötra hann, eftir að þið sjálfir hafið tekið ykkur drjúgan skammt í formi launa, hækkaðra launa, ýmist í skjóli dómstóls eða með eigin skömmtunaraðferðum. Og það er ég viss um, að verkalýðshreyfingin unir ekki að vera svipt samningsrétti, ekki heldur að vera svipt verkfallsréttinum. Verkalýðsfélögin eru gerð bókstaflega óvirk með því að svipta þan samningsréttinum um kaup.

Ályktun Alþýðusambandsins verður ekki mætt daufum eyrum af verkalýð landsins, og þar mun afstaða manna ekki skiptast eftir flokkum. Mönnum eru lýðréttindi verkalýðssamtakanna helgur réttur. Landsnefnd verkalýðssamtakanna, landsnefnd hinna almennu verkalýðsfélaga kom saman á fund í morgun. Hún ræddi þessu viðhorf. Hún er skipuð fulltrúum víðs vegar að af landinu, hún er skipuð fulltrúum lýðræðissinna, og hún er sjálfsagt líka skipuð einhverju af landráðalýð eftir orðbragði Morgunblaðsins. En bæði lýðræðissinnar og landráðalýðurinn urðu sammála. um eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Landsnefnd verkalýðsfélaganna lýsir fyllsta stuðningi sínum við mótmælaályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands gegn frv. því til þvingunarlaga, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. Landsnefndin telur sjálfsagt, að haldið verði fast við markaða stefnu, ag akorar á verkalýðsfélögin að boða vinnustöðvanir með löglegum fyrirvara og komi þær til framkvæmda frá og með 11. þ.m.“

Þessi ályktun var að sjálfsögðu send okkar ástkæra hlutlausa ríkisútvarpi í dag, önnur leið var ekki til til þess að koma henni á framfæri, vissulega var hún frétt. Blöðin eru stöðvuð, vegna þess að Hið íslenzka prestarafélag er í verkfalli, löglegu verkfalli. Fyrri hluti ályktunarinnar var birtur í ríkisútvarpi orðrétt, en niðurlagið var klippt í burtu. Tjáningarfrelsið á Íslandi er ekki meira en það, að það var ekki hægt að birta til enda samþykkt landsnefndar verkalýðsfélaganna. Það var án allra heimilda frá þeim, sem ályktunina sendu til birtingar, skorið aftan af henni þetta: „og skorar á verkalýðsfélögin að boða vinnustöðvanir með löglegum fyrirvara og komi þær til framkvæmda frá og með 11. þ.m.“ Þetta mátti þjóðin ekki heyra, þetta mátti ekki koma í útvarpinu. Lýðréttindin, skoðanafrelsið, það er í heiðri haft á Íslandi, það má segja það, undir stjórn lýðræðissinna. Það er sem sé sparkað og traðkað á öllu lýðræði og öllu lýðfrelsi, og er alveg sérstaklega ástæða til að minna á það nú við þessar umr., því að frv. er vitnisburður um það, að það er traðkað á félagsréttinum, félagafrelsinu og lýðræðislegum réttindum þess fólks, sem í þeim samtökum er. Og svo bætir ríkisútvarpið því við, að það lætur undir höfuð leggjast að birta í heild þær ályktanir, sem það þó telur sér skylt að birta hrafl úr.

