04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (1831)

56. mál, launamál o.fl.

Elnar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem mig langaði til að segja út af ýmsu, sem fram hefur komið í þessum umr. Ég hef áður, við 1. umr. þessa máls, látið í ljós skoðun mína á þessu frv. í heild og rætt það nokkuð almennt, en mig langaði til þess að fara dálítið inn á ýmis atriði, sem hafa komið fram í þeim ræðum, sem haldnar hafa verið.

Frsm. hv. meiri hl. í fjhn., hv. 6 landsk., talaði hér nokkur orð. Hans ræða var að vísu ekki töng, og hefði þó af stjórnarinnar hálfu átt að reyna að verja eitthvað dálitið þetta frv. hennar, en líklega er nú enginn af þm. stjórnarinnar svo mikið fylgjandi þessu frv., að hann hafi nokkra löngun til þess að standa hér upp og verja það. En það litla, sem þessi hv. þm. sagði og ég hlustaði á, sýndist mér þannig, að það væri bókstaflega ekkert einasta atriði af því, sem gæti staðizt.

Þessi hv. þm. fór að tala um ábyrgðartilfinningu stjórnarandstöðunnar og virtist vilja gera lítið úr henni. Ég veit nú ekki betur en það hafi vart nokkur stjórnarandstaða, sem ég man eftir, sýnt aðra eins ábyrgðartilfinningu gagnvart ríkisstj. og stjórnarandstaðan hefur sýnt gagnvart þessari hæstv. ríkisstj., allt frá því að ríkisstj. komst tilvalda. Þó að það væri vitanlegt, að þetta væri stjórn, sem auðmannastéttin í landinu fyrst og fremst stóð á bak við og ætlaði að fara að innleiða gamaldags baráttuaðferðir sínar hér, þá sýndi verkalýðurinn slíka hófsemi í sínum aðgerðum, að hann vildi bókstaflega láta kerfi þessarar ríkisstj. fá að sýna sig og gaf henni tækifæri til þess.

Stjórnin komst til valda undir kjörorðinu: Leiðin til betra lífskjara. — Og verkalýðurinn á íslandi gaf henni tækifæri til að sýna, hvert leið hennar lægi. Hún fékk frið 1959, hún fékk frið 1960; hún fékk frið fram á mitt ár 1961. Og hvernig var þá komið? Hvernig var komið með þann kaupmátt, sem hafði verið, þegar hún tók við og var á árinu 1959 100, þegar miðað er við 1945, kaupmátt lægsta Dagsbrúnarkaups? 1961 var hann í maí kominn niður í 84 stig. Það var orðin meira en 16% lækkun á raunverulegum launum á þessu 21/2 ári, sem ríkisstj. hafði setið að völdum, og allt þetta hafði stjórnarandstaðan, hafði verkalýðshreyfingin þolað án þess að gripa til aðgerða. Og ef ég man rétt, þá var yfirlýsingin, sem var gefin af flokksráði Sjálfstfl. í des. 1958, þegar flokksráðið ákvað að styðja stjórn Alþfl., sú, að það mundi þurfa um 6% launalækkun. En verkalýðshreyfingin beið og lét stjórnina fá að sýna sig í 21/2 ár, stjórnina eða stjórnarsamsteypuna, þangað til það var yfir 16% launalækkun komin fram. Þá fyrst greip verkalýðshreyfingin til verkfalls, og með því verkfalli var kaupið ekki hækkað meira en það, að þessi kaupmáttarvísitala fór úr 84 upp í 92 stig, 92 stig, það var allt saman. Meira var ekki að gert. Það var vissulega hófsemi. Og hvernig var þessari hófsemi svarað? Henni var svarað, eins og allir muna, með gengislækkunargerræðinu í ágúst 1961, stjórnarskrárbrotinu, sem þá var framið. Og ég þarf ekki að rekja söguna síðan. Það var beðið í heilt ár, áður en því var svarað. Og svo dirfist hv. þm. að koma hér upp og segja þessa stjórnarandstöðu hafa skort ábyrgðartilfinningu. Ábyrgðartilfinningu hefur vantað annars staðar, og hana hefur kannske ekki sízt vantað hjá fylgi stjórnarinnar hér á Alþingi. Og ég held, að þeir hv. þm., þá sjaldan þeir koma hér upp til að tala og reyna að verja stjórnina, ættu að stinga hendinni í eigin barm og athuga, hvort þeir ættu ekki að sýna dálítið meiri ábyrgðartilfinningu í að vara sína eigin ríkisstj. við að fara inn á þá braut, sem hún er að fara inn á nú.

Þá talaði hv. 6. landsk., frsm. meiri hl. fjhn., um kauplækkunaraðgerðir 1956. Mér finnst það vera það minnsta, sem hægt er að heimta af þm., jafnvel þótt þeir séu nýir á þingi, að áður en þeir fara að tala um hluti, hafi þeir einhverja hugmynd um þá. Þessi hv. þm. sagði, að kauphækkanir hafi verið bannaðar og að verkföll hefðu verið bönnuð haustið 1956, og ef hann hefur nokkra minnstu þekkingu, þá veit hann, að hvort tveggja er ósatt, og ef hann hefur ekki þekkingu á þessu, þá á hann ekki að tala um það. Það, sem var gert, var, að það var ákveðið í ágústlok í samráði við verkalýðsfélögin, að 6 stigum, sem kaupið gat hækkað um 1. sept. og hefðu horfið aftur í landbúnaðarvöruverðshækkun seinni hlutann í sept., var jafnað út, þannig að það var ekki látið hækka um þessi 6 stig og landbúnaðarvörurnar voru ekki látnar hækka. M.ö.o.: það, sem hefði orðið aðeins víxlhækkun, það var afnumið, án þess að verkamenn misstu nokkurs í við það. Og ef þennan hv, þm. vantar að vita það, þá getur hann athugað, hvernig kaupmáttarvísitalan var á þessu ári. Hún var að meðaltali 1956 97.2 stig, það hæsta, sem hún var á nokkrum árum þarna í kring, 97.2 stig. Það fór engin kauplækkun fram, það var ekkert verkfall bannað, verkamenn gátu, ef þeir vildu, farið í eins miklar grunnkaupshækkanir og þeir vildu. Þess vegna á ekki að ræða á þennan máta. Það er hægt að deila á, hvort það hafi ekki verið réttara að skapa dálítið meiri verðbólgu og annað slíkt, en þá er bezt að ræða það þannig, út frá því sjónarmiði, hvort það væri ekki mjög heppilegt að skapa meiri verðbólgu. Það var það, sem spurningin stóð um. Og ég segi þetta vegna þess, að ég hef sjálfur deilt á vinstri stjórnina fyrir ýmislegt, sem hún hefur gert, og þorað sjálfur, þegar ég var hennar fylgjandi, að taka afstöðu á móti vissum hlutum, sem hún gerði, en þegar hún gerði það, sem ég áleit vera rétt eða vera praktískt, þá ver ég það.

