04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (1833)

56. mál, launamál o.fl.

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það má með sanni segja, að mikið ofviðri geisi hér á sviði efnahagsmálanna nú um þessar mundir. Dýrtíðin hefur magnazt og þenslan aukizt gífurlega. Kjaradómurinn, sem er hlutlaus og ópólitísk stofnun, komst að þeirri niðurstöðu á s.l. sumri, að laun embættismanna þyrftu mjög að hækka, svo að þeir gætu uppfyllt lífsþarfir sínar með svipuðum hætti og var fyrir þann tíma, er dýrtíðarofviðrið skall á. Kjaradómurinn hækkaði því laun starfsmanna ríkisins mjög mikið, eða eftir því sem sagt er um 45% til jafnaðar. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa síðan siglt í kjölfarið, og starfsmenn annarra bæjarfélaga munu flestir hafa tryggt sér hliðstæð kjör. En það er víðar, sem óveður þetta gengur yfir hér, því að eyðsla ott óhóf hefur stóraukizt. Hallinn á viðskiptunum við útlönd er sagður vera orðinn geigvænlegur, og ég hef heyrt talað um, að þar hafi sigið á ógæfuhliðina um 700 millj. á fyrstu 9 mánuðum þessa árs. Úlán bankanna hafa aukizt stórkostlega. Sparifjársöfnun hefur minakað. Og þar að auki hafa stórlán verið tekin erlendis.

Þetta, sem ég hef nú nefnt, eru allt upplýsingar frá sjálfri hæstv. ríkisstj. nú í þessum umr. hér á hv. Alþingi. Það skipast stundum veður skjótt í lofti, og skjótt getur sól brugðið sumri. Það er ekki lengra síðan en í júní s.l. að þá sögðu frambjóðendur, flokksblöð og ráðh. stjórnarflokkanna, að allt væri hér í himnalagi. Þá sögðu þeir, að spariféð ykist, bankarnir væru fullir af peningum, og sagt var yfirleitt þá um þær mundir, að fólki gengi vel að fá víxla og fyrirgreiðslu hér í bönkunum. Þeir sögðu þá, að viðreisnin hefði heppnazt, en þó væru skammt fram undan enn þá stórkostlegri höpp og hamingja, ef stjórnarflokkarnir fengju meiri hl. Hins vegar mundi auðvitað allt fara strax í hundana og í kaldakol og hrynja, ef stjórnin fengi ekki meiri hl. Meiri hl. þjóðarinnar trúði þessu, og stjórnarflokkarnir héldu meiri hl. sínum á Alþingi, þótt að vísu þeim fækkaði þar um einn mann. (Gripið fram í: Þeir fengu 49%.)

Þeir voru vígreifir, stjórnarflokkarnir, fyrir kosningar. Hin gullnu loforð þeirra og alæsilegu fyrirheit hleyptu kappi í kinn hjá ýmsum vinum þeirra og þeir tóku fjörkipp mikinn og drifu sig í að flytja inn bíla í þúsundatali, byggja stórhýsi og kaupa inn í landið alls konar varning. Stjórnin hafði gert vini sína ölvaða af gleði og bjartsýni. Þeir trúðu á viðreisnarhjalið, og þó að stjórnin sjálf hafi auðvitað séð, að viðreisnarhagkerfið gæti ekki lengi þolað slíka Jörfagleði, fannst henni það svik við góða stuðningsmenn að lofa þeim ekki að njóta uppskeru af hinni ímynduðu viðreisnarhagsæld. Stjórnin hugsaði sem svo, að það kæmu dagar og það kæmu ráð, þegar óveðursskýin færu að nálgast á efnahagsmálaviðreisnarhimninum.

