04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (1828)

56. mál, launamál o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að víkja hér nokkuð að þeim umræðum, sem hér hafa farið fram um þetta mál, m.a. þeim umræðum, sem fram fóru hér s.l. föstudag, þegar málið var hér til 1. umræðu, en þá gafst ekki tími eða aðstaða til þess að ræða ýmislegt af því, sem kom fram í ræðum manna, þegar leið á þá umræðu. En í tilefni af þeirri ræðu, sem hér var nú verið að ljúka við að flytja af hæstv. viðskmrh., langar mig til að gera sérstakar aths. við hana, áður en ég sný mér nú að því, sem hann sagði fyrr í umr. um málið og þeir aðrir ráðh., sem þá töluðu.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að reiknað væri með því, að launagreiðslur til allra þeirra aðila í landinu, sem tekjur taka af sjávarútvegi á einn eða annan hátt, væru í kringum 1800 millj. á ári, og sagði svo, að 40% launahækkun mundi þar af leiðandi þýða í aukin útgjöld fyrir sjávarútveginn í kringum 700 millj. kr. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, að hæstv. viðskmrh. skuli enn einu sinni koma hér með slíka fjarstæðu sem þessa og það í sambandi við þær umræður, sem hér fara fram. Hann hefur nefnilega áður farið svipað að ráði sínu og fengið leiðbeiningar, sem ég ætlaði þá að hann hefði hreinlega skilið.

Í fyrsta lagi er það nú, að þessi tala, sem hann nefnir, er algerlega röng, og það hefur ekki verið sýnt fram á það með nokkrum rökum, að hún fái staðizt. Í öðru lagi er það, að á þennan hátt er ekki hægt að ræða um þessi mál, að setja hér upp eina tölu í þessum efnum og reikna svo út launahækkun á hana og segja, að slik hækkun, sem þar kemur út, mundi hvíla á sjávarútveginum og af þeim ástæðum sé ekki hægt að mæla með 40% launahækkun til þeirra, sem nú hafa sett fram kröfu um slíka launahækkun.

Hæstv. ráðh. veit mætavel, það eru engar deilur um það, að ýmsir aðilar, sem fást við sjávarútvegsstörf, geta nú í dag borið 40% kauphækkun. Ég veit, að hæstv. ráðh. dettur ekki í hug að bera á móti því. Það væri aðeins að lemja höfðinu í múrvegginn að neita slíku. Heldur t.d. hæstv. ráðh., að síldarverksmiðjurnar í landinu hefðu ekki getað borgað 40% kauphækkun á s.l. sumri? Heldur hann það? Nei, ég veit, að hann heldur það ekki. Hann hlýtur að vita betur. Hann veit, að það var um stórkostlegan gróða hjá síldarverksmiðjunum að ræða, og þær hefði sannarlega ekki munað um að greiða 40% hærra kaup en þær gerðu. Það væri mjög fróðlegt, ef hæstv. ráðh. hefur ekki áttað sig á því, að hann gái að því, hve stór hluti af heildarútgjöldum síldarverksmiðjanna er kaup og hversu aðrir liðir í útgjöldunum eru háir. Það er heldur enginn ágreiningur meðal þeirra, sem til þekkja, um það, að síldarsöltunin í landinu getur og hefur staðið undir kauphækkun upp undir það að vera miðuð við þessi 40%, sem nú er farið fram á. Það þekkja allir, sem nærri þessum málum hafa komið, að síldarsöltunarstöðvarnar í landinu hafa veiflestar borgað 35–40 kr. á venjulega klukkutímavinnu hjá verkamanni. Þetta liggur fyrir, og ég ætla, að afkoma þeirra sé allgóð þrátt fyrir það.

Þá er vitanlega allra mesta skekkjan í þessu að tala um, að 40% kauphækkun til þeirra lægst launuðu, sem vinna að framleiðslu sjávarafurða í landinu, þurfi nauðsynlega að þýða 40% kauphækkun á allar greiðslur hlutaskiptakjara á fiskveiðiflotanum. Ég veit ekki betur en það hafi þótt sjálfsagt af núv. hæstv. ríkisstj. að stuðla að því, að hlutaskiptakjörin á síldveiðiflotanum væru lækkuð, á sama tíma sem aðrir, sem unnu að sjávarútvegsstörfum, fengu þá nokkra kauphækkun. Það þýðir því vitanlega ekki að kasta fram svona fullyrðingum, að segja, að þó að verkamenn, sem vinna í frystihúsum landsins, fengju 40% kauphækkun, menn, sem vinna tvímælalaust á lægsta kaupinu við þessi framleiðslustörf, þá þýddi það nauðsynlega, að allar aðrar launagreiðslur til þeirra, sem vinna í sjávarútvegi, þyrftu um leið að hækka nákvæmlega um 40%. Nei, svona villu getur hæstv. viðskmrh. ekki gert sig sekan um að endurtaka hér á Alþ. æ ofan í æ. Þetta fær ekki staðizt.

Hitt hefði verið miklu nær fyrir hann að segja: Hvernig stendur þetta dæmi t.d. í sambandi við þann þátt sjávarútvegsmálanna, þar sem menn viðurkenna almennt að sé um þrengsta aðstöðu að ræða til að taka á sig kauphækkun, en þó einn gildasta þáttinn, en það er rekstur hraðfrystihúsanna í landinu, sem vinna að frystingu á fiskflökum? Það mun láta nærri, að heildarframleiðsla frystihúsanna, útflutningsverð, hafi verið í kringum 1000 millj, og þó heldur undir þeirri upphæð nú í nokkur ár, miðað við verðgildið, sem er í dag. Því er haldið fram af frystihúsamönnum, að það megi reikna með því, að allt kaupgjald, sem frystihúsin greiða, í hvaða formi sem er, jafnt til fastlaunamanna þar sem til verkamanna, sé í kringum það að vera 25% af útflutningsverðinu, brúttó-útflutningsverðinu. Eins og ég hef sagt hér áður, hef ég haldið því fram og ýmsir aðrir, sem lagt hafa fram reikninga máli sínu til sönnunar, að þarna sé heldur ofreiknað, hvað hlutur kaupsins sé mikill. Ég tel, að hlutur kaupsins miðað við útflutningsverð sé varla meiri en 20%. En það skiptir engu aðalmáli í þessu efni, við skulum bara reikna með 25%. Þá væru launagreiðslurnar hjá frystihúsarekstrinum í landinu í kringum 250 millj. kr. samkv. því, sem þeir segja sjálfir. Og það er rétt, 40% hækkun á þessu, ef gengur jafnt yfir alla, mundi auðvitað þýða allálitlega upphæð eða í kringum 100 millj. kr. En þarna er um langstærsta þáttinn að ræða í útflutningsframleiðslunni. Hinar aðrar greinar, sem standa eitthvað svipað að vígi að geta staðið undir auknum útgjöldum, eins og bæði skreiðarframleiðsla og saltfiskframleiðsla, þeir þættir eru báðir miklu þýðingarminni og vega ekki eins mikið, og þar er ekki um eins mikla upphæð að ræða.

Hitt er svo vitað, að þegar menn hafa verið að búa til þessa feiknarlega háu upphæð, 1800 millj. kr., sem séu heildarlaunagreiðslur til þeirra, sem taka laun sín á einn eða annan hátt frá sjávarútveginum, þá er verið að reikna með því, sem alls ekki er hér í framkvæmd. Þá er verið að reikna með öllum þeim taunum, sem til geta fallið, t.d. við að smíða fiskiskip, sem segja má að bitni á sjávarútveginum á einn eða annan hátt. Þarna er um að ræða laun erlendra manna að langmestu leyti — og annað eftir þessu. Svipað fannst mér vera um rök hjá hæstv. ráðh. varðandi þær till., sem hann gerði hér að umtalsefni, sem bent hefur verið á að gæti verið útflutningsatvinnuvegunum til hagsbóta, ef breytingar væru gerðar á, þ.e.a.s. í sambandi við lækkun á vöxtum og lækkun á útflutningsgjaldi og aðstöðugjaldi, lækkun tolla o.fl. þ.h. Það er enginn vafi á því, að útreikningarnir hjá hæstv. ráðh. voru fjarri öllu lagi og fá ekki staðizt á nokkurn hátt. Og ég mun kannske víkja nokkuð að því síðar, þegar ég ræði um þær leiðir, sem mér sýnist að séu miklu fremur tiltækilegar.

Þá langar mig til þess að víkja örfáum orðum að ræðu hæstv. viðskmrh. viðvíkjandi vísitölunni. Það fannst mér alveg furðulegur ræðumáti, og ég vildi í þessu tilfelli eins og hinu kjósa hæstv. ráðh. annað hlutskipti en endurtaka það að halda slíka ræðu sem þessa. Hvernig er raunverulega núverandi vísitala til komin? Við vitum, að það gekk hér í gildi nýr vísitöluútreikningur á árinu 1959, í marzmánuði 1959, vegna þess að gamla vísitalan, sem hafði þá gilt um margra ára skeið, þótti orðin nokkuð gömul í búningi og það væri rétt að gera hér á bragarbót. Og því var lýst yfir af þeim aðilum, sem stóðu að útreikningi á þessari nýju vísitölu, að rétt væri að skipta um og taka upp hina nýju vísitölu, vegna þess að hún sýndi réttari samsetningu á raunverulegum útgjöldum meðalfjölskyldunnar. Þá, 1959, þótti hér vera um miklu réttari útgjöld að ræða hjá meðalfjötskyldunni í landinu, eins og hún var þá, heldur en meðan gamla vísitalan var uppi. En nú sýnir samanburðurinn, að leggi maður til grundvallar tímakaup verkamanns, sem í gildi var, þegar vísitalan var tekin í gildi í marzmánuði 1959, og tímakaup verkamanns aftur á móti nú, þá sýnir það sig, að verkamanninn vantar með alveg hliðstæðum samanburði miklum mun meira til þess að hafa fyrir öllum útgjöldum samkv. vísitölunni nú heldur en hann vantaði þá. Þessi staðreynd sýnir það, að það hefur hallað á í kjörum hjá verkamanninum í þessu tilfelli.

Það hefur auðvitað enginn verið að halda því fram, að verkamaðurinn verði nú að lifa af 67 þús. kr. kaupi, þótt það sé raunverulega ekki hægt að gera það samkv. því, sem reiknað er með í vísitölunni. Það hefur enginn haldið því fram, að verkamaðurinn verði að gera þetta. Það hefur hins vegar verið bent á það, að verkamenn hafa neyðzt til þess að haga vinnu sinni á allt annan hátt til þess að fá nægilega mikið kaup. Og um það segja einmitt opinberar skýrslur þetta, sem hér hefur verið getið um áður í umr., að árið 1961 var svo komið, að verkamenn hér í Reykjavík urðu að leggja á sig svo mikla eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu, að rösklega þriðji hlutinn af öllu þeirra árskaupi var til kominn vegna eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu. Það heldur því enginn þessu fram, sem hæstv. ráðh. var hér mikið um að ræða, að verkamenn verði að lifa af 67 þús. kr. tekjum. Við vitum, að tekjurnar eru í mjög mörgum tilfellum hærri en þetta. En sú tekjuhæð byggist á þessu, að verkamaðurinn verður að vinna lengri tíma en áður, hann verður að leggja á sig meira af eftir og nætur- og helgidagavinnu en hann áður gerði.

Í umr. um þetta mál s.l. föstudag talaði hér hæstv. dómsmrh., formaður Sjálfstfl., Bjarni Benediktsson. Hann lagði sérstaka áherzlu á það í ræðu sinni, að það, sem verið væri að gera nú með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir um kaupbindingu, væri algerlega hliðstætt því, sem gerðist á tímum vinstri stjórnarinnar í ágústmánuði 1956, þaðan væri fordæmið sótt og því væri í rauninni óeðlilegt, að þeir aðilar, sem stóðu að þeirri lagasetningu, sem þá var út gefin í formi brbl., skyldu taka ákvæðum þessa frv. illa.

Mér þykir full ástæða til að víkja nokkuð nánar að þessu, hvað raunverulega var gert með setningu brbl. í þessum efnum haustið 1956. Hér er ekki um sambærileg mál að ræða, heldur mætti miklu fremur segja, að hér væri um tvær algerar andstæður að ræða, eins og ég skal sýna fram á. Í frv., sem var gert að lögum í ágústmánuði 1956, var verðlag allt í landinu bundið í 4 mánuði undantekningarlaust. Er verðlagið bundið í landinu með þessu frv. eða með þeim lögum, sem hér er ráðgert að setja? Nei, síður en svo. Hér er beinlínis gert ráð fyrir því, að verðlag geti farið hækkandi á næstu tveimur mánuðum. Það er beinlínis talað um það í grg. frv., að í öllum þeim tilfellum, þar sem svo stendur á, að um einhverja tilkostnaðarhækkun hefur orðið að ræða, sem ekki er komin inn í verðlagið nú, þá sé eðlilegt að taka tillit til þess. Verðlagið er ekki bundið fast nú, það var bundið fast þá.

Með þeirri lagasetningu, sem nú er ráðgert að fram komist, er gert ráð fyrir því að binda kaupið og banna verkföll og banna nýja kaupgjaldssamninga. Með brbl. frá 1956 var kaupið ekki bundið. Stéttarfélögin gátu tekið upp samninga þá, því að þau höfðu frjálsa samninga. Þau gátu gert verkfall, það var enginn réttur af þeim tekinn þannig. Á þessu er því grundvallarmunur.