Þá sagði hv. 6. landsk., að þessi ríkisstj. hefði kjörfylgi til þess að gera það, sem hún væri að gera. Hún hefur ekki kjörfylgi til þess. Hún hefur kjörfylgi út á það, sem hún lofaði fyrir kosningar, en hún hefur ekki kjörfylgi til þess að gera hluti, sem eru þveröfugir við það, sem hún lofaði fyrir kosningar. Og við verðum að muna það, að ef við ætlum að reyna að halda einhverjum sómasamlegum bardagaaðferðum í okkar lýðræðisþjóðfélagi, þá verður að vera eitthvert ofurlítið samræmi á milli þeirra loforða, sem menn gefa fyrir kosningar, og þeirra efnda, sem eru framkvæmdar eftir þær, Ég hef að vísu í flestum kosningum, sem ég hef tekið hér þátt í, aðvarað kjósendur um það, að hættulegasti tími fyrir alþýðuna væri fyrsta og jafnvel annað árið eftir kosningarnar, vegna þess að þá væri venjulega gerð öli sú svívirðing og framin öll þau svik, sem viðkomandi stjórnir treystu sér til. Á síðustu árum fyrir kosningar, sérstaklega seinasta árið fyrir kosningar, væru menn venjulega farnir að verða dálítið hræddari og hefðu dálítið hitann í haldinu af komandi kosningum. Og það, sem er að gerast núna, er það, að þegar ein ríkisstj. allt í einu er sloppin í gegnum kosningar með alls konar fölskum loforðum, þá er hún að svíkja þessi loforð á eftir, og það er það, sem á að ráðast á móti. Ríkisstj. hefur ekki kjörfylgi til að gera það, sem hún er að gera í dag, og það vita þessir flokkar sjálfir. Enda vitum við það allir saman, að það er enginn maður í þingliði Sjálfstfl. né Alþfl.ríkisstj. hans, sem mundi detta í hug að gera þetta, sem þeir nú eru að gera, ef það væru kosningar næsta ár, ef þetta væri siðasta árið fyrir kosningar.

Þá held ég, að hv. frsm. meiri hl. fjhn. hafi farið að tala um árið 1955 og sagt, að núv. stjórnarandstöðuflokkar hefðu gert eitthvað ljótt þá, jafnvel sprengt upp kaupið. — Það er mikill misskilningur, — ef ég hef tekið rétt eftir, en ég bið afsökunar á því, ef ég hef ekki tekið rétt eftir, — að núv. stjórnarandstöðuflokkar hafi staðið að einhverju ljótu 1955. Þeir flokkar, sem þá stóðu saman og stóðu þá í löngu verkfalli, voru þá Sósfl. og Alþfl. Ef á að fara að álasa mönnum fyrir eitthvað, sem þá hafi verið gert, er þess vegna bezt að beina spjótunum innan ríkisstj. Það voru jafnvel menn, sem nú eru hér á Alþingi, sem stóðu sig vel í þeim verkföllum, í þeim löngu, hörðu verkföllum, sem þá voru háð, og sigruðu í þeim verkföllum, og það var mjög gott og þarft verk, því að sú stjórn Sjálfstfl. og Framsfl., sem þá hafði setið að völdum raunverulega um fimm ár, það var ein af verstu stjórnum, sem við höfum haft hér, og það var sannarlega gott með því verkfalli að brjóta þá stjórn á bak aftur, svo að þessir flokkar sundruðust og hættu því ljóta samstarfi, sem þeir höfðu þá.

Þá sagði hv. 6. landsk., að launþegarnir hafi alltaf viljað stöðva dýrtíðarskrúfuna, og þar er ég honum algerlega sammála. Launþegar hafa alltaf viljað stöðva dýrtíðarskrúfuna. En hver er það, sem hefur haldið dýrtíðarskrúfunni gangandi? Það er það, sem hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn, — þeir, sem treysta sér til að verja hana, — vilja ógjarnan ræða. Launþegar hafa alltaf viljað stöðva dýrtíðarskrúfuna. Þeir hafa í 20 ár núna staðið í að reyna að bæta sér upp dýrtíðarskrúfuna, sem auðvaldið í landinu hefur komið á, og hafa aldrei haft við. Auðvaldið hefur skrúfað dýrtíðina alltaf miklu, miklu hærra en launþegarnir nokkurn tíma hafa komizt. 1945 stöndum við með kaupmátt tímakaups, sem við höfum sett sama sem 100, og allan þennan tíma höfum við, að undanteknum einum eða tveim mánuðum, aldrei nokkurn tíma komizt upp í þetta aftur, vegna þess að auðmannastéttin í landinu hefur notað sitt ríkisvald til að auka dýrtíðina allan tímann, ýmist með verðbólgu, með gengislækkunum eða verðhækkunum. Og af hverju hefur auðmannastéttin í landinu gert þetta? Af því að auðmannastéttin í landinu hugsar sér fyrst og fremst gengislækkanir og verðbólgu sem gróðaaðferð. Höfuðaðferðin hjá auðmannastéttinni íslenzku hefur alltaf verið sú að nota sitt pólitíska vald til að útvega sínum gæðingum lán út úr bönkum, láta sina gæðinga setja þessi lán í fasteignir, alls konar fyrirtæki, láta síðan sína pólitísku fulltrúa á Alþingi lækka gengið, hækka verðlagið, auka verðbólguna og skapa þannig sínum stóratvinnurekstri gróða. Þetta hefur verið aðalgróðaaðferð auðmannastéttarinnar í þjóðfélaginu nú í 20 ár, og við þessa gróðaaðferð hefur verkamannastéttin orðið að berjast með því að reyna að hækka sitt kaup, og hún hefur alltaf verið á eftir. Launþegarnir hafa alltaf viljað stöðva dýrtíðarskrúfuna.

En hvernig stendur núna með dýrtíðarskrúfuna? Hvar eru launþegarnir í dag? Þeir eru með kaupmátt tímakaupsins í 82, miðað við 100 1945. Eftir sautján ár eru þeir meir en 18% lægri en þeir voru 1946. Svona hefur auðmannastéttin í landinu skrúfað dýrtíðina upp, og svona hafa launþegarnir raunverulega verið allt of hófsamir í því að skrúfa kaupið upp á eftir. En það þarf að komast inn í meðvitund manna, að það er höfuðaðferð braskaravaldsins í landinu til að græða að skrúfa dýrtíðina upp, og það er sú skrúfa, sem verður að hætta.

