04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (1829)

56. mál, launamál o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Af hálfu hæstv. ráðh. hefur ýmislegt komið fram í þess um umr., sem ástæða væri til að gera aths. við og ég mun líka víkja nokkuð að seinna. En áður en ég kem að því, sem verður aðalefni máls míns, finnst mér rétt að víkja að tveim atriðum alveg sérstaklega, sem mér finnst vera gott dæmi um þær furðulegu fjarstæður, sem hæstv. ráðh. hafa haft frammi í málflutningi sínum.

Fyrra atriðið er það, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., þegar hann mælti upphaflega fyrir þessu frv. Hann tók það fram, að þetta frv. væri sérstaklega flutt í þágu láglaunastéttanna. Ég held það sé nú ekki hægt að komast öllu lengra í fjarstæðum en þetta, því að eitt aðalefni þessa frv. er að synja láglaunastéttunum um bætur, sem aðrir eru búnir að fá. Þessu frv. er þess vegna fyrst og fremst beint gegn láglaunastéttunum. Samt kemur forsrh. hér fram og ein hans aðalfullyrðing er sú, að þetta frv. sé flutt í þágu launastéttanna. Hæstv, forsrh. hefur vissulega oft á sinni löngu stjórnmálaævi tekizt að vera æðilangt frá sannleikanum, en ég held, að hann hafi þó sett algert met í þeim efnum með þessum ummælum sínum.

Þá er það, sem hefur komið fram í ræðu hæstv. ráðherra, að þeir hafa verið að reyna að gera samanburð á þessu frv. og gerðardómslögunum, sem sett voru 1942. Finnst nú hæstv. ráðh., að ástandið í dag sé sambærilegt við það, sem var 1942? Muna hæstv. ráðh. ekki eftir því, að þegar gerðardómslögin voru sett í ársbyrjun 1942, þá stóð yfir einhver sú ægilegasta styrjöld, sem nokkru sinni hefur verið háð, og Ísland var þá á miðju styrjaldarsvæðinu. Við gátum átt von á því hvenær sem var þá, að flutningar til landsins eða frá landinu stöðvuðust, að framleiðsla stöðvaðist vegna þess, að það yrði gerð árás á landið. Hefði það verið ráðlegt undir þeim kringumstæðum, sem þá voru, að láta skip safnast í stórum stíl í höfninni í Reykjavík vegna verkfalla, í staðinn fyrir það að reyna að koma vörunum sem fyrst upp og dreifa þeim út um landið? Hefði verið eðlilegt undir þeim kringumstæðum að láta slíkt tefjast vegna stórra verkfalla?

Fjöldamargar þjóðir á þeim tíma, sem nokkuð svipað var ástatt um og okkur, gerðu margháttaðar ráðstafanir, tóku upp margháttuð boð og bönn, sem ekki þykja við eiga undir öðrum kringumstæðum. T.d. í Svíþjóð voru þá gerðar margháttaðar ráðstafanir og margháttuð bönn sett vegna styrjaldarinnar, sem engum dettur í hug að nefna nú. Það er þess vegna hin fullkomnasta fjarstæða að ætla að bera saman ástandið í dag með tilliti til verkfallsmála og ástandið, sem var hér á styrjaldarárinu 1942, þegar herveldi Þjóðverja stóð hæst og verst horfði hjá bandamönnum. Undir þeim kringumstæðum var óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að verkföll ættu sér stað. Við gátum ekki átt það á hættu þá, að samgöngur og framleiðsla stöðvaðist vegna verkfalla. Þær kringumstæður, sem nú eru í landinu, eru vitanlega allt aðrar og gefa enga slíka ástæðu til þess, að hamlað sé verkföllum, eins og styrjaldarástandið 1942 gerði. Þess vegna er það hin fullkomlegasta fjarstæða að vera að bera saman þessi tvö mál, gerðardómslögin 1942 og það frv., sem hér liggur fyrir, því að aðstæðurnar voru svo gerólíkar í þessi tvö skipti.

Mér þykir leitt, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera mættur hér, því að ég hefði gjarnan viljað vik,ja að honum nokkrum orðum vegna þeirrar ræðu, sem hann hélt hér í dag. Ég vissi það reyndar, að Alþfl. var djúpt sokkinn, en ég hafði samt ekki látið mér til hugar koma, að hann væri eins djúpt sokkinn og þessi ræða hæstv. viðskmrh. gaf tilefni til að halda. Sú var tíðin, að Alþfl. taldi það eitt af helztu baráttumálum sínum að koma á átta stunda vinnudegi. Ég hygg, að það sé óhætt að segja, að hann hafi talið það eitt af sínum allra fremstu baráttumálum, eins og bræðraflokkar hans á Norðurlöndum gerðu þá. En raunar eru þeir komnir langt fram úr í þessum efnum, því að nú er ekki lengur á Norðurlöndum barizt fyrir 8 stunda vinnudegi, heldur fyrir miklu styttri vinnudegi.

En hvað var það, sem hæstv. viðskmrh. hafði fyrst og fremst að segja, þegar hann kom hér upp í ræðustólinn í dag? Aðalboðskapur viðskmrh. var sá, að það væri hrein fjarstæða hjá framsóknarmönnum að vera með útreikning um það, að verkamenn ættu að hafa lífvænlega afkomu eftir vinnu í 8 klst. á dag. Það væri hrein fjarstæða að vera með þvílíka útreikninga. En það er staðreynd, sem ekki verður móti mælt, að verkamaður, Dagsbrúnarverkamaður, sem vinnur 8 klst. á dag alla virka daga ársins, hann ber ekki nema 67 þús. kr. úr býtum. Og þetta teljum við framsóknarmenn vera fjarri öllu lagi, eins og ástandi dýrtíðarmálanna er nú komið. En hæstv. viðskmrh. segir, að það sé hrein fjarstæða af okkur að halda slíku fram. Og hvers vegna telur hann fjarstæðu af okkur að halda slíku fram? Jú, hann segir, að niðurstaðan muni að öllum líkindum verða sú, að verkamenn muni bera úr býtum til jafnaðar á þessu ári um 100 þús. kr.

Ég skal ekki fara nánar út í þessa útreikninga hæstv, viðskmrh., en ég hygg, að það sé erfitt á þessum tíma, þegar tveir mánuðir eru eftir af árinu, að fullyrða nokkuð ákveðið um það, hverjar meðaltekjur verkamanna verða á þessu ári. En við skulum bara setja sem svo, að þessir útreikningar viðskmrh. séu réttir og verkamenn muni bera 100 þús. kr. úr býtum á þessu ári. En hvað þýðir það í vinnutíma? Það þýðir það, að verkamenn verði ekki aðeins að vinna 8 tíma á dag venjulegan dagtíma alla daga ársins, þeir verða líka að vinna 2 tíma í eftirvinnu alla daga ársins, og það nægir ekki heldur, heldur verða þeir að vinna einn klukkutíma í næturvinnu þriðja hvern virkan dag ársins. Eða m.ö.o., til þess að ná þessu kaupi, sem hæstv. viðskmrh. talar um, verða verkamenn að vinna 10—11 klst. á dag. Og það virðist vera þetta, sem hæstv. viðskmrh. þykir vafalaust sérstaklega hagstætt fyrir verkalýðinn og sé til fyrirmyndar, og það sé þetta ástand, sem eigi að haldast áfram, og þetta ástand muni haldast áfram, ef atvinna nægir, ef þetta frv. verður samþykkt. Það má því með nokkrum rétti segja, að þetta frv. sé að nokkru leyti frv. um að innleiða 10—11 stunda vinnudag hjá verkamönnum. Það er það, sem Alþfl. telur að sé forsvaranlegt að bjóða verkamönnum upp á í dag, eftir að hafa á undanförnum árum barizt fyrir því, að hér væri 8 klst. vinnudagur. Ég vissi, að Alþfl. var djúpt sokkinn, að hann var horfinn frá sínum fyrri stefnumálum, en mig hafði þó ekki órað fyrir því, að hann væri svona langt kominn í þeim efnum.

Þá fór hæstv. viðskmrh. nokkrum orðum um dýrtíðarvísitöluna eða framleiðsluvísitöluna, sem hagstofan reiknar út. Og hann sagði, að það væri alger fjarstæða, að þessir útreikningar væru miðaðir við það, sem meðalfjölskylda þyrfti að hafa til að lifa fyrir, hún væri fundin út á allt annan hátt. Og af því skildist manni, að þessar 95 þús. kr., sem hagstofan ætlar meðalfjölskyldunni, væru allt of hátt áætlaðar að dómi viðskmrh. Ég er reiðubúinn til að fara í gegnum framfærsluvísitöluna með hæstv. viðskmrh. og fá það upp hjá honum, hvaða liðir það eru í framfærsluvísitölunni, sem hann álíti vera of hátt áætlaða og hann álítur að meðalfjölskyldan gæti sparað sér. Ég verð að segja það, að hvað mig sjálfan snertir, þá treysti ég mér ekki til með mína fjölskyldu að lifa fyrir þær 95 þús., sem þar eru ætlaðar, og ég treysti mér ekki til að komast af með það, eins og þar er áætlað, að þurfa ekki að borga nema sem svarar 900 kr. á mánuði í húsaleigu. Og ég held, að þó að hæstv. viðskmrh. sé kannske miklu sparsamari en ég, þá mundi hann eiga mjög erfitt með að komast af fyrir sig og sína fjölskyldu með þessi 95 þús., sem framfærsluvísitalan ætlar meðalfjölskyldunni. Og mér sýnist, að á þeim launum, sem hann ætlar sjálfum sér á komandi ári, telji hann ekki, að þessar 95 þús. muni hrökkva. Ég held, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, að ef hæstv. viðskmrh. verður áfram í því starfi, sem hann gegnir nú, og heldur þeim bitlingum, sem hann gegnir nú, muni hans árslaun á næsta ári nálgast hálfa milljón, og ég sé ekki nein merki hjá honum um það, að hann ætli að afsala sér einhverju af þessari upphæð, þó að hann telji það vera ofrausn fyrir meðalfjölskylduna í landinu að lifa fyrir 95 þús. kr.

Ég sé svo ekki ástæðu að sinni að víkja fleiri orðum að hæstv. viðskmrh., vegna þess að hann er hér ekki staddur, en það gefst þá kannske tækifæri til að gera það siðar.