En hvað var það þá, sem var að gerast í ágústmánuði 1956, og hvað er það, sem er að gerast nú? Í ágústmánuði 1956 voru sett brbl. um það, að 6 vísitölustig, sem áttu að koma til framkvæmda þá eftir nokkra daga inn í kaupgjaldsvísitöluna, skyldu falla niður og kaupgjaldsvísitalan skyldi síðan verða óbreytt til áramóta, enda allt verðlag í landinu bundið. Þar var því um að ræða að fella niður 6 vísitölustig, það er rétt. Segja mátti auðvitað, að hér virtist vera um nokkra kauplækkun að ræða,. þar sem 6 vísitölustig áttu að falla niður og kaup átti ekki að hækka samkv. því. En á það var bent, að málin lágu þannig fyrir, að eftir aðeins 15 daga, þegar þessi brbl. voru sett, áttu samkv. samningum og lögum, sem voru í fullu gildi, að koma til framkvæmda ákveðnar verðhækkanir. Þá áttu landbúnaðarvörurnar að hækka í verði. Og kaupið gat þann, 1. des. þar á eftir ekki hækkað samkv, gerðum samningum að öllu leyti á móti hækkandi landbúnaðarvöruverði, því að kaupið átti ekki að hækka að þeim hluta til, sem afurðaverðshækkunin stafaði af hækkandi kaupi bænda. Það var því um reikningsdæmi fyrir forsvarsmenn launþeganna í landinu að ræða, hvort það borgaði sig fyrir þá að gefa eftir þessi 6 vísitölustig gegn því, að þær verðhækkanir á landbúnaðarvörum og öðrum vörum, sem um var samið að ættu að koma til framkvæmda, þessar verðhækkanir yrðu látnar falla niður. Og það var auðvelt að reikna dæmið. (Forseti: Þar sem liðið er yfir venjulegan fundartíma deildarinnar, vildi ég biðja hv. þm. að gera svo vel að gera hlé á ræðu sinni.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég frestaði ræðu minni hér í kvöld, var ég í miðju máli að gera nokkurn samanburð á því, sem gerðist í ágústmánuði 1956. með setningu brbl. þá um kaupgjaldsog verðlagsmál, og svo því, sem hæstv. ríkisstj. leggur til að gert verði nú í launamálum. Ég hafði þá þegar bent á, að hér er um tvennt alveg gerólíkt að ræða. Þá var ekki um að ræða að binda kaup með lögum. Þá var ekki heldur tekinn neinn réttur af launþegum til að semja um kaup sitt við vinnuveitendur. Og þá var ekki heldur tekinn neinn réttur af launþegasamtökunum um að mega efna til verkfalla, ef þau teldu það nauðsynlegt til að fá breytingar á sínum samningum. En nú er hins vegar gert ráð fyrir því að banna öll verkföll, banna alla nýja samningagerð og ógilda jafnvel samninga, sem gerðir kunna að hafa verið á því tímabili, frá því að frv. er lagt fram og þar til það verður að lögum.

Ég hafði bent á það einnig, að frá hálfu launþegasamtakanna litu þessi mál þannig út haustið 1956, að hér var um bein hagsmunaatriði að ræða. Það var hægt að reikna það út, hvort það borgaði sig fyrir launþegana í landinu þá að halda sér við samningsákvæði og fá kaupgjaldsvísitöluna hækkaða um 6 vísitölustig 1. sept. eða hvort hitt væri þeim hagstæðara, að gefa eftir þessi 6 vísitölustig með þar tilgreindum skilyrðum, gegn þeim skilyrðum, að verð á landbúnaðarvörum hækkaði þá ekki eins og það átti þó að gera samkv. réttum reglum, heldur skyldi ríkissjóður taka á sig að greiða n,iður landbúnaðarvöruverðið að verulegu leyti, og gegn því skilyrði, að aðrar verðhækkanir, sem þá voru alveg fyrirsjáanlegar, yrðu stöðvaðar. Og eins og ég hafði sagt, þá höfðu forustumenn verkalýðsfélaganna í landinu séð alveg greinilega, að það var hagstæðara með tilliti til kaupmáttar launa að láta þessi 6 vísitölustig niður falla þennan tíma gegn því, að hin skilyrðin yrðu uppfyllt. Það var þetta, sem var gert.

Annað var það, sem var í grundvallaratriðum á annan veg í ágústmánuði 1956, þegar brbl. voru sett um kaupgjald og verðlag, heldur en það, sem nú er verið að gera. Í fyrra tilfellinu var beinlínis af ríkisstj. leitað eftir samkomulagi víð launþegasamtökin í landinu, eftir því sem mögulegt var, og setning brbl. þá byggðist því á samkomulagi við launþegasamtökin. Þá var leitað eftir umsögn allra fjórðungssambanda Alþýðusambands Íslands, og stjórnir fjórðungssambandanna svöruðu allar á eina lund, að þær væru samþykkar setningu brbl. Sams konar samþykki fékkst frá stjórn A.S.Í, einróma samþykkt, og sams konar samþykki fékkst þá frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík, sem einnig gaf samþykki sitt til setningar laganna. Það var einnig haft samband við stjórnir flestallra stærstu verkalýðsfélaga í landinu, sem þá var hægt að ná til með góðu móti, m.a. allra þeirra stærstu, og stjórnir félaganna samþykktu fyrir sitt leyti, að brbl. yrðu sett. Auk þessa alls var svo boðað til fundar hér í Reykjavík með öllum stjórnarmeðlimum verkalýðsfélaganna hér í borginni til þess þar að ræða efni brbl., og á þeim fundi var samþykkt með 94 atkv. gegn 15, en 17 sátu hjá, að mæla með setningu brbl. Það voru einu atkv., sem fram komu í allri þessari könnun innan verkalýðshreyfingarinnar, sem voru á móti setningu laganna. Það var því ekkert um að villast, að það var búið að bera málið undir rétta aðila, í þessum efnum og þeir höfðu goldið samþykki sitt við því, sem til stóð að gera. En núna er unnið að þessu á gersamlega annan hátt. Nú veit hæstv. ríkisstj., að hún getur ekki fengið neitt samþykki verkalýðshreyfingarinnar í landinu eða launþegasamtakanna yfirleitt fyrir þeirri lagasetningu, sem hér stendur til að koma fram. Þvert á móti hefur ríkisstj. fundið, að launþegasamtökin í landinu yfirleitt, þar í hópi einnig hennar trúustu stuðningsmenn til þessa, mótmæla setningu þessara laga.

Það, sem því liggur fyrir, er þetta, ef maður ber það saman, sem gert var með setningu brbl. haustið 1956 og með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, þá liggur málið þannig fyrir, að í öðru tilfellinu er um kaupbindingu að ræða, en í hinu var ekki um kaupbindingu að ræða. Í öðru tilfellinu er um það að ræða, að verkföll eru bönnuð, en í hinu tilfellinu voru verkföll heimiluð. í öðru tilfellinu er launþegasamtökunum bannað að semja um kjörin, en í hinu tilfellinu voru allir samningar opnir, menn gátu samið um ný launakjör, ef þeir óskuðu eftir því. Og í öðru tilfellinu var haft fullt samkomulag, samráð og fengið samkomulag við rétta aðila, en nú er gengið beint gegn vilja þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Það er því í rauninni alveg furðulegt, að hæstv. dómsmrh. skuli í umr. um þetta mál halda því fram, að með setningu brbl. í ágústmánuði 1956 hafi verið skapað fordæmi fyrir því, sem ríkisstj. hér leggur til að gert verði.

Þá hélt hæstv. dómsmrh. því einnig fram, að með brbl. í ágústmánuði 1956 hafi verið framkvæmd raunveruleg kauplækkun, en þetta er rangt. Skýrslur sýna, að kaupmáttur launa var hærri á árinu 1956 en hann var á árinu 1955 og einnig 1957, bæði fyrir og eftir. Kaupmáttur tímakaups verkamanna var árið 1955 talinn 96.5 stig, árið 1956 var hann 97.2 stig, en árið 1957, árið á eftir, 95.8 stig. Það er algerlega rangt, að með þeim lögum, sem þá voru sett, hafi verið framkvæmd nokkur kauplækkun.

Annað atriði, sem mjög miklu máli skiptir svo, var þarna einnig til staðar, sem þýddi, að það, sem var verið að gera í launamálunum í ágústmánuði 1956, var vitanlega á allt öðrum grunni en það, sem nú er hugsað að gera. í frv. frá 1956 var ákveðið að stöðva allt verðlag fullkomlega í 4 mánuði. Og ýmsir af forustumönnum Sjálfstfl., sérstaklega úr verzlunarstétt, mótmæltu frv. þá sem skerðingu á sínum hagsmunum. Þeir vildu koma fram ýmsum verðhækkunum. Það kom greinilega fram í umr. hér á Alþingi, og það var vitanlega ekkert um það að efast, að það gat orðið svo í vissum tilfellum, að verðlagsbindingin, sem þá var ákveðin, gat bitnað eitthvað á verzluninni í landinu. En nú er þessu allt öðruvísi farið. Nú er beinlínis gert ráð fyrir því, að um verðlagshækkanir geti verið að ræða.

Ég minnist þess frá þeim umr., sem fóru hér fram um setningu brbl. haustið 1956, að núv. hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, lagði einmitt alveg sérstaka áherzlu á þetta, að eina virkilega nýmælið í þeim lögum, sem þá var verið að setja, væri einmitt þessi verðbinding. Þá sagði hæstv. viðskmrh. orðrétt á þessa leið í umr. um þetta mál haustið 1956:

„Mergurinn málsins er auðvitað sá, og það, sem er nýmæli við þessa lagasetningu, er, að hér er í fyrsta skipti gerð tilraun til að stöðva verðlagið og láta kaupfestingu sigla í kjölfar verðlagsstöðvunarinnar.“

Það hafði einmitt verið þannig, að bæði Alþfl: menn og við Alþb: menn höfðum haldið því fram um langan tíma, að ástæðan fyrir hækkandi verðlagi í landinu væri einmitt, að tilteknar stjórnarráðstafanir þá um nokkurt skeið og kauphækkanirnar, sem þá voru, hafi yfirleitt siglt í kjölfar hækkandi verðlags. Við bentum þá alltaf á það, að leiðin til að draga nokkuð úr kauphækkunum væri einmitt sú að stöðva verðlagshækkanirnar, þá mætti búast við því, að kauphækkanir yrðu miklu minni a.m.k. Þarna var einmitt með setningu þessara brbl. reynt að feta nýjar slóðir. Þar var ákveðið að binda verðlagið, jafnvel þótt það þýddi nokkur útgjöld fyrir verzlunina í landinu. Og þá samþykktu launþegasamtökin í landinu undireins að fallast á að búa við óbreytta kaupgjaldsvísitölu á meðan.

Ég held nú, að þegar þessi mál eru rifjuð upp, sjái hæstv. dómsmrh., að það er lítil sanngirni í því af honum að halda því fram, að það, sem hér stendur til að gera í launamálum nú, eigi eitthvert fordæmi í aðgerðunum frá haustinu 1956. Þar er staðreyndum beinlínis snúið við. En það er svo aftur út af fyrir sig heldur litið karímannlegt af hæstv. dómsmrh. og hans flokki að reyna að afsaka það, sem hann er að gera nú í þessum málum, með því, að hann heldur því fram, að einhver annar hafi gert hliðstætt áður. Karlmannlegra væri fyrir hann að reyna að hleypa eðlilegum rökum undir, að það sé réttmæt ráðstöfun, sem hann er að gera, að það, sem til stendur að gera, sé réttlátt og það nái tilgangi sínum.

Annað atriði var það í ræðu hæstv. dómsmrh., sem ég vildi víkja að nokkrum orðum. Hæstv. ráðh. sagði, að á það væri oft bent, að kaupmáttur tímakaups verkamanna væri ekki hærri nú en hann hefði verið fyrir mörgum árum. Og ráðh. sagði, að í rauninni væri þetta þungur áfellisdómur yfir kaupgjaldsbaráttunni frá þessu tímabili og þeir, sem hefðu markað stefnuna í kaupgjaldsmálunum, ættu að viðurkenna, að þeirra baráttuaðferðir hefðu verið rangar, fyrst útkoman hefði orðið þessi. Og í þessum efnum rifjaði svo hæstv. dómsmrh. það nokkuð upp, hvernig ýmsar ríkisstj. hefðu brugðizt við á undanförnum árum, þegar þær þurftu að glíma við vanda efnahagsmálanna, minnti þar á allmargar gengislækkanir, sem samþykktar hefðu verið, niðurfærslur á kaupi, gerðardóma í vinnudeilum o.s.frv.

Það er nú alveg augljóst mál, að það er vitanlega ekki hægt að kenna verkalýðssamtökunum í landinu um það, hvernig miðað hefur í þessum málum, þegar ríkisvaldið hefur gripið inn í og gert sérstakar ráðstafanir til þess að lækka kaupið með lögum. Sannleikur málsins er sá, að hefðu verkalýðsfélögin ekki andæft á móti og gert sinar gagnráðstafanir, þá væri kaupmátturinn líka miklu minni en hann er í dag.