Hv. 6. landsk. sagði, að það væri allt í hættu núna. Hvað er í hættu? Lífskjör verkalýðsins eru í hættu, ef kaupið er ekki hækkað og það stórum. Ástandið í þjóðfélaginu annars, — ég sé ekki, að það sé hægt að tala um annars, að það sé neitt lengur raunverulega í hættu þar. Það er allt komið í vitleysu. Hættan, sem var einu sinni, er löngu, orðin að veruleika núna. Hæstv. forsrh. gaf sjálfur ágæta lýsingu á því, hvers konar ástand væri í þjóðfélaginu. Það er ekki við neina hættu að glíma lengur. Það er við veruleikann að glíma.

Svo talaði hv. 6. landsk. um virðingu þjóðarinnar. Já, það var ágætt. Ég er hræddur um, að virðingu þjóðarinnar verði nokkuð mikið misboðið með því að fara að setja þrælalög nú gegn íslendingum. Það vex ekki virðing þjóðarinnar út á við af því. Það vex ekki virðing þjóðarinnar af því að borga lægsta kaup af öllum okkar nágrannalöndum og ætla svo þar að auki að binda það með þrælalögum.

En til allrar hamingju eru til menn, sem finna til og hafa virðingu fyrir sínum eigin réttindum, og það er verkalýðurinn á Íslandi. Hann hefur virðingu fyrir sínum eigin mannréttindum, og hann mótmælir skerðingunni á þeim mannréttindum, og hann hefur mótmælt henni kröftuglegar núna tvo síðustu dagana en gert hefur verið nokkru sinni fyrr í sambandi við nokkur þrælalög, sem fyrir Alþingi hafa legið. Það er heiður og það er sæmd verkalýðsins, sem er í húfi. Það er virðing alþýðunnar í landinu, sem er í húfi, að hún brjóti svona frv. á bak aftur.

Hv. 6. landsk. orðaði það svo, ef ég tók rétt eftir, að ríkisstj. hefði beðið um tveggja mánaða frest og þm. hennar hefðu viljað veita hann. Ég mundi skilja það ákaflega vel; ef ríkisstj. hefði beðið um tveggja mánaða frest, að hennar þm. hefðu viljað veita henni hann. Og hún hefði e.t.v. geta talað við fleiri og beðið um slíkan frest. En hún hefur ekki beðið um neinn frest. Hún er að taka sér vald, hún er að beita ofbeldi, hún er að svipta menn mannréttindum. Hún er að taka sér vald til að hneppa verkamenn í þrældóm í tvo mánuði, og það er á móti því, sem verkalýðurinn á Íslandi ris. Hann veit, að ef hann þolir það, að fjötrunum sé smeygt upp á hann í tvo mánuði og þeir fjötrar séu látnir vera þar og hann slíti þá ekki, þá muni þeir verða þar lengur. Það er ein dýrkeyptasta reynsla verkamanna í öllum löndum, að svo framarlega sem þeir una þrælafjötrum, þá losna þeir ekki við þá þrælafjötra. Þess vegna hefur ríkisstj. farið algerlega rangt að. Hún hefur einmitt ekki beðið um neinn frest. Hún er að taka sér vald. Hún er að reyna að sýna, að hún sé svo sterk, að hún sé svo voldug, hún sé svo óhrædd við að beita ofbeldi, að fólk eigi að vera hrætt við hana. Það eru Íslendingar ekki. íslendingar eru ekki hræddir við slíkt ofbeldi. Þeir munu svara valdi með valdi, ef á að fara að beita þá slíku. Hitt aftur á móti, ef það hefði verið farið að þeim og þeir beðnir, það er allt annað mál.

Þessi hæstv. ríkisstj. þarf sannarlega ekki að kvarta yfir því, að verkalýðshreyfingin á Íslandi hafi ekki svarað henni kurteislega og vel, þegar hún hefur beðið um eitthvað. Ef ég man rétt, bað hún seinast í vor, rétt fyrir kosningar, og það er þó sannarlega til mikils mælzt að fara rétt fyrir kosningar fram á það, að menn fresti aðgerðum, því að það er venjulega sigurvænlegast að fara í aðgerðir rétt fyrir kosningar, þá er nefnilega meira að segja oft Sjálfstfl. reiðubúinn til að hækka kaup. En verkalýðshreyfingin sýndi slíka hófsemi, að hún frestaði aðgerðum, að undantekinni smáhækkun, þegar ríkisstj. bað um það, til 15. okt. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt slíka ábyrgðartilfinningu og slíka hófsemi, þegar ríkisstj. hefur komið til hennar og beðið hana, að það eru fáar ríkisstjórnir, sízt af öllu hreinar auðmannsríkisstjórnir hér á Íslandi, sem hafa mætt öðru eins umburðarlyndi. Þess vegna er það, sem verkalýðurinn á Íslandi rís svona ákaft, svona kröftuglega upp, af því að honum finnst honum misboðið, ekki bara með því, sem nú eigi að fara að gera, hneppa hann í þessa þrælafjötra, heldur með hinu, að það er verið að svíkjast aftan að honum. Eftir að hann hefur sýnt mestu hófsemina, er einmitt farið að misnota þetta, og það er ein stærsta pólitíska skyssa, sem menn gera, að halda, að þegar einhver aðili sýnir hófsemi, þá sé hann þess vegna veikur. Verkalýðshreyfingin á Íslandi er ekki veik, þegar hún sýnir hófsemi. Hún gerir það af styrkleika. Og þegar á að misnota þá hófsemi, slær hún til baka.

Hæstv. viðskmrh. talaði hér í dag. Hann var að ræða m.a. um 40% hækkun, sem verkamenn höfðu krafizt. Jú, verkamenn hafa krafizt hækkunar. Þeir hafa tekið hann og aðra hálaunamenn sér til fyrirmyndar. Það er gömul íslenzk venja: hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. En það er ekki það, sem er slegizt um í dag. Það er ekki það, sem menn eru að berjast um í dag, hvort hækkunin eigi að verða 30 eða 40%, eða hvað hún eigi að vera. Hún stendur um annað. Hún stendur um „prinsip“-mál, og það er það, sem hæstv. viðskmrh., væri hann hér einhvers staðar nærri, svo að hann mætti heyra mitt mál, — það er það, sem hann þyrfti, ekki sízt af því að hann er nú menntmrh. líka, að fara að hugsa ofur lítið um. Honum hættir við upp á síðkastið að gangast fullmikið upp í því, að vera viðskmrh. og gleyma því, að hann á líka í ríkisstjórn að vera fulltrúi íslenzkrar menningar. Og það eru þau menningarlegu atriði, sem verið er að berjast um. Það er um þau atriði, sem heita frelsi og mannréttindi, sem verið er an berjast. Verkalýðurinn á íslandi, þótt hann sé ákveðinn í sinni hagsmunabaráttu mundi hann ekki rísa upp eins og hann hefur gert núna um allt land eingöngu út af hagsmunaatriðum, en hann gerir það vegna þess, að það er frelsi hans og það eru mannréttindi hans, sem eru í húfi.