Ég mun þá næst víkja nokkru að hæstv. forsætisráðherra.

Mér fannst, þegar hæstv. forsrh. flutti hér sína framsöguræðu og eins þegar hann flutti hér sína svarræðu aðfaranótt laugardagsins, að hann væri að ýmsu leyti brattari og frískari en hann hefði oft áður verið á undanförnum þingum, og það væri jafnvel nærri því ástæða til að halda, að hann væri orðinn ungur í annað sinn. Ég held t.d., að það sé langt síðan hæstv. forsrh. hafi tekizt öllu betur á þinginu í svarræðu en aðfaranótt laugardagsins, þó að ég væri nú síður en svo sammála því, sem hann hafði þá að segja, en frá hans sjónarmiði var þetta ein með hans betri ræðum um langt skeið. Ég hef verið að velta því fyrir mér síðan, hvað muni valda því, að þessi breyting hefur orðið á hæstv. forsrh., að það bendi nú ýmislegt til, að hann sé eins og — a.m.k. þessa dagana — ungur í annað sinn. Mér hefur helzt dottið í hug í þessu sambandi sú skýring, sem oft er til um gamla menn, að þegar gamlir menn þykjast sjá fram á það, að þeirra æskuhugsjónir séu að rætast, þá verða þeir ungir í annað sinn. Og út frá þessu hef ég farið að rifja það upp fyrir mér með því að líta — að vísu lauslega — í Alþingistíðindin, hverjar þær voru þessar æskuhugsjónir hæstv. forsrh.

Það eru nú liðin um 40 ár, síðan hæstv. forsrh. tók sæti hér á Alþingi, og það er þess vegna ekki óeðlilegt að líta nokkuð aftur til þess tíma til að sjá, hvaða mál það voru, sem hæstv. forsrh. sem ungur þm. beitti sér fyrir, til að gera sér grein fyrir því, hverjar voru hans æskuhugsjónir. En það var nú þannig um hæstv. forsrh., þegar hann kom fyrst á þingið, að þó að hann væri alveg eins og nú, mjög vaskur og áheyrilegur ræðumaður, þá lét hann ekki svo mjög til sin taka á þessum fyrstu þingum. Hann hafði sig ekki neitt sérstaklega mikið í frammi og talaði ekki í mjög mörgum málum. Hann virðist ekki hafa tekið til máls í öðrum málum en þeim, sem voru honum sérstaklega hjartfólgin. Og hvaða mál voru það nú, sem hæstv. forsrh. voru sérstaklega hjartfólgin á þessum tíma og voru hans æskuhugsjónir? Jú, það gerðist á þessum árum t.d., að Héðinn Valdimarsson og fleiri þm. Alþfl. lögðu fram frv. um að banna næturvinnu, og þegar frv. kom fyrir þingið, þá fékk hæstv. forsrh. málið, og hann sagði, að það kæmi ekki til mála að banna næturvinnu, því að þetta væri einmitt sú vinna, sem verkamenn sæktust þá mest eftir. En af hverju ætli verkamenn hafi sótzt mest eftir næturvinnu á þessum tíma? Ætli það hafi verið vegna þess, að kjör þeirra voru svo góð? Og hæstv. forsrh. hafði mörg fleiri orð fram að færa gegn því, hvílík ólög það væru að banna næturvinnu.

Svo komu þm. Alþfl. með annað mál, annað frv., og þá var hæstv. forsrh. enn þá mælskari en þegar hann var að mæla með næturvinnunni. Þetta frv. var um það, að sjómenn á togurum skyldu hafa 8 klst. hvíldartíma. Hæstv. forsrh. talaði mjög eindregið á móti þessu máli, og hann sagðist hafa kynnt sér það mjög vel og hann hefði ekki séð neinar sannanir fyrir því að sjómenn þyrftu þessa hvíld. Og þegar Héðinn Valdimarsson vék að því í umr., að margir sjómenn hefðu orðið að gefast upp fyrir aldur fram vegna þess, hve vinnutíminn væri langur á togurunum, þá sagði hæstv. forsrh., að hann hefði ekki séð þessa veikluðu og útslitnu sjómenn, sem Héðinn Valdimarsson hafði verið að tala um. Og hann barðist gegn því, að sjómenn fengju 8 stunda hvíldartíma á sólarhring, eins lengi og hann gat.

Það var líka á þessum árum, sem kom fram frv., einnig flutt af Alþfl.-mönnum, um þá löggjöf, sem nú fjallar um verkamannabústaði. Hæstv. forsrh. fékk einnig málið, þó að hann talaði ekki mjög mikið í þinginu, þegar þetta mál kom þar til umr. Talaði hæstv, forsrh. kannske til þess að mæla með því, að verkamenn fengju þessa aðstoð? Nei, hann kom ekki upp í þeim tilgangi. Hann sagðist ekki aðeins álfta þetta frv. gagnslaust, heldur væri það blátt áfram skaðlegt að fara að styrkja menn á þennan hátt, þetta drægi úr framtaki manna. Og svo varð hann allt í einu mikill vinur sveitanna og sagði, að svona aðstoð við Reykvíkinga mundi verða til þess að ýta undir fólksflóttann úr sveitunum.

En þó var það nú ekkert af þessum málum, sem var hið stóra hugsjónamál hæstv. forsrh. á þessum tíma. Nú kem ég að því, sem var stærsta hugsjónamál hans á þessum tíma, sem var hans stóra æskuhugsjón.

Í ársbyrjun 1925 var hér alllangt verkfall á togurum. Ég hygg, að það hafi staðið í eina tvo mánuði. Og það leystist að lokum þannig, að Tryggvi Þórhallsson, sem þá var forsrh., beitti sér fyrir því, að sjómenn fengju 15% kauphækkun, og um það var samið. Það virðist svo, að í sambandi við þetta mál hafi mönnum hitnað nokkuð í hamsi, og það varð m.a. þess valdandi, að það var lagt fram á Alþingi frv. um dóm í kaupdeilum. Aðalefni þessa frv. var það, að ef ekki næðist samkomulag milli atvinnurekenda og launþega og ef starf sáttasemjara bæri ekki heldur árangur, þá skyldi sérstakur dómur ákveða, hvert kaupgjaldið ætti að vera. Frv. þetta var á ýmsan hátt mjög losaralega samið, og fim. voru því sjálfir ekki alveg sammála um það, hvernig bæri að skýra ákvæði þess. Sumir héldu því t.d. fram, að í þessu frv. fælist algert bann við verkföllum og launþegar yrðu að hlíta úrskurði gerðardómsins, en aðrir töldu vera hæpið, hvort það væri svo langt gengið með frv. En það var einn maður á Alþingi, sem var alveg ákveðinn í því, hvernig þetta frv. ætti að vera. Og það var hæstv. núv. forsrh. Hann talaði mjög mikið í þessu máli, þegar það lá fyrir þinginu, frv. um dóm í vinnudeilum. (Forsrh.: 1925, var það?) Þetta var 1929. Og það er mjög fróðlegt að lesa lýsingar hæstv. forsrh. á því, hvernig foringjar verkalýðsins höguðu sér á þessum tíma, því að þeir Hannibal og Björn Jónsson og Eðvarð og aðrir slikir, þeir eru hrein lömb hjá úlfum, ef það ætti að bera þá saman við Héðin og Sigurjón og aðra foringja verkalýðsins á þeim tíma, því að þessir menn gerðu hinar ofsalegustu kröfur á hendur atvinnurekendum, æstu verkalýðinn upp og þeir voru eiginlega alveg að ganga af atvinnurekendum dauðum. Og í raun og veru voru verkamenn ákaflega óánægðir með þetta og vildu helzt losna undan ánauð þessara manna, og þess vegna var það ein af helztu röksemdum hæstv. forsrh. fyrir þessu máli, að það þyrfti að samþykkja það til að losa verkamennina úr fjötrum foringja sinna. Og það fyrirkomulag, sem hann lagði til í stuttu máli að væri á þessum málum, var þannig, að verkalýðsfélögin áttu að hafa rétt til þess að tala við atvinnurekendur með sáttasemjara, en ef þar næðist ekki samkomulag, þá skyldi málið falla í gerðardóm og þeim úrskurði ættu verkamenn síðan að hlíta. Og hann teldi, að það væri alveg nægilega viðtækt verksvið fyrir verkalýðsfélögin að fá að taka þátt í samningum við atvinnurekendur og vera með sáttasemjara, áður en málið gengi til gerðardóms. (Forsrh.: Þetta er alveg eins og gerðardómurinn í þessu máli.) Eða m.ö.o.: verkalýðshreyfingin ætti að vera samtök án verkfallsréttar, verkalýðshreyfingin ætti ekki að hafa verkfallsrétt, en það væri sérstakur dómur, sem úrskurðaði, hvernig kaupgjaldið ætti að vera. Sem sagt, það þjóðfélag, sem hæstv. forsrh. dreymdi um á þessum tíma, það var þjóðfélag, þar sem verkalýðsfélögin höfðu ekki verkfallsrétt. Þetta var sú paradís stóratvinnurekendavaldsins og stórgróðavaldsins, sem hæstv. forsrh. dreymdi um, þegar hann var ungur. Það var þjóðfélag með verkalýðshreyfingu án verkfallsréttar. En slík verkalýðshreyfing var til í heiminum á þeim tíma, og það voru glögg dæmi um það, hve þýðingarmikil og gagnsmikil hún væri. Slík verkalýðshreyfing var þá t.d. starfandi í Sovétríkjunum hjá Stalin, á Ítalíu hjá Mússolíni og í ýmsum einræðislöndum öðrum, og það sýndi sig fullkomlega í verki, eins og hæstv. forsrh. var þá bent á, að þessi verkalýðshreyfing væri fullkomlega þýðingarlaus, því að verkalýðshreyfing án verkfallsréttar er meira og minna þýðingarlaus — og þýðingarlaus þegar mest á ríður.