En þó að blöðin komi ekki út og þó að ríkisútvarpið verði verkalýðshreyfingunni lokað, þá höfum við aðrar aðferðir til þess að koma okkar ályktunum á framfæri. Það er langt síðan það hefur verið svona gestkvæmt á pöllunum á Alþ. Af hverju er fólkið komið hingað? Er það ekki af því, að kommúnistar hafa smalað því saman? Nei, þegar fundur hófst á Alþ. í gær og vitað var, að ríkisstj. var að leggja fram þetta frv., þá fylltust áheyrendapallar Alþ. Og það var áreiðanlega að eigin hvötum, sem fólkið kom. Í dag, þegar átti að taka málið til umr., þingmálið, sem á að lögbinda kaup verkafólksins á Íslandri, þá varð slík aðsókn að Alþingishúsinu, að það var gert lögregluútboð í Reykjavík. Og þegar var komið nokkuð af fólki á þingpallana, þá var dyrum skellt á verkafólkið, sem vildi koma að hlýða á mál á okkar lýðfrjálsa þingi. Það var ekki á það hættandi að hleypa inn fleira fólki en með góðu móti kæmist á þingpallana, kytrurnar þarna uppi, sem raunar engum manni eru bjóðandi, bekkirnir eins og hænsnatré. (Gripið fram í.) Já, það er ekki aldeilis eins og ráðherrastóllinn, herra Ólafur Thors. (Gripið fram í.) Já, hann er miklu betri, ég veit, að hann er miklu betri en bekkirnir á pöllunum. En verkamenn máttu ekki koma hér inn í húsið, þeir máttu ekki vera hér á göngunum og heyra óminn af umr. Af hverju ekki? Alþingi á að vera háð í heyranda hljóði. Þjóðþingin eiga að vera það í lýðræðislöndum, og engin ríkisstj. á að gera neitt það verk, að hún þurfi að hræðast fólkið. En hér var dyrum lokað, lögregla sett til gæzlu við hvorar tveggja dyr og verkamönnunum haldið úti. Og það var þó áreiðanlega tekið upp hjá sjálfum sér, að verkamennirnir við Reykjavíkurhöfn lögðu frá sér verkfærin, hættu vinnu og skunduðu upp að alþingishúsi og héldu sig eiga aðgang að þeim lýðréttindum að hlusta hér á umr. um frv, til l. nm launamál o.fl. En þeir voru lokaðir úti.

Hæstv. dómsmrh. kvaðst ekkert geta við þetta ráðið, ekki neitt. En einhvern veginn fannst honum vissara að hafa verkamennina utan dyra heldur en t.d. hérna á göngunum. Það er sumum mönnum ýmislegt fleira betur gefið en hugrekki.

Þetta eru fyrstu viðbrögð verkalýðssamtakanna og verkafólksins. sem við höfum orðið varir við. En verkalýðsfélögin eru lýðræðisstofnanir og hafa lýðræðið betur í heiðri en hæstv. ríkisstj. Þau hafa verið að boða sína fundi í kvöld. Þau munu halda félagsfundi mörg á morgun og núna um helgina, og þar taka þan á lýðræðislegan hátt ákvarðanir um það, að hva miklu eða litlu leyti þau muni virða lagafrv. ríkisstj. um kaupbindingu, þegar flestar aðrar stéttir þjóðfélagsins hafa fengið stórkostlegri launahækkanir á liðnu anmri en nokkurn tíma hafa borizt spurnir af í allri Íslandssögunni. Ríkisstj. getur sett lög, ef henni endist þingmeirihl. til, en það er engin vissa fyrir því, að ranglát lög, sem eru í algeru ósamræmi við réttlætiskennd þjóðarinnar, verði framkvæmd. Það er svo margataðfest reynsla af því, að ef löggjöf brýtur í bág við réttlætiskennd þjóðarinnar, þá eru þau ekki meira virði en pappírinn, sem þau eru prentuð á. Ég skal engu spá um það, hversu mikils virði þessi pappír hér verður sem lög, en það gæti alveg eins farið svo, að hann yrði heldur verðlítill, og ef svo verður, þá er það eingöngu af því, að hæstv. ríkisstj. hefur færst það í fang að setja ofbeldislög gegn miklum hluta þjóðarinnar og þessi löggjög verður dæmd sem ólög. Gegn öðru en ólögum rísa Íslendingar ekki.