Og hvert er svo ráðið? Það er nú komið í ljós. Þegar óveðrið nálgaðist, voru vinir viðreisnarinnar komnir í hið hlýja hús og búnir að tryggja sér skjól og yl. Þá vildu einnig þeir, sem með líkamlegri orku sinni erja mold og mið og sinna hinum grófari verkum í landinu, komast í nánd við hina og fá að njóta með þeim ávaxtanna, sem ríkisstj. sagði fyrir kosningar að viðreisnin hefði fært landinu. En þá var hurðinni lokað, og nú er ekki meira til að láta í té. Þið verðið, segir stjórnin nú við almenning, að standa úti og horfa á reykinn af réttunum og láta ykkur nægja það, sem þið hafið haft, því að ef allir fá allt, þá fær enginn neitt. Það er nefnilega þannig, að þá verður ekkert úr því, sem þeir eru búnir að fá, sem inn fyrir dyrnar komust í sumar. Það er nú það. En það mætti kannske athuga, ef tími gefst, hvort ekki væri hægt að láta einhverja ölmusu í té, t.d. lækka skatta og útsvör af ykkur o.s.frv. Þetta er gefið í skyn.

Þetta eru þá úrræðin: binding kaupgjalds hjá þeim, sem langlægst eru launaðir og höllustum fæti standa í lífsbaráttunni. Það er sagt, að framleiðslan þoli ekki hærra kaupgjald en nú er greitt til verkamanna. Þetta er sjálfsagt rétt, ef miðað við óbreytt ástand atvinnuveganna. En hvaðan eru teknar tekjurnar til að greiða þær launahækkanir, sem embættismenn hafa þegar fengið? Hvaðan eru þær tekjur fengnar? Ætli það verði ekki í einhverri mynd sótt til atvinnuveganna eins og hingað til? Ég geri ráð fyrir því.

Mér er sagt, að í einu bæjarfélagi hér eigi alllangt frá Reykjavík nemi kaupgjaldshækkanir þær, sem orðið hafa hjá bænum og stofnunum hans, um 1 mill,j. kr. Auðvitað verða atvinnuvegirnir, sem fólkið í bænum vinnur við og lifir á, að standa undir þessum auknu útgjöldum. Aðrar uppsprettur eru þar ekki til að ausa af, og vitanlega hvergi annars staðar. Við verðum allt að sækja til atvinnuveganna. Og þess vegna er það vitanlega frumskilyrði þess, að við getum haft góð lífskjör, að þessum atvinnuvegum sé vel stjórnað og þeir vel reknir, því að alla okkar eyðslu, þarfa og óþarfa, verðum við að sækja til framleiðslunnar og hún verður að bera það beint og óbeint.

Lýðræði hjá svo litilli þjóð, sem við Íslendingar erum, hefur byggzt á því og mun byggjast á því, að stéttaskipting sé ekki mikil í landinu og efnahagur sé hér nokkuð jafn, en þjóðin greinist ekki í auðmenn og öreiga. Þess vegna hljóta allir, sem vilja styrkja lýðræði í landinu, að vilja einnig hafa lífskjör manna sem allra jöfnust. Það hlýtur að verða að fara saman. Og hvaða vit er eiginlega í því, að lífskjörin séu ójöfn,, að sumir safni auði, en aðrir séu fátækir? Ég hygg, að þeir séu fáir, sem í alvöru vil,ja slíka þróun. Ég trúi því ekki, að það séu margir, sem hana vilja og eftir henni óska.. Í nútímaþjóðfélagi eru menn mjög háðir hver öðrum, það orsakast af hinni miklu tækni og fjölbreyttu atvinnulífi, þar sem hver þjóð greinist í ótalmargar starfsstéttir, sem eiga og verða að þjóna hver annarri, svo að hjólið geti snúizt, þ.e.a.s. daglegt líf manna og sköpun verðmæta, andlegra og efnislegra, geti gengið að eðlilegum og nauðsynlegum hætti. Ef einhver ein stétt kippir að sér hendinni um störf, hver svo sem þau eru, þá fer þjóðfélagsvélin, ef svo má að orði komast, fljótt að ganga skrykkjótt og stöðvast fyrr en varir. Þetta er orðið nokkuð öðruvísi en var áður fyrr, þegar íslendingar voru bændaþjóðfélag og hvert heimili var eins konar smáríki út af fyrir sig og sjálfu sér nægt að flestu og oftast öllu leyti.