Það er ekkert um það að villast, að það eru til almenn rök fyrir því, að kaupið á Íslandi ætti að vera hærra en það er í dag. Ég tók eftir því, að í skýrslu þeirri um efnahagsmál, sem ríkisstj. lagði hér fram á s.l. ári eða e.t.v. fyrr á þessu ári, — ég man það ekki nákvæmlega, — en það var skýrslan um þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, þar segir ríkisstj., eflaust eftir hagfræðingum sínum í efnahagsmálum, að í ljós hafi komið, að þjóðartekjur Íslendinga á hvert mannsbarn séu, eins og þar stendur, fyllilega eins háar og í nálægum löndum hér við ísland og tilnefnt er sérstaklega í löndum Norður-Evrópu. Þetta eru staðreyndir, sem liggja fyrir. Þjóðartekjurnar á íslandi á hvern mann eru fyllilega eins háar og þær eru t.d. í Noregi og Danmörku, og þetta var meira að segja miðað við árið 1961, en síðan hefur okkur vegnað betur en þeim samkv. opinberum skýrslum. Við öflum því á hvern einstakling í landinu eins mikils og þeir.

En hver er þá ástæðan fyrir því, að við þurfum að greiða okkar lægst launaða vinnufólki, verkamönnum, iðnaðarmönnum, miklu lægra kaup en þessar þjóðir greiða sínum starfsmönnum? Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því, að kaup verkamanna skuli vera lægra hér en er í Danmörku og Noregi, að kaup iðnaðarmanna í Danmörku og Noregi skuli vera miklu hærra en það er hér, fyrst við sannanlega öflum, þegar á heildina er litið, fyllilega eins mikið og þeir gera á hvert mannsbarn? Ætli það sé þá ekki vegna þess, að við skiptum heildartekjunum eitthvað öðruvísi? Einmitt af þessum ástæðum og öðrum hafa launþegasamtökin í landinu á undanförnum árum gert kröfur um að fá a.m.k. að halda þeim kaupmætti launa, sem menn höfðu búið hér við um nokkurra ára skeið. En núv. ríkisstj. alveg sérstaklega hefur verið að gera stjórnarráðstafanir, sem hafa miðað í þá átt að skerða kaupmátt launanna. Þegar svo verkalýðshreyfingin hefur gert sínar ráðstafanir og hækkað kaupið nokkuð til móts við vaxandi dýrtíð, hefur ríkisstj. komið aftur til skjalanna og fært kaupið niður á nýjan leik. Og svo, þegar hún er búin að gera þetta nógu oft, þá kemur hér hæstv. dómsmrh. og segir: Sjá nú ekki allir, hvernig þessi leikur hefur gengið? — Mönnum hefur ekkert miðað áfram af því að hann hefur alltaf verið að færa aftur á bak, þegar aðrir hafa verið að færa áfram, og vill svo kenna þeim um, hvernig til hefur tekizt, sem hafa verið að færa áfram, en ekki hinum, sem hafa verið að færa aftur á bak. Í mínum augum er þetta alveg hliðstætt því og menn segðu nú í dag við íbúana t.d. í Angola í Afríku, að það væri alveg sýnilegt, að þeirra barátta væri alröng, ætti engan rétt á sér. Þeim hefði ekki miðað betur áfram en svo, að enn þá væru þeir í hnappheldunni hjá þeim í Portúgal. Það væri alveg sýnilegt, að þetta væri röng stefna, sem þeir væru að berjast fyrir. Þó að einhver aðili hafi ekki mátt til þess að koma sínu máli fram, vegna þess að annar máttarmeiri getur haldið óréttinum við, þá þýðir það ekki, að barátta hins, sem var í þá átt að leiðrétta misréttið, sé í eðli sínu röng. Á því er enginn vafi, að það hafa verið skilyrði í okkar landi til þess, að hægt væri að greiða t.d. verkamönnum og öðru láglaunafólki í okkar landi hærra kaup en gert hefur verið. En til þess hefur auðvitað þurft að gera ýmsar aðrar ráðstafanir, sem menn hafa ekki verið allir á einu máli um, hvort gera ætti.

Ég er á þeirri skoðun, að á því leiki enginn vafi, að í okkar landi hafi verið ýmsir aðilar, sem á undanförnum árum hafa grætt allálitlega. Ef menn væru að vísu á þeirri skoðun, að enginn í okkar landi hafi grætt á undanförnum árum, öllu því, sem hægt hafi verið raunverulega að skipta upp milli þegnanna, hafi verið skipt og það á réttlátan hátt til verkamanna, iðnaðarmanna og annarra, þá gætu menn auðvitað haldið þessu fram. En ég er á allt annarri skoðun. Ég get því svarað hæstv. forsrh., sem hér spurði í sinni ræðu: „Hverjir eru það, sem hafa grætt?“ Og hann lézt ekkert um það vita. Ég skal nefna nokkra, sem hafa verið að græða, sem hafa fengið meira en þeim ber. Fyrst vil ég nefna banka landsins. Þar leikur enginn vafi á, reikningar þeirra eru til frásagnar. Ég hygg, að gróði þeirra, sem auðlesinn er út úr reikningum bankanna allra, hafi verið á milli 200 og 250 millj. á ári nú síðustu árin. Ég segi: Þessi gróði, sem þarna safnast upp, er óeðlilegur, hann á engan rétt á sér. Bankarnir eru í eðli sínu ekki til þess að safna fé, til þess að græða fé. Þeirra hlutverk á að vera allt annað. Þeir þurfa auðvitað, viðskiptabankarnir, að hafa tryggan rekstur, það er rétt, en það þýðir ekki, að það sé nein ástæða til þess, að þeir græði stórfé, eins og þeir hafa verið látnir gera hér á síðustu árum.

Ég skal nefna fleiri aðila. Ég efast ekkert um, að það hefur verið nú á síðustu árum verulegur gróði hjá flutningaskipunum í landinu, þeim sem hafa flutt afurðir landsmanna út úr landinu og vörur inn í landið aftur. Þessir aðilar hafa tvímælalaust grætt vel. Það er engin tilviljun, að menn þjóta í það að byggja upp ný skipafélög núna einmitt þessa dagana. Það auðvitað stendur vel á núna, því að það er nýbúið að samþykkja um 40% farmgjaldahækkun, sem á eftir að koma inn í verðlagið, auðvitað hjá einu stærsta skipafélaginu, sem þó hefur sýnt mikinn hagnað á undanförnum árum. Ég hef nokkrum sinnum áður bent á, að það er mjög augljóst dæmi í þessum efnum, að einn aðili, en það er Samband ísl. samvinnufélaga, hefur eignazt á nokkrum árum álitlegan skipaflota, þ. á m. stærsta skip landsmanna, ég hygg 9 skip, án þess að þurfa nokkurn tíma að leggja nokkurn skatt á meðlimi sina til að eignast þennan skipastöl, og þeir eiga hann mjög vel afskrifaðan miðað við það verðlag, sem hann stendur í i dag. Eitt tiltölulega nýtt skipafélag, nokkurra ára gamalt, það er eins og mig minni, að ég hafi einhvern tíma heyrt, að hæstv. landbrh, þekkti eitthvað til þess eða væri eitthvað við það riðinn, — ég held, að þetta unga skipafélag eigi 3 skip strax.

En þrátt fyrir það, þó að auðveldlega hafi mátt sjá, að skipafélögin högnuðust vel á sínum rekstri á undanförnum árum, leit hæstv. ríkisstj. þannig á málið, að nú einmitt á þessu sumri samþykkti hún að heimila skipafélögunum að ákveða farmgjöld eftir því, sem þau óskuðu sjálf að gera, að gefa alla álagningu í þeim efnum frjálsa, en eigendur skipafélaganna höfðu oft einmitt kvartað undan því, að verðlagseftirlitið vildi ekki leyfa þeim alla þá hækkun, sem þeir höfðu óskað eftir. En ríkisstj. sem sagt leit þannig á málið: Þó að skipafélögin væru sýnilega að græða, máttu þau græða meir, þó að það kostaði hækkandi verðlag í landinu, minnkandi kaupmátt launa eða þá verkföll ella.

Ég er ekki heldur í nokkrum vafa um það, m.a. af því, að nokkur þau félög hafa gefið frá sér opinbera reikninga, að vátryggingarfélögin í landinu, sem eru margfalt fleiri en gott hóf er á að hafa í þessu litla landi, þau hafa dregið til sín drjúgan gróða á undanförnum árum.

Þá efast ég ekkert um það, að olíufélögin þrjú í landinu hafa stórgrætt, en það er rétt, að það hefur oft þurft að standa í talverðum stímpingum við þau félög varðandi þá þóknun, sem þau vildu taka. Ég minnist þess, að þann tíma, sem ég var í ríkisstj., kom það fyrir í eitt skipti, að olíufélögin gerðu kröfu um það að fá að hækka verðlag á olíu, sem nam 30 millj. kr. hækkun á þóknuninni til þeirra, hefðu kröfur þeirra verið samþykktar. En hann náðu ekki fram kröfum sínum þá, en ég efast ekkert um það, að undir verðlagseftirliti núv. ríkisstj. hefur verið búið betur að þeim en þá var gert.

Svipað er líka hægt að segja um ýmsar greinar iðaðarins. Það fer ekki á milli mála, að ýmsar greinar íslenzka iðnaðarins hafa grætt á undanförnum árum. Þessir aðilar og margir fleiri hafa tekið of mikið til sin, og það hefði verið auðvelt að gera ráðstafanir til þess, að þessir aðilar tækju minna, en laun t.d. þeirra lægst launuðu í landinu mættu í staðinn hækka nokkuð.

Og siðast, en ekki sízt, má svo nefna heildsalana. Þeir þeirra, sem eru stærstir og búa við beztu umboðin, efast nokkur hv. alþm. um, að þeir raki saman fé? Ég held, að það efist enginn alþm. um það. Þeir hafa stórgrætt, heildsalarnir, sem búa við beztu umboðin, hafa stórgrætt á undanförnum árum.

Gróðinn er því til. Hann er tekinn af vissum aðilum, og það má bæta einum aðila enn þá við. Það er ekkert að efast, að ríkissjóður hefur líka tekið til sin allt of mikinn hagnað. Það eru aðeins nokkrir dagar síðan skýrt var frá því hér á Alþingi, að afkoma ríkissjóðs hafi verið svo góð á árinu 1962, að ríkissjóður hafi haft í rekstrarafgang 295 millj. kr. og í beinan greiðsluafgang, þegar búið var að greiða upp alla fjárfestingu, sem ríkið stóð í, um 174 millj. kr. Og svo stóð þetta vel hjá ríkissjóði, að það var ákveðið að taka a.m.k. 100 millj. af þessu og leggja inn á sérstaka sparisjóðsbók hjá ríkinu. Og þó er upplýst núna, að afkoma ríkissjóðs sé miklum mun betri í ár en hún var 1962. Tekjuafgangurinn mun verða miklu meiri. Þarna er verið að safna upp í gróða. Ríkið er að taka of mikið í tollum af þeim varningi, sem fluttur er inn til landsins, eða leggja á of háan söluskatt, hækka verðlagið í landinu fram yfir það, sem þörf var á. Þessum hagnaði vitanlega væri hægt að ráðstafa á annan hátt, m.a. á þann hátt að bæta kjör þeirra, sem aftur úr hafa dregizt.