Og hæstv. viðskmrh. mætti athuga ofur lítið sinn gang í því sambandi. Hann er tiltölulega ungur í Alþfl., og hann þekkir máske of litið erfð þess flokks, og það væri gott fyrir hann að rifja hana ofur litið upp, sérstaklega frá hinum eldri tímum. Ég gekk sjálfur í Alþfl. 1921 og þykist þekkja nokkuð baráttu hans frá þeim tímum sem hann var eini baráttuflokkur alþýðunnar á Íslandi. Það, sem þá var einkennandi fyrir hann, stafaði ef til vill að nokkru leyti af þeim háttum, sem þá voru á hans skipulagi. Verkalýðsfélögin og jafnaðarmannafélögin voru eitt í Alþýðusambandinu og Alþfl., sem var eitt og hið sama. Og við, sem vorum í Alþfl. þá, við vorum í verkalýðsfélögunum og við vorum margir, þó að við værum ekki verkamenn kannske nema á sumrin, þá vorum við í forustu þeirra félaga, og við stóðum með verkamönnunum og við börðumst með þeim og við unnum með þeim, þannig að þeir menn, sem voru þá að verða forustumenn Alþfl., voru um leið menn, sem stóðu í verkamannafélögunum og börðust með verkamannafélögunum í verkföllum. Þess vegna fékk sú kynslóð Alþfl., sem þá ólst upp, sína skólun í baráttunni, verkalýðsbaráttunni, verkfallsbaráttunni og baráttunni fyrir mannréttindum verkamanna og þeim helgu réttindum verkalýðsfélaganna.

Þau sambönd, sem menn þá fengu, líka þeir, sem urðu eftir í Alþfl., þegar ég fór úr honum, entust lengi. Menn, sem ég hef oft deilt hér á og deilt við hér á Alþ., menn eins og Stefán Jóh. Stefánsson og Haraldur Guðmundsson, voru í Alþfl. á þessum tíma, þegar verkalýðshreyfingin og Alþfl. voru enn eitt, og fengu sína skólun á þeim tímum. Þess vegna var óhugsandi annað fyrir Harald Guðmundsson og þá, sem stjórnuðu Alþfl. hér 1938, þegar Framsfl. kom með gerðardómslögin á sjómenn, en segja og slá í borðið: „Við tökum okkar mann út úr ríkisstjórninni, við rjúfum ríkisstjórnina," — og það var vinstri stjórn þá, Framsóknar og Alþfl., — „svo framarlega sem þetta verður samþykkt“. Það var ekki spursmálið þá um að fjötra allan verkalýðinn á Íslandi. Það var ekki einu sinni verið að banna öll verkföll. Það var aðeins verið að beita gerðardómi, aðeins við eitt félag, við Sjómannafélag Reykjavíkur. Það var út af „prinsipinu“, sem verið var að berjast. Það var út af því, að Alþfl. gat ekki þolað, að þeir settu gerðardóm. Þess vegna varð nokkurt hark, eins og varð hér í dag, þegar sjómennirnir komu hérna út úr Listamannaskálanum af sínum fundi í Sjómannafélagi Reykjavíkur og komu hérna upp. Þá var háskólinn hér enn þá niðri og rúðurnar brotnuðu hérna frammi, og það var tekið að útvarpa frá þinginu, til þess að það væri hægt að útvarpa á Austurvöll, og útvarpað mestalla þá nótt. Það var þess vegna, að Alþfl. gat þá ekki hugsað sér að standa með gerðardómi, að hann rauf vinstri stjórnina þá. Þetta eru hlutir, sem hæstv. viðskmrh. ætti að fara að rifja upp.

Það var af sömu ástæðu 1942, þegar Framsókn og Sjálfstfl. bjuggu til gerðardómslögin alræmdu 8. jan. 1942. Stefán Jóh. Stefánsson var þá með í ríkisstj., og hann fór úr henni á þessu spursmáli. Alþfl. gat ekki þolað, að það væri settur almennur gerðardómur gegn verkalýðshreyfingunni. Þá lifði þetta enn þá í Alþfl., þá voru þessi tengsl enn þá við verkalýðshreyfinguna, og þessir ungu menn, eins og hæstv. viðskmrh., mega vara sig og það alvarlega. Það er ekki nóg að vera menntamaður, vel að sér um ýmsa hluti, halda góðar ræður, menn verða að hafa tengsl við fólkið til að geta verið leiðandi í flokki, sem á að heita verkalýðsflokkur, ella eyðileggja menn þann flokk, sem þeir hafa forustu fyrir. Og það er það, sem ég vil segja við þennan hæstv. viðskmrh.: Hann er á leiðinni að gera það, ef hann sér ekki að sér í tíma. Það er hættan, eftir að öll þessi sambönd rofnuðu og menn fóru að láta bera á sér í Alþfl., sem engin sambönd hafa við verkalýðinn, aldrei hafa unnið með honum, aldrei stjórnað verkföllum, aldrei verið í stjórn verkamannafélaga, aldrei þess vegna staðið með verkamönnunum í þeirra daglega stríði, — þegar slíkir menn eiga að fara að stjórna og bera ábyrgð, þá gera þeir aðrar eins skyssur og Alþfl. undir hans forustu er að gera í dag. Og það eina, sem mér hefur þótt vænt um í sambandi við framkomu þess flokks nú, þó að hún sé öll leiðinleg hér á þingi, er, að það skuli enginn maður hafa fengizt til að tala nema hann.

Það hefur verið rætt nokkuð um það hér, hvort eigi að fara kúgunarleið eða samningaleið. Og það undarlega ber hér við, að hvað eftir annað koma menn hér upp, m.a. hæstv. dómsmrh., og segja: Við viljum endilega fara samningaleiðina. Það er einmitt það, sem við viljum. — Og því í ósköpunum eru þeir þá að ganga hina leiðina? Eru þeir að villast? Sjá þeir ekki, hvert þeir eru að fara? Ég er hræddur um, að ef hæstv. dómsmrh. vili virkilega samningaleiðina, þá sé um að gera fyrir hann, — og hann er voldugur maður í sínum flokki, - að stöðva flokkinn og stöðva stjórnina á þessari leið, sem hún er á núna.