Í ræðu hæstv. menntmrh. hér í þessari hv. d. við 1. umr. um þetta mál komu fram mjög athyglisverðar upplýsingar um þá ískyggilegu þróun, að launamismunur hefur vaxið allört á síðustu árum, þ.e.a.s. viðreisnartímanum. Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. ráðh. væri farinn að fá eftirþanka og dálitlar áhyggjur af þessu ástandi, og það er vel farið að mínum dómi. Ég held, að það muni fara svo og þróunin muni verða sú í því velferðarríki, sem við sjálfsagt allir viljum byggja upp, að öll æðri menntun a.m.k. verði talin sem hver önnur vinna hjá þeim, sem menataveginn ganga, og þeir muni af þjóðfélagsins hálfu fá laun, meðan þeir stunda sitt nám, eins og þeir væru við dagleg störf í þjónustu ríkisins. Og þess vegna held ég, að þeir muni ekki verða launaðir með eins miklum mun og nú er, þ.e.a.s. margföldum launum móts við fólk í öðrum stéttum, þegar þeir hafa lokið námi sínu og geta tekið til starfa í sínu fagi. Með þessu má ekki skilja mig þannig, að ég haldi því fram, að allur launamismunur eigi að hverfa. Það hefur mér aldrei dottið í hug. En ég tel, að lífskjörin verði að jafna og umfram allt verði að koma í veg fyrir stéttamun af því tagi, að sumir séu mjög fátækir, en aðrir mjög auðugir. Þjóðfélag, sem samanstendur af slíkum þegnum, mun aldrei geta orðið farsælt né verðskulda það nafn að vera kallað velferðarríki. Þar yrði aldrei almenn farsæld né friður með mönnum, það er óhugsandi.

Frv. þetta, sem hér er til umr., er um það að binda kaupgjaldið fast, eins og það er nú, um tveggja mánaða skeið. Það bannar kaupdeilur, verkföll og vinnustöðvanir og verðhækkanir aðrar en þær, sem sannað verður að orðið hafa af verðhækkun efnisvara og annarra kostnaðarliða. Þetta frv. er lagt hér fram af þeirri ríkisstj., sem boðaði það, þegar hún settist að völdum, að hún mundi aldrei skipta sér af kaupgjaldsmálum, þau yrðu vinnuveitendur og launþegar að útkljá sjálfir. Ríkisvaldið ætlaði ekki að hafa nein afskipti af slíku. Ég verð nú að segja það, að ég undraðist mjög, þegar ég heyrði þessi fyrirheit hæstv. ríkisstj., að hún skyldi láta slíka fjarstæðu frá sér fara, þ.e.a.s. að hún mundi ekki á nokkurn hátt hafa afskipti af slíkum málum, vegna þess að það veit hver maður, að slik mál eru einhver viðkvæmustu og hættulegustu mál á hinu efnahagslega sviði hjá flestum, ef ekki öllum þjóðum, og þá ekki sízt hjá svo lítilli þjóð sem við Íslendingar erum. Flestar ríkisstj. gera sér mikið far um það að liðka til og greiða fyrir samningum, þegar kaupdeilur verða, og telja slíkt skyldu sína gagnvart þeirri þjóð, sem þær hver og ein hafa forræði fyrir. Þetta fávislega fyrirheit sitt efndi ríkisstj. á þann hátt, þegar launþegar og vinnuveitendur náðu samkomulagi um dálitla kauphækkun 1961, að þá rauk hæstv. stjórn til og sló úr hendi alþýðu manna þessa kjarabót með því að fella gengi íslenzkra peninga. Þannig efndi hún fyrirheitið um að skipta sér ekki af kjaramálum. Hún réðst þar, að mínu viti, á garðinn, þar sem hann var lægstur, og svipti að ósekju þá, sem náð höfðu í frjálsum samningum dálitlum tekjuauka, þessum vinningi þeirra. Þetta var áreiðanlega versta og óviturlegasta verk þessarar hæstv, ríkisstj., þar til nú, að hún er að vinna annað verk ekki betra að mínum dómi.