Hæstv. forsrh. reyndi að hafa það sér til afsökunar, að þó að verkfölt væru bönnuð, samtakarétturinn við verkföll væri bannaður, þá mættu þó verkamenn alltaf leggja niður vinnu, því að þeir væru ekki beinlínis skyldaðir til að vinna, þó að þeir mættu ekki hafa samtök um vinnustöðvanir. Við þessum fullyrðingum sínum fékk hæstv. forsrh. eitt hið allra bezta svar, sem nokkru sinni hefur verið gefið í þingsögunni, eitt hið bezta svar, sem þingtíðindin geyma. Og sá þm., sem gaf þetta svar, var þáv. þm. V-Ísf., núv. forseti íslands, Ásgeir Ásgeirsson. Hann svaraði hæstv. forsrh., þáv. þm. G–K., á þessa leið:

„En að svipta einstaklingana samtakaréttinum er sama sem að svipta þá öllum öðrum rétti en réttinum til að svelta hver út af fyrir sig.“

Ég hygg, að þetta svar sé eitthvert hið bezta, sem nokkru sinni hefur verið gefið hér í þingsölunum. En að þessari ágætu ræðu Ásgeirs Ásgeirssonar mun ég koma nokkru síðar, ég tel hana hiklaust með einhverjum þeim beztu ræðum, sem nokkru sinni hafa verið fluttar hér á Alþingi.

Við erum nú búnir að gera okkur — með því að rifja upp nokkur mál — nokkra grein fyrir því, hverjar hafa verið æskuhugsjónir hæstv. forsrh. Og það er alveg auðséð á þessu, að stærsta hugsjón þessa unga manns og stóratvinnurekanda var þjóðfélag, þar sem verkalýðsfélög höfðu ekki verkfallsrétt, það var sú paradís stóratvinnurekendanna, sem hann dreymdi um. En þetta var fyrir nær 40 árum.

Nú er hæstv. forsrh. orðinn gamall maður, en nú telur hann sig hins vegar vera kominn upp á það fjall, eins og Móses, að hann sjái inn í fyrirheitna landið, það er þetta frv., sem hér liggur fyrir. Þetta frv. beinist að því að banna verkfallsréttinn og afnema verkfallsréttinn, að vísu í fyrstu ekki nema til tveggja mánaða, en það er augljóst af öllum ummælum hæstv. forsrh. hér í þinginu og sérstaklega þegar hann svaraði fsp. Eysteins Jónssonar, að það er stefnt að því að afnema verkfallsréttinn í miklu lengri tíma. Já, hæstv. forsrh. er nú eins og ungur maður í annað sinn, vegna þess að eftir langa baráttu telur hann sig vera kominn upp á fjallið og sjá inn í hið fyrirheitna land, þar sem verður verkalýðshreyfing án verkfallsréttar, og hæstv. forsrh. er enn sannfærður um, að þetta muni heppnast honum, vegna þess að nú mætir hann ekki sömu mótspyrnunni að öllu leyti í þessum þingsölum og hann gerði 1929. Þá voru hér til andsvara á móti honum Héðinn Valdimarsson, Sigurjón Á. Ólafsson, Haraldur Guðmundsson. Þessir menn eru ekki hér í dag. Alþfl. hefur öðrum foringjum á að skipa í dag, og þeirra afstaða er önnur. Hæstv. forsrh. lítur á foringja Alþfl. í dag sem eina af sínum tryggustu liðsmönnum. Í dag þarf hann ekki að kljást við menn í Alþfl. eins og Harald Guðmundsson, Héðin Valdimarsson og Sigurjón Á. Ólafsson. Nú telur hann sig hafa þessa menn alveg í vasanum. En nú mun ég koma að því, sem ég tel aðalefni máls míns og mér finnst að mörgu leyti leiðinlegt að þurfa að segja, því að það er alltaf leiðinlegt að þurfa að valda gömlum mönnum vonbrigðum. Ég fullvissa hæstv. forsrh. um það, að þetta fyrirheitna land hans verður aldrei að veruleika. Það frv., sem hér liggur fyrir, ber dauðann í sjálfu sér. Það er dæmt til að misheppnast. Og hvers vegna er það dæmt til að misheppnast? Ég hygg, að til þess liggi tvær meginástæður, og ég mun reyna að gera hæstv. forsrh. grein fyrir þeim í sem stytztu máli, vegna þess að ég ætla mér ekki að eyða hér óþarflega löngum tíma. Ég hygg, að önnur meginástæðan, sem til þess liggur, að þetta frv. ber dauðann í sér og það sé dæmt til að misheppnast, sé falin í þeim orðum, sem einn af eldri þm. hér lét falla við mig fyrir nokkrum dögum. Honum fórust orð eitthvað á þessa leið:

„Íslendingar geta sætt sig víð harðrétti, en misrétti una þeir ekki

Og ég hygg, að íslenzk saga sýni það frá upphafi alda, að þessi ummæli byggjast á fullum rökum. Íslendingar hafa getað unað harðræði og sýnt það hvað eftir annað. Við kunnum þá sögu, hvernig þessi þjóð hefur sigrazt á eldi og ís og öðrum erfiðleikum, sem henni hafa mætt. En það er eitt, sem Íslendingar hafa jafnan átt erfitt með að sætta sig við, og það er misrétti af manna völdum. Í okkar fornu sögum finnum við andúðina á þeim húsbændum, sem skiptu ójafnt hjúum sínum. En við finnum líka andúðina á þeim mönnum, á þeim forustumönnum, sem deildu kjörum með liðsmönnum sínum og þó sérstaklega þegar erfiðleika bar að höndum. Og hin fyrsta löggjöf Íslendinga í félagsmálum, sem var sett snemma á öldum, fól í sér meira jafnrétti en löggjöf nokkurrar annarrar þjóðar á sama tíma. Jafnréttishugsjónin hefur frá upphafi verið eitt af aðalsmerkjum íslenzku þjóðarinnar.

Þetta frv. er dæmt til að misheppnast vegna þess, að það ris gegn þessari fornu og nýju réttlætiskennd þjóðarinnar. Þetta frv. er dæmt til að misheppnast, vegna þess að það skiptir rangt, vegna þess að það skiptir ójafnt. Þetta frv. er um það, að þeir, sem hafa bezta aðstöðuna í þjóðfélaginu og eru búnir að fá miklar uppbætur, skuli halda sínum hluta. Hinir, sem lakar eru settir og engar uppbætur eru nú búnir að fá, skulu engar frekari uppbætur hljóta. Þetta frv. skiptir þess vegna rangt og eins ójafnt og nokkurt mál getur gert, og það er af þessum ástæðum, sem þetta mál — þetta frv. er dæmt til að misheppnast. Það má vel vera, að það takist að láta það standa einn eða tvo mánuði, e.t.v. einhvern lengri tíma, ég skal ekkert um það segja, hvernig þau viðbrögð takast, sem því verða veitt, — en ég er sannfærður um, að stefnan í þessu frv. mun mistakast, vegna þess að hún rís gegn réttlætiskennd þjóðarinnar, vegna þess að annað meginefni þessa frv. er að skipta rangt. Það hefur líka komið glöggt á daginn, eða a.m.k. get ég fullkomlega borið það, að andúðin gegn þessu frv, er ekki aðeins hjá þeim, sem það bitnar sérstaklega á, láglaunastéttunum. Andúðin gegn þessu frv. nær langt inn í raðir hinna, sem eru búnir að fá sínar bætur. Og ég hef heyrt marga atvinnurekendur meira að segja, sem telja þetta frv. ranglátt, telja stefnuna í þessu frv. rangláta. Og ríkisst,j. á eftir að finna það miklu betur, ef hún heldur þessu frv. til streitu, að þeim mun fara fjölgandi, sem risa gegn þessu frv., vegna þess að það skiptir rangt.

En það er önnur veigamikil ástæða, sem veldur því einnig, að þetta frv. ber dauðann í sér. Þetta frv. ber dauðann í sér vegna þess, að það rís gegn einum hinum dýrmætasta rétti, sem alþýðustéttir landsins hafa unnið sér, og ég vil segja þeim rétti, sem hefur reynzt vestrænum þjóðum bezt. Sá réttur, sem hér er ráðizt á, verkfallsrétturinn, er ekki aðeins einn dýrmætasti eða dýrmætasti réttur verkalýðsins, hann er líka sá réttur, sem hefur reynzt vestrænum þjóðum betur en nokkur réttur annar. Og til þess að rökstyðja þetta mál mitt nokkuð mun ég nú lesa upp kafla úr ræðu Ásgeirs Ásgeirssonar, sem hann flutti hér á Alþingi, þegar rætt var um frv. um dóm í kaupdeilum á þingi 1929. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar sá kafli á þessa leið :

„Við verðum að sætta okkur við þau sannindi, að verkföll og verkbönn eru samgróin skipulagi stórrekstrarins. Slik meðul eru notuð og hljóta að verða notuð í hverjum þeim atvinnurekstri, þar sem fjármagnið hefur einkarétt á arðsvoninni og einveldi — misjafnlega vel upplýst — um yfirstjórn fyrirtækjanna. Hvarvetna þar, sem einveldi hefur átt sér stað, hefur gengið á uppreisnum, byltingum og borgarastyr,jöldum. Hér hefur mjög verið rætt um böl það, er leiddi af verkföllum. En órói verkalýðsins er þó ekki einungis af hinu illa. Samtök verkamanna hafa ekki eingöngu boðað þjóðfélögum hættu, tjón og tap. Með samtökum og kaupkröfum hafa verkamenn bætt lífskjörin og aukið menningu sína. Það eru samtökin og þar af leiðandi bætt lífskjör, sem hafa gert „hinn heilaga“ Marx að falsspámanni um þá höfuðkenningu sina, að gjáin milli verkamanna og atvinnurekenda yrði stöðugt breiðari og breiðari, verkamenn sykkju dýpra og dýpra í örbirgð, en auðurinn hlæðist upp hinum megin, unz ötlu lenti saman í blóðugri byltingu. Þeir, er barizt hafa fyrir bættum kjörum verkalýðsins, hafa gert mest til að koma í veg fyrir, að þessi spádómur Marx rætist. Með baráttu sinni hafa þeir hafið nokkurn hluta verkalýðsins upp í millistéttina og ýta þangað stöðugt fleirum og fleirum. Með bættum lífsskilyrðum dregur úr byltingarhug. Þótt verkföllin hafi sina svörtu hlið, þótt tapið, sem af þeim teiðir, verði talið í millj, kr., þá er ekki réttmætt að geta að engu þeirra gæða, sem barizt er fyrir. Þau eru barátta verkalýðsins til betri lífsskilyrða.“