Hæstv. viðskmrh. hefur áður haft tækifæri til að tala út af dálítið svipuðum málum, þó að þau hafi ekki verið eins slæm og það, sem hér liggur fyrir núna. Við stóðum hér saman og vorum þá báðir í fjhn. þessarar hv. d. og skiluðum hvor sínu áliti, þó að við værum annars sammála um margt, á þingi 1951 og 1952, eftir að ríkisstj. Framsóknar og Sjálfstfl. hafði lækkað gengið. Þá var nefnilega komið á dálítið svipuðu efnahagslegu alræði verzlunarauðvaldsins í landinu og nú hefur verið komið á. Það voru braskararnir, sem fengu að ráða. Framleiðslan var hneppt í fjötra. Þróun sjávarútvegsins var stöðvuð. Afturför hafði verið í honum þau 6 ár, sem sú stjórn sat að völdum. En braskararnir undu lífinu vel og skiptu til helminga á milli sin, og hæstv. viðskmrh. var mjög duglegur í baráttunni þá. Ræðurnar hans frá þeim tíma á móti verzlunarauðvaldinu í Reykjavík, þegar hann var að reikna út gróðann hjá heildsölunum hér í Reykjavík, bæði útvarpsræðurnar hans og aðrar ræður, það voru alveg skínandi ræður. Hann lagði mikla vinnu í þetta, eins og hann gerir oft. Hann beitti miklu af tölum, og það voru heldur ljótar tölur, þegar hann var að sýna fram á, hvað heildsalarnir væru búnir að græða mikið. Ég held, að hæstv. viðskmrh. ætti að taka sig til og lesa dálítið af ræðum sínum frá þeim tíma, fara síðan að reikna dálítið út af gróðanum, sem þá var, og gróðanum, sem nú er, og bera það saman. Þeir græddu vel þá, heildsalarnir í Reykjavík. En þeir byggðu ekki aðrar eins lúxusbyggingar og þeir hafa verið að byggja nú við Suðurlandsbrautina. Þeir slógu ekki eins mörg hundruð millj. kr. og þeir eru, búnir að slá erlendis núna. Þeir hrúguðu ekki inn, þó að þeir flyttu inn þá 3000 bíla á 6 árum, þá slógu þeir ekki öll heimsmet, eins og þeir gerðu núna með 3000 bíla innflutningi á rúmu hálfu ári. Og ég hef grun um, að hæstv. viðskmrh. megi nú fara að skoða sjálfan sig í spegli, speglinum frá 1951, og lesa það, sem hann sagði þá.

Hv. 5. þm. Reykv. hélt hér mjög góða ræðu áðan. Mikil lifandis skelfing þykir mér alltaf vænt um, þegar framsóknarmenn halda svona ræður. Ég tekst alveg upp, þegar ég heyri framsóknarmenn verja svona skínandi vel verkfallsréttinn. Ég verð að segja, að það er ákaflega ánægjulegt, og ég vil alveg sérstaklega óska þessum samþingismanni mínum hér til hamingju með þá ræðu, sem hann flutti. Ég vil um leið vonast til þess, að það eigi aldrei fyrir hann að koma, að það yrði lesið upp eitthvað úr þessari ræðu til þess að hrella Framsfl., álíka og hann var að hrella, þegar hann las upp ræðurnar eftir Ásgeir Ásgeirsson, hæstv. forseta Íslands, frá 1929.

Það er smáatriði í sambandi við ræðuna, sem mig langaði þó til að gera aths. við, af því að hann var að mæla með verkfallsréttinum sem svo sérstaklega heppilegum sem andkommúnistísku tæki. Hann sagði, að verkfallsrétturinn væri svo upplagður til að hindra, að kommúnisminn yrði sterkari á Vesturlöndum. Lifandi skelfing þætti mér nú vænt um, ef þessi hv. þm. vildi taka það að sér fyrir okkur að fara til eins ágætis lýðræðislands, sem hann hefur verið með í að gera bandalag við, t.d. til Portúgals, og flytja vinum sínum þar, hinum indælu forustumönnum Atlantshafsbandalagsins í Portúgal, þær kveðjur, að þeir þurfi endilega að koma á verkfallsrétti í Portúgal til þess að slá kommúnismann alveg niður. Mér þætti ákaflega vænt um, ef hann vildi taka að sér að sannfæra há um það.

Hins vegar til að fræða hann, af því hann kom nú inn á, hvað verkföllin væru sterk, þá skal ég taka mjög undir það með honum. Eftir að borgaraflokkarnir höfðu farið heldur illa út úr því í viðureigninni við de Gaulle og meira að segja sjálf Bandaríkin orðið að láta í minni pokann fyrir honum, þá voru það verkamennirnir í Frakklandi, eins og hann gat réttilega um, þó að hann sleppti því að minnast á, að það hefði verið undir forustu kommúnistaflokks Frakklands, sem sýndu de Gaulle í tvo heimana, þannig að hann varð að láta í minni pokann. Það er nefnilega svo, að þarna, sem verkfallsrétturinn hefur verið alllengi, þar eru einmitt kommúnistaflokkarnir, sem hafa haft forustuna. í Frakklandi hefur kommúnistaflokkurinn um fjórða hluta þjóðarinnar á bak við sig. Á Ítalíu er hann jafnvel enn þá sterkari, stærstu verkalýðssamtökin í þessum löndum eru alveg undir þeirra forustu. Þess vegna, um leið og hann lofsyngur verkfallsréttinn, og það þakka ég honum mjög fyrir, þá má hann þó ekki vera að blekkja aumingja vesalings auðmennina hérna allt of mikið á þessu. Verkfallsrétturinn getur verið ágætis vopn fyrir kommúnistana líka.

Hitt aftur á móti er vert að minna hann á, að alþýðan í vesturlöndum hefur orðið að berjast fyrir verkfallsréttinum á sama hátt og hún hefur orðið að berjast fyrir lýðræðinu. Það er alþýðan í vesturlöndum, það er verkamannastéttin í Englandi, Frakklandi, öllum þessum löndum, sem hefur orðið að knýja fram bæði þann almenna kosningarrétt, borgaralega lýðræðisskipulagið og verkfallsréttinn, orðið að berjast fyrir þessu allan tímann með sína sósíalistísku flokka í broddi fylkingar. Meðan auðmannastéttin réð ein í þessum löndum, voru verkalýðssamtökin bönnuð. Verkalýðssamtökin urðu í Englandi, þessu fyrirmyndar þingræðislandi, eins og það hefur verið kallað, að heyja harða og langa baráttu, og um tíma lá dauðahegning við því að berjast fyrir verkföllum, skipuleggja verkföll, rétt eins og er á Spáni í dag. Þess vegna skulum við gera okkur ljóst, að verkfallsrétturinn, það eru réttindi, sem verkalýðurinn hefur knúið fram. Það er ekki það borgaralega lýðræði, sem skóp hann. Það var stóriðjan í þessum löndum, sem skóp verkalýðinn, og það var verkalýðurinn í þessum löndum, sem reis upp á móti þeim kapítalistum, sem stóriðjunni réðu, og skóp sér verkfallsréttinn eins og almenna kosningarréttinn sem eitt af þeim tækjum, sem hann barðist með.