Ég vil vænta þess, að réttlætiskennd hv. alþm. sé svo vakandi, að þeir hjálpi ekki ríkisstj. til þess óráða, sem það er að gera þetta frv. að lögum, og það er enn á þeirra valdi. Ef þeirra réttlætistilfinning er vakandi, þá verður þetta frv. aldrei að lögum. Ég á erfiðast með að trúa því, að menn, sem tilheyra Alþfl. og eru meðlimir í verkalýðshreyfingunni, láti fara með sig á svo auðvirðilegan hátt, að þeir taki þátt í að rétta upp puttana til þess að hafa lýðréttindi af sínum stéttarfélögum. En það má vel vera, að það sé búið að fulltryggja það, áður en þetta frv. er lagt fram, að þar bili enginn, að þar haldi öll handjárn og þar sé öll réttlætistilfinning svæfð. Ég á enn fremur erfitt með að trúa því, að útgerðarmenn og aðrir atvinnurekendur finni það ekki, að það er auðvirðilegt að synja verkafólki nm launahækkun eftir þær launabreytingar, sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu Ég hef engan útgerðarmann eða atvinnurekanda fyrir hitt, sem hefur ekki játað, að það verði auðvitað að laga kaupið hjá verkafólki, og ef það verður ekki gert, þá sjá þeir líka aðra hættu, sem blasir við, og það er sú hætta, að verkafólk streymi frá framleiðslustörfunum, og þar hefur þó heldur þótt skortur á fólki a.m.k., og til milliliðastarfanna, sem nú hafa fengið frá 20–90% kauphækkun, og hreiðri um sig þar. Ef hvorki verkalýðshreyfingin né atvinnurekendur lagfæra kaup verkafólksins, þá þýðir það, að vinnuaflinu er með opinberum ráðstöfunum bægt frá framleiðslustörfunum og til annara minni nytjastarfa fyrir þjóðfélagið. Og ef það gerist, þá styrkist ekki grundböllur efnahagskerfisins, þá eflast ekki atvinnuvegirnir, þá einu sinni blómgist ekki hagur heildsala og stórkaupmanna. Þá visnar tréð frá rótum. Það er gjaldeyrisframleiðslunni, á framleiðsluatvinnuvegunum til lands og sjávar, á vinnuverðmætinu, sem sjómenn, verkalýður og bændur skapa, sem efnahagskerfið og þjóðfélagið hvílir, það er á þessari klöpp, sem það hvílir. Og sé hún sprengd, hrynur það. En þetta skilur ekki hæstv. ríkisstj. Hvernig ættu líka menn eins og hæstv. fjmrh., hæstv. menntmrh. og viðskmrh., hæstv. dómsmrh., jú hann hefur líklega verið í síld nokkrum sinnum, en um hina vildi ég segja, menn, sem aldrei hafa mígið í saltan sjó, menn, sem aldrei hafa tekið sér verkfæri verkamanns í hönd, — hvernig ættu þeir að skilja lífskjör verkafólks? Það er engin von. Það er engin von, að þeir skilji það, og þeir hafa líka sýnt það, að þeir hafa engan skilning á því, skilja það ekki, því að þeir eru ekki verri menn en svo, að ef þeir skildu nokkuð til lífskjara íslenzks verkafólks, þá byðu þeir því ekki upp á kaupbindingarfrv. eins og þetta.

