04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (1835)

56. mál, launamál o.fl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég held, að ég hefði ekki kvatt mér hljóðs, ef það hefði ekki verið vegna þess, að hæstv. viðskmrh: kom hér fram með kenningu í ræðu sinni í dag, sem ég hef aldrei heyrt áður. En hún var um vísitölu framfærslukostnaðar, hvernig hún væri orðin til og í hvaða tilgangi. Ég skal víkja ofur lítið að öðru áður, en þar á ég við þær kenningar hæstv. ráðh. og ríkisstj. allrar reyndar, að lífskjörin hafi alltaf verið að batna, síðan þessir flokkar tóku höndum saman. Ég held, að það hafi lent miklu meira á hæstv, viðskmrh. að túlka þessa kenningu frammi fyrir þjóðinni en nokkrum öðrum, því að mér hefur heyrzt hann vera með hana við öll möguleg og ómöguleg tækifæri utan þings og innan, hvar sem hann hefur getað komið henni að.

Þetta er reyndar ekkert hégómamál, hvort lífskjörin eru að batna eða þau eru ekki að batna. Það er sannarlega gott að fá sem ýtrastar sannanir fyrir þessu núna, hvort þetta er svona, að lífskjörin hafi verið að batna undanfarin 4—5 ár. Við höfum hingað til litið svo á, að vísitala framfærslukostnaðar væri mælikvarði á lífskjörin. Og það er óneitanlegt, að hún var það, hún hefur verið það fram að 1. marz 1959, því að hvort sem litið er á vísitölu framfærslukostnaðar eða vísitölu verðiags vöru og þjónustu allt þangað til, þá fara þær nokkuð saman. Vísitala framfærslukostnaðar er að vísu ofur litið lægri, frá 2—3% lægri, aðallega vegna húsnæðisins, en það er ekki meiri munur á þeim, þótt maður reki þetta aftur á bak. En svo verður breyting á 1. marz 1959. Og sú breyting er í fyrsta lagi á þann veg, að vísitala framfærslukostnaðar, sem þá var 202 stig, er látin heita 100. En það var gerð meiri breyting á þessari vísitölu þá. Hún var sú, að inn í útreikning hennar voru teknar fjölskyldubætur, en þær höfðu aldrei verið teknar inn í vísitölu áður, og voru þó fjölskyldubaetur greiddar í fjöldamörg ár þar áður. Með þessari breytingu, að taka fjölskyldubæturnar inn, var hægt að hindra hækkun vísitölunnar. En hún fór á stað fyrir það, vísitalan, ekki hratt að vísu, en hækkaði þó. Hún var komin í 105 stig í sept. 1960, en 105 stig var jafnt og 210 stig áður. Hún hafði þá hækkað um 10 stig á þessu tímabili.

Þetta þótti stjórnarvöldunum ekki gott, og þá fann einhver, sennilega hagfróður maður, nýja aðferð við vísitöluna. Hún var sú að taka alla beinu skattana inn í hana líka. Og þetta gerði strik í reikninginn, því að þetta eitt lækkaði vísitöluna um 4 stig, þ.e. gömlu vísitöluna um 8 stig, og þannig var hægt að þræla henni niður í 101 stig aftur. Hún var m.ö.o. rekin aftur á bak. Þetta dugði ekki lengi, vísitalan hélt áfram að hækka þrátt fyrir allar þessar aðgerðir. Menn vita, að hún er núna, eða var 1. október, 144 stig, en það samsvarar því, að gamla vísitalan væri 291 stig.

Menn skyldu nú halda, að þetta væri rétt mynd af hækkun verðlagsins í landinu, mynd af dýrtíðinni. Nei, það er það ekki. Vilji maður sjá mynd af dýrtíðaraukningunni í landinu, þá þýðir ekkert lengur að vera að horfa á vísitölu framfærslukostnaðar. Hún sýnir alls ekki hækkunina, vegna þessarar hagræðingar á henni, sem ég var að nefna. En hvað halda menn þá, að vísitalan væri núna 1. okt., ef henni hefði aldrei verið breytt, hvorki breytt í 100 og ekki heldur breytt reikningsaðferðinni? Hún væri 331 stig. Það væri sú sambærilega vísitala við vísitölu vöru og þjónustu áður. Ekki bendir þetta til þess; að lífskjörin hafi batnað hvað snertir verðlagið, en svona hefur nú verðlagið hækkað á lífsnauðsynjum manna, þegar ekki er verið að blanda inn í það hlutum, sem aldrei voru hafðir með í útreikningi vísitölunnar áður.