Þessi hæstv. stjórn sagðist vilja efla og auka frelsi á öllum sviðum. Hún sagðist ekki vilja nein höft á frelsi manna og hún hefur haft mörg og ljót orð um pólitíska andstæðinga sína og borið á þá, að þeir séu haftapostular og vilji skerða frelsi fólks. Það nýja efnahagskerfi, sem núv. hæstv. stjórn kom hér á 1960, átti að skapa þjóðfélag fárra voldugra, sem réðu fjármagninu og drottnuðu yfir almúganum, verkafólki og bændum. Þó að ekki sé langt liðið síðan hið svokallaða viðreisnarhagkerfi tók til starfa, þá er nú þegar að verða ljóst, að sú stefna getur ekki þróazt hér til að koma á því þjóðfélagi, sem höfundar viðreisnarinnar vilja fá, nema gripið verði til valdbeitingar, m.a. fyrst og fremst af því tagi einmitt, sem lagafrv. það gerir ráð fyrir, sem hér er nú til umr. Hefði þessi hæstv. stjórn núna þessa dagana gengizt fyrir því að rétta hlut láglaunafólksins og sýnt góða viðleitni í þá átt að jafna lífskjörin, þá gat hún að loknu slíku verki krafizt þess að fá frið um kjaramálin um sinn. En þessa leið vill stjórnin ekki. Hún vill heldur sýna vald sitt og fara því einu fram, er henni sjálfri sýnist.

Stjórnin vissi það strax í vor, að þessi kaupgjaldsvandamál biðu úrlausnar nú um veturnæturnar, því að í vor var sætzt á það af verkalýðsins hálfu að láta þá sitja við lítilfjörlega hækkun, en samningar væru lausir um miðjan október. Og hvað hefur svo verið gert í allt sumar og haust til að undirbúa þá lausn, sem látið var í vor skína í, að stjórnarvöldin mundu hafa forgöngu um? Það er nú komið í ljós, að þessi tími hefur verið notaður til að undirbúa það að binda hendur verkalýðsins. Það er sagt, að haftið verði leyst eftir tvo mánuði, en líklega eru fáir svo bjartsýnir að trúa því loforði eða öðrum loforðum hæstv. stjórnar. Nú dettur mér ekki í hug, að það hafi verið eða sé yfirleitt nokkurn tíma mjög auðvelt að ráða fram úr málum eins og þeim, sem hér er um að ræða. Ég er hins vegar viss um, að það er erfitt og krefst mikillar vinnu og samstarfs ríkisvaldsins við marga aðila. Það er náttúrlega miklu fljótlegra að gefa út pennastrik og skipanir, eins og gert hefur verið að þessu sinni með þessu frv., heldur en leggja fram vinnu og leita eftir samstarfi við fólkið, sem byggir landið. En í lýðræðislandi er það nú samt sú eina leið, sem forráðamönnum þjóðarinnar er sæmandi að fara, og engin önnur leið getur leitt til góðs árangurs fyrir alla aðila, það er útilokað.

Því hefur verið lýst hér af ýmsum ræðumönnum, sem talað hafa, að verkamaður, sem vinnur alla virka daga ársins 8 stundir á dag, getur ekki haft meira upp úr sér en innan við 70 þús. kr. Nú skulum við hugsa okkur, að þessi verkamaður leigi íbúð fyrir ca. 3000 kr. á mánuði, sem ég hygg að sé þó nokkuð algengt. Þá er fullur helmingurinn af kaupi hans farinn í húsnæði. Eftir á hann aðeins rúmlega 30 þús. til að standa undir öðrum þörfum heimilisins. Þessi verkamaður tekur auðvitað það fyrir til þess að bjarga sér að reyna að vinna miklu meira en 8 stunda vinnudag. Ef hann vinnur t.d. 2 tíma í eftirvinnu á hverjum virkum degi og 1 tíma í næturvinnu alla virka daga, þá geta tekjurnar komizt upp í 110–115 þús. kr. En hvað haldið þið nú, hv. alþm., að starfsþrek og heilsa manna endist lengi með slíkri vinnu? Náttúrlega yrði það misjafnt eftir þreki manna og þoli, en hætt er við, að ekki liði á löngu, þar til þjóðfélagið stæði frammi fyrir þeim vanda, að fjöldi manna væri orðinn útslitinn á bezta aldri og þyrfti á hælisvist að halda. Við skulum gera okkur þetta ljóst.