Fram eftir öllu sumri voru stjórnarblöðin alltaf að guma að því, að ríkisstj. væri sterk stjórn. Jú, það vissu allir, hvað hún var sterk, að hún hafði 32 þm. af 60, hún hafði nauman meiri hl. í hvorri þd. En þjóðin veit nú betur, að þessi sterka stjórn hafði holgrafið efnahagskerfi, veikt og sundur tætt, og þegar hún var að guma af sterku stjórninni, þá vissi hún og málpípur hennar þetta vel. Núna upp á síðkastið voru stjórnarblöðin alltaf að tilkynna það, að erfiðleikarnir væru að vísu miklir, en það yrði með karlmennsku og þreki gengið á hólm við erfiðleikana og þeir yrðu yfirbugaðir, þeir yrðu sigraðir, úrræðin, sem dygðu, væru rétt að koma. Og hvað kom svo? Það kom þetta frv. til l. um launamál, sem er ekki um nein úrræði, sem er tákn úrræðaleysisins, tákn þess, að ríkisstj. sé algerlega ráðþrota og viti ekkert í sinn haus, hvað hún eigi að gera, nema helzt að reyna að níðast á verkalýðsstéttinni. Það hefur henni dottið í hug, að væri bezta ráðið til þess að fá hana til ljúflega og góðs samatarfs nm að ráða fram úr vandamálunum á eftir. En e.t.v. eru þetta samt úrræðin, sem stjórnarblöðin voru að boða, og þó að þetta marki ekki stefnuna nema næstu tvo mánuði, þá er ekkert líklegra en þetta eigi að vera framtíðarúrræðið, það eigi bara að framlengja þetta, t.d. nm næstu 2 ár, þegar þessir tveir mánuðir væru liðnir. Það má vel vera, að þannig eigi þetta að verða, það eigi að stjórna launamálum þjóðarinnar úr ráðherrastólunum með valdboði, með þvingunarlögum, það eigi til frambúðar að taka félagsfrelsið, samningaréttinn og verkfallsréttinn af verkalýðssamtókunum í okkar þjóðfélagi, og það eigi þannig að verða lausnin, sem hæstv. fjmrh. var að boða í fjárlagaumr. um daginn. Hann sagði, að það hefði lengi verið talið, að menn gætu stjórnað einu þjóðfélagi með því að hafa fullt vald á efnahagsmálunum, peningamálunum, þ.e.a.s. bankapólitíkinni og fjármálunum, þ.e. rekstri ríkissjóðs, ríkisfjármálunum, en nú væri komið í ljós, að þetta dygði ekki, menn yrðu líka að hafa fullt vald á launamálunum. Og það á að hafa vald á þeim með því að setja þvingunarlög eins og þau, sem hér liggja fyrir í frv.- formi. Þá er það fullkomnað. Þá halda þeir sig geta stjórnað íslenzka þjóðfélaginu. En það segi ég þeim alveg satt, að ef þeir halda, að þeir geti fengið vald. yfir þróun launamálanna í landinu með slíkri löggjöf, þá fara þeir villur vegar. Þeir fara alveg villir vegar um það. Þeim þætti þjóðfélagsmálanna verður aldrei stjórnað með þvingunarlögum. Þá fyrst mun koma í ljós, að þeir hafa hellt ekki aðeins olíu, heldur benzíni í eldinn, og það verður mikið bál, sem þeir tæpast verða menn til þess að slökkva.

Ég lýk máli mínu með því að segja þetta: Ég vara hæstv. ríkisstj. enn við þessari ranglátu lagasetningu. Hún mun torvelda alla möguleika til friðsamlegrar lausnar á vandamálunum, sem nú steðja að. Og vandamálin, sem núv. hæstv. ríkisstj. er að fást við, er hún ómegnug að leysa og á því að fara frá. Hún á að játa gjaldþrot sitt, það blasir við allri þjóðinni. Og hún getur aldrei leyst vandamál, a.m.k. ekki að því er viðvíkur launamálunum, nema í falslausu og heiðarlegu samstarfi við framleiðslustéttir þjóðarinnar, verkafólk, sjómenn og bændur og samtök þessara stétta. Hvort hún trúir þessu eða ekki, þá er þetta sannleikur málsins. Hún er að hella olíu í eld nú, og það er óviturlegt að ætla sér að slökkva bál, eins og forsrh. sagði, með því að hella olíu á eldinn. Og það er enn þá heimskulegra að halda, að með fantalegu ofbeldi verði verkalýður landsins og verkalýðshreyfingin löðuð til nánara samstarfs og verði þannig barin til ásta.