Nú hef ég aldrei heyrt hæstv. viðskmrh. nefna vísitölu fyrir vöru og þjónustu. Ég held helzt, að hann vilji ekki heyra hana nefnda. Aftur á móti hefur hann nefnt vísitölu framfærslukostnaðar, þessi 144 stig, en það er sitt hvað eða 331 stig. Nú hefur hæstv. ráðh. lagt sig mjög fram um það, eins og ég sagði áðan, og alveg eins og hann hafi verið dæmdur til þess af meðráðh. sínum, að túlka það fyrir þjóðinni, hvað lífskjörin hafi batnað. Mér finnst, að einna gleggst hafi þetta komið fram hjá hæstv. ráðh. í grein í Alþýðublaðinu núna fyrir skömmu, eða 19. okt. s.l. Þar talar hann um þetta mjög ýtarlega, hvernig lífskjörin hafi batnað, og segir m.a., að um þetta hafi verið gerð mjög ýtarleg athugun, að hækkun á kauptöxtum verkalýðsins hafi numið 45% frá ársbyrjun 1960, hækkun á kauptöxtum verkalýðsfélaganna að meðaltali síðan í ársbyrjun 1960 hafi numið 45%, en vísitala framfærslukostnaðar sé 144 stig. Þetta á þá að ganga upp, þetta á þá að vera svo að segja jafnt. Þá hafa menn staðizt dýrtíðina, er það ekki? — eða maður á að skilja það svo, fyrst hvort tveggja hækkar um jafnmarga hundraðshluta. En ég hef hér áður sýnt fram á, að það er ekkert að marka þessa vísitölu 144, svo að það er ekki hægt að bera hana saman við hækkun kauptaxta.

En hann segir líka, að kaupið hafi hækkað misjafnlega mikið, og nefnir sem dæmi, að lægsti kauptaxti Dagsbrúnarverkamanna hafi hækkað um 36%, en meðaltalið sé samt 45%. Nú hef ég athugað það, að lægsti kauptaxti Dagsbrúnarverkamanna hefur ekki hækkað minna en aðrir taxtar í Dagsbrúnarsamningum, síður en svo. Það eru sumir taxtarnir aðrir hjá Dagsbrún, sem hafa hækkað minna. Þó að þetta sé lægsti kauptaxtinn, þá hefur hækkunin ekkert verið minni á honum heldur en öðrum. En hvernig hæstv. ráðherra fær út þessi 45% að meðaltali, það hef ég ekki minnstu hugmynd um. Ég get ekki fengið það út. Ég er hræddur um, að hann taki eitthvað af opinberum starfsmönnum þar inn i, því að það er ekki hægt að fá þetta út úr Dagsbrúnartöxtunum. (Menntmrh.: Þetta eru allir launþegar Alþýðusambandsins, allir taxtar Alþýðusambandsins.) Nú, í öllum félögum? (Menntmrh.: Auðvitað.) Og kvenfólkið líka. Já, það voru nefnilega fyrir þremur árum afgreidd lög hér á Alþingi um launajöfnun milli karla og kvenna, og þar hefur hæstv. ráðh. fengið hækkun, sem hann gat notað þarna. Samkv. þeim lögum eiga konur að fá sama kaup og karlmenn fyrir sömu vinnu, í áföngum. Þó að engin dýrtíðaraukning hefði orðið, þó að engin aukning þjóðartekna hefði orðið, þó að vísitala framfærslukostnaðar hefði ekki hækkað, þá fengju konurnar þetta, því að það stendur ekki í sambandi við neina dýrtíð, neinar kaupkröfur né neitt annað. En það er hægt að nota þetta til þess að fá hærra meðaltal, þegar verið er að reikna út kauptaxta í Alþýðublaðinu.

Ég hef þá í fáum orðum greint frá því, að vísitala framfærslukostnaðar er ónothæfur mælikvarði á dýrtíðaraukninguna, ef maður ætlar að bera hana saman við þá vísitölu, sem var fyrir 1959. Hún getur sýnt aukninguna, með sköttunum og fjölskyldubótunum, síðan 1. marz 1959, en hún getur ekkert sýnt, ef á að bera saman við þáð, sem áður var. Eins og ég sagði, er eini nothæfi mælikvarðinn á dýrtíðina vísitala vöru og þjónustu. Ég hef fyrir framan mig yfirlit yfir hækkun á vísitölu neyzluvöruverðlags, þ.e. vöru og þjónustu, undanfarin 7 ár, þ.e.a.s. 1. okt. hvert ár um sig. Þá er vísitalan 1. okt. 1956 táknuð með 100, og útkoman er sú, að þessi hækkun á neyzluvöruverðinu á þessum 7 árum er 80%, eða nákvæmlega 79.9%. Af þessari 80% hækkun á neyzluvöruverðinu koma 101/2 % á fyrstu 3 árin, þ.e. frá 1. okt. 1956 til 1. okt. 1959. Það eru aðeins 101/2 % af hækkuninni, sem koma á þau þrjú ár. En hin 4 árin, frá 1. okt. 1959 til 1. okt. 1963, koma 691/2%. Ekki bendir þetta til batnandi lífskjara. Allt eru þetta tölur, sem ekki er hægt að rengja og mér dettur ekki í hug, að hæstv. ráðh. fari að rengja, enda hefur hann þær sennilega allar hjá sér.