Það var ekki nema eðlilegt og mjög fallega gert hjá hv. 5. þm. Reykv., þegar hann var að sýna Sjálfstfl. og hans forustumönnum fram á, hvað það væri ljótt af þeim að vera að skerða verkfallsréttinn. En satt að segja skulum við ekki vera neitt hissa á því og við skulum ekki taka þetta of alvarlega, þegar þeir eru að tala um lýðræði hérna, auðmannaflokkarnir. Við skulum ekkert vera hissa á því, þótt aðalflokkur kapítalistanna á Íslandi, aðalflokkur auðmannastéttarinnar á Íslandi og aðalforingjar auðmannastéttarinnar á Íslandi séu að skerða verkfallsréttinn öðru hverju. Við erum ekkert hissa á því. Við, sem teljum okkur fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, höfum átt við þetta að stríða hér í ein 30—40 ár. Við höfum aldrei orðið neitt hissa á því, að íhaldið væri að reyna að skerða verkfallsréttinn. Okkur hefur satt að segja fundizt það frekar sjálfsagt, af því að við höfum gengið út frá því, að þetta lýðræði væri að mestu í nösunum á þeim. En hvernig í ósköpunum getur staðið á því, að svona indæll flokkur, svona alþýðlegur flokkur, svona lýðræðissinnaður flokkur, svona bændaflokkur eins og Framsfl., að honum skuli detta í hug að vera með íhaldinu í því að skerða þennan helga rétt? Hvernig stendur á, að það skuli geta komið fyrir? Það er það, sem við höfum ástæðu til þess að vera hissa á, sérstaklega eftir svona ræðu, svona hjartnæma ræðu. Hvernig stendur á því, að ég skuli hafa orðið að upplifa það hér í þinginu, að það er Framsfl. með Alþfl. í ríkisstj. og Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, sem setur gerðardóm á móti sjómönnum?

Ég gaf nýlega lýsingu á því hérna, þeirri nótt, 17. marz 1938, þegar Alþfl. var hrakinn út úr ríkisstj. af Framsfl., af því að Framsfl, gerði það að úrslitaatriði, að það yrði settur gerðardómur í sjómannadeilunni, og náttúrlega var Sjálfstfl., þótt hann væri þá í stjórnarandstöðu, fullur ábyrgðartilfinningar og stóð náttúrlega með Framsfl. í slíku. Hvernig stendur á slíku? Og þá stóð nú þannig á, að Jón Baldvinsson, en þessi hv. þm. tekur sér nafn hans í munn, Jón Baldvinsson lá banaleguna og dó þá sömu nótt. Og einmitt þá hrekur Framsfl. Alþfl. út úr ríkisstj. á því að heimta gerðardóm á móti sjómönnum. Það er gott að halda hjartnæmar ræður. En það er nauðsynlegt að stinga hendinni í eigin barm. Þessi hv. þm. er nú ungur og man ekki eftir, hvað Framsfl. hefur gert hér í gamla daga, og það, sem ég vildi ráða honum, er að láta þá menn, sem gerðu þá hluti, sem Framsfl. hefur gert hérna áður fyrr, aldrei fá að ráða neinu í Framsfl. oftar. Þeir tóku sig til líka 1942 og settu almennan gerðardóm, hröktu Alþfl. aftur út úr ríkisstj. Ég held, að það ætti að lesa yfir þeim, einmitt þessum herrum, hvað verkfallsrétturinn er mikils virði og þeir megi ekki brjóta hann.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði hér nokkur orð í sambandi við fall vinstri stjórnarinnar, og ég get ekki stillt mig um að leiðrétta hann. í fyrsta lagi, vinstri stjórnin féll ekki. Það fór aldrei fram nein atkvgr. hér á þingi, þar sem hún féll. Framsfl. sundraði henni, Framsfl. sleit henni. Framsfl. sleit því stjórnarsamstarfi og sveik þá stefnuskrá, sem hann hafði fallizt á að framkvæma, þegar sú stjórn var sett. Framsfl. sleit vinstri stjórninni á því augnabliki, sem tveir samstarfsflokkar hans, Alþfl. og Alþb., höfðu náð samstarfi á Alþýðusambandsþingi. En áður hafði Framsfl, kvartað yfir því, að þeir kæmu sér ekki nógu vel saman. En á því augnabliki, sem Framsfl. sá, að þessir tveir flokkar ætluðu að fara að koma sér saman, þá sleit hann stjórnarsamstarfinu. Samstarfinu við Alþýðusamband íslands var neitað þá. Alþýðusambandi Íslands var stillt frammi fyrir úrslitakostum, en því var ekki boðið upp á samstarf. Framsfl. skal ekki komast upp með að segja, að það hafi verið einhverjir aðrir, sem slitu því stjórnarsamstarfi. Það gerði hann einn, og því ber hann einn ábyrgð á. Og því er borið við, eins og sá hv. þm. sagði, 5. þm. Norðurl, e., að það hafi verið einhver slæm öfl að verki, sem hafi hækkað svo mikið kaupið og kaupmáttinn á síðustu þrem mánuðum ársins

1958, að þess vegna hafi allt farið út um þúfur. Ég skal reikna fyrir hv, þm. kaupmáttinn þessi ár. Kaupmáttur tímakaups lægst launuðu Dagsbrúnarmannanna var 1956 97.2, miðað við 100 1946. Árið 1957 var hann 95.8. Árið 1958 var hann 96.9. Hann var mjög svipaður allan þennan tíma, rétt í kringum 97. Hvað var þessi sami kaupmáttur 8 síðustu mánuði ársins 1955? Hann var 99.7. Hann var heldur hærri allan seinni hluta þess árs, eftir 6 vikna verkfallið um vorið, heldur en var á þeim tíma vinstri stjórnarinnar. En það munaði ekki miklu, það var engin veruleg lækkun, aðeins 2 stig. Hver var kaupmáttur tímakaupsins síðustu 3 mánuði ársins 1958, þessa 3 mánuði, sem alltaf er verið að reyna að útbásúnera, þannig að þeir hafi eyðilagt allt saman? Hann var 99. Það er allt saman. Hann var 2 stigum hærri en hann var að meðaltali þessi 3 ár. Og Framsókn mundi þykja það lítil kauphækkun í dag á 3 árum.