Hæstv. dómsmrh. sagði hér í umr. á föstudaginn, þegar hann ræddi um kjaradóm, að það mætti ekki kenna ríkisstj. um kjaradóm, hún bæri ekki meiri sök á honum en alþm. almennt. Hæstv. ráðh. lýsti því að vísu yfir, að hann teldi ýmislegt miður farið í niðurstöðum dómsins, hann væri ekki á niðurstöðuna sáttur í öllum greinum og að ætlunin hafi í rauninni aldrei verið sú að samþykkja með kjaradómi neinar launahækkanir til opinberra starfsmanna. Ekki vil ég nú sérstaklega kenna hvorki einum né neinum um kjaradóm, en ég held hins vegar, að ríkisstj. sleppi ekki svona auðveldlega frá því, sem gerðist í þeim málum varðandi niðurstöðu kjaradóms, þannig að það hafi aldrei staðið til að hækka kaup opinberra starfsmanna um eitt eða neitt og hún eigi enga sök á í sambandi við launahækkun, sem þar hefur komið fram. Ég man ekki betur en það hafi verið fjmrh. sjálfur fyrir hönd ríkisstj., sem gerði opinberum starfsmönnum ákveðið launatilboð, og ég man vel eftir því, að ég las það í Morgunblaðinu m.a. fyrir kosningar, að þar var sagt, að ríkisstj. hefði boðið þeim launakjör, sem mundu þýða um 30% launahækkun að meðaltali. Ríkisst,j, hafði því gert þarna alveg ákveðið tilboð. Það mun hins vegar vera, að kjaradómur hafi hækkað allt saman og ákveðið meðaltalshækkunina meiri. En frá hinu verður ekki hlaupið, ríkisstj. hafði gert þetta, hlöð ríkisstj. höfðu skýrt frá þessu. Og ég geri ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi gert þetta á sínum tíma, ,ja, hvort tveggja líklega til þess að gera sig svolitið góða fyrir opinberum starfsmönnum rétt fyrir kosningar, af því að þeir vildu fá launahækkun og þeir töldu sig eiga rétt á að fá launahækkun og töldu eins og aðrir, að málin hefðu þróazt þannig í landinu, að þeir þyrftu að fá launahækkun. Einnig býst ég við því, að ríkisstj. hafi miðað eitthvað við það í sínu tilboði, að þjóðarbúskapurinn stæði undir þessu. Ekki hefur ríkisstj. verið að gera þetta tilboð alveg að óhugsuðu máli eða t.d. til þess að reyna að steypa öllu fjárhagskerfinu um koll, það er útilokað.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að eini ágreiningurinn, sem við Alþb-menn hefðum haft varðandi setningu l. um laun opinberra starfsmanna, hefði verið sá, að við hefðum viljað ganga enn þá lengra en gengið var, og vildi láta orð að því liggja, að við hefðum m.a. viljað hækka kaup þeirra hæst launuðu enn meira en gert var. Þetta er alger misskilningur. Okkar sérstaða kom greinilega fram við setningu þessara laga, og hún var fólgin í því, að við töldum eðlilegast að ganga þannig frá samningamálum á milli opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins, að opinberir starfsmenn hefðu nákvæmlega sama rétt til að semja um kjör sín og berjast fyrir breytingum á kjörum sínum og allir aðrir starfsmenn í landinu hafa samkv. l. og þeir gætu einnig haft verkfallsrétt, ef samningar tækjust ekki eftir eðlilegum leiðum. Við lýstum því yfir, að við værum á móti kjaradómi sem slíkum, við teldum það mjög vafasama leið og vildum ekki styðja hana, að efna til þess að kveða upp dóm um það, hver skyldu vera laun hinna ýmsu stétta í landinu. Sjálfstfl. hins vegar hefur lengi barizt fyrir því og gerði það mjög dyggilega í sambandi við setningu þessara laga. Hann vildi endilega fara þessa leið, að ef ekki tækjust samningar, þá skyldi kveða upp dóm, eins og þar segir, óvilhallra manna um kaupið. Og svo, þegar dómurinn kemur, rétta menn upp höndina og segja, að þetta sé vafasamur dómur og nú þurfi eiginlega að gera sérstakar efnahagsráðstafanir í landinu til að hnekkja dómnum. Og hæstv. ráðh. spurði nokkrum sinnum í sinni ræðu, hvort launþegar aðrir í landinu, t.d. verkamenn og iðnaðarmenn og aðrir slíkir, vildu samþykkja á sig kjaradóm. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að það er afstaða verkalýðshreyfingarinnar almennt að vera á móti slíku fyrirkomulagi. Stefnan þar er sú, að menn vilja hafa rétt til að semja við sína atvinnurekendur um launakjörin og ef ekki takast samningar með eðlilegum hætti, þá eigi launþegar rétt á því að standa saman félagslega og neita því að vinna upp á þau kjör, sem þeir telja að séu of lág fyrir sig.

Svo kom hæstv. forsrh. og talaði hér alllangt mál til viðbótar sinni framsöguræðu og drap á ýmislegt af því, sem fram hafði komið hér í umr., og það voru nokkur atriði, sem hann minntist hér á, sem mig langar til að víkja að.

Hæstv. forsrh. lagði á það sérstaka áherzlu að ástæðan til þess, að ríkisstj. flytti nú þetta frv. um launabindingu, væri m.a. sú, að það hefði vofað yfir sú hætta, að ýmsir starfshópar kynnu að semja um svo hátt kaup, að þeir lægst launuðu hefðu orðið út undan og farið illa út úr leiknum að lokum. M.ö.o.: ástæðan til þess, að frv. er flutt, er sérstök umhyggja fyrir láglaunamönnum í landinu. Er þetta nú ekki heldur mikið, hæstv. forsrh., að reyna að fitja upp á þessu? Sem sagt, eftir að þeir menn í landinu, sem helzt er hægt að flokka undir hátekjumenn, þeir hæst launuðu hjá ríkinu, þeir hæst launuðu í bönkunum, þeir hæst launuðu hjá Reykjavíkurbæ, ásamt svo með blaðamönnum við Morgunblaðið, sem gerðu verkfall s.l. sumar og fengu sína hækkun, þegar búið er að smokra þessu inn fyrir, þá á að loka á og segja: Hingað og ekki lengra. — En þá er komið að þeim láglaunuðu, að þeir vilja fara að fá sinn hlut, og þeim er svo sagt: Þetta er bara gert fyrir ykkur, til þess að þið farið ekki illa út úr því.

Nei, ég held, að svona röksemdir verði ekki metnar mikils hjá neinum. Það er ábyggilega ekki af neinni umhyggju fyrir afkomu þeirra láglaunuðu, sem þetta frv. er flutt. En í sambandi við þetta er einmitt rétt að athuga alveg sérstaklega það, sem kom fram í þessum umr. hjá hæstv. forsrh. og hjá hæstv. viðskmrh., sem talaði fyrir hönd Alþfl. í málinu, hvað það er, sem ríkisstj. hyggst raunverulega gera, þegar hún kemur með sjálf bjargráðin í málinu, þegar fresturinn á að vera liðinn.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að samþykkt hefði verið á miðstjórnarfundi Alþfl., að þeir Alþfl.-menn skyldu styðja þetta frv. á Alþingi, en þó í trausti þess, að eftirtaldar ráðstafanir yrðu gerðar í launamálum. Og hvaða ráðstafanir átti að gera? Í fyrsta lagi átti að setja lágmarkskaup, í öðru lagi áttu að koma skatta og útsvarsívilnanir fyrir þá lægst launuðu, í þriðja lagi átti að færa tekjur frá þeim hæst launuðu yfir til þeirra lægst launuðu. Og svo sagði hæstv. forsrh. og það margsinnis í sinni ræðu, að það yrði að koma í veg fyrir frekari kauphækkanir en orðið væri.

Hvernig á nú að koma þessu öllu saman? Jú, það er enginn vafi á því, hvernig dæmið er hugsað. Frekari kauphækkanir en orðið er má ekki samþykkja. Af því þurfti að stöðva. Hvernig á þá að fara með þessa láglaunuðu? Jú, það á að taka af þessum hálaunuðu og færa yfir til hinna, án þess þó að hækka kaupið þeirra. Hvernig á að gera það? Jú, það á að gera á þann hátt, og þar koma til einmitt skatta- og útsvarsfríðindin, að það á að segja við þessa, sem hafa fengið þegar háa kaupið, þessa, sem hafa 22 þús. eða 24 þús. kr. í mánaðarkaup: Nú látum við skattstigann og útsvarsstigann taka kúfinn ofan af hjá ykkur. Þið skuluð lenda í skattamaskinunni. Ríkissjóður tekur þennan háa skatt af svona háu kaupi, og bæjarsjóðirnir taka í útsvör sinn hluta af þessu háa kaupi. — Þannig verður vitanlega sagt við þá, sem hafa fengið háa kaupið: Þið fúið auðvitað að halda háa kaupinu, sem hefur verið samið um, en við tökum eftir þessum leiðum nokkuð til baka. — Þá eru peningarnir komnir í allríkum mæli í bæjarkassann og ríkiskassann frá þessum hátekjumönnum. Þá er að koma þeim yfir til þeirra láglaunuðu, og það á að gera þannig, að það verður sagt við þá láglaunuðu: Nú sníðum við neðan af skattstiganum og útsvarsstiganum þannig, að þið þurfið ekki að borga ýkja mikinn skatt eða útsvar. Þannig hefur ykkur verið ívilnað, og svo fáið þið einhverjar tryggingabætur til viðbótar, og þetta verður sem sagt fært á milli á óeiginlegan hátt, án þess að kaupið sjálft hafi hækkað.

M.ö.o.: menn hugsa sér þá fjarstæðu að ætla að framkvæma þessa hluti þannig, að kaupbindingin standi raunverulega áfram. Venjulegur bókari, sem vinnur bjá ríkinu, getur haft 12 þús. kr. á mánuði. Sams konar bókari, sem vinnur hjá bæjarfélaginu í Reykjavík, getur líka haft 12 þús. kr. á mánuði. En bókari af sömu gráðu í einkarekstri á að hafa 6–7 þús. kr. á mánuði, og svo á að segja við þennan mann: Þú hefur það raunverulega alveg eins gott og hinir, því að við tökum ofan af launum hinna með sköttunum, en þú færð tryggingabætur, og svo skaltu bara una við þinn hag. — Og eins á að fara með bæjarstarfsmenn á ýmsum stöðum. Nokkur bæjarfélög hafa þegar sloppið inn fyrir og samþykkt þessa miklu kauphækkun. Önnur bæjarfélög hafa ekki fyrir frestinn samþykkt kauphækkunina hjá sér, og þar eiga menn í sams konar störfum áfram — ekki bara til áramóta, heldur út næsta ár að búa við lága kaupið.

Það er enginn vafi á því, að það er þessi hugsun, sem liggur á bak við hjá hæstv. ríkisstj. Hún er að bögglast við að ætla sér ekki aðeins að fresta í tvo mánuði þessu ástandi, sem nú er, hún er að bögglast við að ætla að lögfesta þennan mismun áfram. En það er enginn efi á því, að þetta er óvinnandi verk, þetta er óframkvæmanlegur hlutur. Þetta mundi aldrei standast í framkvæmd. Ef bæjarstarfsmennirnir í Reykjavík eiga að fá tiltekna launahækkun, þá er ómögulegt að koma í veg fyrir það, að hliðstæðir starfsmenn í öðrum byggðarlögum landsins fái líka hliðstæða kauphækkun, og það er engin leið heldur að standa á móti því, að ef skrifstofumenn hjá ríkinu eða Reykjavíkurbæ hafa fengið tiltekna kauphækkun, þá verða hliðstæðir skrifstofumenn, sem vinna hjá öðrum, að fá hliðstæð laun. Það verður ekki heldur, eins og ég benti á í umr. á föstudaginn, hægt að framkvæma slíka fjarstæðu, að síldarkonurnar hér við Faxaflóa eigi að salta hverja síldartunnu fyrir allt annað verð en síldarkonurnar á Norður- og Austurlandi söltuðu í sumar. Samningarnir, sem gerðir voru um alveg hliðstæð kjör við síldarsöltun, voru ekki gerðir hér fyrir sunnan fyrr en 10—12 klukkutímum eftir að ríkisstj. lagði sitt frv. fram hér á Alþingi, og því eru þeir samningar ógildir. Það á að reyna að knýja það fram, að þessar síldarkonur hér fyrir sunnan vinni upp á lægra kaup en aðrir hafa unnið fyrr á árinu nákvæmlega hliðstæð störf. Þetta er óframkvæmanlegt. Það er auðvitað hægt að reyna að framkvæma þetta, en það hlýtur að mistakast. Það getur vel verið, að í nokkra daga verði þetta þannig, að t.d. atvinnurekendurnir, sem láta salta síld, byrji bara þegjandi og hljóðalaust á að borga sama kaup og greitt var fyrir austan og norðan, brjóti lögin í trausti þess, að ríkisstj. fari ekki að gera sig hlægilega með því að stefna þeim, að lögsækja þá. Það getur verið, að þetta verði framkvæmt þannig. En allt um það, þá hefur slík lagasetning sem þessi ekkert gildi. Að ætla sér. að lögbinda misrétti á þennan hátt, það fær ekki staðizt.

Það, sem á að gera í þessum efnum, er vitanlega að viðurkenna staðreyndir, en staðreyndirnar eru þær, að á fjölmörgum vinnustöðum í landinu er nú svo um hið umsamda lágmarkskaup verkamanna og verkakvenna og iðnaðarmanna, að það er ekki farið eftir því. Samningarnir eru yfirborgaðir. Það er alkunna, að á flestum stöðum hér í Reykjavík, þar sem unnið er að byggingarframkvæmdum, þar eru borgaðar milli 40 og 50 kr. á tímann fyrir venjulega verkamannavinnu. Og það mætti segja mér það, að þegar ríkisstj. tekur svona á vandamálunum eins og gert er í þessu frv. og skapar í rauninni panik-ástand í landinu, þá verði þeir æðimargir, sem hafa byggingar undir hér í Reykjavík, sem koma til með að bjóða betur næstu daga, af því að þeir telja sér lífsnauðsyn að reyna að flýta verkunum, áður en meira óveður skellur á í þessum efnum. Það er líka, eins og ég hef sagt, alveg vitað, að á ýmsum stöðum varðandi sjálfa framleiðsluna, eins og t.d. í síldariðnaðinum, hefur verið um allverulegar umframlaunagreiðslur að ræða frá hinum skráðu kauptöxtum. Og hvernig ætli það sé hérna í iðnaðinum? Ég hygg, að þeir séu ekki ýkjamargir, sem vinna hér hjá vélsmiðjunum í landinu og trésmiðjunum, sem ekki fá a.m.k. 15–20% yfir skráð kaupgjald eða yfir þá kauptaxta, sem um hefur verið samið.

Það þarf að viðurkenna staðreyndir í þessum efnum, beygja sig fyrir þeim. Kaup hinna lægst launuðu verður að aðlagast því ástandi, sem orðið er í landinu. Það verður að hækka. Dýrtíðin er orðin það mikil og ýmsir aðrir hafa fengið þannig launahækkun, að það er ekki hægt að láta þá lægst launuðu liggja eftir, það er útilokað.

Þáttur Alþfl. í þessu máli er býsna merkilegur. Sú var tíðin lengi, að Alþfl. hafði það sem yfirlýsta stefnu, að hann gæti ekki verið með því að binda kaupgjald eða afnema samningsréttinn og verkfallsréttinn. Það kom hér fyrir á Alþingi nokkrum sinnum, að Alþfl. dró ráðh. sína út úr ríkisstj. vegna deilna um þessi efni, en það ber ekkert á neinum útdrætti ráðh. núna. Núna virðist það vera fullkomið samkomulag, að þeir sitji áfram í ríkisstj., þrátt fyrir það að þetta gamla stefnumál Alþfl. sé brotið á þann hátt, sem hér er ráðgert að gera. En það er nú kannske ekki meira en í ýmsum öðrum greinum varðandi stefnuna í efnahagsmálunum almennt.