En það er ekki nóg að vita aðeins hækkun neyzluvöruverðsins, menn verða þá líka að vita hækkun kaupgjaldsins til þess að vita, hvernig fólk hefur getað mætt vaxandi dýrtíð. Ég hef fyrir framan mig tölur um hækkun á kaupi Dagsbrúnarmanns í 1. vinnuflokki, þ.e. í almennri verkamannavinnu, og það skiptir í raun og veru litlu máli, hvaða flokk maður tekur úr Dagsbrúnartaxta, hækkunin er svipuð, sumir eru fyrir ofan, aðrir fyrir neðan meðaltalið. Hækkunin á kaupgjaldinu þessi sömu 7 ár er 53%, þegar neyzluvöruverðlagið hækkar um 80%. Eru þetta ekki nokkurn veginn nægar sannanir fyrir því, að lífskjörin hafi versnað, þegar ég hef bent hér á tölur yfir 7 ára hækkun, annars vegar verðlagsins, hins vegar kauphækkanir verkamanns?

Ég skal koma með þriðja plaggið. Það er kaupmáttur launanna hjá verkamönnum. Og það er ekki reiknað eftir mig, það er reiknað eftir Efnahagsstofnunina. Sú tafla er aðeins frá 1958, frá 1. jan. það ár. Mesti kaupmáttur launa 1958 er í des. 104 stig, og er þá miðað við 100 1945, en minnstur er hann 95 á þessu ári. Árið 1959 er mesti kaupmátturinn 109, minnsti 97. En svo fer það að lasna, því að þá er viðreisnin byrjuð. 1960 er mesti kaupmátturinn 99, en minnsti 85. 1961 er mesti kaupmátturinn 92 og minnsti 83. 1962 er mesti kaupmátturinn 89 og minnstur 82, og það hefur hann orðið lægstur frá því í ársbyrjun 1958. Það var í maí 1962, apríl og maí, að kaupmátturinn fór niður í 82. Og loks kemur yfirstandandi ár. Mesti kaupmáttur á þessu ári er 90, en minnstur 82, eins og árið áður, þegar verst var. Hvað á maður nú að nefna fleira til að sanna það, að lífskjörin hafa versnað og það stórkostlega?

Þá kom hér fram ný kenning hjá hæstv. ráðh. í dag, sem mér væri ákaflega mikil þökk á, ef hann gæti gefið mér betri skýringu á, það er nóg, að hann geri það í fáum orðum, af því að það er orðið svo framorðið, en ég hef aldrei heyrt kenninguna fyrr. Og ef ég hef ekki misheyrt, sem ég held ekki, það er svo stutt á milli okkar, þá var efnislega það, sem hann sagði í ræðu sinni í dag, á þessa leið: Það er blekking, að útgjöld vísitölufjölskyldu í útreikningi hagstofunnar á vísitölu framfærslukostnaðar hafi nokkurn tíma átt að sýna raunveruleg útgjöld vísitölufjölskyldunnar. Það er blekking. Það hefur útreikningurinn aldrei átt að sýna.