Það dugir þess vegna ekki að vera með neinar blekkingar í þessu sambandi og engar ávítur á okkur t.d. í Alþb. eða verkalýðshreyfingunni, sem stóð að því að hækka þá kaupið. Hún átti fullan rétt á þeim kauphækkunum, enda var komið svo, að það var fulltrúi Framsóknar í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem haustið 1958 lagði til, að gengið yrði að öllum kröfum Dagsbrúnar þá. Þess vegna á ekki að vera að blekkja í þessum efnum, sízt af öllu að bera verkalýðnum í Reykjavík, sem nú stendur í harðri baráttu, á brýn og reyna að væna hann um ýmislegt slæmt í sambandi við það, sem þá gerðist. Hann var að berjast fyrir fullkomlega sanngjörnum kröfum, sem þjóðfélagið gat leikið sér að að fullnægja, þótt hærri hefðu verið, svo framarlega sem Framsfl. hefði nokkurn tíma þorað að taka upp almennilega efnahagspólitík og hefði ekki látið þá sömu menn ráða sinni efnahagspólitík, sem hafa ráðið pólitík viðreisnarstjórnarinnar síðan. Hann arfleiddi vinstri stjórnina að sínum sérfræðingum.

Og hvað gerði Framsfl., þegar hann fór út úr þessari vinstri stjórn? Hann fór beint til Sjálfstfl. og bauð honum að mynda stjórn með honum með því að lýsa því yfir, að hann vildi mynda stjórn allra flokka um 8% launalækkun. Hann vissi, að við urðum ekki með í þeirri stjórn. Hann vissi, hverja hann bjóst við að fá með í þá stjórn, alveg eins og 1944. Hann reiknaði bara skakkt, eins og hann reiknar stundum. Þetta vildi ég nú aðeins segja, af því að verið var að hnýta í okkur. Ég vil segja það við hv. framsóknarmenn, sem standa sig svona framúrskarandi vel í baráttunni með okkur núna, sem mér þykir alltaf ákaflega vænt um að berjast með, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, þeir eru alltaf svo skemmtilega róttækir, þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, — ég vil segja við þá, að þeir eiga ekki að vera að rifja þessa hluti upp, því að við þurfum ekki að fara að deila innbyrðis núna. Það er betra að standa saman. Þess vegna eiga þeir ekki að vera að tala um þessa hluti, vegna þess að þeir tala rangt um þá.

Hér hefur því verið haldið fram af hálfu hæstv. ríkisstj., ég held jafnvel, að hæstv. viðskmrh. hafi komið inn á það, hvernig í ósköpunum ætti nú sjávarútvegurinn að fara að bera 40% hækkun á kaupi. Já, sjávarútvegurinn ber nú miklu, miklu meira en þótt væri 40% hækkun á kaupi hjá verkamönnunum, sem skapa hann og vinna við hann og framleiða fiskinn. Hann ber miklu, miklu meira. Sjávarútvegurinn ber alla auðmannastéttina hér í landinu, allt braskið, sem hér er framkvæmt, á sínum herðum. Og það mætti losa hann við eitthvað af því braski, áður en farið væri að tala um, að verkamennirnir hefðu of mikið. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi látið orð að því liggja, að okkar sjávarútvegur mundi ekki vera samkeppnisfær, ef hann hækkaði kaupið um 40%. Ég er hræddur um, að við þurfum alvarlega að rannsaka sjávarútveginn og allt okkar þjóðfélag; alla þess yfirbyggingu. Helztu keppinautar okkar eru Norðmenn. Hvernig er kaupið, sem sjávarútvegurinn og íslenzkir atvinnurekendur verða að borga, og hvernig er kaupið, sem sjávarútvegurinn norski og norskir atvinnurekendur verða að borga? Kaupið hér er núna, lægsta Dagsbrúnarkaupið 28 kr. um tímann. Kaupið, sem norski verkamaðurinn hefur, meðaltalskaupið hjá honum, ófaglærða verkamanninum, er 48 kr.

Svo að við lítum á sjávarútveginn, hvernig eru afköstin, hvernig er aðstaðan, sem kapítalistunum í báðum löndum er sköpuð. Seinast þegar ég vissi til, að samanburður var tekinn á okkur og Noregi um afköst við aflabrögðin, það var í Marshall-skýrslunum frá 1948, ef ég man rétt, framleiddi íslenzkur sjómaður á ári 70 tonn af fiski, og næstur honum kom í veröldinni sá norski sjómaður, sem framleiddi 10 tonn af fiski. Íslenzki sjómaðurinn afkastaði sjö sinnum meira en sá næsti, sem kom á eftir honum í veröldinni. Og núna held ég, að á síðasta eða næstsiðasta ári voru afköstin, ef ég man rétt, hjá íslenzka sjómanninum 120 tonn á ári, og þá held ég, að talið hafi verið, að sjómenn í Bandaríkjunum væru næstir með 25 tonn. M.ö.o.: afköstin í sjávarútveginum, sjálfum aflabrögðunum á Íslandi eru meiri en annars þekkist í veröldinni. Íslenzkur sjávarútvegur ætti þess vegna að vera allra sjávarútvega samkeppnisfærastur, strax hvað afköstin snertir, með okkar auðugu mið, okkar duglegu sjómenn, okkar fullkomnu tæki, sérstaklega svo framarlega sem skipulagningin og vinnan í landi væri framkvæmd með álíka hagsýni og ég býst við að ýmsir kapítalistar erlendis framkvæmi.

Ég hef sjálfur einu sinni átt ofur lítinn þátt að því að reyna að leiðbeina, þó að ég þekki lítið inn á þetta, okkar íslenzku kapítalistum um hagsýni í slíku. Við lögðum til við þá í nýbyggingarráði, að það yrði byggð á Grandagarðinum hérna í Reykjavík bæði stórt hraðfrystihús og fast við það fiskimjölsverksmiðja, þannig að þegar fiskurinn væri flakaður, dytti hann niður á færibönd, sem færu beint yfir í fiskimjölsverksmiðjuna. Það var búið að gera teikningar af þessu og allt slíkt, nýbyggingarráði í gamla daga og útvegsmönnum leizt vel á þetta. Það var praktískt, það þurfti aldrei að setja neinn fisk á bíl, það var hægt að taka hann beint upp úr skipunum, og beinin fóru sjálíkrafa og úrgangurinn yfir í fiskimjölsverksmiðjuna. En hvað gerðist? Það gerðist, að bankarnir og allir mögulegir spekúlantar fóru að sletta sér fram í þessa hluti. Landsbankinn neitaði að lána útvegsmönnunum fyrir þessu, nema því aðeins að þeir færu í kompaní við vissa fiskimjölsverksmiðju, sem stendur nú hér inni á Kletti, og þessum málum var með afskiptum bankavaldsins þá stjórnað þannig, að hraðfrystihúsin voru byggð úti á Seltjarnarnesi, eins og Ísbjörninn, og fiskimjölsverksmiðjurnar endurreistar inni á Kletti, og hvern fisk varð að keyra fyrst út á Seltjarnarnes til að flaka hann þar og síðan beinin og úrganginn 5 km í gegnum alla Reykjavík inn á Klett til að vinna úr beinunum þar. Þetta er hagsýni íslenzkra kapítalista. Svo koma þeir, ef það ber sig ekki allt saman, og segja: Það verður að lækka kaup hjá verkalýðnum, — menn, sem ekki kunna að stjórna sínu verki og ættu þó sannarlega að hafa betra vit á því en einhverjir og einhverjir, sem aldrei hafa lesið um þetta nema í bókum. En það er ekki til neins að skipuleggja allt hringlandi vitlaust og koma svo á eftir og segja, að verkalýðurinn eigi að borga.