Ég tók eftir því í afmælisblaði Vikunnar, sem kom út núna 31. okt. s.1., að þar var viðtal við 3 þekkta menn hér í bænum. Og þetta viðtal var um landsins gagn og nauðsynjar og víða komið við þar. Einn þessara manna er mjög þekktur, prófessor Jóhann Hannesson. Meðal annars, sem hann segir í þessu viðtali, er þetta, hann segir: „Menn vinna of mikið, leggja of mikið á sig verða taugaveiklaðir og detta niður einn góðan veðurdag dauðir á götunni: Þetta voru hans orð, prófessorsins.

Þessi ofboðslega vinnuþrælkun, sem fólk verður að leggja á sig, er ekki eingöngu bundin við verkamannastéttina. Þetta á ekki síður við um bændurna, sem flestir eru einyrkjar, því að hvorki er fólk að fá til starfa né heldur aðstaða landbúnaðarins þannig, að hann geti borgað hið algenga kaupgjald. Þá má minna einnig og ekki hvað sízt á þá miklu vinnu, sem fjöldi húsmæðra í landinu leggur fram utan heimilanna í viðbót við húsmóðurstörfin.

Nú má enginn skilja mig þannig, að ég telji eftir fólki að vinna, reyna að bjarga sér, eftir því sem hver og einn hefur heilsu og getu til, það fer fjarri því. Ég tel slíkt eðlilegt og sjálfsagt að vissu marki og ekkert við því að segja, þó að menn þurfi að taka spretti við og við, þegar með þarf, þeir sem geta. En ég er algerlega andstæður því, að vinnan verði að oki, aldrei megi líta upp. Það er allt í lagi, þótt fólk þurfi, eins og ég sagði, að taka spretti, ef það getur þá orðið til þess að bæta svo hag manna, að þeir við það fari að sjá fram úr erfiðleikunum. En eins og nú er leysir hinn langi vinnudagur verkamanna þá ekki frá vandræðaafkomu. Þeir sjá ekki fram úr erfiðleikunum, og það rofar ekkert til, það er meinið. Sömu sögu er að segja frá bændum. Það er þetta, sem þarf að breytast.

Tæknin eykur afköst við störfin á öllum sviðum. Hér við bætist, að þessi árin er aflinn mjög mikill á sjónum og markaðir ágætir. Það er gert ráð fyrir því, að tæplega 6 þús. bændur, sem munu vera í landi okkar og flestir eru einyrkjar, framleiði vörur á einu ári, sem séu að verðmæti um 1600 millj. kr. virði. En þrátt fyrir allt þetta er það stefna ríkisvaldsins að halda niðri tekjum þeirra, sem með starfi sínu raunverulega skapa þessi óhemjuverðmæti. Hinir, sem vinna áhættuminnstu störfin í þjóðfélaginu, fá hækkanir, sumir svo miklar, að þær nema meira en árslaunum verkamanns.