En hvað halda menn að vísitalan hafi átt að sýna, eftir því sem hæstv. ráðh. segir? Hún hefur átt að sýna, hvernig tekjur verkamanna skiptast á einstaka útgjaldaliði fjölskyldunnar. Ef ég hef misheyrt, þá vona ég, að hæstv. ráðh. leiðrétti þetta. Ég gat ekki heyrt þetta betur en svona hjá honum í dag, vísitala framfærslukostnaðar hafi aldrei átt að vera neinn mælikvarði á það, hvað fjölskyldan þyrfti að greiða, hvað þeir kostuðu mikið hjá fjölskyldunni allir útgjaldaliðirnir, heldur aðeins átt að sýna, hvernig ákveðin tekjuupphæð skiptist á milli hinna einstöku liða, þ.e.a.s. hvað mikið þarf fyrir mjólk, hvað mikið fyrár brauð, hvað mikið í fatnað o.s.frv. af einhverri tölu, sem hagstofan hugsar sér fyrir fram. Mér þykir hagstofan vera nákvæm, þegar hún er að hugsa sér þessar tölur, þessar tekjur verkamanna, og fer svo að skipta þeim, þegar hún er að hugsa sér tölur upp á nokkra aura. Ég hef það hérna. 1. okt. eru útgjöldin hjá þessari vísitölufjölskyldu, sem eru 4.24 menn, 95 496.85 kr. þá hefur hagstofan hugsað sér, að einhver verkamaður kynni nú að hafa þetta í laun yfir árið, upp á 85 aura. Já, það er trúleg saga, þetta.

En þetta eru talsvert miklar fréttir samt. Þetta eru óneitanlega miklar fréttir, að vísitala framfærslukostnaðar hafi aldrei átt að sýna, hvað þær kosta fyrir fjölskylduna, lífsnauðsynjarnar. Ég held, að þetta sé hrein fjarstæða út í loftið hjá hæstv. ráðh. Ég veit ekki, af hverju hann segir þetta eða hvaðan hann getur haft þetta. En nú hef ég hér fyrir framan mig Hagtíðindi í apríi 1959, þar sem er gerð grein fyrir því, hvernig vísitala framfærslukostnaðar verður til, og er þar gerð grein fyrir því, hvernig það var 1939 og svo síðar. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Í gengisskráningarl. nr. 10 4. apríl 1939 og síðar í l. nr. 2 1940 voru ákvæði um, að skipuð skyldi þriggja manna nefnd„ kauplagsnefnd, er hefði það hlutverk að gera yfirlit um breytingar á framfærslukostnaði í Reykjavík að fengnum till. hagstofunnar. Á vegum þessara aðila voru 50 launþegar fengnir til að halda búreikninga eitt ár, frá júlíbyrjun 1939 til júníloka 1940. Af hinum 50 heimilisfeðrum, sem hér var um að ræða, skiluðu 40 nothæfum búreikningum, sem urðu grundvöllur vísitölu framfærslukostnaðar í Reykjavík.“

Svona er vísitala framfærslukostnaðar orðin til. Hún er byggð á búreikningum. Hún er byggð á raunverulegum útgjöldum fjölskyldumanna hér í Reykjavík og rannsakað af ákveðinni nefnd. Síðan segir einnig í þessu sama hefti Hagtíðinda, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1952 lagði kauplagsnefnd það til við ríkisstj., að hafin yrði rannsókn á neyzluvali almennings til undirbúnings því, að tekinn yrði upp nýr grundvöllur vísitölu framfærslukostnaðar, þegar það yrði ákveðið af Alþingi og ríkisstj. Samþykkti ríkisstj. þessa till. kauplagsnefndar og lagði fram fé til rannsóknarinnar. Fór hún fram á árunum 1953 og 1954. Það tók langan tíma að vinna úr frumgögnum rannsóknarinnar og gera ýmsar sérstakar athuganir, sem með þurfti. En þessum störfum var að mestu lokið á árinu 1956, og lá þá fyrir nýr grundvöllur vísitölu framfærslukostnaðar, sem nú hefur verið látinn koma til framkvæmda. Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir honum og þeirri neyzlurannsókn, sem á er byggt. Hinn nýi grundvöllur er í meginatriðum byggður á búreikningum launþegafjölskyldna, sem haldnir voru á árunum 1953 og 1954. Þessar fjölskyldur voru þannig fundnar, að valdir voru af handahófi 300 framteljendur í Reykjavík, er svo var ástatt um, er nú skal greina: Voru kvæntir og höfðu a.m.k. eitt barn á framfæri sínu, voru verkamenn, sjómenn, iðnaðarmenn, skrifstofumenn eða verzlunarmenn samkv. uppgjöf skattframtals, höfðu verið búsettir eitt ár eða lengur í Reykjavík, höfðu ekki haft óvenjulega háar eða lágar tekjur miðað við algengar tekjur manna í sömu stétt. Þessum 300 mönnum var skrifað og þeir beðnir að taka þátt í neyzlurannsókninni. Eins og vænta mátti, sinntu ekki nærri allir tilmælum kauplagsnefndar og aðrir hurfu frá þegar í byrjun, vegna þess að þeir uppfylltu ekki við nánari athugun þau skilyrði, sem við var miðað, og sumir, sem uppfylltu skilyrðin, heltust úr lestinni af ýmsum ástæðum. Hafði verið gert ráð fyrir þessu í upphafi, er talan 300 var ákveðin. Lokaniðurstaðan varð sú, að frá 80 fjölskyldum fengust nothæfar skýrslur um ársútgjöld þeirra.“

Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er framfærsluvísitalan þannig til komin, að það sé miðað við tekjur einhverra verkamanna og hún eigi aðeins að sýna skiptingu milli hinna einstöku útgjaldaliða fjölskyldunnar?