Ég minnist þess, að fyrir örfáum árum lýsti hæstv. núv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, yfir hér á Alþingi hvað eftir annað, að það væri eitt af meginstefnumálum Alþfl. að hafa strangt verðlagseftirlit og að berjast gegn hinni svonefndu frjálsu verzlun Sjálfstfl., eins og Sjálfstfl. raunverulega túlkaði hana. En hvað hefur þessi hæstv. ráðh. verið að gera einmitt í efnahagsmálunum að undanförnu, varðandi einmitt þessi mál? Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, er yfirmaður verðlagseftirlitsins. Hann er sá ráðh., sem fer með þessi mál. Hann hefði því getað staðið fast á stefnu Alþfl. En hvað hefur hann gert? Hann hefur verið að samþ. það æ ofan í æ að undanþiggja hvern vöruflokkinn á fætur öðrum öllu verðlagseftirliti eftir kröfu Sjálfstfl. Og nú siðast í sumar, eins og ég sagði í byrjun minnar ræðu, samþykkti þessi hæstv. ráðh. að heimila skipafélögum að ákveða flutningsgjöld á vörum, eftir því sem þau vildu. Meginhluti flutningsgjaldsins skyldi verða frjáls þvert ofan í yfirlýsta stefnu Alþfl.

Hæstv. viðskmrh. sagði hér í umr. haustið 1956, þegar brbl. þá voru sett um verðlag og kaupgjald, eins og ég las upp fyrr í minni ræðu, að það væri einmitt eitt meginatriði þá og það merkilegasta í þeirri lagasetningu, að þá var gert ráð fyrir því að binda verðlagið, heimila engar verðhækkanir, til þess að kaupið gæti staðið óbreytt á meðan. En nú, hvernig er stefna Alþfl. nú? Nú er stefnan þessi: að standa að frv., sem heimilar verðlagshækkanir, en bannar kauphækkanir. Þannig hefur sem sagt þessu mikilvæga stefnuskrármáli Alþfl. verið gersamlega snúið við og Alþfl. eltir nú stefnu íhaldsins í þessum efnum.

Sjálfstfl. var á þeirri skoðun haustið 1956, að það ætti ekki að banna allar verðhækkanir. Hann lýsti því hins vegar yfir, að hann væri samþykkur því að festa kaupið, en nú er sem sagt Alþfl. kominn inn á þessa stefnu Sjálfstfl. að vilja standa að því að festa kaupið, þó að verðlagið megi halda áfram að hækka á meðan.

Hæstv. viðskmrh. sagði í umr. á föstudaginn ýmislegt, sem sannarlega hefði gefið tilefni til að ræða við hann um, varðandi efnahagsmálin almennt. Hæstv. ráðh. sagði, að vandinn, sem við væri að glíma í efnahagsmálunum nú, stafaði af því, að eyðsla þjóðarinnar hefði orðið of mikil á þessu ári, neyzlan hefði vaxið of mikið og fjárfestingin hefði vaxið of mikið, og hann sagði, að sérstaklega hefði fjárfesting einkaaðila vaxið langt fram úr gerðum áætlunum. En hæstv. viðskmrh. sagði: Ástæðan til þess, að þetta hefur farið svona, eyðsla þjóðarinnar hefur orðið of mikil, neyzlan hefur vaxið of mikið og fjárfestingin hefur vaxið of mikið hver var orsökin? — orsökin var sú, að það hefðu arðið of miklar kaupgjaldshækkanir á árinu 1962. Það var nú það. Sem sagt, það er þá auðvitað enginn vafi á því, að það er skoðun þess manns, sem þetta segir, það hlýtur að vera hans skoðun, að það þurfi að lækka kaupið frá því, sem það er núna. Hann virðist ekki einu sinni ætla að sætta sig við að festa það þar, sem það er, heldur beinlínis að lækka það, til þess að áframhaldandi umframeyðsla geti ekki átt sér stað.

Nú var það svo, að kauphækkanir t.d. verkamanna á árinu 1962 voru sérstaklega litlar. Það var samið seint í júnímánuði eða byrjun júlí, þá var samið um kauphækkun, sem nam 9.6%, þar sem kauphækkunin var mest, á nokkrum liðum í kauptöxtunum, en í mörgum tilfellum var kauphækkunin ekki nema 4-6%. En það hafði verið samið um þessi 4%, að þau skyldu koma inn, það var samið um það árið á undan. En þrátt fyrir þetta segir hæstv. viðskmrh., að kauphækkanirnar á árinu 1962 séu orsök vandamálsins núna. Ég efast ekkert um það, að eins og hæstv. viðskmrh. setur upp þessi mál, þá er engum blöðum um það að fletta, að þegar neyzlan í landinu hefur vaxið mikið og fjárfestingin hefur vaxið mikið, þá hefur sem sagt þjóðin sem heild haft úr miklu að spila. En hún hefur úr fleiru að spila en því, sem kemur aðeins í gegnum kaupgreiðslur samkv. lægstu kanptöxtum. Hæstv. viðskmrh. hlýtur að gera sér grein fyrir því, að þó að við lækkuðum kaupið í einni verksmiðju um t.d. 10–15%, þannig að launþegarnir þar færu með 10–15% minna kaup frá borði, þá eru allar líkur til þess, að eigandi verksmiðjunnar fari þá með jafnháa upphæð umfram sér til handa frá borði, og hann getur vissulega haldið áfram að eyða í þjóðfélaginu eða ráðstafa eða fjárfesta ekkert síður en launþegarnir.

Og það er líka hægt að koma fjármunum yfir til ýmissa aðila eftir öðrum leiðum en bara efbir kaupleiðinni. Ég skal nefna eitt dæmi, og ég óska eftir því, að hæstv. viðskmrh. ræði um það alveg sérstaklega, þegar hann tekur hér næst til máls. Hann veit, að hæstv. ríkisstj. hefur gert þær ráðstafanir í efnahagsmálunum, að hún hefur heimilað innflutningsverzluninni í landinu að taka stór svonefnd vörukaupalán til stutts tíma erlendis. Þessi vörukaupalán hafa numið nú á þessu ári í kringum 600 millj. kr. M.ö.o.: það er varningur fluttur inn í landið fyrir lánsfé, verzlunin getur selt þetta út til aðila í landinu og lánað það líka, eins o,g hún hefur gert. Hún hafði fengið svigrúm til þess með þessari lántöku að setja þessa vöru út og lána hana. Heldur hæstv. viðskmrh., að þessi stjórnarráðstöfun varðandi heimildina til verzlunarinnar að mega taka þessi lán hafi ekkert haft að segja varðandi þenslu í landinu? Ég spyr hæstv. ráðh.: Heldur hann það?

En ástæðurnar til þess, að ríkisstj. heimilaði þessar lántökur verzlunarinnar, voru auðvitað þær, að verzlunin í landinu vildi hvort tveggja fá aukið umráðafé til sinnar starfsemi frá því, sem áður var, og hún vildi líka fá féð með lægri vöxtum en viðreisnarvöxtunum í landinu. Þessi lán gat hún tekið erlendis og fengið þau með 4—5% vaxtakjörum, í staðinn fyrir 9—10% vaxtakjörum í bönkunum. Aðrir landsmenn, ef þeir þurfa að taka lán, máttu borga viðreisnarvextina, en verzlunin mátti fá þessi sérhlunnindi og taka þessi lán. Og reyndar var þetta enn hagstæðara fyrir verzlunina, því að hún fékk að leggja þessa vexti af þessum stuttu vörukaupalánum inn í vöruverðið og velta því yfir í verðlagið í landinu. í þessum tilfellum var verið að dekra við verzlunina, það var verið að aðstoða verzlunina við að græða meira, og þá var ekki hirt um það, þó að þetta hefði kannske nokkuð vafasamar afleiðingar í efnahagslífinu. En hitt þurfti að passa, að þeir lægst launuðu í landinu fengju ekki of margar krónur á milli handa.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri staðreynd, að fjárfestingin í landinu hefði orðið sérstaklega mikil á þessu ári hjá einkaaðilum, vaxið um 28% á þessu ári. Hvernig skyldi nú standa á þessu, að fjárfestingin varð svona mikil hjá einkaaðilum? Eru það bara launþegar í landinu, sem standa undir þessari fjárfestingu með sínu of háa kaupi, eða skyldu einhverjir aðrir standa undir þessari fjárfestingu? Við vitum, að sú fjárfesting, sem hinir almennu launþegar í landinu aðallega standa undir, það er sú fjárfesting, sem tengd er við íbúðarhúsabyggingar. Hún er auðvitað allmikil, og þó hefur hún verið að flestra dómi minni en þörf hefur verið á miðað við þarfir þjóðarinnar. En nú vil ég spyrja hæstv. viðskmrh.: Telur hann, að fjárfesting einstaklinga í íbúðarhúsabyggingum hafi verið of mikil? Er það stefna Alþfl. nú og ríkisstj., að minnka beri þá fjárfestingu, sem orðið hefur á þessu ári í íbúðarhúsabyggingum, en ég vil ætla, að allmikið af launþegum í landinu eigi þar hlut að máli? Eða vill kannske hæstv. ráðh. viðurkenna það, að t.d. heildverzlunin hér í Reykjavík hafi fjárfest nokkuð mikið á þessu ári? Vill hann kannske viðurkenna það, að þeir hafi byggt nokkuð stórt hérna inn með Suðurlandsbrautinni, að þeir hafi byggt nokkuð mikið? Það þarf auðvitað stór hús og myndarleg til þess að taka við mikilli bílasölu og geta sýnt þetta, látið bílana standa þar innanhúss öllum til sýningar. Þeir hafa ekki dregið neitt af sér að byggja slík hús. Hvaðan hafa þessir aðilar, sem hafa fjárfest svona mikið á vegum einstaklinga, t.d. í slíkum byggingum, en opinberar skýrslur segja, að fjárfestingin í verzlunarhúsnæði og iðnaðarhúsnæði hafi orðið sérstaklega miklu meiri en áður, — hvaðan hafa þessir aðilar fengið peninga til þess að fjárfesta svona mikið? Ríkisstj. segist hafa stjórn á peningamálum þjóðarinnar, hafa látið Seðlabankann hafa þar glöggt auga á, hvað fram færi, og hann hefur líka refsað hinum bönkunum með allt að 18% vöxtum, ef þeir lánuðu út of mikið. Skyldi það vera, að það hafi samt lekið út úr bankakerfinu til verzlunarinnar hér í Reykjavík, svo að hún gæti staðið undir þessari óeðlilegu fjárfestingu. Skyldi það vera? Já, það leikur enginn vafi á því. Skýrslur Seðlabankans sýna þetta. Þær sýna, að á fyrstu 7 mánuðum ársins 1963 hafði verzlunin, í landinu aukið við fyrri lán sin um 234 millj. kr. á 7 mánuðum, eða hærri upphæð en sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður til samans höfðu aukið sín lán. Það hafði nefnilega lekið til verzlunarinnar allverulega í gegnum alla fjármálastjórnina, til þess að hún gæti haldið áfram að fjárfesta of mikið. En það er nú ekki aðeins það, að verzluninni hafi verið heimilað að taka mikil erlend lán með sérstökum vildarkjörum, svo að hún hefði meira svigrúm, og ekki það, að hún hefði fengið riflegri lán en aðrir úr bankakerfinu, heldur er enginn vafi á því, að verzlunin hefur verið að fjárfesta svona mikið, af því að hún hefur grætt mikið, af því að þar hefur safnazt fé og þeir vildu koma fénu fyrir. Þetta hefur verið þróunin í þessum efnum.

Við höfum sagt það hér, Alþb.-menn, að vísasta ráðið í þessum efnum sé hreinlega að ákveða í stórum dráttum fyrir fram, hvað skuli fjárfesta mikið á árinu, hvað fjárfestingin í íbúðarhúsabyggingum skuli vera mikil, hvað fjárfestingin á vegum sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar skuli vera mikil í aðalatriðum, og svo ákveða, að verzlunin í landinu og aðrir þeir, sem lengi hafa möguleika til að græða mikið fé, fái ekki að ráðast í fjárfestingu nema eftir þar til settum leiðum. Það er út af fyrir sig hart, ef verzlunin í landinu setur allt úr skorðum hjá ríkisstj., því að það ætla ég, að hafi núv. ríkisstj. verið nokkrum aðila í þessu landi góð, þá hefur hún verið það við innflutningsverzlunina í landinu.

Hæstv. viðskmrh. sagði svo, að hann teldi, að vegna þess kapphlaups, sem iðulega hefði gert vart við sig milli einstakra starfshópa í landinu um launakjör, þá væri sýnilegt, að ríkisvaldið yrði að koma til, ef bæta ætti launakjör verkafólks eða hinna lægst launuðu. Er þá svona komið; að það sé orðin stefna Alþfl., að það eigi að vera ríkisstj., sem á að ákveða kaup verkamanna og verkakvenna og þeirra lægst launuðu í landinu, að það eigi að vera ráðh., hvort sem þeir eru heldur 6 eða 7, sem eiga að skammta þessum aðilum? Þetta jafngildir auðvitað því að segja, að þessir aðilar hafi ekkert við samningsrétt að gera og þar af leiðandi ekki heldur verkfallsrétt, þeir geti engu komið fram á þann hátt. Eina leiðin til þess að bæta kjör þeirra sé, að ríkisvaldið komi þeim til hjálpar. Og það er svo gert á þennan sérkennilega hátt, sem lýsir sér nú í flutningi þessa frv.