Hér lýk ég að sinni tilvitnun í ræðu hæstv. núv. forseta Íslands, sem var flutt á Alþingi 1929. En ég hygg, að það sé hverju orði sannara, sem felst í þessum ummælum forseta Íslands, að það er verkfallsrétturinn meira en nokkuð annað, sem á þátt í því, hve lítilli útbreiðslu og ítökum kommúnisminn hefur náð á vesturlöndum og kenningar Marx hafa ekki reynzt réttar þar, því að það er með verkfallsréttinum, sem verkalýður og launþegar þessara landa hafa knúið fram bætt kjör sín og fengið til sínhæfilega hlutdeild í þjóðartekjunum. Og ég hygg að það sé ekkert öfugmæli, þó að sagt sé, að einmitt verkfallsrétturinn sé hinn bezti og áhrifamesti andkommúnismi, sem til er, því að ef hans hefði ekki notið við, ef atvinnurekendur hefðu verið sjálfráðir um kjör verkamanna, þá er ég hræddur um, að svo hefði farið, að kenningar Marx hefðu reynzt réttar á vesturlöndum, að þá hefði auðurinn safnazt óhæfilega mikið á eina hlið, örbirgð verkamannanna orðið of mikil og það hefði skapað kommúnismanum góðan jarðveg í þessum löndum. Með verkfallsréttinum og hvernig honum hefur verið beitt af verkamönnum og launþegum vestrænna landa hefur tekizt að koma í veg fyrir þessa þróun.

Það er fullkomlega rétt, sem kemur fram í þessum ummælum forseta Íslands, að einmitt verkfallsrétturinn er áhrifamesti og bezti andkommúnisminn, sem enn hefur verið fundinn upp. Nú kunna einhverjir að spyrja, og það er rétt að hugleiða það nokkru nánar: Hefur verkfallsrétturinn gefizt þeim þjóðum illa, sem við hann hafa búið? Hefur hann ekki orðið til tálmunar á uppbyggingu atvinnulífsins í þessum löndum, stöðvað framfarir og framleiðni í þessum löndum? Eru ekki lífskjörin miklu verri í þeim löndum, sem hafa búið við verkfallsrétt, en hinum, sem hafa ekki búið við hann? Ég held, að það sé full ástæða til þess að íhuga vel svörin við þessum spurningum. Og svörin við þessum spurningum eru í stuttu máli þau, að hvergi hafa framfarirnar orðið meiri, hvergi er framleiðnin meiri í dag heldur en einmitt í þessum löndum, sem hafa búið við verkfallsrétt. Það er staðreynd, sem ekki verður mælt á móti.

En nú kunna menn að segja: Er þetta nokkuð verkfallsréttinum að þakka? Það er ekki eingöngu verkfallsréttinum að þakka, en ég vil hins vegar segja, að verkfallsrétturinn á einn meginþátt í því, að þróunin hefur orðið á þennan veg. Og hvers vegna hefur verkfallsrétturinn átt sinn þátt í þessu? Því er auðsvarað. í fyrsta lagi vegna þess, að hátt kaupgjald, sem hefur leitt af verkfallsréttinum, hefur knúið atvinnurekendur til þess að vinna að bættri framleiðni og framleiðsluafköstum hjá sínum fyrirtækjum. Til þess að ná góðri afkomu hjá sínum fyrirtækjum, þegar kaupið var orðið hátt, hafa þeir orðið að leggja aukna stund á það að auka framleiðnina og framleiðsluafköstin. Þannig hefur hið háa kaupgjald átt þátt í því að knýja framleiðnina og framleiðslugetuna áfram. En jafnframt þessu hefur hátt kaupgjald átt sinn þátt í því að skapa stóraukinn markað fyrir þær vörur, sem atvinnurekendur hafa framleitt, og þannig lagt grunninn að því, að framleiðslan gæti aukizt í sívaxandi mæli. Við skulum þess vegna gera okkur grein fyrir því, að þegar verið er að ráðast á verkfallsréttinn, þá er verið að ráðast á einhvern hinn þýðingarmesta rétt til að knýja fram aukna framleiðni og framleiðslugetu atvinnuveganna, því að verkfallsrétturinn hefur framar flestu eða öllu öðru verið ein helzta driffjöðrin í þeirri framvindu.

Aftur á móti í þeim löndum, þar sem verkfallsréttur hefur ekki verið, þar sem atvinnurekendur eða ríkisvaldið hafa getað skammtað launþegunum eins og þeim hefur sýnzt, eins og gerist í kommúnistaríkjunum, eins og nú gerist á Spáni og í Portúgal, þar eru framfarirnar miklu minni í þessum efnum, vegna þess að þegar kaupgjaldið er lágt, þá þurfa atvinnurekendurnir ekki að leggja neitt á sig um það að auka framleiðnina og framleiðsluafköstin, og vegna þess líka, að þegar stór hluti launþeganna býr við léleg kjör, þá er miklu minni markaður fyrir framleiðsluvörurnar.

Það er oft verið að tala um það, og maður heyrir það oft talað, að þau séu hvimleið, þessi verkföll, og það þurfi að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir þau og tryggja vinnufrið. Ég held, að bezta svarið við þessari spurningu eða þessu tali sé einmitt að lesa upp annan kafla úr ræðu Ásgeirs Ásgeirssonar, sem ég las hér upp áðan. Hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Menn þrá vinnufrið, sumir svo mjög, að þeir kalla allt frið, ef ekki eru verkföll, hvað sem býr í djúpunum undir hinu slétta yfirborði. Þeir munu sætta sig við slíkan frið, sem nú ríkir í Hússlandi og Ítalíu. Þeir eru ekki svo fáir, sem þrá frið Stalins eða Mússolínis. En slíkan frið er úti um þá og þegar. Þar þarf ekki nema kúlu gegnum höfuðið á einum einasta manni, til þess að allt fari í uppnám. Nei, slíkt er ekki varanlegur friður. Vilji menn frið, dugir ekki að biðja um hann með hvaða móti sem er. Það er ekki hægt að skapa hann með dómstólum og lögregluvaldi. Það verður að grafast fyrir rætur óánægjunnar, ef friður á að koma í hennar stað og velþóknun. Ef deilurnar eiga rót sina í skipulagi stórrekstrarins, þá fæst ekki varanlegur friður nema með breyttu skipulagi. En slíkri breytingu verður ekki komið á með einni þingsamþykkt, frekar en vinnufriður er tryggður með því að samþykkja lög um nauðungardóm. Sú breyting, sem kemur, er það, að fjármagnið verður ekki eins einvalt yfir arði og stjórn fyrirtækjanna og verið hefur. Það er áreiðanlegt, að þessi breyting verður. Það er áreiðanlegt, að hið lifandi starf, vinnan, fær sinn arðsrétt og yfirráða fyrr eða síðar við hlið hins dauða starfs, fjármagnsins.“

Ég hygg, að það sé hverju orði sannara, sem felst í þeirri tilvitnun í ræðu forseta Íslands, sem ég nú las. Ég hygg, að það sé fullkomlega rétt, að það er ekki hægt að skapa frið í þessum efnum með alþingissamþykktum, með dómstólum og lögregluvaldi. Það verður að leita að réttlætinu í þessum efnum, og það verður að skapa þeim, sem vinnuna annast, jöfn yfirráð og eins mikil og þeim, sem leggja til fjármagnið.

En það er annað merkilegt, sem kemur fram í þessari ræðu forseta Íslands frá 1929. Hann minnist þar á dæmi þess eða segir frá dæmi þess, þar sem verið hefur reynt að tryggja frið með lögregluvaldi og með dómum. Í Noregi var á áratugnum frá 1920—1930 reynt að tryggja vinnufriðinn með dómum og lögregluvaldi. Það var settur á sérstakur dómstóll, sem dæmdi í vinnudeilum. Og hver var reynslan af þeim dómstól? Ég skal lofa hv. þm. að heyra hér nokkur ummæli úr ræðu forseta Íslands frá 1929, þar sem hann lýsir því, hvernig þessar vinnuaðferðir hafa gefizt í Noregi. Með leyfi hæstv. forseta, þá hljóðar sú lýsing á þessa leið

„Nauðungardómurinn gæti beinlínis orðið til að auka vandræði.“ — hér á forseti við þann dóm, sem felst í því frv., sem verið er að ræða í þinginu, svo að ég megi lesa þessi ummæli hans aftur, en þau hljóða á þessa leið: „Nauðungardómurinn gæti beinlínis orðið til að auka vandræði og vinnudeilur í landinu, eins og reyndin hefur orðið á í Noregi. Þar hafa verkföli risið beinlínis út af nauðungardómnum og staðið svo mánuðum skipti. Þar hefur þó verið gripið til allra bragða — fimmtugasti hver og hundraðasti hver verkfallsmaður sektaður, og þegar sektirnar ekki innheimtust, voru þeir settir í fangelsi hundruðum saman og allt hefur orðið til einskis. Slik eru vandkvæðin, þar sem annar hvor aðilinn er ekki gerðardómnum fylgjandi.“

Önnur ummæli er að finna í þessum þingtíðindum, þar sem nokkru nánar er lýst þessu ástandi í Noregi. Þau er að finna í þingræðu, sem Haraldur Guðmundsson flutti og hljóðuðu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Noregi var það þannig, svo að ég vitni í „tugthúslögin“ frægu, að með þeim var bannað að gera verkfall. En það var nú samt gert. Verkfallið var dæmt ólöglegt. En allt kom fyrir ekki. Þúsundir manna tóku þátt í verkfallinu. Þá var bannað að veita þeim fjárhagslegan stuðning, sem í verkfallinu voru, og sektir lagðar við. En þrátt fyrir allar ráðstafanir hins opinbera hélt verkfallið áfram. Menn þeir, sem tóku þátt í því, voru styrktir með stóru:m upphæðum hvaðanæva frá. Þá var reynt að beita „tugthúslögunum“. Margir dómar voru dæmdir og þúsundir manna í sektir og fangelsi, þ. á m. flestir eða allir þingmenn jafnaðarmannaflokksins. Nokkur hundruð voru settir í fangelsi, en fleiri þúsund dæmdra manna komst ekki að, fangelsin voru allt of fá og smá. Að lokum varð ekki lengur við neitt ráðið, og varð þá að hætta við að framfylgja dómunum. Síðan eru lögin aðeins dauður bókstafur, enda er sá tími að renna út, sem þau gilda, og fáum eða engum kemur vist til hugar að framlengja þau“

Þetta var reynslan af því í Noregi á áratugnum 1920—30, þegar átti að fara að á svipaðan hátt og stefnt er að í þessu frv., að afnema verkfallsréttinn og láta menn beygja sig fyrir dómum Alþ. eða gerðardóma.