Það er vitað mál, að hinir háu vextir og svokallaðar viðreisnarráðstafanir hafa mjög torveldað sjávarútvegi og landbúnaði að efla fjárhagsgrundvöll sinn á undanförnum árum. Hins vegar er ekki annað að sjá, a.m.k. hér í hófuðborginni, en að verzlanir hafi dágóða útkomu, ef dæma má af þeim miklu byggingarframkvæmdum, sem hér eru á vegum slikra aðila og ekki virðist þurfa neitt til að spara. Ég álít nú, þó að það sé gaman að hafa stór og falleg verzlunarhús og gnægð hvers konar varnings, þá er ég samt hræddur um, að fallvölt verði sú dýrð, þegar framleiðslan hættir að rísa undir óhófinu og hinn vinnandi maður fær ekki að hafa þau lífskjör, að hann geti notið sæmilegrar velmegunar. Ætli það verði þá ekki valtur grunnurinn undir óhófstildri, sem hér á sér stað í framkvæmdum kaupmannastéttarinnar og sparifé þjóðarinnar er ekki að svo litlu leyti bundið í? Sannleikurinn er sá, að það ætiar að fara fyrir viðreisnarhagkerfinu eins og margir spáðu þegar í upphafi, að það eyðir sér sjálft, það rotnar sundur vegna sinnar eigin spillingar, en eftir verður reynslan, dýrkeypt að vísu, en dýrmæt og til viðvörunar fyrir þá, sem eiga að lifa og starfa í landinu á komandi tímum.

Þeir, sem vildu fá viðreisnarhagkerfið, voru ekki og verða ekki færir um að nota kerfið, því að þeir kunna sér ekki hóf. Þeir eru svo veiðibráðir að kúga þá, sem þeir telja máttarminni, og gróðahyggja þeirra er svo gráðug, að þeir sprengja sitt eigið kerfi. Íslenzkir alþýðumenn eiga að láta þessa reynslu kenna sér, og vonandi þrýstir þessi reynsla hinu vinnandi fólki saman til þess að vinna með einhug á þjóðlegum grundvelli að því að koma hér á, áður en langt um líður, stjórn, sem metur mest hagsmuni alþýðu manna í sveitum og bæjum og setur efst á málefnaskrá sína hagsmuni þessa fólks og vinnur eftir slíku leiðarljósi að því að treysta menningu og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þar verður samningsréttur borgaranna, bæði sem einstaklinga og félagsheilda, um kjör sín og viðskipti að vera frjáls og studdur af ríkisvaldinu og markmiðið að bæta aðstöðu hinna fátæku og efla aðstöðu manna, hvar í stétt sem þeir eru, til að geta á hóflegan hátt notið lífsgæðanna, sem landið og hófleg vinna geta boðið okkur á hverjum tíma.

Ég tel, að ég hafi með þessum fáu orðum sagt hug minn til þess frv., sem hér er á ferðinni, og þeirra þvingunarráðstafana, sem það hefur að bjóða. Ég harma það, að hæstv. ríkisstj. skyldi bera fram þetta mál, sem ég er viss um, að á eftir að draga illan dilk á eftir sér. Að vísu finnst mér réttlátt, að stjórnin og hennar lið hafi af þessu máli þá erfiðleika, sem þeir hafa til stofnað og til unnið, en þjóðin mun þar að einhverju leyti öll gjalda, og það er sú hlið á málinu, sem ég og ótalmargir aðrir menn hafa áhyggjur af. Eins og málefnum þjóðarinnar er nú komið, er það djarft tiltæki hins veika meiri hl. hér á hv. Alþingi að ætla að knýja þetta mál fram eftir það, sem skeð hefur um kaup og kjör þeirra hæst launuðu í landinu, og á þeim tíma, þegar atvinnulífið og framleiðslan þarf á hverri vinnandi hendi að halda. Samningsréttur verkafólks, félagsfrelsi þess og nauðsyn þjóðarinnar fyrir frið eru svo þýðingarmiklir þættir í því að tryggja og efla þann grunn, sem þjóðfélag okkar hvílir á, að þar má með engu móti losa um nokkurn stein, því að þá getur allt riðað til falls, og ekki sízt þegar svo háttar nú til, eins og hér gerir, að yfirbyggingin á fleytunni er fullmikil. Það er því á engu meiri þörf en því að skapa sem víðtækast samstarf verkalýðs og annarra starfsstétta þjóðarinnar, og það er auðvitað skylda hæstv. ríkisstj. að gera ekkert, sem vekur tortryggni og réttmæta reiði þeirra, sem verst hafa lífskjörin.