Í frumræðu sinni um málið sagði hæstv. forsrh. nokkur orð um ástand efnahagsmálanna, eins og það hefði verið, þegar viðreisnarstefnan hófst. Og hann, eins og frsm. meiri hl, í fjhn., sagði, að nauðsynlegt hefði verið að taka upp hina nýju stefnu viðreisnarinnar, m.a. vegna þess, að atvinnuvegir landsins hafi á tímabilinu þar næst á undan þróazt í svo óheppilegan farveg. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh. eða frsm. meiri hl. í fjhn., sem var Davíð Ólafsson, sem jafnframt er fiskimálastjóri landsins og þekkir því talsvert mikið til varðandi þýðingarmesta atvinnuveg þjóðarinnar: Að hvaða leyti hafði þróunin verið óheppileg, þróun atvinnumála á Íslandi, t.d. á árabilinu frá 1956 og til 1960? Hvaða þættir uxu þá hér upp í íslenzku atvinnulífi, sem höfðu arðið akkar þjóðarbúskap til ills og hefur þurft að uppræta? Hvaða greinar voru þetta, sem blómguðust þá, sem uxu þá upp? Að hvaða leyti varð þróunin þá í atvinnumálum landsins óhagstæð þjóðhagslega?

Opinberar skýrslur sýna, að á þessu tímabili óx fiskiskipastóll landsmanna alveg sérstaklega mikið. Var það óheppileg þróun? Síldarverksmiðjur voru byggðar í þeim landsfjórðungum, þar sem þær voru ekki til áður, og einmitt þar sem aðalframleiðslan hefur orðið síðan? Var það áheppileg þróun? Skýrslur þær, sem Fiskifélagið m.a. gefur út, sýna, að það hefur aldrei verið meiri þátttaka í fiskveiðum og framleiðslustörfum okkar, miðað við þau atvinnutæki, sem þjóðin átti, heldur en á árunum 1957 og 1958. Nýting fiskiskipastólsins varð meiri og betri þá en hún hefur orðið síðan. Frystihús landsmanna voru þá miklu betur nýtt og framleiðslan varð meiri hjá þeim. Við fluttum þá minna út úr landinu af óunnum fiski en við gerum nú. Við unnum meira af honum. Mig langar til að fá að vita það, m.a. frá fiskimálastjóra og auðvitað hæstv. forsrh. líka, hvað það var í þróun atvinnuveganna, sem var svona óhagstætt upp á verðmætasköpun í landinu. mínum augum er það svo, að það er nákvæmlega sama, hvort litið er til landbúnaðar eða sjávarútvegs, þá átti sér stað á þessum tíma mjög þýðingarmikil og gagnleg þróun í rétta átt. Hitt er svo allt annað mál, hvort það fyrirkomulag, sem í gildi var varðandi ýmsar greiðslur eða skráningu á gjaldeyrinum, var til frambúðar eða var það æskilegasta að öðru leyti. Hinu verður ekki neitað, hvernig staðreyndirnar liggja fyrir um vöxt atvinnutækjanna og notkun atvinnutækjanna og þjóðarframleiðslunnar. Og við vitum það einmitt, að sá grundvöllur, sem lagður var í þessum efnum einmitt á þessum árum, árunum áður en nýsköpunarstefnan kom til, það er einmitt sá grundvöllur, sem byggt hefur verið á nú og skilar mestum árangri nú í verðmætasköpun hjá þjóðinni. Það hefði orðið stutt í síldveiðum okkar á árunum 1961—1962, ef við hefðum þá búið að sama fiskiskipaflotanum og við áttum á árunum 1955—1356, svo að við tökum það sem dæmi. Það hefði líka orðið heldur lítið um nýtingu veiðinnar, ef við hefðum staðið þar í sömu sporunum á árunum 1961—62 og við stóðum á árunum 1955—56. Nei, þróunin í þessum efnum var æskileg. Hún var heppileg. Á henni einmitt lifum við núna. Það er sannleikur málsins.

En menn eiga ekki að endurtaka einhvern svona frasa, sem einhver hefur sagt. Ég hef séð þennan frasa, frá hagfræðingunum, þeir hafa slöngvað þessu út fyrir nokkrum árum, að þetta hafi verið svo. Enginn þeirra hefur vitanlega getað svarað því, hvað bak við þennan frasa liggur. Það eina, sem ég heyrði, var það, það kom einhvern tíma fram hér á Alþingi, að þá hefðu verið í gildi reglur um sérstakar smáfiskuppbætur og af því hefðu menn auðvitað sótzt eftir því að veiða smáfiskinn, að því að hann var vel bættur, alveg sérstaklega. Þetta er auðvitað hlægilegt. Sérstaklega er það hlægilegt í augum þeirra, sem eitthvað þekkja hér til mála, ef þeir halda, að menn hafi gert út á smáfisk hérna á árunum, af því að það hafi verið hin hagstæðasta útgerð. Auðvitað var það þá eins og nú,að það var óhagstæðasta útgerðin.

Hæstv. forsrh. sagði, að fyrir viðreisnina hefði verið ráðizt í ýmsar framkvæmdir, sem hefðu gefið lítið í aðra hönd. Hvaða framkvæmdir var ráðizt hér í áður, t.d. á tíma vinstri stjórnarinnar, sem gáfu litið í aðra hönd, þannig að það þurfti að brjóta við blað og skipta um stefnu? Það er rétt, að það komi fram. Hæstv. forsrh. sagði, að þá hefði verið, fyrir tíma viðreisnarstefnunnar, skortur á erlendu lánsfé í landinu. En sagði ekki einmitt ríkisstj., að búið væri svo að segja að sökkva þjóðinni í botnlausar skuldir með því að taka of mikið af erlendum lánum? Allt stangast þetta hvað við annað. Þetta er auðvitað hrein fjarstæða. Það stóð ekkert á því á þessum tíma að fá erlend lán. Sannleikurinn var sá, að þá voru fjölmargir aðilar, sem óskuðu eftir því að fá að taka erlend lán, t.d. til fiskiskipakaupa, en þeim var beinlínis neitað um að taka þessi erlendu lán, vegna þess að þá ríkti sú stefna, að við ættum í aðalatriðum að borga þann innflutning, sem væri til landsins á hverju ári. En nú hefur verið hafður allt annar háttur á þessum efnum, því að nú hefur verið leyft að flytja inn almennar nautnavörur, sem étast upp á stuttum tíma, og þær hafa verið teknar að láni líka. En þau lán hafa svo bara ekki verið talin með í almennu uppgjöri á því, hvernig ástatt væri í landinu.

Þegar kom að síðari gengislækkun ríkisstj. í ágústmánuði 1961, sagði hæstv. forsrh., að sú gengislækkun hafi verið alveg óhjákvæmileg vegna of mikilla kauphækkana, því að útflutningurinn hefði ekki getað risið undir þessari kauphækkun. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig stóð á því, að þessi gengislækkun, sem þá var samþykkt, var framkvæmd með þeim hætti, að ríkisstj. tók 150 millj. kr. af útflutningnum í sérstakan skatt sem beinan gróða af gengislækkunarráðstöfununum? Það lágu hér fyrir birgðir í landinu af útflutningsvörum, sem auðvitað áttu að hækka í krónum talið eftir hina nýja gengisskráningu, og auðvitað var ekkert einfaldara en annaðhvort að hafa gengislækkunina minni og láta útflutninginn hafa þennan hagnað eða þá láta útflutninginn hafa allan hagnaðinn, ef hann virkilega þurfti á því að halda. En ríkisstj. framkvæmdi gengislækkunina þannig, hafði hana svo mikla, að ríkissjóður græddi 150 millj. beint á gengislækkuninni, tók þessa upphæð og skákaði henni í sérstakan sjóð. Þetta eitt út af fyrir sig sannar algerlega, að það var engin þörf af efnahagslegum ástæðum fyrir gengislækkunina í ágúst 1961.

Það, sem verst er af öllu við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að mínum dómi það misrétti, sem frv. felur í sér, og sú réttindasvipting, sem í frv. felst. Eins og ég hef bent á, er beinlínis gert ráð fyrir því að mismuna launasamtökunum í landinu. Einum er leyft það, sem öðrum er bannað í algerlega hliðstæðum tilfellum. Þetta una menn aldrei við. Svo er hitt, að það er engin von til þess, að launþegasamtökin í landinu geti sætt sig við það, að undirstöðuréttindi þeirra séu skert á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem er samningsrétturinn og verkfallsrétturinn. Hæstv. ríkisstj. hefur auðvitað líka séð, hvernig málinu er tekið. Hún hefur þegar heyrt allmikið af því. Hún hefur fengið mótmæti úr öllum landshlutum frá tugum félaga, og ég trúi því varla, að það knýi ríkisstj. ekki til umhugsunar um málið, þegar hún fær mótmæli skipti eftir skipti frá þeim aðilum, sem hún veit að hafa verið hennar stuðningsmenn.

Ég ætla, að ríkisstj. hafi t.d. veitt því athygli, að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur nýlega gert einróma samþykkt um mótmæli gegn frv. Þar er um að ræða mótmæli, eins og ég segi, frá ýmsum landsþekktum stuðningsmönnum stjórnarinnar, sem verið hafa. Ég þori ekki að kalla þá stuðningsmenn hennar lengur. En getur það verið, að ríkisstj. veiti þessu ekki athygli, að hún fari ekki að hugsa sinn gang, þegar hún sér, að málin snúa svona við? Hefur ekki ríkisstj. misreiknað sig í þessu dæmi? Er hún ekki að sjá það núna, að hún hefur gert rangt? Og væri nú ekki hyggilegast að fara að þeim ráðum, sem ég ráðiagði hæstv. ríkisstj. hér við 1. umr. málsins, að hún endurskoði þessa ákvörðun sína og hætti við að láta lögfesta þetta frv., hún beygi af og setjist að samningaborðinu með fulltrúum launþegasamtakanna í landinu, eins og henni var boðið upp á, áður en hún flutti frv., og reyni á þann hátt að finna lausn á þeim vanda, sem við er að glíma, á þann eina hátt, sem framkvæmanlegur er? Ríkisstj. verður að átta sig á því, að sú stefna hennar að ætla að leysa efnahagsvandamálin án þess að hafa samkomulag um lausnina við launþegasamtökin í landinu er röng. Það er einmitt þýðingarmesta atriðið fyrir ríkisstj. að ná samkomulagi við þessi stóru stéttasamtök. (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann, hvort hann geti lokið ræðu sinni á fáum mínútum eða óski frekar eftir því, að henni verði frestað.) Ekki á fáum mínútum, það mundi taka líklega hálftíma. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar gert hér nokkuð að umtalsefni ýmislegt af því sem fram hafði komið fyrr í þessum umr. af hálfu ríkisstj. En ég hafði ekki lokið að fullu og öllu að svara því, sem fram hafði komið í ræðum ráðh., og mun nú halda áfram, þar sem frá var horfið.

Ég veitti því athygli, að í umr. á föstudaginn lagði hæstv. dómsmrh. nokkra áherzlu á það, að vissulega væri hér við mikinn vanda að glíma í efnahagsmálum landsins. En hann sagði, að í rauninni ættum við öll við þennan vanda að glíma, þetta væri ekki vandi ríkisstj. einnar, heldur allra landsmanna, og hliðstæð vandamál hefðu legið fyrir þjóðinni æðioft áður á undanförnum árum. Hann vildi svo halda því fram, að ríkisstj. ætti ekki meiri sök á þessum vanda en ýmsir aðrir aðilar í landinu. Það skal játað með hæstv. dómsmrh., að vissulega stöndum við hér allir á Alþingi frammi fyrir þessu vandamáll. Vandamálið er auðvitað ekki ríkisstj. einnar, það er rétt, að við höfum stundum áður þurft að glíma við nokkuð hliðstæð vandamál í efnahagsmálum. En til þess að einhver leið eigi nú að verða út úr vandamálunum, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvaða orsakir liggja til vandans. Það er engin leið til þess að skapa samstöðu um það, sem gera á til lausnar vandamálinu, ef ekki tekst að átta sig á því sameiginlega, hvað er, sem veldur vandamálinu. Og hvers vegna er þessi vandi svo mikill nú í dag í okkar efnahagsmálum?