Út af þessum dómi urðu einhver hin hörðustu átök, sem átt hafa sér stað í Noregi, átök, sem enduðu þannig, að verkalýðurinn norski braut þessi lög á bak aftur. En hann gerði meira en að brjóta þau á bak aftur, því að þessi átök lögðu slíkan grundvöll að verkamannaflokknum norska, að hann hefur verið ósigrandi síðan í öllum kosningum.

Slík varð afleiðingin af þeirri löggjöf í Noregi, sem hæstv. ríkisstj. vinnur nú að því að innleiða hér á landi, og ég held, að hæstv, ríkisstj. ætti að staldra við og hugleiða þessa reynslu, áður en hún heldur miklu lengra.

Við höfum líka þau dæmi fyrir augunum á allra síðustu árum, að það er ekki hægt að beygja verkalýðinn með nauðungariögum, með nauðungardómum eða með ríkisvaldi. Við minnumst þess fyrir ekki löngu, að þá háðu námumenn á Spáni langt verkfall, þrátt fyrir bönn stjórnarinnar og þrátt fyrir alls konar aðgerðir af hennar hálfu til að kveða þessi verkföll þeirra niður, og það fór þannig að lokum, að spánska stjórnin varð að láta undan og fallast á nokkra kauphækkun til handa þessum mönnum. Við minnumst líka frá s.l. vetri, að þá áttu sér stað hörð átök í Frakklandi. Námumenn þar gerðu verkfall, sem var ekki löglegt, og einræðisherrann þar í landi hugðist að beita harðræði til þess að brjóta þessi verkföll á bak aftur. Hann hafði meira að segja í undirbúningi og var fengin heimild til þess að kalla alla verkamennina í herinn. En þessi maður, sem er einn hyggnasti stjórnmálamaður og mikilhæfasti, sem nú er uppi, sá sig um hönd, áður en kom til framkvæmda í þeim efnum. Eftir að verkfallið hafði staðið í nokkrar vikur og námumenn létu ekki neinn bilbug á sér finna, var það sá sterki maður, de Gaulle, sem sá sitt óvænna, hætti við að beita þvingunarráðstöfunum, tók upp samninga við verkamenn og samdi um verulega kauphækkun þeim til handa.

Nei, það er ekki hægt að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur með því að banna verkföll, með því að gripa til þvingunarlaga eins og þessara, sem hér liggja fyrir. Saga verkalýðsins og saga verkalýðssamtakanna kennir okkur, að slíkt er ekki hægt. Fyrstu samtök verkamanna urðu í mörgum löndum að heyja sína baráttu ræð því að gera ólögleg verkföll, og forustumenn þeirra urðu að sæta fangelsisdómum og hvers konar ofsóknum. En þessi alda; sem þeir reistu, var svo sterk, að það dugðu ekki neinir dómar, ekki nein lögregla, ekki neinar þingsamþykktir til þess að brjóta hana á bak aftur. Og ég er alveg sannfærður um það, að hæstv. ríkisstj. á eftir að reyna slíkt hið sama hér á landi, ef hún ætlar að halda áfram á þeirri braut, sem hún markar með þessu frv. Þó að menn haldi, að verkalýðshreyfingin sé klofin og sundruð í dag, þá eiga menn eftir að sjá það, þegar út í alvöruna er komið og ef á að fara að taka hana þrælatökum, að þá mun hún vera sameinuð og sterk.

Nú kunna einhverjir að segja, eftir að ég er búinn að mæla jafnsterklega með verkfallsréttinum eins og ég hef gert: Hefur það kannske aldrei átt sér stað, að verkfallsrétturinn hafi verið misnotaður, hefur honum aldrei verið misbeitt? Ég skal fullkomlega viðurkenna það. Það gildir hið sama um verkfallsréttinn og annan rétt, að honum er iðulega misbeitt, að vísu mismunandi mikið. En á það að vera mælikvarði á það, hvort á að afnema einhvern rétt eða ekki, hvort honum hafi einhvern tíma verið misbeitt eða ekki eða hvort hann hafi ekki borið alltaf þann árangur, sem til var ætlazt? Eigum við kannske að afnema lýðræði vegna þess, að við höfum einhverja ríkisstj., sem reynist illa? Eigum við að afnema kosningarrétt í þessu landi vegna þess, að niðurstöður seinustu kosninga urðu þær, að við fengum lélega og rangláta ríkisstj.? Ég segi nei. Við eigum ekki að afnema kosningarréttinn, þó að hann hafi misheppnazt hjá okkur að þessu leyti. Við eigum að halda honum áfram. Og hið sama gildir um verkfallsréttinn. Þó að það komi öðru hverju fyrir, að honum kunni að vera misbeitt, þá er hann þrátt fyrir allt svo mikilsverður og svo þýðingarmikill, að við eigum að halda í hann. Hins vegar er að sjálfsögðu rétt að gera þær skynsamlegar ráðstafanir, sem réttar eru taldar, til þess að koma í veg fyrir, að sú misbeiting, sem við teljum að kannske sé hægt að laga, eigi sér stað. En það, sem við getum lært af þeirri reynslu, sem ég hef minnzt á, og reynslu þeirra landa, sem lengst hafa búið við verkfallsrétt, er það, að við eigum ekki að afnema þennan rétt, við eigum ekki að sækja málið gegn launastéttunum með dómum, eða þvingunarlögum eða með lögregluvaldi, heldur eigum við að fara samningaleiðina.

Þar sem samningaleiðin hefur verið farin milli atvinnurekenda og launþega, þar ríkja nú beztir stjórnarhættir í heiminum. í nágrannalöndum okkar, Norðurlöndum, hygg ég að finnist ekki sá flokkur, sem lætur sér til hugar koma að vilja afnema verkfallsréttinn. Þar hafa nokkur átök átt sér stað um nokkra áratugi milli atvinnurekenda og launþega, og þá hefur komizt á svo að segja fullkomin sætt á milli þessara aðila, og þar er samningaleiðin jafnan farin í öllum þeim meiri háttar deilumálum, sem þessir aðilar eiga aðild að, og þetta gefst vel. Og það er öruggt, að það er samningaleiðin ein, sem skapar þann gagnkvæma skilning, sem skapar þann gagnkvæma drengskap, sem þarf til þess, að þessir aðílar geti búið saman á friðsamlegan hátt. Og ég er líka sannfærður um það, að sambúð þessara aðila hér á landi á undanförnum árum hefði orðið miklu betri, ef hvað eftir annað hefðu ekki komið í spilið óviðkomandi öfl og reynt að eyðileggja samstarf þessa aðila. Ég er alveg sannfærður um það, að t.d. atvinnurekendur hefðu ekki svarað hinum sanngjörnu kröfum verkamanna eða launþega vorið 1961, að þeir gætu enga kauphækkun látið af hendi, ef það hefði ekki verið ríkisstj., sem stóð þar á bak við og lagði þeim þessi orð í munn. Og ég er líka sannfærður um það, að ef þeir samningar, sem atvinnurekendur og launþegar voru búnir að gera sumarið 1961, hefðu fengið að standa og ríkisstj. ekki blandað sér inn í það mál með gengisfellingunni, þá stæðu okkar mál nú með góðum blóma og þá ríkti góð samvinna áfram milli atvinnurekenda og launþega. Og ég er líka sannfærður um það, að á þessu hausti eða þessu sumri væru búnir að nást mjög hóflegir samningar milli launþega og atvinnurekenda, ef ríkisstj. hefði ekki lagt atvinnurekendum þau orð í munn, að þeir mættu ekki semja um neinar hækkanir. Ég veit það, að fyrir áhrif ríkisstj. eru þau boð látin út ganga frá samtökum atvinnurekenda, að þeir geti ekki á neina kauphækkun fallizt. En ég veit það, að í hjarta sínu eru mjög margir atvinnurekendur algerlega á öndverðri skoðun. Og það eru líka mjög margir atvinnurekendur í dag, sem greiða miklu hærra kaup en hina umsömdu taxta. Ég er sannfærður um það, að ef þessir ráðamenn hefðu fengið að vera óháðir af ríkisvaldinu, samtök atvinnurekenda og samtök launþega, þá væru nú komnir heillavænlegir samningar í þessum málum. En það eru afskipti ríkisstj., sem eiga sinn þátt í því fyrst og fremst, að þetta samkomulag hefur ekki komizt á. Og ég er líka sannfærður um það, að ef þetta frv. væri kallað til baka og launþegar og atvinnurekendur látnir vera einir um sín mál án íhlutunar hins opinbera, þá mundu fljótt nást samningar um þessi mál, sem þjóðin mætti vel við una. Það er hægt að vinna mörg ill verk í þjóðfélaginu, en ég efast um, að það sé hægt að vinna verra verk en það, þegar ríkisvaldið skerst í málin með þessum hætti og spillir því, að þeir aðilar, sem þurfa að vinna saman og eiga að vinna saman, eins og atvinnurekendur og launþegar, skuli geta náð saman, eins og átt hefur sér stað að undanförnu.