Eins og ég sagði áðan, hefur hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisst,j. yfirleitt notfært sér vísitölu framfærslukostnaðar, ef þeir á annað borð hafa talið sig þurfa að nefna nokkrar vísitölur, en forðazt að nefna vísitölu vöru og þjónustu, og er það mjög skiljanlegt, hvers vegna þeir gera það. En þar sem þeir vilja nota vísitölu framfærslukostnaðar, þá vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Sér hann ekkert athugavert við kostnaðinn af húsnæðinu, sem reiknaður er í vísitölunni? Hefur hann nokkuð við hann að athuga? Finnst honum hann eðlilegur og sýna rétta mynd af því, sem hann á að sýna? Eru þessar 920 kr. á mánuði nákvæm spegilmynd af kostnaði fjölskyldunnar núna, eins og verðlagið er?

Nú eru birtar vísitölur byggingarkostnaðar, eins og menn vita, þrisvar sinnum á ári, og hefur verið gert í langa tíð. Vísitala byggingarkostnaður fyrir hvern rúmmetra í húsi er núna, eða var í júní í sumar, um 1706 kr. Hún mun vera að koma þessa dagana, vísitala byggingarkostnaðar í október. Ég hef fengið þær upplýsingar frá Efnahagsstofnuninni, að meðalstærð íbúða á öllu landinu, sem byggðar voru á s.l. ári, hafi verið 375 rúmmetrar. Eftir þessu að dæma hefur meðalibúðin þá kostað 640 þús. kr. Hvað ætli kosti að búu í þessari 640 þús. kr. íbúð? Ég vil helzt ekkert fara út í að reikna það. Ef ég fer að reikna það, er ég undireins kominn upp í 50 þús. kr. á ári. En við skulum nú seg,ja, að menn ætlist ekki til, að allur almenningur búi í meðalhúsi, hafi eitthvað þrengra um sig. Og ég er þeirrar skoðunar, að það sé of mikið lagt í íbúðir, að það skuli vera 375 rúmmetra meðalstærð íbúða. Mér finnst það vera hálfgerð sóun. En þó að við lækkum þetta, t.d. um fimmta part, förum niður í 300 rúmmetra, og varla getum við ætlazt til, að fólk búi þrengra en það, þ.e.a.s. í 75 rúmmetrum minna húsnæði en meðalibúð er, þá kostar íbúðin samt um 512 þús. kr., og þau verða varla undir 40 þús., árlegu útgjöldin af henni. Hvað á að fara langt niður með íbúðastærðina til að komast að einhverri viðunandi tölu, sem bæta þarf við útgjöld vísitölufjölskyldunnar frá því, sem hagstofan reiknar þau? Er það fjarri sanni að segja, að útgjöldin séu a.m.k. 2500 kr. á mánuði, eða 30 þús. kr. yfir árið? Það er rúmur helmingurinn af því, sem meðalíbúðin kostar áreiðanlega í rekstri, með því þó að reikna enga vexti af eigin framlagi og að það sé um 200 þús. kr. Ég ætla ekki að setja húsnæðiskostnaðinn hærri en þetta. En ef það kostar 2500 á mánuði að búa í svona íbúð, eða 30 þús. kr. á ári, þá verðum við að bæta 19 þús. kr. við þessi 95500 kr. útgjöld, sem hagstofan telur að vísitölufjölskyldan þurfi að greiða, og þannig eru þau komin í 114500 kr. yfir árið. Þetta verða óhjákvæmileg gjöld manns, sem vilt búa í viðunandi húsnæði, en þó litlu og þröngu.

Það er þetta tvennt, sem mér þætti vænt um að heyra, ef hæstv. ráðh. hefði tíma til þess. Það er annars vegar um vísitöluna, að hún hafi aldrei átt að sýna það, sem mér skilst, að hún hafi verið að sýna og átt að sýna. Hitt er það, að heyra frá honum, hvort hann telur það hæfilegt að reikna fjölskyldunni 920 kr. á mánuði í húsnæðiskostnað.