Eins og bent hefur verið á hér áður, er ekkert um hað að deila, að síðustu ár hafa verið mjög hagstæð fyrir þjóðarbúið sem heild. Árið 1961 var mikið framleiðsluár, útflutningsvörur þjóðarinnar fóru mjög hækkandi í verði og verð á innfluttum vörum lækkaði einnig, svo að viðskiptakjörin voru sérstaklega hagstæð. Árið 1962 varð þó framleiðslan enn þá meiri en árið 1961 og tekjuöflun þjóðarinnar sem heildar var enn þá meiri en hún hafði nokkurn tíma áður orðið á einu ári. Og ég hygg, að allir játi, að árið í ár, það sem af því er, hefur verið mjög hagstætt framleiðsluár. Og það er játað af ríkisstj., að enn þá standa málin þannig, að aðalútflutningsvörur þjóðarinnar fara fremur hækkandi í verði heldur en hitt. Þegar svona stendur á, er a.m.k. ekki hægt að kenna árferðinu um eða því, að lítið hafi aflazt. Orsakanna er ekki að leita þar. En liggur þá ekki beinast við að halda, að sú stjórnarstefna, sem gildandi hefur verið, sem mörkuð hefur verið af ríkisstj. nú um 4 ára skeið í þessu góðæri, sé eitthvað röng, fyrst útkoman er þessi, að við stöndum í þessum miklu vandamálum? Er ekki eitthvað bogið við stefnuna? Ég veit, að ríkisstj. segir, að fólkið í landinu hafi heimtað of mikið, launastéttirnar hafi tekið of hátt kaup, kaupgetan hafi reynzt of mikil. En þá kemur hin spurningin: Er mögulegt fyrir ríkisstj. að halda áfram völdum í landinu, ef hún getur ómögulega sansað landsmenn á þennan hátt, að þeir verði að láta sér nægja það, sem hóflegt er, ef ríkisstj. getur ekki komizt að neinu eðlilegu samkomulagi t.d. við launþegana í landinu? Verður það ekki að vera grundvöllur að stjórnarstefnu, að ríkisstj. geti haft vald á þýðingarmestu málum þjóðarinnar, að hún geti verið svo mikið í takt við þjóðina, að hún fallist þó a. m. k. á lágmarksráðstafanir í þýðingarmestu málum? En nú slendur sem sagt ríkisstj. frammi fyrir því, að svo að segja allir launþegar í landinu segja: Við erum óánægðir með það, sem okkur er skammtað. Við álitum, að við eigum rétt á hærri launum. Verðlagið í landinu hefur þróazt þannig, að við teljum, að við þurfum að fá hækkað kaup. En ríkisstj. virðist samt halda sig við að segja: Þetta er rangt hjá öllum launþegum landsins, þeir hafa ekki ástæðu til að taka sér svona mikið kaup þrátt fyrir þá verðlagsþróun, sem verið hefur í landinu.

Ég er fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um það, að í þessum efnum er ríkisstj. að stangast við staðreyndir. Hún getur ekki neitað launþegum í landinu um rétt til hækkaðs kaups, á meðan beinar stjórnarráðstafanir leiða til þess, að dýrtíðin í landinu eykst. Ríkisstj. veit, að tvennar gengislækkanir á s.l. 4 árum hafa vitanlega leitt til stórhækkandi verðlags. Hún veit líka, að nýir söluskattar, sem hún hefur lagt á, hafa leitt til hækkandi verðlags. Ríkisstj. veit, að hinir háu vextir, sem hún hefur ákveðið sem einn lið í sinni stjórnarstefnu, hafa leitt til hækkandi verðiags. Og ríkisstj. veit líka mætavel, að stefna hennar í verðlagseftirlitsmálum og verðlagningarmálum hefur leitt til þess, að álagningin hefur hækkað og þjónustukostnaður milliliðanna hefur farið vaxandi. Þetta allt hefur leitt til þess, að dýrtíðin hefur aukizt, og kröfur launastéttarinnar koma svo á eftir um hækkað kaup.

Mér finnst, að þetta liggi svo augljóslega fyrir, að það sé útilokað, að ríkisstj. reyni lengur en orðið er að neita þessum staðreyndum, að hún hljóti að verða að viðurkenna þetta, að leiðir hennar í efnahagsmálum hafa leitt til svo vaxandi dýrtíðar, að kallað hefur beinlínis á hækkandi kaup á móti, og þar í liggur höfuðvandinn. Ég vil því segja, að það er þungur áfellisdómur, svo að ég noti orð hæstv. dómsmrh., — það er þungur áfellisdómur, sem hlýtur að vera kveðinn upp yfir stjórnarstefnunni, að nú mitt í góðærinu skuli vera svona komið eftir fjögurra ára viðreisnarstefnu, að ríkisstj. stendur frammi fyrir meiri og alvarlegri vandamálum en hún stóð frammi fyrir í upphafi tímabilsins. Það er þungur áfellisdómur yfir þessari stefnu.

Það er svo aðeins að lemja höfðinu við steininn að skilja undirtektir launþegasamtakanna í landinu við þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., á þann hátt, að vissir forustumenn í samtökum launþega séu að misnota launþegasamtökin til að vera á móti þessu frv. Frsm. meiri hl. fjhn. viðhafði þessi orð hér í umr. nú í dag, að forseti Alþýðusambandsins væri að misnota þau samtök og hann beitti sér nú fyrir því, að forustumenn verkalýðsfélaganna í landinu snerust öndverðir gegn þessu frv. ríkisstj. Hér er um mikinn misskilning að ræða. Auðvitað láta forustumenn verkalýðsfélaganna um allt land og annarra launþegasamtaka í landinu engan einn mann skipa sér neitt fyrir eða segja sér neitt fyrir. Staðreyndin er hins vegar sú, að fólkið í launþegasamtökunum, það er það, sem rís upp og neitar fyrir sitt leyti að fallast á stefnu þá, sem ríkisstj. er nú að reyna að knýja fram í þessu frv. Og eins og hér hefur verið bent á áður, kemur greinilega fram, að það ern ekki aðeins pólitískir andstæðingar núv. ríkisstj., sem standa að þessum mótmælum öllum, heldur eru það einnig ýmsir þeir, sem hingað til hafa verið taldir dyggir stuðningsmenn stjórnarstefnunnar. Ríkisstj, á því að skilja þessi mótmæli, sem nú berast úr öllum áttum, hún á að skilja mótmælaaðgerðirnar, sem líka birtast úti á vinnustöðunum, og hún á að taka tillit til þeirra á eðlilegan hátt. Stjórnin bætir á engan hátt sína stöðu með því að neita þessum staðreyndum.

Ég hafði sagt hér áður í þessum umr., að mér sýndist enginn vafi leika á því, að hugmyndir ríkisstj. væru þær að festa ekki aðeins kaupgjaldið eins og nú er í dag um tveggja mánaða tímabil, meðan málið væri til athugunar, heldur væri ætlunin sú, að festa kaupgjaldið, eins og það nú er, um lengri tíma. Mér sýnist líka, þegar ég les yfir nál. meiri hl., að þar séu tekin af öll tvímæli í þessum efnum. Í nál. segir m.a. orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanfarið hafa þeir atburðir gerzt, að kröfur hafa komið fram um miklar kauphækkanir og vinnustöðvanir verið boðaðar. Augljóst er, að ef orðið yrði við þeim kröfum, þótt ekki væri nema að hluta, væri hætt við því, að ókleift reyndist að leiðrétta það misræmi, sem skapazt hefði, án þess að breyta genginu:

Þótt ekki væri nema að hluta. Það er sem sagt alveg greinileg áherzla á því, að það má ekki verða við þessum kaupkröfum, ekki einu sinni að litlum hluta. Ef bað yrði gert, þá er gengislækkunin óhjákvæmileg. Mér sýnist, að þetta ásamt öðru, sem ég hef hér tilfært áður, sýni, svo að ekkert er um að villast, að hugmyndir ríkisstj. í dag eru þær að binda kaupið eins og það nú er, með öllu því misrétti, sem þar er ríkjandi, binda það ekki aðeins í tvo mánuði, heldur binda það við þetta stig áfram. En þetta er, eins og ég hef sagt, með öllu útilokað. Við þetta fær ríkisstj, ekki staðið. Hún getur ekki framkvæmt þessa stefnu. Hitt er svo aftur annað mál, hvort leikurinn er gerður til að leggja fram þessar óviturlegu till., búast jafnvel fyrir fram við því, að þær verði sigldar um koll af því fólki, sem vill ekki sætta sig við slik ólög, ag þegar staðreyndin liggur fyrir, að ekki verður farið eftir þessum till. í framkvæmd, þá eigi að snúa við blaðinu og segja: Nú er ekkert nema gengislækkunin eftir, og nú verðum við því miður að samþykkja gengislækkunina. Og það er auðvitað þeim að kenna, sem hrutu niður okkar ágætu lög.

E.t.v., segi ég, er þetta tilgangurinn. Ég veit það ekki. En það er sitt hvað, sem beinlínis bendir til þess, að svona sé málið hugsað. En sé það ekki, held ég, að málið sé komið nægilega langt áieiðis til þess, að ríkisstj. ætti að læra af því, sem fram er komið í málinu, og snúa til baka aftur, láta ekki samþykkja þetta óviturlega frv., en snúa sér að því að ná samkomulagi við launastéttirnar í landinu um kaupið og nauðsynlegustu ráðstafanir í efnahagsmálunum. Ríkisstj. á þennan möguleika enn. Það er hægt að leysa málið á þennan hátt.

Mig langar svo að lokum að minnast hér á nokkur atriði, sem ég álit að gera ætti í efnahagsmálunum, eins og sakir standa nú.

Í fyrsta lagi álít ég, að skipta eigi um stefnu í þessum málum hvað það snertir, að ríkisstj. eigi að ganga til samninga við launþegasamtökin í stað þess að ætla að reyna að leysa málin án alls samkomulags. Þetta er fyrsta atriðið, sem menn þurfa að vera sáttir um af nýrri stefnu. Mér er það alveg ljóst, að samkomulag við launþegasamtökin, eins og málin standa nú, tekst ekki nema á þeim grundvelli, að kaup hinna lægst launuðu verði eitthvað hækkað. Það er alveg útilokað annað.

Í öðru lagi mundi ég segja, að gera ætti nokkrar ráðstafanir til að bæta hag útflutningsframleiðslunnar, sem stendur höllustum fæti í dag, og gera henni kleift að taka á sig talsverða kauphækkun. Þetta er hægt t.d. með eftirtöldum ráðstöfunum :

Það er hægt í fyrsta lagi að lækka útflutningsgjöldin á sjávarafurðum úr 7.4%, sem þau eru nú, t.d. niður í 2.4%, eða í svipaða hæð og þau voru um langan tíma. Á þennan hátt væri hægt að létta af útflutningsframleiðslunni skatti, sem nemur 6% af útflutningsverðinu. Miðað við útflutninginn, eins og hann er nú, má reikna með, að þetta nemi í kringum 200 millj. kr. Ég hygg, að útflutningurinn fari nú að nálgast um 4000 millj. Ég veit, að sagt verður: Nú gengur þessi skattur að talsvert verulegu leyti í sérstakan vátryggingarsjóð fiskiskipa, og þannig rennur þetta núna til útgerðarinnar aftur, þessi skattur. — En ég tel, að það eigi að taka upp nýtt kerfi, og um það höfum við Alþb.-menn flutt till. áður, en það er í meginatriðum þannig, að ríkið á að taka í sínar hendur vátryggingarnar á öllum fiskiskipastólnum og það á að ákveða tiltölulega lág iðgjöld þar, ekki hærri en 2%, eða svipuð iðgjöld og eru gildandi hjá fiskibátaflotanum í Noregi. Og við eigum að hafa vátryggingarkjörin í höfuðatriðum svipuð og þar gilda. Það er hugsanlegt, að það yrði í byrjun einhver halli á þessari tryggingastarfsemi á vegum ríkisins, en þá verður bara að greiða hann til að byrja með af almannafé. En ég hygg, að miklar líkur standi til þess, að hægt verði að reka þessar tryggingar án nokkurrar meðgjafar. Það væri mjög eðlilegt, að ríkissjóður tæki þarna á sig talsverða áhættu, þannig að vátryggingarupphæðin yrði ekki öll endurtryggð. Ég hygg, að hægt væri á þennan hátt að aðstoða veikasta þáttinn í útflutningnum allverulega.

Í öðru lagi á að aðstoða útflutninginn með því að lækka vextina, og alveg sérstaklega á að lækka vextina á afurðalánum mikið frá því, sem nú er. Það er engin ástæða til þess að hafa vextina á afurðalánum hærri en t.d. 21/2—3%. Með slíkum vaxtakjörum væri Seðlabankanum fyllilega borgið, hann væri ekki í neinni hættu, enda er það margviðurkennt, m.a. af efnahagssérfræðingum ríkisstj.., að þetta er framkvæmanlegt, fyllilega framkvæmanlegt. Einu rökin, sem færð voru fram á móti þessari miklu vaxtalækkun, voru þau, að afleiðingin mundi verða sú, að afurðalán landbúnaðarins mundu njóta þessarar vaxtalækkunar líka. En það er ekkert stórmál, þó að landbúnaðurinn fengi að njóta þessarar vaxtalækkunar líka, og breytir engu um afkomu Seðlabankans. En almenn vaxtalækkun mundi vera mikill stuðningur fyrir sjávarútveginn sem heild, því að þar með mundu stofnlán öll verða á hagstæðari kjörum en þau eru nú og rekstrarlán líka, en auk þess mætti svo lækka vextina á afurðalánum enn meir.

Í þriðja lagi má fella niður tolla á ýmsum rekstrarvörum útgerðarinnar, og það er síður en svo nokkuð óeðlilegt, það er fyllilega í samræmi við það, sem er hjá flestum öðrum þjóðum varðandi einmitt þau kjör, sem útflutningsatvinnuvegirnir þar búa við.

Í fjórða lagi væri svo að mínum dómi nauðsynlegt til stuðnings útflutningsframleiðslunni að breyta allverulega um stefnuna í markaðsmálum. Það á ekki að knýja útflutningsframleiðsluna eins mikið inn á óhagstæða markaði og nú er gert.