Í tilefni af þeim efnahagsvandræðum, sem nú er rætt um, finnst mér rétt að ræða það nokkuð, hvort það sé hægt að kenna verkfallsréttinum eða samtökum verkamanna um það, hvernig komið sé, hvort þessir erfiðleikar reki rætur til þess, að verkfallsréttinum hafi verið illa beitt á undanförnum árum. Ég hygg, að ef við lítum yfir þetta tímabil í stórum dráttum, þá sjáum við, að verkalýðssamtökin hafa á valdaferli núv. ríkisstj. haldið á þessum málum með óvenjulega mikilli sanngirni, og ég vil segja: með óeðlilega mikilli sanngirni. Á öllu tímabilinu frá 1. jan. 1959 og fram á mitt ár 1961, eða 21/2 ár, voru engin verkföll gerð hér á landi og engar meiri háttar kaupkröfur bornar fram. Ríkisstj. fékk á þessum tíma einhvern hinn bezta og ákjósanlegasta vinnufrið, sem nokkur ríkisstj. hefur fengið. Hvað tók svo við, þegar þessu friðartímabili lauk? Það tók við, að sumarið 1961 voru gerðir nýir samningar milli atvinnurekenda og launþega, sem giltu til 2 ára, mjög hóflegir samningar, sem giltu til 2 ára. Það hefði þess vegna haldizt mjög góður vinnufriður áfram á þessum tíma, ef ríkisstj. hefði ekki blandað sér í málið, eins og ég áðan sagði, með gengislækkuninni 1961.

Þetta, sem ég hef nú rifjað upp, sýnir það svart á hvítu, að verkalýðssamtökunum og verkfallsréttinum er ekki um að kenna, hvernig komið er. Það eru aðrar ástæður, sem liggja þar til grundvallar, og það er fyrst og fremst sú stefna, sem ríkisstj. hefur fylgt, það er stefna ríkisstj., vaxtaokrið, hinir háu skattar, hinir háu tollar og þó fyrst og fremst gengisfellingarnar, sem hafa orsakað þá dýrtíð, sem er meginvaldurinn í þeim erfiðleikum, sem nú er glimt við. Það er ríkisstjórnin og hennar stefna, sem hér er um að kenna, en ekki verkalýðssamtökin eða verkfallsrétturinn. Það er fullkomlega rangt að halda slíku fram, að hér sé um að kenna verkalýðssamtökunum eða verkfallsréttinum.

Ég hygg, að ég hafi með því, sem ég hef nú sagt, gert hæstv. forsrh. nokkra grein fyrir því, vegna hvers þetta frv. hans ber dauðann í sér og hvers vegna það er dæmt til að misheppnast, á hvað löngum tíma, það skal ég ekki segja, en það er dæmt til að misheppnast. Það er í fyrsta lagi vegna þess, að það ris gegn réttlætiskennd þjóðarinnar, vegna þess, að það skiptir ójafnt, vegna þess, að það skiptir rangt, — og í öðru lagi, vegna þess, að það ræðst gegn þeim rétti, sem er launþegastéttunum dýrmætastur allra réttinda, verkfallsréttinum, sem er jafnframt sá réttur, sem hefur gefizt vestrænum þjóðum langbezt á undanförnum áratugum. Þegar að því kemur að ætla að afnema þennan rétt og ráðast jafnharkalega á hann og gert er í þessu frv., þá mun hæstv. ríkisstj. sanna það, að sú hreyfing, sem er sundruð í landinu í dag, verkalýðssamtökin, þau eiga eftir að vera sterk og sameinuð, ef því verki verður haldið áfram, sem byrjað er á með þessu frv.

Ég skal svo láta þessum þætti ræðu minnar lokið, en víkja að nokkrum atriðum, sem hafa komið fram í þessum umr. Og ég vil þá fyrst víkja að því, sem hefur komið hvað eftir annað fram mjög ákveðið í ræðum hæstv. forsrh. og ræðum hæstv. viðskmrh.

Þeir hafa hvað eftir annað verið að segja: „Ef við fáum ekki þetta fram, þá verður gengið lækkað: Ég held, að það sé erfitt, að það sé alveg útilokað að finna dæmi um slíkar fullyrðingar af hálfu valdhafa í nokkru vestrænn landi. Ég hygg, að þessar yfirlýsingar séu alger undantekning hvað Ísland snertir. Og það liggur einfaldlega í því, að þó að valdhafar, t.d. í nágrannalöndum okkar, hafi við efnahagserfiðleika að glíma, þá dettur þeim aldrei í hug að tala um það, jafnvel þó að þeir hugsi það, að gripa til gengislækkunar. Vegna hvers? Vegna hvers hafa þessir valdhafar það fyrir fasta reglu, t.d. í Bretlandi, í Danmörku, í Noregi, í Svíþjóð o.s.frv., —vegna hvers hafa þeir það fyrir fasta reglu að minnast aldrei á það, að gengislækkun standi fyrir dyrum? Vegna þess, að ef valdamenn færu að tala þannig, ef forustumenn ríkisstjórna færu að tala þannig, þá yrði það til þess að ýta strax undir stórkostlega verðbólgu, vantrú á peningana, og skapa þenslu, sem þeir réðu ekki við. Engum ábyrgum manni dettur í hug að tala þannig, eins og valdhafar Íslands gera, að ef þeir fái ekki þetta og þetta fram, þá muni þeir fella gengið.

Og satt að segja, þá skil ég ekki þetta tal hjá hæstv. ráðh. Hvað eru þeir að fara með þessu tali. Ég get ekki litið á þetta öðruvísi en þeir séu einmitt, þó að þeir þykist vera með því, að gengið sé ekki fellt, að ýta undir það, að gengið verði fellt, og fá átyllu til að fella það. Hvað er líklegra til að skapa þenslu, hvað er líklegra til að skapa vantrú á peningana en einmitt þetta stöðuga tal valdhafanna um, að það verði að fella gengið, ef þetta og þetta fáist ekki gert? Ég fullyrði alveg hiklaust, að það þekkist ekki í nágrannalöndum okkar, jafnvel þó að valdamenn kunni þar að hugsa um gengisfellingar, að þeir láti í neitt slíkt skína. Og ef það væri gert, þá þætti það einhver hinn versti verknaður, sem nokkur ráðherra gæti framið. En þetta tal hæstv. ráðherra er þó enn þá meiri fjarstæða vegna

þess, að það liggur ekkert fyrir um það — bókstaflega ekkert fyrir um það, að gengisfelling sé nauðsynleg.

Það hefur verið bent í þessum umræðum, í mörgum þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar, á úrræði, sem gera það mögulegt að bæta launakjör þeirra, sem enn eru eftir, og að bæta svo aðstöðu atvinnuveganna, að engin ástæða sé til að hverfa að gengislækkun. Með því að lækka vextina, með því að fella niður mestöll eða öll útflutningsgjöldin og með því að lækka tollana hjá ríkissjóði er fultkomlega hægt að leysa þessi mál öll án þess að láta sér detta gengislækkun í hug og án þess að til hennar þurfi að gripa. Enda er sannleikurinn sá, og við höfum fullkomna reynslu fyrir því, að gengislækkun mundi ekki aðeins skilja okkur eftir í sömu sporunum, heldur í enn þá verra ástandi en við erum í í dag. Við höfum þá reynslu af gengisfellingu, og það er hverjum manni augljóst, að t.d. útflutningsatvinnuvegirnir græða ekki neitt á gengisfellingu. Vaxandi hluti af þeirra rekstrarkostnaði verður að greiðast í erlendum gjaldeyri, og að sjálfsögðu hefur það ekki nein áhrif til bóta á þann hluta rekstrarkostnaðarins, þó að gengið sé fellt. Útgerðin verður líka að greiða sjómönnunum stóran hluta af sínum tekjum, og það hefur heldur ekkert að segja í þessum efnum, vegna þess að þeir hafa sinn aflahlut og gróðinn væri þá þeirra, en ekki útgerðarinnar, ef gengisfelling verður. Auk þess er fullkomin reynsla fyrir því, bæði í gengisfellingunni 1960 og 1961, að launþegasamtökin una ekki þeirri kjaraskerðingu, sem í gengisfellingunni felst, og knýja þess vegna fram tilsvarandi kjarabætur. Eftir eitt eða tvö missiri eða ,jafnvel skemmri tíma er allur sá litli ávinningur, sem útgerðin kann að hljóta af gengislækkun, farinn út í veður og vind. Það er þess vegna fullkomin fjarstæða, þegar hæstv. ráðh. láta skina í það eins og einhverja lausn að lækka gengið. Það er engin lausn, það er aðeins til þess að gera erfiðleikana meiri. En hitt er það, að þetta stöðuga, ábyrgðarlausa kjaftæði ráðh. um, að það þurfi að lækka gengið, verður til þess, að menn missa trúna á peningana, að menn reyna að koma þeim í alla aðra hluti en að eiga þá í sparisjóðum eða bönkum, og það veldur m.a. þeirri þenslu, sem við búum við í dag. Þess vegna eiga hæstv. ráðh. að leggja þetta skraf sitt algerlega til hliðar. Og ég held, að það sé líka hverjum einum ljóst, sem gerir sér grein fyrir þeim afleiðingum, sem gengislækkanir að undanförnu hafa haft, að það er í raun og veru ekki hægt að hugsa sér meiri glæframennsku og meira glæfraspil heldur en að ráðast í nýja gengislækkun. Og ég verð satt að segja að lýsa því yfir, að þó að ég hafi ekki mikið álit á hæstv. ráðh., þá á ég erfitt með að trúa því, að þeir séu slikir glæframenn, að þeim detti í hug að leggja út í þriðju gengislækkunina, það að þeir séu að tala um hana.

Ég held, að ein allra furðulegustu ummæli, sem hafa verið látin falla í þessum umr., hafi verið þau, sem féllu hjá hæstv. dómsmrh. hér aðfaranótt laugardagsins. Hæstv. dómsmrh. var að tala um kröfur láglaunastéttanna og hann taldi að þessar kröfur láglaunastéttanna væru að verulegu leyti sprottnar af því, að kaup síldarsjómanna hefði hækkað og kaup opinberra starfsmanna hefði hækkað, og láglaunastéttirnar sæju eiginlega hálfgerðum ofsjónum yfir þessum kauphækkunum og vildu fá eitthvað tilsvarandi, sem sagt, að þessar kröfur láglaunastéttanna stöfuðu af hálfgerðri öfund eða afbrýðisemi út í síldarsjómenn og opinbera starfsmenn.