Ég sagði það einu sinni, þegar verið var að ræða hér um efnahagsbandalagsmálin, við okkar íslenzku kapítalista, að það væri svo sem engin tilhlökkun að sjá það, þegar Findus eða Unilever færu að setja upp stór hraðfrystihús í Sandgerði og annars staðar, og sjá kanaska 7 hraðfrystihús í Keflavík verða að engu fyrir það, að þetta hefur verið byggt eins og af kjánum. Ég sagði við þá, að þrátt fyrir allt, hve þeir stjórnuðu þessu illa, þá vildum við þó heldur hafa þá en fá þessa útlendu hringa. En það þýðir ekki um leið, að við viljum þola það, að vegna þess að þessu er óskynsamlega stjórnað af okkar íslenzku kapítalistum á þessu sviði, þá viljum við sætta okkur við, að þeir fari að lækka launin hjá verkamönnunum þess vegna. Nei, þeir verða að læra að stjórna atvinnurekstrinum, sem — bankarnir og þjóðin hafa lánað þeim fé í, af einhverju viti. Og það á að byrja þar.

Svo er annað, sem þeir mega líka læra. Þeir þurfa að hafa dálitinn manndóm í sér gagnvart þeim aðilum, sem þeir láta tæta allt af sér núna. Hvað eru þessir kapítalistar okkar í sjávarútveginum að láta bankana setja sér stólinn fyrir dyrnar og heimta af sér okurvexti? Geta þessir kapítalistar okkar einhverjir í sjávarútveginum ekki sagt við bankana: Við látum ykkur ekki fá neinn fisk, þið heimtið hann af okkur, við látum ykkur ekki fá hann? — Það er á þessum fiski, sem bankarnir græða allt, sem þeir græða. Hvað þurfa þessir kapítalistar að beygja sig undir einhverja hrottavexti hjá bönkunum? Eða hvað þurfa þeir að láta olíuhringana vera að græða á sér? Eins og þeir geti ekki sagt við þessa hringa: Við myndum okkar eigin olíufélög og kaupum allt inn sjálfir. Hvað þurfa þeir að láta vátryggingafélög vera að græða á sér? Það er nauðsynlegt, að sjávarútvegurinn og þeir, sem honum stjórna, manni sig upp í að segja við aðra aðila í íslenzkri auðmannastétt: Þið skuluð ekki græða einn eyri, fyrr en sjávarútvegurinn ber sig sjálfur, því að það, sem íslenzku þjóðfélagi er nauðsynlegt, á meðan það er kapítalistískt þjóðfélag, er fyrst og fremst, að sjávarútvegurinn beri sig. Allir heildsalar og olíuhringar eða hverjir sem það eru geta komið á eftir. Það má þjóðnýta bæði olíuna og vátryggingafélögin og allan innflutninginn til landsins, og sjávarútvegsmennirnir ættu að segja það, að það skuli þeir gera, svo framarlega sem ekki sé séð um, að sjávarútvegurinn fái að græða. En þeim skal ekki haldast uppi að ganga á verkalýðinn í landinu.

Verkalýðurinn í landinu veit ósköp vel, hvernig hægt er að stjórna þessu landi miklu betur en því er stjórnað núna. Hann treystir sér fullkomlega til að standa undir hærra kaupi en 40 kr. á tímann til Dagsbrúnarmanna. Og látið okkur bara stjórna því, við skulum sýna ykkur það. En við látum ekki bjóða okkur að segja í sífellu: Allir skulu halda sínu. Bankarnir skulu fá að reyta af sjávarútveginum, olíuhringarnir skulu fá að reyta af sjávarútveginum, heildsalarnir skulu fá að reyta af sjávarútveginum, bílabraskararnir skulu fá að reyta af sjávarútveginum, þeir skulu fá að byggja umboðshallir eins og þeim þóknast. — Það er þetta, sem verður að stöðva, og það er þarna, sem verður að byrja. Og þess vegna segjum við: Það verður ekki byrjað á verkalýðnum, við þolum það ekki undir neinum kringumstæðum. Þið verðið að beina ykkar geiri þangað, sem þörfin er fyrir. Það þarf að losa sjávarútveginn við þessar afætur, sem eru á honum. Það er hlaðið á sjávarútveginn, og það er verið að brjóta hann niður undir þessum þunga braskaravaldsins í Reykjavík, og það er sá þungi, sem hann þarf að feykja af sér, og verkalýðurinn er reiðubúinn að hjálpa honum til þess. Hann hefur gert það áður, þegar þetta braskaravald, Coca-colastjórnin í gamla daga ætlaði að fara álíka að og hæstv. ríkisstj. er að fara að nú.

Það, sem gerir, að verkalýðurinn hefur risið upp núna, er, að hans réttlætistilfinningu er ofboðið. Það verkafólk, sem starfar við framleiðsluna á íslandi, það verkafólk, sem vinnur mestu erfiðisvinnuna, það verkafólk, sem ber allt þjóðfélagið á sínum herðum, það er það, sem heimtar sitt réttlæti, og það er það, sem heimtar sitt frelsi, og það er það, sem sættir sig ekki við þessi lög. Það sættir sig ekki við að vera skilið út undan, þegar allir aðrir eru búnir að taka sitt, og láta henda í sig roðunum. Það eru liðnir þeir tímar, að við beygjum okkur undir eitthvert harðstjóravald þannig. Það er ástand, sem íslenzk alþýða ætlar ekki að horfa framan í oftar. Allir þessir gammar skulu ekki fá að reyta þannig af henni. íslenzkur verkalýður sér það, að ef hann unir þessu, er verið að gera hann að sérstakri undirstétt, sérstakri þrælastétt hér í þjóðfélaginu, og það einmitt stéttina, sem vinnur öll þörfustu verkin. Þess vegna hefur verkalýðurinn risið upp á Íslandi, eins og hann hefur gert í dag. Hann sættir sig ekki við þrælalög. Þess vegna á hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn að sjá að sér í tíma. Sú réttláta reiði fólksins, sem nú þegar hefur brotizt út og kemur til með að magnast, er svona sterk, vegna þess að hún er réttlát. Það tjáir ekki að berjast á móti þessu. Þeir menn, sem hafa einhverja skynsemi, eitthvert stjórnmálavit, eiga að læra að láta undan t tíma. Það er hægt að stíga eitt feilspor, sem getur orðið hættulegt, en það er hægt að leiðrétta það með því að stíga spor til baka.