Þessar ráðstafanir, sem ég hef bent á, og vissulega mætti telja hér upp miklu fleiri, gætu allar gagnað útflutningsframleiðslunni allverulega, enda hafa útgerðarmenn sjálfir bent á allar þessar till.

Í þriðja lagi tel ég, að breyta eigi um stefnu í efnahagsmálum frá því, sem nú er í þeim efnum, og taka ákveðna stjórn á innflutningsmálunum og stjórn á fjárfestingarmálunum. Það verður að hafa fullkomið vald á því, að innflutningur til landsins hverju sinni verði ekki úr hófi fram eða óeðlilega mikill af ýmsum þeim vörum, sem þjóðinni er engin þörf á að eyða gjaldeyri sínum í. Stjórnin á fjárfestingarmálunum er þó enn þá nauðsynlegri, því að það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að það geti verið á valdi peningamannanna í landinu fullkomlega, í hvaða fjárfestingu ráðizt er hverju sinni. Lítið þjóðfélag eins og okkar þolir þetta ekki undir neinum kringumstæðum.

Það var verið að skýra frá því nú fyrir stuttu, að ýmsir áhugasamir peningamenn hefðu myndað með sér félag til að kaupa eitt flutningaskip enn þá í hópinn. Þetta varð af sérstökum ástæðum nokkuð sögulegt, hvernig þetta gekk fyrir sig, og ætla ég ekki að fara út í það. En þetta gera þessir áhugasömu menn á þeim tíma, þegar talið er af öðrum, sem reka þessa starfsemi, að við höfum nægilega mikið af skipum til að annast okkar flutninga. En ég vil bæta því við, að það voru engar hömlur í gildi í dag í fjárfestingarmálum okkar Íslendinga, sem hefðu komið í veg fyrir, að þarna hefði ekki verið um einn hóp að ræða, eins og var, þeir hefðu alveg eins getað verið 10, þeir hefðu getað skrapað saman fé og slegið svo út úr bönkum hér og þar viðbótarfé til þess að kaupa ný flutningaskip. Það voru engar reglur, sem bönnuðu þetta. Þeir gátu gert þessa ráðstöfun. Auðvitað hefði þetta ekki verið neinn happafengur fyrir rekstur okkar þjóðarbús. Þetta hefði verið röng ráðstöfun, óheppileg, líklega leitt til hækkandi flutningsgjald almennt séð í landinu. En afrek eins og þetta gætu gerzt í því stjórnleysisástandi, sem nú er ríkjandi hjá okkur, og þetta og margt fleira sýnir okkur, að við þurfum einmitt að hafa ákveðna og fasta stjórn á fjárfestingarmálunum. Þessi sjálfvirku ráð efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar nú, sem í gildi eiga að vera, reynslan hefur sýnt, að þau duga ekki.

Í fjórða lagi tel ég, að lækka eigi vexti almennt hér í landi, og það kæmi auðvitað fleirum til góða en bara útflutningsframleiðslunni, sem ég minntist á áðan. Almenna vaxtalækkun á að samþykkja, og hún kæmi að verulega miklu ragni varðandi verðlagsmálin almennt.

Í fimmta lagi á að gera ráðstafanir í húsnæðismálum, til þess að hægt sé hér á landi að lána út nokkurt fé til íbúðarhúsabygginga með ekki hærri vöxtum en 2—3% og þar sem lánstíminn væri 50–60 ár. Með því að gera slíkar ráðstafanir, þá værum við að gera hliðstætt og nágrannar okkar í Noregi og Danmörku hafa gert löngu áður. Og við eigum auðvitað að gera ákveðnar ráðstafanir til þess, að tiltekinn hluti af sparifjármynduninni á hverjum tíma gangi til íbúðarhúsabygginga. Ef slíkar ráðstafanir væru gerðar, sem auðvitað kosta nokkurt fé, og kann að vera, að ríkissjóðurinn yrði þar nokkuð að hlaupa undir bagga í byrjuninni, þá er enginn vafi á því, að við stefndum í áttina til þess að lækka húsnæðiskastnaðinn, og þar með gerðum við kleift að bæta lífskjör launþega í landinu án beinna kauphækkana að verulegu leyti.

Í sjötta lagi tel ég, að gera eigi sérstakar ráðstafanir til að lækka hið almenna vöruverð í landinu, eða a.m.k. ráðstafanir, sem þýddu, að vöruverðið þyrfti ekki að hækka eins og allt stefnir að nú. Þessar ráðstafanir gætu verið fólgnar í því í fyrsta lagi að fella niður 3% söluskattinn, a.m.k. á öllum þeim vörum, sem eitthvað telja í daglegri lífsframfærslu almennings. Hitt skiptir minna máli, þó að þessi skattur héldi áfram að hvíla á ýmsum minna nauðsynlegum varningi, sem gengur kaupum og sölum í landinu. En það á að aflétta þessu gjaldi á öllum nauðsynjavörum. Það á t.d. að hætta að innheimta þennan 3% skatt af fiskmeti, sem menn borða daglega hér á landi. Slíkt nær vitanlega engri átt, að ætla að nota þann fisk, sem menn kaupa sér daglega í matinn, sem einhvern skattstofn fyrir ríkissjóð. Söluskatturinn mun gefa nú í kringum 300 millj. kr. eða þar um bil. Ég geri ráð fyrir því, að niðurfelling .þessa skatts gæti þýtt tekjutap fyrir ríkið upp á 200 millj. kr. Það má vel vera. í öðru lagi þá álít ég, að það sé hægt að lækka vöruverð í landinu með því að lækka tolla allverulega á brýnustu lífsnauðsynjum líka. Þær á ekki að tolla neitt verulega. Þetta er hægt, það mundi auðvitað þýða einhverja tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð, en það er hægt að bæta þá tekjuskerðingu á annan hátt. Í þriðja lagi á svo að gera beinar ráðstafanir til þess að skera niður álagninguna í heildsölu og í ýmsum tilfellum einnig í smásölu, þannig að álagningin sé alls ekki hærri en hún var um það leyti, sem hér var í gildi sæmilegt verðlagseftirlit. En álagningin hefur einmitt verið hækkuð í tíð núverandi ríkisstj, í mörgum greinum. M.a. álít ég, að það eigi að færa niður aftur þá flutningsgjaldahækkun, sem hefur verið að ganga í gildi nú síðustu dagana.

Það er rétt, ríkið mundi tapa einhverjum tekjum við ráðstafanir eins og þessar, en það er hægt að bæta ríkinu þetta upp. Í fyrsta lagi er þess að geta, eins og ég hef minnzt hér á áður í þessum umr., að afkoma ríkissjóðs er mjög góð. Þar er um beinan tekjuafgang að ræða. Allmyndarlegur afgangur var frá árinu 1962, og enn þá meiri afgangur verður frá þessu ári. Það sýnir, að ríkið hefur tekið of mikla tolla, of mikinn söluskatt, haldið uppi óþarflega háu verðlagi. En auk þess nefur svo ríkið möguleika til að fá inn miklu meiri tekjuskatt samkv. gildandi tekjuskattslögum en innheimtur er nú, ef eðlilegt skattaeftirlit væri ríkjandi í þessu landi. Það hefur margsinnis verið bent á það, m.a. af ýmsum þekktustu hagfræðingum landsins, að það mundi skipta mörgum hundruðum milljóna króna af sannanlegum tekjum manna í landinu, sem fer fram hjá skattaeftirliti ríkisins. Ég man ekki annað betur en hér á Alþ. nefndi m.a. núverandi hæstv. viðskmrh. í þessu sambandi einu sinni 500 millj. kr., og hef ég þó heyrt annan hagfræðing nefna enn þá hærri tölur.

Á því leikur enginn vafi, að ýmsar greinar rekstrarins í landinu búa við þá aðstöðu samkv. skattalögum, að þar eru möguleikar á að skjóta undan framtölum verulegum tekjuupphæðum. Eftirlitið í þessum efnum er sáralítið. Með því að herða á þessu eftirliti mundu koma fram miklu meiri tekjur en nú koma fram, og tekjur ríkisins af beinum sköttum mundu þannig fara verulega hækkandi og gætu þannig jafnað upp að nokkru leyti tekjuskerðingu, sem ríkið yrði fyrir, með því að lækka toll af nauðsynjavörum og með því að fella niður 3% söluskattinn á nauðsynjavörum.

Auk þess tel ég svo, að ríkið gæti hæglega skapað sér auðveldan tekjustofn með því að taka í sínar hendur verzlun með ýmsar þær vörur, sem teljast lúxusvörur eða lítt þarfar vörur og tvímælalaust gefa nú mikinn gróða í aðra hönd. Við skulum t.d. taka alla gosdrykkjaframleiðslu í landinu og sölu á gosdrykkjum. Það er enginn vafi á því, að í þessari grein er um stórkostlegan gróða að ræða. Mér var sagt, að nýlega hefði það verið upplýst, að tiltekið smágjald, sem er lagt á hverja gosdrykkjaflösku í landinu, sem seld er, en gjald þetta gengur til styrktar fávitum, hafi gefið um 17 millj. kr., þetta tappagjald, aðeins tappagjaldið eitt. Það er enginn vafi á því, að ef ríkið tæki í sínar hendur sölu á þessari vöru og hirti þar allan þann gróða, sem nú gengur í vasa milliliða, þá væri þar um álitlegan tekjustofn að ræða. Og það eru ekki aðeins gosdrykkjavörurnar, heldur mætti bæta við þennan hóp fjöldamörgum öðrum vörutegundum, sem auðvelt væri fyrir ríkið að hirða hagnaðinn af. Vandinn er því ekki fólginn í því að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi, sem hann kynni að verða fyrir á því að létta nokkuð tollum af nauðsynjavörum eða söluskatti af nauðsynjavörum. En með því að vinna í þessa átt, þá mætti, eins og ég segi, lækka nokkuð vöruverð í landinu, en það mundi að sjálfsögðu jafngilda kauphækkun fyrir launþega í landinu almennt.

Í sjöunda lagi tel ég, að breyta eigi um stefnu frá því, sem verið hefur, að því leyti til, að sjá þurfi um, að bankakerfið allt í landinu sé notað skipulega til að stuðla að eðlilegri uppbyggingu á framleiðsluatvinnuvegunum, alveg sérstaklega útflutningsframleiðslunni, að fjármagni í bönkunum sé beint til hags fyrir útflutningsframleiðsluna til að örva þannig framleiðsluna og bæta þar með hag þjóðarinnar sem heildar, og auk þess eigi svo að heita bankakerfinu skipulega að því að leysa t.d. húsnæðisvandamálin, svo brýn sem þau eru. Núna er bankastarfinu ekki beitt að mínum dómi í þessa átt. Þessar sjálfvirku stjórnaraðgerðir, sem eiga að vera í gildi eftir viðreisnarkenningunni, verka svona eins og ég hef bent á áður í þessum umr. Þær verka þannig, að bankarnir halda áfram í auknum mæli að dæla peningum til verzlunarinnar. Það sýna reikningar bankanna sjálfra, svo að því verður ekki neitað. En það að dæla sífellt meira og meira fjármagni til verzlunarinnar, það eykur ekki framleiðsluverðmæti þjóðarinnar á nokkurn hátt, en þvert á móti truflar margt í okkar efnahagsmálum.

Ef horfið væri að því ráði, sem ég hef nú drepið hér á í nokkrum orðum og talið hér upp, þá væri að mínum dómi skipt hér um stefnu í grundvallaratriðum og þá væri hægt að komast að verulegu leyti út úr þeim vanda, sem við erum að fást við nú í okkar efnahagsmálum. En grundvallaratriðið er það, að ríkisstj. viðurkenni, að það þarf að skipta um stefnu og að hún þarf að reyna að ná samkomulagi við launastéttirnar í landinu um lausn á þessum vandamátum. Leið hennar, sem hún hefur farið allan tímann, að ætla að leysa þetta gegn vilja launastéttanna og þvert gegn hagsmunum þeirra, slíkar leiðir fá ekki staðizt í framkvæmd. Það er aðeins spurningin um það, hvað það tekur langan tíma að hleypa þessu öllu í slíkan hnút, að hann verði ekki leystur og það verði að höggva á hann. Og satt að segja sýnist mér málið standa þannig í dag, að ríkisstj. sé rétt að komast að þeim punkti, að hún fái ekki lengur haldið áfram á þessari alröngu braut, hún sigli sig í þá sjálfheldu, þegar svo að segja öll launþegasamtökin í landinu rísa upp og neita að hlíta stefnu stjórnarinnar — og þar með ýmsir stjórnarstuðningsmenn líka, — þá sigli hún sig inn í þá sjálfheldu, að hún eigi enga aðra leið út úr þessu en að gefast hreinlega upp eða höggva á hnútinn, sem vitanlega er engin lausn.

Eina leið stjórnarinnar, úr því sem nú er komið, er þetta: Að játa nú staðreyndir í þessum efnum, fallast á það að draga þetta frv. til baka, af því að hún hlýtur að sjá það nú þegar í dag, að hún leysir ekki vandann eftir þessari leið, og taka upp þá stefnu, sem þýðir vinsamlega stefnu við verkalýðssamtökin í landinu, stefnu um að leysa vandamálin með samkomulagi. Það er eina leiðin, sem til er fyrir hæstv. ríkisstj. út úr þeim vanda, sem nú er við að glíma.