Ég verð að segja það, að mér finnst alveg furðulegt þekkingarleysi felast í þessum ummælum hæstv. ráðh. Það stafar ekki af neinni öfund. Það stafar ekki af neinni afbrýðisemi, að láglaunastéttirnar vilja fá laun sin bætt. Það stafar einfaldlega af því, að það er þessum stéttum lífsnauðsyn að fá kjör sín bætt. Það lifir engin fjölskylda á 70 þús. kr. árslaunum, eins og t.d. Dagsbrúnarmaðurinn hefur, ef hann hefur ekki nema 8 stunda vinnudag. Það er útilokað, fullkomlega útilokað. Og sama gildir um verzlunarmanninn, sem býr við svipuð kjör. Nei, það stafar ekki af afbrýðisemi eða öfund, að þessar stéttir vilja fá hag sinn bættan, það stafar einfaldlega af því, að það er hrein lífsnauðsyn þeirra, að kjörin verði bætt, og þess vegna verða þessar kröfur ekki kveðnar niður með einhverri fullyrðingu um það, að þetta stafi bara af afbrýðisemi og öfund. Þessar kröfur verða ekki kveðnar niður, vegna þess að það er lífsnauðsyn fyrir láglaunastéttirnar að fá þeim framgengt.

Hæstv. dómsmrh. var mjög hnakkakerrtur hér aðfaranótt laugardagsins, þegar hann var að tala um, að það væri þjóðin, sem hefði valið núv. ríkisstj., og menn ættu þá að kenna þjóðinni um, ef ríkisstj. væri ekki góð. Og hann talaði mikið um það, að hæstv. ríkisstj. hefði þjóðina að baki sér og hefði fengið meiri hl. kjósenda að baki sér í kosningunum í sumar. Þetta er algerlega rangt hjá hæstv. dómsmrh. Það stendur ekki meiri hl. kjósendanna að baki núv. ríkisstj. Núv. ríkisstj. hefur minni hl. kjósendanna að baki sér. Samkv. upplýsingum hagstofunnar voru á kjörskrá í seinustu kosningum 100500 kjósendur. Stjórnarflokkarnir samanlagt fengu hins vegar ekki nema 49900 atkv. Þetta þýðir það, að ríkisstj. hefur ekki bak við sig nema rúmlega 49% kjósenda þeirra, sem voru á kjörskrá, og að sjálfsögðu er rétt að miða við þá tölu. Þess vegna er það ekki rétt, þegar hæstv. dómsmrh. er að halda því fram, að stjórnin hafi meiri hl, kjósendanna að baki sér, því að óyggjandi tölur hagstofunnar sýna, að það eru ekki nema 49% kjósendanna, sem standa að baki ríkisstj: En þessar tölur eru þó engan veginn réttar, því að það verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess, að ríkisstj. lagði málin allt öðruvísi fyrir í seinustu kosningum en hún gerir nú. Ef ríkisstj. hefði fyrir kosningar lagt málin fyrir á svipaðan hátt og hún gerir nú, þá hefðu þessar tölur áreiðanlega orðið á allt annan veg. Þá hefði ríkisstj. ekki fengið nein 49% kjósenda til þess að aðhyllast sína stefnu, því að kjósendum var sagt þá, að viðreisnin hefði heppnazt, að allt væri í stakasta lagi og það væri greið gata fram undan, aðeins ef menn kysu ríkisstj. Og það var út á þessar fullyrðingar sinar, sem ríkisstj. fékk 49% atkvæða. Ef ríkisstj. hefði hins vegar sagt það, sem hún segir í dag og er miklu nær lagi, að erfiðleikarnir séu eins miklir og hún heldur fram, sem fyrst og fremst er hægt að rekja til sjálfrar stjórnarstefnunnar, þá hefði stjórnin eða hennar flokkar ekki fengið nein 49% atkvæða, ég efast um, að hún hefði fengið 30%. Og ég efast fullkomlega um það, ef ríkisstj. gengi nú til kosninga með þetta frv. sitt, að hún mundi fá 30% atkvæða. Þess vegna ætti hæstv. dómsmrh. ekki að vera með nein stóryrði um það, að hann hafi þjóðina að baki sér. Meiri hluti þjóðarinnar veitti stjórnarflokkunum ekki brautargengi í seinustu kosningum, og það er áreiðanlegt, að síðan hafa stjórnarflokkarnir stórtapað fylgi, eftir að komið hefur í ljós, hverjar eru afleiðingar af þeirra stjórnarstefnu.

Það hefur verið bent á í þessum umræðum, að það væri engin nauðsyn fyrir hæstv. ríkisstj. að gripa til þess úrræðis, sem felst í þessu frv., eða gengislækkunar, því að það væri auðvelt að leysa málið á annan og betri hátt. Það hefur verið sýnt mjög rækilega fram á, að það er auðvelt að veita launþegunum, sem eftir eru, þær hækkanir, sem þeim ber, og bæta jafnhliða svo aðbúnað atvinnuveganna, að þeir geti risið undir þessum kauphækkunum. Það hefur verið bent á það, að vaxtalækkunin mundi reynast þeim atvinnugreinum bezt, sem nú eiga helzt í erfiðleikum. Og það hefur verið bent á það, að með lækkun útflutningsgjaldanna mætti stórlega bæta aðstöðu útflutningsatvinnuveganna. En áreiðanlega eru þó möguleikarnir langsamlega flestir með því að lækka tollana, sem ríkið leggur á. Það er svo ljóst sem vera má, að tollarnir eða tollstigarnir eru allt of háir í dag. Á s.l. ári gáfu tollstigarnir svo miklar tekjur, að ríkissjóður hafði 300 millj. kr. rekstrarafgang, en 300 millj. kr. rekstrarafgangur svarar til 10% almennrar kauphækkunar í landinu. Samkvæmt útreikningum, sem hagfræðingar ríkisstj. birtu fyrir nokkrum missirum, svarar eitt vísitölustig, 1% almenn kauphækkun, til 30 millj. kr., og 10% almenn kauphækkun í landinu jafngildir þess vegna 300 millj. kr. eða þeirri upphæð, sem ríkissjóður hafði í afgang á siðasta ári. En þó að afgangurinn væri svona mikill hjá ríkissjóði á seinasta ári, er það þó augljóst og upplýst af þeim, sem kunnugir eru, að tekjuafgangur ríkisins verði miklu meiri á þessu ári, að umframtekjurnar eða rekstrarafgangurinn hjá ríkinu verði miklu meiri á þessu ári, miklu meiri en þessar 340 millj., sem hann varð á seinasta ári. Það er fullkomlega ljóst, að á næsta ári hljóta tolltekjurnar hjá ríkinu að verða miklu meiri en á þessum tveimur árum, í fyrra og í ár, og það er augljóst vegna þess, að svo miklar kauphækkanir og verðhækkanir hafa orðið í landinu á þessu ári, að veltan í þjóðarbúskapnum hlýtur að aukast mjög stórkostlega á næsta ári, og það gefur stórauknar tekjur í ríkissjóð. Það er jafnframt augljóst, að á næsta ári hljóta útflutningstekjurnar að verða miklu meiri en í ár. Þetta stafar af því, að skipastóll hefur aukizt verulega á þessu ári og afli mun þar af leiðandi aukast, og svo jafnvel öllu frekar af því, að verðlag á svo að segja öllum útflutningsvörum Íslendinga fer stórhækkandi. Auknar útflutningstekjur munu hins vegar valda því, að innflutningurinn eykst, og tolltekjurnar af innflutningnum hljóta þess vegna að verða miklu meiri á næsta ári en í ár að óbreyttum tollstigum. Það er að vísu rétt, að útgjöld ríkissjóðs koma til með að aukast nokkuð vegna k,jaradóms eða hækkunar á launum opinberra starfsmanna, en sú upphæð mun þó ekki verða nema brot af þeirri upphæð, sem tolltekjurnar hljóta að aukast á næsta ári að óbreyttum tollstigum. Þess vegna er það víst, að það er vel forsvaranlegt að lækka tollstigana sem nemur mörgum millj. kr. án þess að stofna afkomu ríkíssjóðs í nokkra hættu. Það væri þess vegna ekki hægt að hugsa sér öllu meira ábyrgðarleysi en það, ef ríkisstj. neitaði að lækka vextina, neitaði að lækka útflutningsgjöldin, neitaði að lækka tollana og gripi annaðhvort til þeirra fantabragða, sem felast í þessu frv., eða til gengisfellingar. Meira óráð og meiri fantabrögð væri ekki hægt að hugsa sér, vegna þess að það er greinilega hægt að leysa málið með allt öðrum hætti og á þann hátt, að þjóðin, jafnt launastéttir og atvinnurekendur, megi vel við það una. Og ríkisstj. hefur enn ekki, a.m.k. ekki í þessum umræðum, fært nein rök á móti því, að þetta sé ekki hægt, því að ég tel það engin rök, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. hér um nóttina, að ef kaupgjald láglaunastéttanna yrði hækkað, þá mundi sú hækkun nema 1200 millj. kr. Sannleikurinn er sá, að heildarkaup þessara stétta í dag, verkamannanna og verzlunarmannanna, nemur alls ekki þessari upphæð samanlagt, hvað þá heldur þótt það væri hækkað um 20 eða 30%, að þá mundi það nema 1200 millj. kr. Sú upphæð, sem slík launauppbót mundi hafa í för með sér, launauppbót til verkamanna og verzlunarmanna, er miklu lægri en þær lækkanir, sem atvinnuvegirnir mundu fá, ef vextirnir væru færðir niður, ef útflutningsgjöldin væru afnumin og tollstigarnir lækkaðir hjá ríkissjóði. Þess vegna er fullkomin fjarstæða að halda því fram af hæstv. ríkisstj., að það sé ekki hægt að leysa málið á þennan hátt, og það er alveg furðulegt, að ráðherrarnir skuli leyfa sér að halda slíku fram.

En maður er hins vegar vanur því, að hæstv: ráðh. haldi ýmsu fram, sem ekki stenzt raunveruleikann. Ég minnist þess t.d., að þegar þeir voru að mæla með fyrri gengisfellingunni 1960, þá var því haldið fram hér af hæstv. forsrh., viðskmrh, og ég held af öllum ráðherrunum, að það yrði alveg stórkostlegur halli á útflutningssjóði, sem þá var, og vegna þess halla þyrfti að lækka gengið svona mikið. Hver varð svo reyndin í þessum efnum, þegar útflutningssjóðurinn var gerður upp? Í staðinn fyrir það, að ríkisstj, og hagfræðingar hennar höfðu reiknað út, að það yrði eitthvað 120 millj. kr. halli á útflutningssjóði, þá kom hann út með eitthvað 60—70 millj. kr. tekjuafgang. Þannig voru útreikningarnir þá. Og þeir útreikningar, sem hæstv. forsrh. er með hér, virðast vera fundnir út á nákvæmlega sama hátt, eða a.m.k. þessar 1200 millj., sem hann vár að tala um.

Hæstv. forsrh. var að tala um það, að sínir sérfræðingar væru búnir að reikna það út, að ef þetta frv. næðist ekki fram, þá þyrfti að lækka gengið. Vill ekki hæstv. forsrh. leggja þessa út reikninga fyrir þingið? Vill hann ekki lofa alþingismönnum að sjá þessa útreikninga? Ég get alveg fullyrt það fyrir fram, að þótt það sé skylda hæstv. forsrh. að láta þingmenn fá þessa útreikninga, þá mun hann ekki gera það, hann mun halda þessum útreikningum leyndum fyrir þinginu. Vegna hvers? Vegna þess að þessir útreikningar eru svo helber vitleysa, að hæstv. forsrh. þorir ekki að sýna þá. Víð skulum sjá, hvort hæstv. forsrh. kemur með skýrslu um það, að útflutningurinn þurfi svona og svona mikið og atvinnuvegirnir þurfi svona og svona mikið. Mér er sagt það, að fyrir nefnd, sem sett var niður í samráði við ríkisst,j. og þar sem fulltrúar frá atvinnurekendum og launþegum eiga sæti, þar gangi það mjög erfiðlega, mjög erfiðlega, þótt eftir því hafi verið gengið, að atvinnufyrirtækin vildu leggja nokkra útreikninga fram um það, hver þeirra hagur væri.

Nei, það vantar algerlega enn, að það séu lögð fram nokkur sönnunargögn, nokkrir útreikningar um, að það, sem hæstv. ríkisstj. er að halda hér fram, sé að einhverju leyti sannleikanum samkvæmt. En það er hins vegar bent á það með fullum rökum, að þær aðferðir, sem við höfum nefnt hér, lækkun vaxta, lækkun útflutningsgjalda og lækkun tolla, styðjast fullkomlega við veruleikann. Við bendum bara á áþreifanlegar staðreyndir. Hæstv. forsrh. er eingöngu með fullyrðingar, útreikninga, sem hann þorir ekki að sýna eða hvernig þeir eru fengnir út. Og atvinnufyrirtækin, sem hafa verið beðin um að leggja sína reikninga í þá nefnd, sem á að finna þjóðartekjurnar út að tilhlutan hæstv. ríkisstj., eru mjög treg til að leggja sína útreikninga fram. Og getur nokkur ætlazt til þess, þó að öllu öðru sé sleppt og það væri bara þetta atriði eitt, að launþegar sætti sig við þær aðgerðir, sem fyrirhugaðar eru, þegar röksemdir fyrir þeim og undirbyggingin er ekki betri en þessi? Það gerir áreiðanlega enginn launþegi. En við skulum nú sjá, hvort hæstv. forsrh. kemur með útreikningana frá sínum athugunum og sýnir, hvernig þeir eru fengnir út, sem hann byggir á þessar fullyrðingar sinar, að annaðhvort verði að grípa til þeirra þvingunarlaga, sem hér liggja fyrir, eða til gengisbreytingar.

Ég hefði gaman af líka að spyrja hæstv. forsrh., vegna hess að hann hefur talað svo mikið um gengislækkun: Hefur hann trú á því, hefur hann raunverulega trú á því, að gengislækkun muni koma að nokkru gagni? Hefur hæstv. forsrh. virkilega trú á því eftir reynsluna af þeim tveimur gengislækkunum, sem hann hefur gengizt fyrir á undanförnum árum, að ný gengisfelling muni koma að einhverju gagni? Og hefur hann virkilega trú á því, að það sé hægt að beygja launastéttirnar undir þá kúgun, sem felst í þessu frv.? Hefur hann virkilega trú á því? Nei, ef hæstv. forsrh. vildi vera vitur, þá á hann að íhuga þessi mál upp að nýju, og þá á hann að gera sér grein fyrir því, að sú lausn, sem andstæðingar hans benda hér á, er eðlileg og réttlát, en sú lausn, sem hann er að tala um, er ranglát og óraunhæf.

Hæstv. dómsmrh. var mjög að tala um það í sinni ræðu hér á dögunum, að þeir erfiðleikar, sem hér væri glímt við, væru sameiginlegt vandamál, þetta væri sameiginlegt vandamál þjóðarinnar, sameiginlegt vandamál stéttanna, sameiginlegt vandamál flokkanna og sameiginlegt vandamál þingmanna. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. dómsmrh. Hér er um sameiginlegt vandamál að ræða. En hvernig á að fara með sameiginleg vandamál, hvernig á að ræða sameiginleg vandamál, hvernig á að leysa sameiginleg vandamál? Á að leysa þau þannig, að stjórn, sem styðst við minni hl. þjóðarinnar, stjórn, sem styðst við gróðastéttir þjóðarinnar, taki það upp á sitt eindæmi að leysa slíkt mál án þess að ræða við nokkurn aðila annan? Á að leysa sameiginleg vandamál með slíkum hætti? En það er með slíkum hætti, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að leysa þessi mál, — ríkisstj., sem hefur minni hl. kjósenda að baki sér, og ríkisstj., sem aðeins styðst við gróðastéttirnar fyrst og fremst, hún ætlar að leysa þetta mál, sem hæstv. dómsmrh. segir réttilega að sé sameiginlegt vandamál, með því að gera þetta upp á sitt eindæmi.

Það kann að vera, að hæstv. forsrh. vilji svara því, að hann hafi nú talað við fulltrúa frá launþegasamtökunum. Hann mun hafa gert það í eitt eða tvö skipti nú í haust, talað við fulltrúa frá launþegasamtökunum, og hann mun hafa látið í það skína, að hann mundi reyna samningaleiðina í þessum efnum, án þess að tala nokkuð um það, hvað það væri, sem hann vildi gera. Svo gerist það bara einn góðan veðurdag, áður en þessum samtölum er formlega lokið, að hæstv. forsrh. skellir þessu frv. fram. Telja menn, að það sé með slíkum hætti, sem eigi að vinna að því að leysa sameiginleg vandamál, hafa bara hreina málamyndasamninga við annan aðila í þessari deilu, launþegana, en hafa svo öll samráðin við atvinnurekendurna? Nei, það er ekki með slíkum hætti, sem sameiginleg vandamál verða leyst.

Hæstv. dómsmrh. var einnig að tala um, að það ætti að beita góðvild og það ætti að beita sanngirni í deilumálum, breiddi sig ákaflega mikið út yfir það, að það ætti að beita góðvild og sanngirni í deilumálum. Finnst mönnum, að sú aðferð, sem hér er í frammi höfð, byggist á góðvild og sanngirni? Ég hygg, að ég þurfi ekki að útlista það neitt nánar, ég held, að hver maður geti gert sér fullkomna grein fyrir því, hvort sú lausn, sem hér er stungið upp á, byggist á sanngirni eða góðvild. En ef hins vegar hæstv. dómsmrh. og hæstv. ríkisstj, kann nú að meina þetta þrátt fyrir allt, að hún áliti þetta sameiginlegt vandamál og hún geri sér hins vegar nú grein fyrir því, hvernig komið er og hvert glappaskot hún hefur framið, þá á hún ekki nema eina sæmilega lausn í þessu máli, og lausnin er sú að draga þetta frv. til baka og taka upp samvinnu við launastéttirnar um að reyna að leysa þessi mál á skynsamlegan hátt. Það er sú eina sæmilega lausn, sem stjórnin á í þessu máli.

Að vísu mundi ég telja, að stjórnin ætti enn aðra betri og heiðarlegri lausn, en ég treysti henni hins vegar ekki til þess að framkvæma þá lausn, ég held hún hafi ekki manndóm til þess, og sú lausn væri sú, að stjórnin segði af sér og legði málin í vald kjósendanna. Það væri að sjálfsögðu hin eina drengilega og heiðarlega lausn, úr því sem komið er. Ríkisstj. sagði kjósendum rangt fyrir seinustu kosningar, hún blekkti kjósendur fyrir seinustu kosningar, enda lýsir hún ástandinu núna á allt annan veg, og ef hún drægi réttar ályktanir af því, þá ætti hún hreinlega að leggja málin nú undir dóm kjósendanna og láta kjósa um þau eins og þau standa í dag. En ég hygg, að hæstv. ríkisstj, hafi hvorki manndóm né drengskap til að fara þá leið. Og næstskástu leiðina tel ég vera þá, ef hún meinar það fullkomlega, eins og ráðherrarnir vilja vera láta, að hér sé um sameiginleg vandamál að ræða, þá á hún að draga þetta frv. til baka og taka upp í alvöru samninga við launastéttirnar um að reyna að leysa þetta mál á skynsamlegan og heilbrigðan hátt.

Ef hæstv. ríkisstj. hafnar hins vegar báðum þessum kostum, ef ríkisstj. heldur áfram með þetta frv., sem hér liggur fyrir, og ef hún ætlar að reyna að þvinga það fram, þá er það hún, sem velur stríðsleiðina í þessum málum, þá er það hún, sem segir vinnandi stéttum landsins, launastéttum landsins, stríð á hendur, og það er hún, sem ber afleiðingarnar af því, sem á eftir kemur. Það er á hennar ábyrgð, það sem eftir kemur, ef reynt verður að knýja þá stefnu fram, sem felst í þessu frv. Það er hún, sem hefur hafnað samkomulagsleiðinni. Það er hún, sem hefur ekki viljað samkomulag. Það er hún, sem hefur talað um, að hér væri um sameiginleg vandamál að ræða, en neitað að fjalla um málin á þann hátt. Það er hún, sem velur þá stríðsleiðina í þessu máli. Og það er hún, sem ber ábyrgð í þeim afleiðingum, sem á eftir koma. Og ég vil láta það vera mín seinustu orð hérna, að ég skora á hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðherra að íhuga þetta mál vel, að gera sér fulla grein fyrir því, hvar þeir standa, áður en þeir velja endanlega stríðsleiðina í þessu máli.